Herragarðurinn – orkubú jarðarbúa

Árni B. Helgason fjallar um áhrif skatta og gjalda á samfélög jarðarbúa – hve þungbærar álögur alls þorrans eru en þeim mun léttbærari byrðar orkufreks aðalsins, svo ofurhlaðinn sem hann er skattfríðindum.

Auglýsing

Fyrir tíma iðn­bylt­ing­ar­innar lá hinn ver­ald­legi frum­kraftur í jarð­ar­gróð­an­um, bók­staf­lega tal­að. Búsæld­ar­leg sam­fé­lög áttu allt sitt undir akur­löndum og afrétt­um, skóg­lendi og hag­lendi, auk þess sem sjáv­ar­ak­ur­inn gaf af sér, þegar því var að skipta, ellegar málm­grýti í jörð, mór eða kola­lög, allt eftir því hvernig sam­fé­lögin voru í sveit sett; en ofgnótt eða skorti gróða­linda var svo jafnað út með við­skiptum milli byggð­ar­laga, ein­stakra hér­aða, fursta­dæma eða ríkja, allt eftir búskap­ar­hátt­um.

Gróð­inn, eft­ir­tekj­an, réðst í meg­in­dráttum af þrennu – af (1) skil­virkni þeirra handa sem lagðar voru að verki, af (2) skil­virkni vinnu­dýra og af (3) skil­virkni áhalda, bún­aðar og verk­færa – sem allt í senn ákvarð­aði fram­leiðni ein­stak­ling­anna er áttu hlut að verki, þeirra er stóðu að hinum ýmsu fram­leiðslu­ein­ingum og mynd­uðu hvert sam­fé­lag.

Fram­leiðni mal­ara sem réð yfir góðri myllu til mylja kornið var aug­ljós­lega marg­föld á við þann sem fékk ein­ungis malað það í hönd­un­um, brúk­andi mylnu­stein, eða myln­ustaut og mort­él, sér til hægð­ar­auka – ekki síður en að afköst bónd­ans, er réð yfir góðu drátt­ar­dýri og góðum plógi, voru til muna meiri en þess sem yrkti allt eigin höndum með gam­al­dags arði og páli. Og hve marg­föld var ekki fram­leiðni prent­ar­ans, fyrir afköst tóla sinna og tækja, á við þann er rita mátti allt eigin hendi, með fjöð­ur­staf einn að vopn­i...

Væri fram­leiðnin svo slök að eft­ir­tekjan næmi vart neinu umfram brýn­ustu lífs­nauð­synjar var sam­fé­lagið í besta falli sjálfu sér nægt – en ann­ars þeim mun gróða­væn­legra sem fram­leiðni ein­stak­ling­anna var meiri, jafn­vel svo að mynda mætti herra­garða og bæi og borgir, líkt og kross­ferða­ridd­arar allra tíma hafa ekki látið sig um muna, að leggja undir sig lönd og gæði heilu sam­fé­lag­anna, í nafni drott­ins síns og herra – í nafni hag­fræði allra tíma, frá upp­hafi sið­menn­ing­ar.

Opin­berar álög­ur, skatt­ar, tollar og gjöld, voru að lang­mestu leyti bundnar þeim afurðum sem fóru á mark­að, alls óháð því í sjálfu sér hve margar hendur væru lagðar að verki, auk þess sem afgjöld af jarð­eignum skil­uðu kon­ungi og hirð, kirkju og klerkum – þá nokkurn veg­inn í hlut­falli við fram­leiðni ein­stak­ling­anna sem sátu þær, burt­séð frá fjölda þeirra. Almennar álög­ur, bein­línis leiddar af tekjum alls fjöld­ans – fram­töldum tekjum hvers og eins, óháð fram­leiðni hvers og eins – komu vart til sögu að ráði fyrr en drjúgt var liðið á nýliðna öld, enda skyldi almenn­ing­ur, sjálfur sauð­svartur almúg­inn, fá að standa sjálfum sér reikn­ings­skil sívax­andi vel­ferðar sinn­ar…

Vel­ferð­ar­sam­fé­lagið og gróða­vonin

Fyrir tíma vel­ferð­ar­sam­fé­laga námu opin­berar álögur vart nema um tíund mark­aðs­hæfrar lands­fram­leiðslu ríkja – þá að ótöldum hinum ýmsu óbeinu álög­um, leigum og jarð­ar­gjöldum er runnu ekki síst til krúnu, kirkju og hirð­ar­inn­ar. Gjalda­megin í hinu opin­bera bók­haldi vógu her­málin yfir­leitt lang­þyngst, og svo dóms- og lög­gæsla, menntun emb­ætt­is­manna og þó ekki síst uppi­hald krúnu og hirð­ar, kan­sel­ís­ins og klerka.

Auglýsing

Lengi framan af iðn­bylt­ing­unni stóðu kjör lág­launa­fólks í besta falli í stað, oft engu betri en á kot­býlum fram í heið­anna ró, enda rann þá hag­ur­inn af tækni­fram­förum, og þar með hag­ur­inn af æ auk­inni fram­leiðni sam­fé­laga, nær allur til sífellt vax­andi háborg­ara­stéttar og til uppi­halds æ mik­il­væg­ari stétt lág­borg­ara, þeirra sér­þjálf­uðu vél­fræð­inga og versl­un­ar­manna sem héldu tækni­legum jafnt sem við­skipta­legum hjólum bylt­ing­ar­innar gang­andi, og hélt gamli aðall­inn þó löngum sínum hlut óskert­um.

Það var heldur vart fyrr en í byrjun 20. ald­ar, í kjöl­far þeirrar hug­mynda­fræði­legu bylt­ingar sem þeir Marx og Eng­els höfðu leitt og mótað á síð­hallandi öld­inni þeirri nítj­ándu, sem sam­fé­lög taka af alvöru að huga að mennta- og heil­brigð­is­málum alþýðu, og þá jafn­framt að svo bættum kjörum alls þorra fólks að þegn­arnir sjálfir gætu risið undir skött­um, vel­ferð­inni sér til handa, þá og einnig til nið­ur­greiðslu almenn­ings­sam­gangna, svo mik­il­vægt sem það var allri fram­leiðslu og þjón­ustu að fá vinnu­aflið fært úr stað með sem greiðustum hætti.

Var það þá og smám saman að renna upp fyrir háborg­ara­stétt­inn­ni, burgeis­un­um, að lát­laus fjár­fest­ing auð­feng­ins gróða af æ viða­meiri og marg­breyti­legri iðn­fram­leiðslu í enn gróða­væn­legri fram­leiðslu hlyti að lokum að leiða til þrots og almennrar kreppu, fengju kjör og kaup­máttur alls þorra fólks ekki mætt fram­boði æ fjölda­fram­leidd­ari varn­ings­ins – eða hvaðan átti aukin eft­ir­spurn ann­ars að koma? Vart myndu fámennar hástétt­irnar ann­ars anna svo hröðum afskriftum nytja­hluta sinna, að ávallt gætu þær áfram keypt nýtt og aftur nýtt, lík­ast því sem hið nýja væri ávallt um hæl orðið aflóga gam­alt.

Sann­ar­lega hrikti í stoðum hátimbraðrar bygg­ingar auð­valds­ins, slíkt sem mis­réttið var orðið og allt ójafn­ræð­ið. Svo æ greið­ari leið sem bylt­ing­ar­boð­skapur þeirra Marx og Eng­els átti sér líka orðið að hugum og hjörtum alþýð­unn­ar, hvað þá í ljósi æ almenn­ara læsis og öfl­ugri upp­lýs­ing­ar.

Sá gullni með­al­vegur var því varð­aður er á 20. öld­ina leið, að fyrir bætt almenn kjör og auk­inn kaup­mátt skyldu hinir almennu laun­þegar jafn­framt fá að bera meg­in­þunga skatt­byrð­ar­inn­ar, en burgeis­arnir fengju á móti frítt spil og skatt­frelsi svo lengi sem þeir fjár­festu megnið af hagn­aði sínum í auk­inni fram­leiðslu, þegnum öllum til handa.

Gaf þá auga­leið að þeim mun fram­leiðni­vædd­ari sem fram­leiðsla væri – og þar með æ minna þrúguð af skatt­lögðu vinnu­afli, vel­ferð­ar­þegn­un­um, laun­þeg­unum – þeim mun meiri var gróða­von­in, vonin um að fá aukið svo tækn­ina að vart neinna skatt­lagðra handa væri þörf, jafn­vel svo að skatt­fríð­indin væru þá sem næst algjör... líkt og aðall­inn hafði einmitt svo löngum notið og hvort þá ekki ung­herr­arn­ir, herra­garðs­eig­end­urn­ir, í þá gömlu góðu daga...

Skatt­frjáls fram­leiðnin og gróða­vonin

Öll sú ofurá­hersla sem lögð hefur verið á æ tækni­vædd­ari fram­leiðni – í tím­ans rás – fyrir gríð­ar­legan hvata skatt­fríð­ind­anna en þeim mun sífellt minni sam­fé­lags­lega nauð­syn, hefur leitt af sér svo þunga skatt­byrði alls þorra almenn­ings, að nú sem 21. öldin er gengin í garð lætur nærri að hart­nær helm­ingur alls afla­fjár vel­ferð­ar­þegn­anna renni í vel­ferð­ar­sjóð­ina. Vel­ferð­ar­kerfin eru því borin uppi af mann­afls­frek­ustu grein­unum fyrst og fremst, sem sagt af öllum þorra laun­þega, eðli tekju­skatts­kerf­is­ins sam­kvæmt, á meðan hinar fram­leiðni­vædd­ustu tækni­grein­ar, þar sem mann­afla einmitt nýtur minnst, sópa til sín gróða sem aldrei fyrr – slík sem ofur­fríð­indin eru, að vart gætir snef­ils hlut­deildar þeirra í rekstri vel­ferð­ar­sjóð­anna.

Þeim mun óhugn­an­legi eru umhverf­is­á­hrifin af skefja­lausri græðginni um alla jörð, svo ákaft sem gróð­anum er sóað í æ tækni­vædd­ari og þar af leið­andi skatt­frírri fram­leiðslu, í beinu hlut­falli við æ hrað­ari afskriftir fram­leiðsl­unn­ar, svo sífl­ellt þrúg­aðri af álögum sem öll við­halds­þjón­usta er, eðli hinnar opin­beru tekju­skattsinn­heimtu sam­kvæmt.

Sóun orku og auð­linda jarðar stendur raunar í beinu hlut­falli við hinar hröðu afskriftir fram­leiðsl­unnar – sem og þá jafn­framt í réttu hlut­falli við dýr­leika við­halds­þjón­ust­unn­ar, svo grimmt sem hún er skatt­lögð, einmitt í öfugu hlut­falli við verð orkunnar og hrá­efn­anna, svo smá­vægi­legt sem gjaldið er fyrir öll notin af umhverfi og nátt­úru jarð­ar, hvað þá heldur fyrir öll umhverf­is­spjöll­in, svo lítt sem opin­berar álögur koma þar við sögu, hvað þá bætur fyrir skað­ann.

Gildir raunar einu hvort litið er til æ fram­leiðni­vædd­ari og skatt­frírri tækn­innar einnar og sér – og þar með til æ hrað­ari afskrifta og sóunar fram­leiðsl­unnar – eða til rekst­urs alls þess sem fram­leitt er og þjón­u­stað í krafti ofur­fram­leiðn­innar – nátt­úran og öll afleidd orkan er svo lágt metin að segja má að okk­ur, vel­ferð­ar­þegn­un­um, séu þessi gæði færð á silf­ur­fati, lík­ast því sem móðir jörð væri okkar ánauð­ug­asti þræll, sem okkur bæri þar af leið­andi að slíta sem fyrst út, sem hverri annarri amb­átt. Svo slegin sem við erum blindu, að við hugum jafn­vel frekar að ábúð hinna best meg­andi eft­ir­kom­enda okkar á plánet­unni Mars – sem sagt þegar allt verði um þrotið – en að okkur öllum megi vera jörðin sem líf­væn­leg­ust í bráð og lengd.

Skil­virkni orkunnar – undir orku­drifnu skatt­kerfi

Raf­magn hefur á síð­ari tímum orðið æ öfl­ugri orku­mið­ill og mun vafa­laust móta meg­in­strauma hreinna orku­ferla í fram­tíð­inni, hverjir sem ann­ars frum­a­flgjaf­arnir nákvæm­lega verða. Raf­spenna felur þó ekki í sér neina slíka sjálf­stæða eig­ind að hún verði geymd með líkum hætti og jarð­efna­elds­neyti, sem er í eðli sínu þjáll forði – á sinn hátt líkt og korn – er allt að hent­ug­leikum má afla og varð­veita, flytja og dreifa, svo að fram­boð svari eft­ir­spurn á sér­hverjum stað og tíma. Enda myndar elds­neytið ekki orku fyrr en orku er þörf, við hvörf þess og súr­efnis fyrir hvata nægi­legs varma eða elds.

Umbreyt­ing raf­orku í til­tækan forða, á fljót­andi formi, loft­kenndu eða föstu, allt að þörf­um, eftir eðli orku­ber­ans eða orku­hlöð­unn­ar, felur ávallt í sér orku­töp og þar af leið­andi fórn­ar­kostn­að. En þeim mun hag­kvæm­ari, hand­hæg­ari, þjálli og með­færi­legri ferli og form varð­veislu, dreif­ingar og orku­neyslu sem þróuð eru, og þeim mun lægri álögur sem þró­un­ar­vinna mun bera í tekju­skatts­fríu skatt­kerfi, því hraðar munu hrein orka og hreinir orku­berar taka hinum koltví­ild­isauð­g­andi orku­ferlum fram.

Auglýsing

Undir orku­drifnu skatt­kerfi munu fjár­munir sem varið er til jákvæðrar orku­þró­unar nýt­ast til fulls en eigi líkt og nú er almennt reglan undir hinum tekju­drifnu kerf­um, að renni að drjúgum hluta jafn­óðum í skatt­hirslur hins opin­bera, sem hreinar álögur á tekjur þeirra er þró­un­ar­vinn­unni sinna. Umhverf­is- og nátt­úru­gjöld munu þá jafn­framt hamla þróun land­frekra orku­kosta og lítt nátt­úru­vænna, en fyrir áhrif slíkrar gjald­töku væri til að mynda stuðlað að vali á hinum ýmsu haf­svæðum með ströndum fram undir vind­orku­garða fremur en á landi, að teknu til­liti til víð­tækra sjón­rænna áhrifa og hljóð­meng­unar er stafar af vind­myllum víð­ast hvar á landi – sama hvort valdir séu staðir í þéttri byggð, upp til sveita eða í óbyggð­um.

Umhverf­isálög­urnar (gjöld pr. umhverf­is­not) væru þá í beinu hlut­falli við nei­kvæð áhrif sam­kvæmt umhverf­is­mati, á sinn hátt líkt og sól­ar­orku­ver, sem hver önnur orku­ver, bæru þeim mun meiri eða minni nátt­úru­gjöld eða ein­fald­lega lítil sem engin gjöld – allt eftir stað­setn­ingu og áhrifum hinna ýmsu virkj­ana, sem og ekki síður línu­lagna, á umhverfi, mann­líf og nátt­úru. Orku­gjöld (gjöld pr. orku­ein­ingu) tækju á hinn bóg­inn ein­ungis mið af fram­leiddri eða afhentri orku, hreinni sem óhreinni, óháð upp­runa, á sinn hátt líkt og kolefn­is­gjöld (gjöld pr. CO2-í­gildi) tækju ein­ungis mið af losun kolefnis og kolefn­isí­gilda (þ.e.a.s. mið af óhrein­leika orkunn­ar), veggjöld (gjöld pr. ekinn tonn-km) mið af umferð­ar­þunga, og auð­linda­gjöld (t.d. gjöld pr. afla- eða sókn­ar­ein­ingu) mið af tak­mörk­unum og gróða­væn­leika nýt­ing­ar­rétt­ar. – Sjá nánar m.a. kafl­ann Frá orku­­sóun til orku­nýtni – frá rányrkju til umhverf­is­verndar í 3. hluta grein­ar­flokks­ins, Herra­garð­ur­inn – óðal aðals eða orkubú jarð­ar­búa, þar sem Ísland er tekið sem dæmi um fram­kvæmd orku- og auð­linda­drif­ins skatt­kerf­is, sbr. m.a. þessa hér end­ur­birtu töflu...

Nokkrir helstu bókhaldslyklar orkudrifins skattkerfis – að teknu dæmi af Íslandi. TAFLA: ÁBH

Hafa ber í huga að undir orku­drifnu skatt­kerfi dregur veru­lega úr þeim ofur­sköttum sem hið opin­bera leggur ann­ars á sjálft sig undir hefð­bundnu, tekju­drifnu kerfi. Marg­feld­is­á­hrif alls þess furðu­lega spuna, þar sem drýgsti hluti lands­fram­leiðsl­unnar hring­sólar lát­laust úr einum vasa hins opin­bera yfir í annan (sem sagt álögur hins opin­bera á sitt eigið skinn, sjálfu sér til fram­færslu!) myndu dvína svo mjög, að bók­fært krónu­tölu­virði lands­fram­leiðsl­unnar myndi drag­ast saman um a.m.k. fjórð­ung – frá því að vera um 3.000 millj­arðar króna í um það bil 2.250 millj­arða, án þess þó að raun­fram­leiðsla hefði að nokkru leyti verið skert né þá heldur þjón­usta hins opin­bera.

Tekju­skatt­arnir sem hið opin­ber nú leggur á sjálft sig myndu raunar þurrkast út í heild sinni og allur beinn og óbeinn launa­kostn­aður þess lækka sem því næmi – líkt og raunar myndi ger­ast á öllum sviðum þjóð­fé­lags­rekstrar – að alls óbreyttum heild­ar­kaup­mætti gold­inna launa. Skyldi þá jafn­framt hafa hug­fast, að á móti hinum ýmsu orku- og nátt­úr­u­nýt­ing­ar­gjöldum myndi góður þriðj­ungur kostn­aðar af launum og þjón­ustu­kaupum falla nið­ur, sem næmi e.t.v. um 50 millj­arða króna ábata t.d. sjáv­ar­út­vegs og stór­iðju á Íslandi, þ.e.a.s sem svar­aði til afnáms allra tekju­skatta í skattspori þeirra orku- og nátt­úru­freku atvinnu­greina.

Á lands­vísu… á heims­vísu…

Virkjun sam­runa­orku felur í sér þann mikla kost umfram alla aðra hreina orku­öflun að afar öflug orku­bú, og þó þeim mun minni að fyr­ir­ferð, mætti setja niður í grennd við orku­þurf­andi byggðir og iðju­ver eða nán­ast hvar­vetna þar sem veru­legrar orku er þörf og umhverfi og aðstæður almennt leyfa, m.a. með til­liti til kæl­ingar orku­vinnsl­unn­ar. Væri þá jafn­framt þeim mun minni þörf á stór­felldum raf­línu­lögnum til sam­teng­ingar svæða, sem á hinn bóg­inn vind- og sól­ar­orku­fram­leiðsla er nær alfarið und­ir­orp­in, svo til­vilj­ana­kennd sem slík orku­fram­leiðsla er í flestu til­liti.

Þó að Ísland sé sá staður á jörð sem einna síst krefð­ist virkj­unar sam­runa­orku, slíka gnótt sem það býr yfir af öllu hefð­bundn­ari hreinni orku, a.m.k. mælt pr. hvert nef lands­manna, þá er landið engu að síður gott dæmi til sam­an­burðar – til marks um ávinn­ing­inn, er hljót­ast myndi af svo ofur­þéttri og hreinni orku­vinnslu, gagn­vart umhverfi og ásýnd jarð­ar, sem virkjun sam­runa­orku fæli í sér, miðað við allt það land­flæmi og hin ýmsu nei­kvæðu umhverf­is­á­hrif sem flest önnur orku­öfl­un, hrein og óhrein, hefur í för með sér. – Sjá ann­ars nánar um virkjun sam­runa­orku (fusion energy) í 2. hluta greina­flokks­ins, Herra­garð­ur­inn – orkan og almúg­inn – m.a. kafl­ana Eilífð­­ar­­vél­­arnar – og kolefn­is­­forð­inn í jörð og Sam­runa­orka og hlut­­falls­­leg umhverf­is­á­hrif orku­­kosta.

Til marks um landfræðileg stærðarhlutföll þá gæti öll raforkuframleiðsla á Íslandi rúmast í einu 3.000 MW samrunaorkuveri á um eins ferkílómetra svæði – hér sýnt í samanburði við umfang og afl Sogsvirkjana annars vegar og hins vegar Ringhals kjarnorkuversins í Svíþjóð (árið 2020), þó engan veginn til marks um ákjósanlega staðsetningu! Samsett mynd/ÁBH/GOOGLE

Öll raf­orku­fram­leiðsla á Íslandi, sem er um 20 TWst á ári (20.000.000 MWst), gæti farið fram í einu 3.000 MW sam­runa­orku­veri (eða t.d. í þremur 1.000 MW orku­verum), álíka að afli og Ring­hals kjarn­orku­verið í Sví­þjóð bjó yfir fyrir tveimur árum (en afl þess var minnkað úr 3.050 MW í 2.190 MW fyrir rúmu einu og hálfu ári, vegna reglu­gerð­ar­breyt­inga í kjöl­far Fukus­hima ham­far­anna árið 2011). Ring­hals orku­verið tekur ein­ungis til rúm­lega 1 fer­kíló­metra lands – út við strönd Jót­lands­hafs, um 50 km suður af Gauta­borg – álíka að umfangi og sam­svar­andi sam­runa­orku­ver myndi gera – hér að ofan sýnt í sam­an­burði við umfang Sogs­virkj­ana og alls orku­óð­als Íslend­inga... vel að merkja ekki til marks um ákjós­an­lega stað­setn­ingu slíks ofur­orku­vers!

Nánar til­tek­ið, borið saman við slíkt 3.000 MW ofur­orku­ver, þá er eig­in­legt flat­ar­um­fang Sogs­virkj­ana, er byggja á nokkuð jöfnu rennsli árið um kring og krefj­ast því vart eig­in­legra miðl­un­ar­lóna, um helm­ingi minna, rúm­lega ½ fer­kíló­metri – að með­töldu nán­asta und­ir­lendi beggja vegna Sogs­ins, sam­an­lögðu rösk­uðu landi og mann­gerðu vatns­lóni, mann­virkjum öll­um, vegum og umbyltum árfar­vegi, allt frá Ljósa­fossi niður fyrir munna rennsl­is­ganga neðan Kistu­foss. Sam­an­lagt upp­sett afl þess­ara einna skil­virk­ustu og arð­bær­ustu virkj­ana Íslend­inga er þó ein­ungis um 64 MW og árleg raf­orku­fram­leiðsla rúm­lega 0,3 ter­awatt­stundir (341.000 MWst). Engu að síður er orku­upp­skera af hverri flat­ar­ein­ingu und­ir­lagðs áhrifa­svæðis að minnsta kosti tíföld á við Fljóts­dals­stöð / Kára­hnjúka­virkj­un.

Áhrifa­svæði Fljóts­dals­stöðv­ar, sem er 690 MW að afli, svarar að minnsta kosti – afar var­færn­is­lega metið – til umfangs Þing­valla­vatns (sem er 84 km2), þá að með­töldu Háls­lóni og umhverfi þess og rösk­uðum árfar­vegum Jöklu og Lag­ar­fljóts allt niður að ósum við Hér­aðs­flóa. Ber þá ekki síður að líta til langvar­andi áhrifa á líf­ríki fló­ans og fljót­anna og alls lands­ins um kring, sem og ekki síður til marg­hátt­aðra rúm­fræði­legra og líf­fræði­legra áhrifa af línu­lögnum – sem á hinn bóg­inn væru miklum mun minni ef sam­runa­orku­ver ætti í hlut. Enda væri orku­verum þá almennt val­inn staður innan skamms vegar frá svæðum meg­in­notk­unar – líkt og einmitt á við um Ring­hals orku­verið í Sví­þjóð – en hins vegar án minnstu slíkrar hættu af geisla­virkni sem stafar af kjarna­klofn­ingi.

Þótt öll tækn­i­orka mann­kyns væri á einn eða annan veg leidd af kjarna­sam­runa, væri áhætta í heild sinni af völdum geisla­­virkni hverf­andi lítil sam­an­­borið við hætt­una sem nú þegar stafar af öllum kjarn­orku­verum jarð­­ar­­búa, sem eru um 500 tals­ins og byggja öll á afar áhættu­sömum kjarna­klofn­ingi, líkt og Ring­hals ver­ið. Nemur fram­­leiðsla þeirra í heild þó ein­ungis um eða innan við 2% orku­þarfar­inn­ar.

Upp­skera virkj­aðrar sam­runa­orku af hverri fat­ar­ein­ingu – með öðrum orðum orku­upp­skera með hlið­sjón af land­notkun og umfangi virkj­aðs lands – myndi gróft á litið vera um þrí­tug­föld á við góðar rennsl­is­virkj­anir sem lítt eru háðar miðl­un­ar­lón­um, svo sem Sogs­virkj­an­irn­ar, en a.m.k. tvö­hund­ruð til þrjú­hund­ruð­föld á við land­frekar vatns­afls­virkj­an­ir, á borð við Þriggja gljúfra stífl­una í Kína eða til að mynda Kára­hnjúka­virkjun (Fljóts­dals­stöð), er nýta afar umfangs­mikil miðl­un­ar­lón til jöfn­unar á rennsli, með feiki­legum áhrifum á land og líf­ríki, oft með tuga metra árs­tíða­bundnum sveiflum á vatns­borðs­hæð lóna og eftir því æði breyti­legu flæð­ar­máli og flat­ar­um­fangi, auk ómældra áhrifa á land og vatna­svið langt út fyrir virkjuð svæði.

Miðað við sól­rík­ustu og vinda­söm­ustu svæði jarðar myndu afkasta­mestu vind­orku­garðar og sól­ar­orku­ver skila svip­aðri upp­skeru til jafn­aðar og land­frekar vatns­afls­virkj­anir – afar gróft á litið – sem sagt um tvö­hund­ruð til þrjú­hund­ruð­falt minni orku af flat­ar­ein­ingu en sam­runa­orku­ver, að því gefnu að litið sé til heild­ar­um­fangs orku­garð­anna, að ógleymdum hinum sjón­rænu áhrifum af vind­orku­görðum langt út fyrir eig­in­leg land­fræði­leg mörk, auk þess ekki síður sem hljóð­ræn áhrif hafa að segja og áhrif á fugla­líf og fleira.

Auglýsing

Sem næst þús­und­föld myndi þó upp­skera sam­runa­orku­búa vera á við hin land­frek­ustu vatns­orku­ver, t.d. á borð við Blöndu­virkjun eða fyr­ir­hug­aða Hval­ár­virkj­un, þar sem vart er við meira afli að búast til jafn­aðar en um 2 til 3 wöttum af hverjum fer­metra virkj­aðra land­svæða, lón­stæða og árfar­vega, sem skilar vart 20 til 30 kílówatt­stunda orku­upp­skeru af fer­metra á ári... Væri upp­skeru­munur sam­runa­orku­búa reyndar alveg tug­þús­und­faldur á við líf­elds­neyti af akri, þar sem varla er að vænta meira afls til jafn­aðar en sem svarar til lít­ils brots úr watti á fer­metra, svo að jafn­gildir ein­ungis um 1 til 3ja kílówatt­stunda orku­upp­skeru af fer­metra á ári! En sam­runa­orku­ver myndu að vænta má skila áþekkri orku af hverri virkj­aðri flat­ar­ein­ingu og hefð­bundin kjarn­orku­ver, um 15 til 20 þús­und kílówatt­stundum af fer­metra á ári, og þó með hverf­andi litlum áhrifum á umhverfi, nátt­úru og byggð...

Afar einfölduð mynd af hlutfallslegum áhrifum hinna ýmsu orkukosta á umhverfi og ásýnd jarðar. Hér endurbirt frá 2. hluta greinarflokksins. Bjálkarit: ÁBH

Aug­ljós­lega eru umhverf­is­á­hrif hinna ýmsu mis­mun­andi orku­kosta afar mis­jöfn og skil­virkni þeirra ekki síður mjög marg­breyti­leg, svo sem lýst er á mynd­rænan hátt í bjálka­rit­inu hér að ofan, hér end­ur­birt frá 2. hluta greina­flokks­ins, Herra­garð­ur­inn – orkan og almúg­inn. Dregin er upp mjög ein­földuð mynd af hlut­falls­legum áhrifum hinna ýmsu orku­kosta á umhverf­ið, jafnt hvað varðar hrein og bein land­not sem óbein land­not og áhrifa­svæði, jafnt hvað varðar hin ýmsu áþreif­an­legu áhrif, sjón­ræn og hljóð­ræn áhrif og hin marg­vís­leg­ustu líf­rænu áhrif, að ekki sé talað um hinar skað­væn­leg­ustu afleið­ingar sem leiða af gróð­ur­húsa­á­hrif­um, geisla­virkni, sóun vatns, spill­ingu jarð­vegs og ofnotkun nær­ing­ar­efna á borð við fos­fór.

Í ljósi þess hve hag­nýt­ing sam­runa­orku á enn langt í land – og þó vissu­lega þeim mun skemmra sem þró­un­ar­starfið verður fyrr leyst úr fjötrum skatta­á­þjánar – þá eru sól­ar­orka og vindafl eig­in­lega einu virkj­ana­kost­irnir sem í allra nán­ustu fram­tíð geta á víð­tækan og til­tölu­lega hag­kvæman máta komið í stað hinna löngum nær alls­ráð­andi koltví­ild­isauð­g­andi kosta. Þyngst mun þá vænt­an­lega vega virkjun sól­ar­orku er byggir á ljós­spennu, ekki síst í ljósi til­tölu­lega góðra land­fræði­legra mögu­leika all­víða á jörð og æ skil­virk­ari raf­orku­vinnslu, og svo hins vegar vinda­fl, þá sér í lagi virkjað á völdum haf­svæðum með ströndum fram, enda gætir þá yfir­leitt mun síður sjón­rænna og hljóð­rænna áhrifa frá myll­unum en á landi – og er þá engu að síður ósvarað spurn­ingum er varða t.d. áhrif á fugla­líf og áhrif af raf­seg­ul­sviði raf­magn­s­kapla á grunn­sjáv­ar­líf o.fl.

Vind- og sól­ar­orka og mögu­leg miðlun orkunnar – að hent­ug­leikum

Afli sólar og vinds er sann­ar­lega afar mis­skipt þó að til jafn­aðar skyldi það vera yfrið nóg til að seðja orku­þörf mann­kyns – vegið sam­an­lagt á hnatt­ræna vísu, langsum og þversum yfir heims­álfur og lofts­lags­belti. Hvort tveggja felur vissu­lega í sér fremur óáreið­an­lega orku, enda háð marg­vís­legum sveiflum og veð­ur­fars­legri óreiðu. Tak­mörkuð fylgni er því á milli mögu­legs fram­boðs orkunnar á hverjum stað og hverjum tíma í bráð og lengd og á hinn bóg­inn eft­ir­spurnar af hálfu neyt­enda, orku­not­enda, að því þó athug­uðu að orka sólar er vissu­lega mest að deg­inum þegar eft­ir­spurn eftir orku er með meira móti á ýmsum svið­um. Fer það þó ósjaldan lítt saman að orku­frek­ustu byggðir og iðn­að­ar­svæði séu hin sól­rík­ustu eða hin vinda­söm­ustu.

Ljós­afl og varma­afl sólar er eðli máls sam­kvæmt mest á mið­lægum breidd­argráð­um. Virkj­an­leiki orkunnar er þó almennt mestur á heittempruðum slóð­um, enda gætir þar sól­skins mest á jörð – og eyði­marka – vegna þess hve heittemprað lofts­lag er þurrt og felur því yfir­leitt í sér mikla heið­ríkju, and­stætt við rakt og oft skýjum hulið hita­belt­ið, sér­stak­lega um mið­bik þess.

Kraftar vinds eru svo þeim mun meiri sem fjær dregur frá hita­belt­inu – eru all­nokkrir á köflum í heittempr­uðu belt­unum en fara ann­ars vax­andi með sval­ara lofts­lagi og eru til jafn­aðar mestir á kald­tempruðum slóð­um, þá ekki síst á höfum úti og með ströndum fram, í fjal­lendi og á háslétt­um. Dregur svo heldur úr vind­styrk á ýmsum köld­ustu slóðum heim­skauta­svæð­anna.

Sólríkustu svæði jarðar (t.v.) og hin vindasömustu (t.h.). Dökkrautt og rautt er til tákns um mestan orkuþéttleika sólskins og vinds – í ljósi langvarandi heiðríkju og sólarafls, annars vegar, og stöðugleika vinds og vindafls, hins vegar. SAMSETT MYND: globalsolaratlas.info/map og globalwindatlas.info

Það er því eigi lítil umbylt­ing orku­bú­skap­ar­hátta fólgin í umskiptum frá óhreinu jarð­efna­elds­neyti, er nú myndar megin afls og orku um alla jörð, til hreinnar raf­orku, sem grund­vall­arafls á flestum svið­um, að meg­in­stofni með rætur í afar mis­skiptri og fremur óáreið­an­legri orku sólar og vinds – svo lengi sem virkjun sam­runa­orku stendur ekki til boða.

Svo hand­hægt sem jarð­efna­elds­neyti er á ýmsan máta – sem leiðir ekki síst af því hve það er í eðli sínu þjáll forði og með­færi­legur þrátt fyrir óhrein­leik­ann – þá hefur það aftur á móti reynst þrautin þyngri að þróa orku­bera og orku­hlöður er á jafn skil­virkan máta gætu brúað bilið milli vinnslu hreinnar raf­orku og á hinn bóg­inn marg­vís­legrar orku­notk­un­ar, á þann veg að vinnslan og notk­unin væru óháð hvoru öðru í tíma og rúmi, allt að hent­ug­leik­um, þegar svo bæri und­ir.

Svo sára­lítið sem sól­skin og vindur enn vega við orku­fram­leiðslu þá hefur það dugað hingað til að jafna met fram­boðs og eft­ir­spurnar með miðlun raf­magns frá jarð­gas- og kola­orku­verum, auk kjarn­orku­vera og vatns­afls­virkj­ana, svo afar lítið sem hin síð­ar­nefndu þó vega sem hlut­fall af allri heild. Hin hefð­bundnu raf­orku­ver gegna þá þeim mun fremur hlut­verki vara­afls­stöðva sem nýorkan vegur þyngra. Þar af leiðir að því meiri og árs­tíða­bundn­ari sem sveiflur eru á fram­leiðslu sól­ar- og vind­orku, og því minna sem sól­ar- og vind­orka ná að vega hvor aðra upp, þeim mun meira þurfa þá vara­afls­stöðvar að búa yfir af til­tæku, upp­settu umframafli en ella. Þörf árs­tíða­bund­ins vara­afls – sem eðli máls sam­kvæmt væri þá að drýgstum hluta óhreint afl – fer þá allt eftir því hve lítt nýtur sólar eða vinds á hverri árs­tíð, og ræðst vara­afls­þörfin þó ekki síður af hinum ýmsu dæg­ur­sveiflum og veð­ur­fars­sveiflum til skemmri tíma lit­ið.

Aftur á móti er sá mögu­leiki að raf­dreifi­kerfi væru lögð á svo víð­tækan máta milli vind- og sól­ar­orku­vera að ekki tengdu kerfin fyrst og fremst saman nálæg­ustu héröð og lönd heldur væru nán­ast heilu heims­álf­urn­ar, lofts­lags­beltin og tíma­beltin meira og minna sam­tengd á nær órofa raf­orku­net­um. Líkur eru þá þeim mun meiri á að í stað óhreins varafls sé hrein umframraforka ávallt fyrir hendi á ein­hverjum svæðum er streyma megi til hinna van­haldn­ari svæða, allt eftir því hvernig vindar blása eða sólar nýtur á hverjum stað á hverjum tíma – allt eftir tíma­beltum og lofts­lags­beltum – og á hinn bóg­inn sem nemur eft­ir­spurn eftir orkunni.

En einu gild­ir, upp­sett afl í heild þyrfti engu að síður að nema marg­faldri raunafls­þörf­inn­ni, enda myndu öll orkubú þá í raun þjóna sem vara­afls­stöðvar fyrir hvert og eitt ann­að, út um allar jarð­ir, út um allar álfur nán­ast hnött­inn um kring, er óum­flýj­an­lega kall­aði þá jafn­framt á afar marg­þætt net raf­línu­lagna, með öllum þeim marg­vís­legu og nei­kvæðu umhverf­is­á­hrifum sem línu­lögnum fylgja – nema að þróun hag­an­legrar orku­geymslu­tækni tæki veru­legum fram­för­um.

En svo mann­afls­frekt sem allt þró­un­ar­starf er – jafnt hvað varðar marg­háttuð fræði­störfin sem og ekki síður allra­handa tækni­leg störf­in, er lúta að smíði og gerð allskyns frum­gerða og öflun reynslu­þekk­ingar – þá gefur auga­leið að hið opin­bera er mesti drag­bít­ur­inn, hirð­andi hart­nær helm­ing­inn af öllu því tak­mark­aða fé sem veitt er til þró­un­ar­starfs­ins, sama hvort runnið er úr vösum einka­að­ila eða hins opin­bera, sama hverjar hung­ur­lús­irnar eru eða auð­mýkj­andi styrkirn­ir, mol­arnir sem falla af yfir­hlöðnum borð­um. Kemur þá nán­ast út á eitt hvort auð­valdið er, hið opin­bera, auð­mýktin upp­mál­uð, eða olíg­ar­k­arn­ir, sem hvort eð er, leynt og ljóst, stýra stjórn­völdum um nán­ast alla jörð, í krafti ofur­fríð­inda sinna, sér og allri spill­ing­unni í hag.

Svo grimmt bítur tekju­skatts­kerfið í skottið á öllu þró­un­ar­starfi – líkt og það for­smáir hverskyns annað hug- og hand­ar­verk manna, rotnu eðli kerf­is­ins sam­kvæmt – hvað þá í ljósi þess hve þró­un­ar­starf er yfir­leitt sér­hæft og þar af leið­andi hátt launað og þar með þeim mun frekar sköttum þrúgað – algjör­lega and­stætt við allan koltví­ild­isauð­g­andi rekst­ur­inn, nán­ast sama af hvaða tagi er, slíkir sem eru þá þjóð­fé­lags­legir ofur­styrkirn­ir, sem sagt skatt­fríð­ind­in, reyndar í beinu hlut­falli við yfir­gengi­leg spjöllin á nátt­úru og umhverfi jarð­ar. Sem og þá eðli máls sam­kvæmt í réttu hlut­falli við upp­hafn­ingu kvóta­greif­anna um alla jörð, yfir­stétt­ar­innar sem yfir auð­lind­unum gín, bruðlandi með gæð­in, lík­ast því sem guðs­gjöf væri, lík­ast því sem jarðar­óð­alið væri þeirra arf­borin eign, slíkt sem er enn áhrifa­vald herra­garðs­eig­enda, ung­herr­anna hinna nýju, nýað­als­ins sem nú all­flestu ræður hér á jörð.

Líkan að algjörum orku­skiptum – frá óhreinni orku til hreinnar orku

Hópur fræði­manna, sem flestir starfa við Stan­ford háskól­ann í Kali­forn­íu, hefur hannað líkan eða leið­ar­vísi að algjörum orku­skiptum frá óhreinni orku – jarð­efna­elds­neyti, kjarn­orku og líf­elds­neyti – til hreinnar raf­orku. Líkanið tekur til orku­skipta í 139 ríkj­um, er bera ábyrgð á um 99% allrar los­unar gróð­ur­húsa­loft­teg­unda á jörð­inni. Felur það í sér raf­væð­ingu á nán­ast öllum orku­svið­um, með höf­uð­á­herslu á vind- og sól­ar­orku sem fram­tíð­ar­orku­gjafa, en fyr­ir­liggj­andi, virkjað vatns­afl myndi m.a. þjóna sem vent­ill eða var­afl til jöfn­unar á sveiflum orku­fram­boðs og orku­eft­ir­spurn­ar.

Auglýsing

Þrátt fyrir að upp­sett afl sól­ar- og vind­orku­vera hljóti að nema marg­faldri þeirri raunafls­þörf sem orku­verum sé ætlað að þjóna, þá er það engu að síður svo, að nýt­ing sjálfrar frumorkunn­ar, sem losuð er fyrir afl sólar eða vinds, er miklum mun betri en nýt­ing sam­svar­andi orku sem losuð er við brennslu jarð­efna­elds­neyt­is, enda glat­ast þá yfir­leitt gríð­ar­leg varma­orka, hvort sem far­ar­tæki eiga í hlut eða raf­orku­ver, hvort sem knúin eru olíu, kolum eða jarð­gasi, auk þess sem mikil orka fer til vinnslu elds­neyt­is­ins, hreins­unar þess, flutn­ings og dreif­ing­ar. Óaft­ur­kræf umhverf­is­á­hrifin af völdum óhreinnar frumorku eru þó söm og jöfn, jafn slæm, sama hve mikil orka fer í súg­inn eða nýt­ist til eig­in­legrar vinnu og allra­handa verka.

Mynd­irnar hér að neðan lýsa í hnot­skurn hugs­an­legri þróun umskipta frá óhreinni orku til hreinnar orku fram til árs­ins 2050 og hve draga myndi úr frumorku­þörf jarð­ar­búa við umskipt­in. – Sjá umfjöllun í Clean­Technica í ágúst 2017, er felur jafn­framt í sér vísun til meg­in­skýrslu höf­und­anna, sem er fyrst og fremst byggð á verk­fræði­legum for­send­um: 100% Renewa­ble Energy For 139 Nations Detailed In New Stan­ford Report. Slík umskipti myndu, eðli máls sam­kvæmt, taka mun skemmri tíma undir orku­drifnu skatt­kerfi en höf­undar skýrsl­unnar gera ráð fyr­ir, enda gefa þeir sér afar fáar hag­fræði­legar og félags­fræði­legar for­send­ur, hvað þá bein­línis stjórn­mála­fræði­leg­ar.

Hópur fræðimanna, sem flestir starfa við Stanford háskólann í Bandaríkjunum, hefur hannað líkan eða leiðarvísi að algjörum orkuskiptum frá óhreinni orku – jarðefnaeldsneyti, kjarnorku og lífeldsneyti – til hreinnar raforku. Líkanið tekur til orkuskipta í 139 ríkjum, er ábyrgð bera á um 99% allrar losunar gróðurhúsalofttegunda á jörðinni. Mynd: cleantechnica.com

Ef nán­ast öll orku­not væru raf­vædd og öll fram­leiðsla raf­orku væri hrein, myndi mun­ur­inn á fram­leiddri frumorku (sem nemur nú um 160.000 TWst/ári) og raun­veru­legri nýttri orku, sem nemur tals­vert minna (nú um stundir um 110.000 TWst/ári), minnka til mik­illa muna.

Heild­ar­orku­notk­unin gæti raunar orðið mun minni en raun ber nú vitni um, í ljósi þess hve miklum mun meiri orka fer til vinnslu, hreins­un­ar, flutn­ings og dreif­ingar jarð­efna­elds­neytis en til sam­svar­andi fram­leiðslu og miðl­unar hreinnar raf­orku, auk þess sem gríð­ar­legt varma­orku­tapið við brennslu elds­neyt­is­ins tel­ur, hvað þá öll losun gróð­ur­húsa­loft­teg­und­anna.

Skýr­ing­ar­myndin hér að ofan er vill­andi að því leyti að raf­línumast­ur­s­táknið vinstra megin við miðju, óhreinnar orku meg­in, ætti mun fremur að vera hægra meg­in, hreinnar orku meg­in, en mun minna slíkt tákn þá hinum meg­in, enda fæli algjör raf­væð­ing jarð­ar­innar á for­sendum vind- og sól­ar­orku í sér miklu umfangs­meiri raf­línu­lagnir en núver­andi raf­orku­notkun jarð­ar­búa hefur kallað á, telj­andi nú ein­ungis um fimmt­ung allrar orku­notk­un­ar.

Raf­orku­vædd jörð á for­sendum sam­runa­orku fyrst og fremst, fæli þó í sér mun minni þörf á raf­línu­lögn­um, enda væri orkan þá víð­ast hvar til­tæk til­tölu­lega skammt frá megin notk­un­ar­stöð­um. Þörf á streymi varafls, hvað þá um langan veg, væri því mun minni eða varla nein. Veru­leg sam­runa­orku­væð­ing myndi þó að ýmsu öðru leyti leiða til nokkuð áþekkrar nið­ur­stöðu og líkanið felur í sér en með mun minni og jákvæð­ari umhverf­is­á­hrif­um.

(Sjá hér skýrslu Stan­for­d-hóps­ins í heild, ásamt ítar­legum skýr­ingum (Supplem­ental Information: 100% Clean and Renewa­ble Wind, Water, and Sunlight All-­Sector Energy Road­maps for 139 Countries of the World – Jac­ob­son et al., Joule 1, 108–121)

Áætlun framboðs og eftirspurnar afls í 139 orkufrekustu ríkjum jarðar fram til ársins 2050 – annars vegar að óbreyttu orkuneyslumynstri, hins vegar að upprættu óhreinu eldsneyti. Slík þróun tæki þó mun skemmri tíma undir orkudrifnu skattkerfi, að upprættu hefðbundnu tekjuskattskerfi. Mynd: web.stanford.edu

Helstu skýr­ing­ar: B.A.U. = Business-A­s-Usual = hefð­bundin við­skipti, hefð­bundið óbreytt orku­neyslu­mynst­ur. // END-USE POWER (t.v) = afhent afl til fulln­að­ar­nota. // 100% WWS = Wind, Water, Sun = vinda­fl, vatns­afl, sól­ar­afl (sbr. t.h.) // Virk afl­þörf árið 2012 = "12.105 TW" (t.v.) = 12,1 TW, en að óbreyttu orku­neyslu­mynstri árið 2050 (t.h) = 20,6 TW, eða á hinn bóg­inn 11,8 TW undir 100% WWS-afli, að upp­rættu óhreinu elds­neyti – ath. að aukastafa­punkti að enskum rit­hætti er hér víxlað út fyrir kommu að íslenskum hætti.

Hafa má í huga að virkt afl (power) lýsir til­teknum krafti í einni og sömu andrá, á sama augna­blik­inu, en orka (energy) felur á hinn bóg­inn í sér ígildi vinnu af völdum afls á til­teknu tíma­bili. Orka = Afl x tíma­lengd afl­nýt­ing­ar­inn­ar. Allt til­tækt afl marg­faldað með lengd nýt­ing­ar­tíma aflsins, t.d. klukku­stund, viku, mán­uði eða ári, sam­svarar þá nýttri heild­ar­orku á tíma­bil­inu. Til­tek­in, nýtt heild­ar­orka jafn­gildir þá þeirri sam­an­lagðri vinnu sem innt hefur verið af hendi – t.d. vinnu af völdum virks tækni­afls mann­kyns í eitt ár, sem einmitt er vísað til í linu­rit­inu.

Að upp­fylltu 100% WWS-­mark­mið­inu gerir líkanið ráð fyrir að virk afl­þörf muni minnka um 23% vegna betri orku­nýt­ingar að upp­rættum bruna­hreyflum og öðrum jarð­efna­kyntum bún­aði, hvort sem nú gagn­ast far­ar­tækj­um, orku­verum eða hverju sem er slíku, um 7% vegna hreinna orku­neyslu­mynsturs á öðrum sviðum og um 13% vegna úti­lok­unar vinnslu, hreins­un­ar, flutn­ings og dreif­ingar jarð­efna­elds­neyt­is.

Sam­kvæmt lík­an­inu myndi raunafls­þörf – sem sagt til virkrar frumorku­vinnslu, í sjálfu sér óháð upp­settu afli í heild – verða um 43% minni undir algjöru vind-, vatns- og sól­ar­afli (100% WWS-afli) en ella, svo að næmi sem næst um 11,8 TW árið 2050 í stað um 20,6 TW að öllu óbreyttu til sama tíma. Þrátt fyrir veru­lega aukn­ingu allrar tækni fram til árs­ins 2050, vegna síauk­ins fjölda jarð­ar­búa og auk­innar tækni­væð­ingar og þró­un­ar, myndi afl­þörfin sem sagt standa nán­ast í stað með umskiptum frá allra­handa óhreinni orku til hreinnar raf­orku, vegna miklu betri nýt­ingar frumorkunn­ar, þeirrar raun­veru­legu orku sem þarf til rekst­urs alls óðals jarð­ar­búa, jörð­ina um kring, heim­skaut­anna á milli.

Þró­unin myndi þó verða mun hrað­ari undir orku­drifnu skatt­kerfi, jafn­vel svo að á sumum sviðum yrði mælt í ára­tuga skemmri ferlum – slíkur væri þá hvat­inn til hag­felld­ari orku­neyslu, hvat­inn til betri orku­nýt­ingar og skyn­sam­legri nátt­úr­u­nota á öllum svið­um. Hvað þá að teknu til­liti til hrað­ari þró­unar á nýt­ingu sam­runa­orku, sem af myndi leiða, til lengri og skemmri tíma lit­ið.

Líkan Stan­for­d-hóps­ins var þá þegar farið að úreld­ast þegar það var sett fram á árinu 2017, enda skortir flesta efna­hags­lega hvata því til stuðn­ings. Virð­ist hóp­ur­inn raunar vart hafa gert ráð fyrir neinum hag­rænum grund­vall­ar­breyt­ingum sem heitið geti – hvað þá bein­línis stjórn­ar­fars­legum – heldur fyrst og fremst því að styrkir og skatta­legar und­an­þágur frá lítt breyttu hag­kerfi myndu stuðla að hreinni orku­not­um, ásamt því vissu­lega að kolefn­is­gjöld og ígildi þeirra myndu draga úr eft­ir­spurn eftir óhreinni orku. Marg­slungin nei­kvæð heild­ar­á­hrif WWS-afls – vinda­fls, vatns og sólar – á sam­fé­lag og nátt­úru eru því að mestu látin ótal­in, á sinn hátt líkt og fórn­ar­kostn­að­ur­inn vegna koltví­ild­isauð­g­andi fríð­ind­anna hefur löngum verið van­tal­inn, sbr. hér og í fyrri greinum marg­um­fjall­að.

Hafa skyldi þó ríkt í huga að líkanið eða leið­ar­vísir­inn er fyrst og fremst verk­fræði­leg grein­ing á mögu­leikum sól­ar- og vind­orku, auk vatns­orku, sem og orku sjáv­ar­falla og strauma og jarð­hita, að svo litlu leyti sem hið síð­ar­nefnda kemur þó til álita. Með lík­an­inu er því lagður góður grunnur að marg­vís­legri tækni­legri útfærslu, sem skyldi nýt­ast mun ítar­legri heild­ar­út­færslu, umhverf­is­legri jafnt sem hag­fræði­legri. Ótví­rætt er sýnt fram á að hrein orka á sér miklu meiri mögu­leika en almennt hefur verið látið í veðri vaka. Grein­ingin er því kjörið vega­nesti inn í fram­tíð­ina – jafn­vel inn í hina allra nán­ustu fram­tíð ef stjórn­mála­menn, hag­fræð­ingar og umhverf­is­fræð­ingar legð­ust á eitt með hinum fram­sýn­ustu verk­fræð­ingum við mótun virkra stjórn­tækja í stað þess að vera eilíf­lega að lappa upp á úr sér gengin stjórn­kerfi með smá­skammta­lækn­ing­um, löngu úreltum patent­lausnum og lít­ils­virð­andi styrkjapóli­tík, veg­andi vart meira í hinu stóra sam­hengi hlut­anna en fjúk­andi fis móti tröll­ríð­andi tekju­skatt­spóli­tík­inni, engu lík­ara en hag­fræðin sé svo bjarg­föst orðin að hún hljóti að verða stein­runnin um aldur og ævi.

Orku­drifið skatt­kerfi felur í sér slíkan hvata til nýsköp­unar – ekki síst vegna afnáms skatt­byrðar sköp­un­ar­starfs­ins – að marg­vís­legar orku­bú­skap­ar­lausnir tækju nán­ast að sjálf­gefnu stór­stígum fram­för­um. Enda væri jarð­efna­elds­neyti þá eigi lengur sjálf­gef­in, hræó­dýr orku­lausn – líkt og nú er á flestum sviðum víð­ast hvar á jörð, tálm­andi svo frek­lega öðrum lausnum – heldur þvert á móti sköttum þrúguð bráða­birgða­lausn.

Lausnir kæmu þá einmitt í sjón­mál, með auk­inni þró­un, er mið­uðu að svo hag­an­legri varð­veislu, miðlun og dreif­ingu hreinnar orku, að vel mætti jafna til með­færi­leika jarð­efna­elds­neyt­is, einmitt á þann veg að vinnsla orkunnar og hins vegar orku­notk­unin geti verið sem óháð­ust hvoru öðru þegar svo ber und­ir, þá ekki síst á sviði sam­gangna og vinnu­véla­tækni, en jafn­framt og ekki síður til jöfn­unar á afar sveiflu­kenndri fram­leiðslu vind- og sól­ar­orku­vera.

Þróun til framtíðar: Járn-loft-rafhlöður sveiflujafna vind- og sólarorkuframleiðslu (formenergy.com); rafstöð/samrunaorkubú (iter.org); þráðlaus orkuflutningur á rafhleðsluakreinum (ijariie.com, hani.co.kr); fljótandi vetni flutt með tankskipum (rechargenews.com) Samsett mynd: ÁBH/Google

Má raunar að líkum leiða að raf­elds­neyti og orku­berar á borð við vetni, í hinum ýmsu efna­fræði­legu mynd­um, muni þá leysa jarð­efna­elds­neyti hratt af hólmi, ekki síður en raf­hlöð­ur, fyrir enn frek­ari og hrað­ari þróun en hingað til, sem og þá einnig þráð­laus orku­flutn­ing­ur, að muni jafn­vel fara skjótt af stigi frum­þró­unar á hag­nýtt stig (er ekki síst myndi gagn­ast sam­göng­um) – ein­fald­lega vegna þess hve lítt skatt­lagt þró­un­ar­starfið mun nýt­ast mun betur og lausn­irnar þar af leið­andi bera hag­kvæman árangur mun fyrr en ella, hvað þá að afnumdum öllum skatt- og koltví­ild­is­fríð­indum meng­un­ar­vald­anna, umhverf­is­sóð­anna sem hafa verið alls­ráð­andi svo alltof lengi um alla jörð.

Lausn­irnar munu þá ekki ein­ungis nýt­ast sól­ar- og vind­orku­bú­skap til skemmri tíma litið heldur ekki síst sam­runa­orku­vinnslu til langrar fram­tíðar lit­ið, þá er verk­fræði- og vís­inda­sam­fé­lag­ið, laust undan oki skatta­á­þján­ar, mun hafa þróað hinar hag­nýt­ustu aðferðir til virkj­unar sam­runa­orku sem meg­in­afls á flestum svið­um.

Nið­ur­lag

Hvort sem litið er til verk­fræði- og vís­inda­sam­fé­lags­ins, eða til alls þorra almenn­ings, þá mun slíkt skatt­kerfi sem hér, í þessum greina­flokki, hefur verið lýst, hafa í för með sér grund­vall­ar­breyt­ingar á öllum þjóð­hags­stærð­um. Meg­in­þungi opin­berra álaga mun þá eigi lengur hvíla á herðum alls þorra vel­ferð­ar­þegn­anna – né þá heldur á herðum hins opin­bera, sem öllu jöfnu, beint og óbeint, ber nú hart­nær helm­ing þung­ans (svo hart sem það gengur fram í að skatt­leggja sjálft sig, svo ótrú­lega sem það þó hljóm­ar!) – heldur fyrst og fremst hvíla á þeim breiðu bök­um, sem hvað ákaf­ast hafa kosið að nýta sér umhverfi okk­ar, orku, hrá­efni og nátt­úru­auð­lindir jarð­ar, sér til hags­bóta – og hvort þá ekki öll þau koltví­ild­isauð­g­andi fríð­indi sem hingað til hafa verið nær sjálf­gefin þeim er hafa verið hvað frek­astir til fjár­ins og allrar nátt­úru­spill­ing­ar­inn­ar.

Með slíku gjör­breyttu skatt­kerfi, er fyrst og fremst tæki mið af orku- og nátt­úr­u­not­um, myndi beinum álögum á tekjur verða aflétt. Heild­ar­launa­kostn­aður lækk­aði þá sem næmi afnámi skatt­anna en ráð­stöf­un­ar­tekjur þjóð­fé­lags­þegn­anna héld­ust í meg­in­dráttum óbreytt­ar. Það væri svo undir hverjum og einum komið hvernig tekjum væri varið – vissu­lega – að hve miklu leyti til kaupa á orku og tækni­afli, slíkri vöru eða þjón­ustu er á einn eða annan veg væri bundin opin­berum álög­um, eða til kaupa á slíkri vöru eða þjón­ustu er fyrst og fremst væri háð mann­afli og þá þeim mun minna háð opin­berum álög­um.

Auglýsing

Gefur auga­leið, eðli orku- og auð­linda­drif­ins skatt­kerfis sam­kvæmt, að orka og allt mjög orku­háð tækni­afl, sér í lagi allt það sem leitt er af bruna jarð­efna­elds­neyt­is, myndi hækka einna mest í verði en aftur á móti myndi nán­ast allt hug- og hand­verk lækka til muna í verði, enda væri mann­aflið þar að baki síst sköttum háð. En einu álög­urnar sem legð­ust jafnt á alla fram­leiðslu og þjón­ustu, einka­rekna jafnt sem opin­bera – alls und­an­tekn­inga­laust, alls óháð öðrum sköttum og gjöld­um, alls óháð tækni­stigi – væri virð­is­auka­skatt­ur, e.t.v. um 13%.

Eðli máls sam­kvæmt væri ráð­stöfun tekna undir hverjum og einum komið – hvort útgjöldin rynnu til kaupa á mjög skatt­lagðri vöru eða þjón­ustu, er væri þá almennt leidd af gjald­skyldri orku- og nátt­úr­u­nýt­ingu, eða til kaupa á lítt skatt­lagðri vöru og þjón­ustu, sem eins og gefur að skilja væri þá fyrst og fremst byggð á mann­afli. Kaup­máttur væri m.ö.o. óbreyttur – til jafn­aðar – og þó allt eftir skattspori ein­stakra við­skipta hvers og eins, hvort sporin fælu í sér miklar, miðl­ungs eða litlar opin­berar álög­ur, allt eftir neyslu­mynstri hvers og eins.

Sama gilti raunar um allan rekstur – að því háð­ari sem starf­semi er orku og tækni­afli, og þar með nátt­úru­auð­lindum jarð­ar, þeim mun þyngra myndu beinar eða óbeinar álögur hins opin­bera vega (og þá sann­ar­lega þyngst er mjög koltví­ild­isauð­g­andi rekstur á í hlut!) – and­stætt við þær marg­vís­legu starfs­greinar er byggja á mann­afli fyrst og fremst, án telj­andi ágengni við nátt­úr­una… svo sem skóla­starf og allra­handa fræði, heil­brigð­is- og almanna­þjón­usta, fjöl­miðl­un, kvik­mynda­gerð, bóka­út­gáfa, lög­fræði­þjón­usta, bók­halds­þjón­usta, veit­inga­þjón­usta, hár­greiðsla og klipp­ing, nudd, lík­ams­rækt, sem og þá ekki síst all­flest við­hald hluta, tækja og mann­virkja, sem sagt að því marki sem sporin marka ekki djúpt í nýt­ingu nátt­úru jarð­ar­...

Um öll þessi efni hefur höf­undur fjallað í ítar­legu máli í hinum ýmsu þáttum greina­flokks­ins, sem alls telur þessar fjórar grein­ar:

Herra­garð­ur­inn – og vér orku­að­all­inn: Um meg­in­drætti hins tekju­drifna skatt­kerf­is, það er vel­ferð­ar­ríkið hefur löngum átt allt sitt und­ir, og hins vegar um afleið­ingar þess að fót­unum væri bók­staf­lega kippt undan kerf­inu. Opin­berar álögur mið­uðu þá þeim mun frekar að orku og auð­lindum jarð­ar, að sjálfum rótum vel­ferð­ar­inn­ar, en að ávöxtum vel­ferð­ar­inn­ar.

Herra­garð­ur­inn – orkan og almúg­inn: Enn um marg­sl­ungið sam­­band orku og afkomu, orku og hagn­að­ar, skatta og vel­­ferðar – og um hina algjöru frum­­for­­sendu allrar skatt­lagn­ing­­ar, að af ein­hverju sé að taka. Eða hvort skyldi vera lík­legra til að fá risið undir vel­ferð okkar – nátt­úru­auð­lindir jarðar eða vér sjálf, sauð­svartur almúg­inn, krefj­and­ist nátt­úru­af­urð­anna á silf­ur­fati eins og greif­ar?

Herra­garð­ur­inn – óðal aðals eða orkubú jarð­ar­búa?: Um til­drög þess að homo faber, hinn verk­tækni­legi mað­ur, birt­ist á sjón­ar­svið­inu, og hvernig afsprengi hans, hinn vís­inda­tækni­legi mað­ur, hefur hneppt sig æ fastar í fjötra álaga á sjálfan sig, heimt­andi þeim mun frekar alls af nátt­úr­unni, að þjón­aði sér sem þræll, sama hve orka og auð­lindir jarðar eru þó tak­mark­aðar – á nær öllum svið­um.

Herra­garð­ur­inn – orkubú jarð­ar­búa: Um orku og auð­lindir jarðar – hve auð­veld­lega má ganga af drjúgum hlutum nátt­úr­unnar dauð­um, ein­fald­lega með óheftri sókn í auð­lind­irn­ar, fyrir mátt hinna ríku­leg­ustu skatt­fríð­inda, eða á hinn bóg­inn hve jafn auð­veld­lega má efla skyn­sam­leg not af marg­vís­legum jarð­ar­gróð­an­um, ein­fald­lega fyrir áhrif slíkrar gjald­töku sem heftir óskyn­sam­leg not. Það er svo undir mann­inum kom­ið, hvort hann telur mik­il­væg­ara mark­mið, að hefta sjálfan sig blygð­un­ar­laust með opin­berum álögum fremur en sjálf blygð­un­ar­laus notin af öllum skamm­tíma­gróð­an­um…

Hvort sé sem sagt mik­il­væg­ara – í bráð og lengd – að sóa orkunni, og þar með jarð­ar­gróð­an­um, eða að nýta orku jarðar til hins ýtrasta og þar með ríku­lega ávexti fram­leiðn­inn­ar, hvers og eins jarð­ar­búa, hvers og eins á sína vísu…

Skattar hafa mótað forsendur siðmenningarinnar frá upphafi vega. Blái ferillinn, framleiðnin, lýtur að bláa kvarðanum til vinstri, en rauðu ferlarnir, skattar í hinum ýmsu myndum, að rauða kvarðanum til hægri. Græni ramminn, til hægri, lýsir mögulegum breytingum frá tekjudrifnu skattkerfi til orkudrifins velferðarkerfis. Mynd: ÁBH

Höf­undur til­einkar greina­flokk­inn Gretu Thun­berg, lofts­lags­vá­r­fræð­ingi, og minn­ingu Snorra Bald­urs­son­ar, nátt­úru­fræð­ings.

Ítar­efni:

Höf­undur er áhuga­maður um auð­fræði og nátt­úru­vernd

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar