Föstudaginn 23. janúar skapaðist athyglisvert ástand á Íslandi. Kvöldið áður hafði maður sem hafði misst fyrirtækið sitt í hendur banka, Víglundur Þorsteinsson, sent frá sér gögn til þingmanna og fjölmiðla sem hann sagði sýna fram á að stjórnmálamenn, embættismenn og eftirlitsaðilar hafi af óbilgirni framið stórfelld lögbrot og beitt blekkingum til að hafa 300-400 milljarða króna af íslenskum heimilum og fyrirtækjum. Þetta fé hafi þess í stað runnið til kröfuhafa.
Rökstuðningur Víglundar var sá að bráðabirgðamat Fjármálaeftirlitsins á eignum sem fluttar voru úr þrotabúum föllnu bankanna ætti að vera endanlegur úrskurður um virði þeirra.
Málflutningur Víglundar er vel þekktur, enda var þetta í þriðja sinn sem hann steig fram og bar hann á borð.
Hann er hins vegar tóm steypa, líkt og áður hefur verið rakið.
Ástand skapast
Þennan morgun mátti hins vegar ætla að stórfrétt hafi verið opinberuð. Morgunblaðið birti frétt á forsíðu, og stóra úttekt inni í blaðinu, um ásakanir Víglundar undir fyrirsögninni „Stórfelld svik og blekkingar“. Tekið var undir ásakanirnar í ritstjórnarskrifum.
Ísland í Bítið, morgunþáttur Bylgjunnar, kallaði til Sigurð G. Guðjónsson lögmann eldsnemma morguns til að fara yfir málið. Í aðdraganda viðtalsins var aldrei tekið fram að Sigurður hefði starfað sem lögmaður Víglundar né að hann hafi komið fram með honum á blaðamannafundi sem haldinn var árið 2013, þegar Víglundur lagði fyrst fram ásakanir sínar. Í viðtalinu fór Sigurður G. mikinn og sagði að bankar og hin svokallaða norræna velferðarstjórn hafi framkvæmt svik eða blekkingar gagnvart almenningi og haft af honum stórfé. Hann tók undir allar ásakanir Víglundar. Stjórnendur þáttarins supu hveljur yfir þessu.
Það var samt eins og að í gang hafi farið einhver vél sem hafði það markmið að framleiða umfjöllun um ásakanir Víglundar.
Skömmu síðar hringdu þeir í Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Annar þáttarstjórnandinn spurði hvað forsætisráðherra segði við „ja, ég veit ekki hvort það eigi að kalla ásakanir eða staðreyndir...“, og átti þar við málflutning Víglundar.
Sigmundur Davíð sagði ásakanirnar býsna sláandi og að þær þyrfti að rannsaka. Hugmynd hans um leiðréttingu verðtryggðra lána, sem endaði með 80 milljarða króna „Leiðréttingu“ á kostnað skattgreiðenda, hafi átt rætur sínar að rekja í þeim eignartilfærslum sem Víglundur var að fetta fingur út í. „Það er verið að gefa kröfuhöfum peningana. Það er eitthvað sem er ekki hægt að horfa framhjá,“ sagði forsætisráðherrann. Aðspurður hvort það hafi verið ráðherra og opinberir starfsmenn sem hafi gert þetta svaraði Sigmundur Davíð: „Já, það er það sem maður les út úr þessu.“
Sögulegur atburður á sér samhliða stað
Þennan sama morgun og nánast á sama tíma og Víglundarboltanum var ýtt í gang átti sér stað sögulegur atburður í íslenskri stjórnmálasögu. Umboðsmaður Alþingis var að taka Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrum innanríkisráðherra, pólitískt af lífi fyrir valdníðslu.
Augu flestra fjölmiðla voru eðlilega á þeim miklu tíðindum, enda lá ljóst fyrir öllum sem til þekktu að ásakanir Víglundar voru einfaldlega endurtekning á því sem hann hafði áður haldið fram, og ávallt verið hrakið.
Það var samt eins og að í gang hafi farið einhver vél sem hafði það markmið að framleiða umfjöllun um ásakanir Víglundar. Stór hópur fólks fór að þrýsta á fjölmiðla, með símtölum, tölvupóstsendingum og síðast en ekki síst á samfélagsmiðlum. Þar var til að mynda lokaður fjölmiðlaspjallvefur á Facebook, sem í eru yfir 4000 þúsund manns, undirlagður af hópi fólks sem taldi fréttabirtingar fjölmiðla af ásökunum Víglundar, og þeir sem uppfylltu ekki kröfur þessa fólks um einhliða fréttaflutning voru vændir um að vera málgögn einhverra.
Það er þekkt og ákaflega hvimleið aðferð í íslenskri umræðuhefð að ásaka þá sem þú ert ekki sammála um að ganga erinda einhverra sérhagsmuna.
Vaktstjóri á einni stærstu fréttastofu landsins sagði mér að símtalaflaumurinn sem þangað barst til að þrýsta á umfjöllun um mál Víglundar eigi sér vart fordæmi.
Frétt um ásakanir Víglundar var síðan fyrsta frétt í fréttatíma Stöðvar 2 um kvöldið. Frétt um álit umboðsmanns Alþingis á framferði Hönnu Birnu var númer tvö.
Það sem fjölmiðlar eiga að gera
Ég hef skrifað um endurskipulagningu bankakerfisins frá því að hún hófst. Ég og samstarfsmenn mínir þekkjum það ferli mjög vel og töldum það ábyrgðarhluta að upplýsa lesendur um hversu illa undirbyggðar ásakanir Víglundar væru. Það er enda hlutverk fjölmiðla að upplýsa, greina og segja sannleikann, ekki að bera á borð illa studdar röksemdir sem staðreyndir.
Fréttaflutningur okkar af málinu fór fyrir brjóstið á Sigurði G. Guðjónssyni. Hann skrifaði pistil á Pressuna þar sem hann ásakaði okkur um að ganga erinda þeirra stjórnmálamanna sem tóku ákvarðanir um endurskipulagningu bankakerfisins. Þetta er reyndar ekki í fyrsta sinn sem Sigurður G. hefur, án þess að geta rökstutt mál sitt, ásakað Kjarnann um að ganga erinda einhverra. Hann gerði slíkt hið sama í fyrrasumar, en ásakaði okkur þá um að vera „útgáfu á vegum embættis sérstaks saksóknara, svona eins og Tíund þá sem skatturinn gefur út meðal annars til að segja frá eigin afrekum“. Hann nefndi engin dæmi.
En kallaði síðan eftir málefnalegri umræðu.
Staðreyndir þarf að rökstyðja með dæmum
Það er þekkt og ákaflega hvimleið aðferð í íslenskri umræðuhefð að ásaka þá sem þú ert ekki sammála um að ganga erinda einhverra sérhagsmuna. Slíkt þarf hins vegar að rökstyðja með dæmum. Annars er gagnrýnin marklaus.
Til dæmis væri hægt að segja að Sigurður G. eigi hagsmuni undir því að taka undir ásakanir Víglundar þar sem hann er, eða var alla vega, lögmaður hans. Eða að Sigurður G. eigi hagsmuni undir í því að draga úr trúverðugleika fjölmiðils sem fjalli um hrunmál vegna þess að skjólstæðingar hans eru sakborningar í slíkum málum eða vegna þess að hann var sjálfur í stjórn eins bankans sem hrundi svo eftirminnilega.
Það væri hægt að benda á að Sigurður G. er að gæta hagsmuna Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í riftunarmáli sem þrotabú Fons hefur höfðað á hendur honum, en Sigurður G. var stjórnarformaður Fons áður en það félag fór á hausinn. Sá skjólstæðingur Sigurðar G. er sakborningur í máli sem sérstakur saksóknari er með í áfrýjunarferli fyrir Hæstarétti og hefur tekið opinberlega undir málflutning Víglundar Þorsteinssonar um að nýju bankarnir hafi skrifað upp dauðalista og hirt fyrirtæki af sómafólki eins og þeim tveim. Skjólstæðingurinn, Jón Ásgeir, er líka maki stærsta eiganda þess fjölmiðlafyrirtækis sem fjallaði langmest, og gagnrýnislítið, um ásakanir Víglundar.
Þetta eru staðreyndir og hagsmunirnir raunverulegir. Hver og einn verður síðan að draga sínar ályktanir út frá þeim.
Endurteknar jarðarfarir
En horfum nú málefnalega á ásakanir Víglundar.
Fjármálaeftirlitið jarðaði þær. Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem var fengin af stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að fara yfir þær, hafnaði öllum ásökunum Víglundar um svik, lögbrot og blekkingar og sagði það hafa „hvorki verið ólögmætt né óskynsamlegt að slitabúin fengju yfirgnæfandi hlut í Arion banka og Íslandsbanka, enda ekki óeðlilegt þar sem verið var að færa yfir skuldir og eignir gömlu bankanna í þá nýju.“
Þótt órökstuddar og rangar ásakanir eins og þær sem Sigurður G. Guðjónsson hefur tileinkað sér að bera á torg séu hvimleiðar þá munu þær ekki stjórna því hvernig við vinnum vinnuna okkar.
Hagfræðingurinn Hafsteinn Gunnar Hauksson birti grein í Hjálmum, tímariti hagfræðinema, nýverið þar sem hann sýnir fram á að bæði Arion banki og Landsbankinn hafi tapað á virðisbreytingum lánasafna sinna á árunum 2009 til 2013. Íslandsbanki hafi einn íslenskra banka hagnast á þeim. Samtals nemur hagnaður bankanna þriggja vegna virðisbreytingu lánasafna 15 milljörðum króna, eða um fimm prósent af öllum hagnaði þeirra á þessu tímabili. Það er ansi langt frá þeim 300 til 400 milljörðum króna sem Víglundur, Sigurður G. og forsætisráðherra þjóðarinnar hafa haldið fram að hafi verið hafnir af þjóðinni vegna þessa.
Þess utan hafa stjórnmálamenn, embættismenn og ráðgjafar sem komu að endurskipulagningu bankakerfisins hrakið ásakanirnar. Það hafa þeir gert með rökum og staðreyndum.
Mannalæti frekjuhunda
Það er ákveðnum hópi eðlislægt að setja alla umræðu í einhver hagsmunahólf. Hann virðist ekki geta meðtekið að til sé fólk sem setji fram skoðanir eða fjölmiðlar sem vinni fréttir án þess að bakvið þær liggi einhverjir sérhagsmunir. Þeim sem einu sinni hafa bitið í sig þessa kaldastríðsveruleikasýn er erfitt að snúa.
Þótt órökstuddar og rangar ásakanir eins og þær sem Sigurður G. Guðjónsson hefur tileinkað sér að bera á torg séu hvimleiðar þá munu þær ekki stjórna því hvernig við vinnum vinnuna okkar. Fjölmiðlar segja fréttir og trúnaður þeirra liggur við lesendur.
Ef Kjarninn, eða aðrir fjölmiðlar, færi að láta mannalæti í frekjuhundum stýra því hvort þeir segi sannleikann og vinni vinnuna sína, eða beri fyrir lesendur sína steypu án þess að reyna einu sinni að greina hana, þá værum við fyrst komin á villigötur.
Og inn á slíkar ætlum við ekki að rata.