Fréttaskýring#Tónlist#Bretland

Adele og metin sem aldrei verða slegin

Tónlistarkonan Adele hefur sett hvert metið á fætur öðru frá því að nýjasta plata hennar, 25, kom út í nóvember síðastliðnum. Í heimi minnkandi tónlistarsölu er Adele í algjörum sérflokki.

Þórunn Elísabet Bogadóttir9. mars 2016

Adele er ein allra stærsta stjarna sam­tím­ans. Það er stað­reynd, frekar en hug­lægt mat. Frá því að nýjasta platan henn­ar, 25, kom út í lok síð­asta árs hefur hún slegið hvert metið á fætur öðru. Og hún virð­ist ekki geta slegið feil­nótu, í óeig­in­legum skiln­ing­i. 

Reyndar var hún byrjuð að slá met áður en platan kom út. Fyrsta smá­skífan af plöt­unni, lagið Hello, kom út 23. októ­ber síð­ast­lið­inn og byrj­aði að slá met strax á fyrsta degi. Þá var horft á mynd­bandið við lagið 27 milljón sinnum á Youtube. Það tók fimm daga að kom­ast yfir 100 millj­ón­ir, sem var líka met. Núna, 9. mars, er áhorfstalan komin yfir 1,3 millj­arða, sem sam­svarar því að næstum einn af hverjum fimm jarð­ar­búum hafi horft einu sinni á mynd­band­ið. 

Strax í fyrstu vik­unni varð smá­skífan mest selda lag árs­ins 2015 í Bret­landi. Í Banda­ríkj­unum var yfir milljón ein­tökum hlaðið niður fyrstu vik­una. Aldrei áður hafði lag náð yfir milljón á einni viku, og það sem meira er, þetta var hálfri milljón meira en lagið Right Round með Flo Rida, sem átti metið fram að því. Fyrir tíma nið­ur­hals hefur eitt lag náð meiri sölu sem smá­skífa en Hello, og það var end­ur­út­gáfan af Candle in the Wind, sem Elton John gaf út eftir að Díana prinsessa dó árið 1997. 

Og hún sem sagð­ist hafa haldið að eftir svona langan tíma án þess að gefa nokkuð út væri öllum orðið sama um hana. 

Lang­lífu orðróm­arn­ir 

Síð­asta plata Adele kom út í byrjun árs 2011, og ári síðar gaf hún út lag fyrir James Bond mynd­ina Sky­fall. Eftir það hafði hún sig mjög lítið í frammi. Áður en 25 kom svo út höfðu lengi verið orðrómar á kreiki um nýju plöt­una henn­ar, sem fólk þótt­ist alla tíð visst um að myndi heita 25. Hún hafði líka fram að þessu gefið út plöt­urnar 19 og 21, eftir aldri hennar þegar plöt­urnar voru gerð­ar­. Þegar hún átti 25 ára afmæli ýtti hún heldur betur undir orð­rómana í gegnum Twitt­er-­síðu sína, eins og sjá má hér að neð­an.

Árið 2014 kom þó og fór og ekk­ert heyrð­ist frá henni. Seinna kom í ljós að hún gerði fullt af tón­list sem henni þótti ekki nógu góð þegar á hólm­inn var kom­ið. Árið 2015 voru sögu­sagn­irnar orðnar hávær­ar, enda vitað að verið væri að vinna í plötu með aðstoð ýmissa tón­list­ar­manna, og talið var víst á seinni hluta árs­ins að nú myndi fara að draga til tíð­inda. Bill­bo­ard sagði frá því síð­ast­liðið haust að platan kæmi í nóv­em­ber, en það var ekki 100% stað­fest. 

Svo allt í einu og upp úr þurru birt­ist aug­lýs­ingin hér að neð­an­, í aug­lýs­inga­hléi á X-Factor þætti í breska sjón­varp­inu þann 18. októ­ber. 

Ekk­ert meira fylgdi aug­lýs­ing­unni, en það ætl­aði strax allt um koll að keyra. Var þetta í alvör­unni hún, var hún að til­kynna form­lega um útgáfu plöt­unnar og var þetta þá lag af nýju plöt­unni? Svarið var já. 

Nokkrum dögum seinna birti hún skila­boð til aðdá­enda sinna á Twitt­er, og sýndi svo plötu­umslagið og til­kynnti útgáfu­dag­inn 20. nóv­em­ber á Instagram. Í skila­boð­unum á Twitter útskýrði hún fjar­veru sína og það hversu langan tíma hefði tekið að koma plöt­unni út. Útskýr­ingin var reyndar ein­föld, lífið gerð­ist. Meðal þess sem gerð­ist í lífi hennar var að hún eign­að­ist son, sem er nú þriggja ára. 



Sló met 'NSYNC, Oasis og Susan Boyle

Það væri of löng upp­taln­ing að skrifa um öll metin sem Adele hefur slegið með útgáfu 25, en hér koma samt nokkur í við­bót. Fyrstu vik­una voru tæp­lega 3,4 millj­ónir ein­tök seld af plöt­unni í Banda­ríkj­un­um, ­sam­kvæmt mæl­ingum Niel­sen Music, sem hefur mælt plötu­sölu frá­ ár­inu 1991 og tekið inn í mæl­ingar sínar streymi og sölu á ein­staka lög­um. Ekki að ein­staka lög hafi skipt miklu máli hjá A­dele, næstum því hver einn og ein­asti keypti plöt­una í heild sinni.

25 er fyrsta platan í sög­u þess­ara mæl­inga til þess að selj­ast í yfir þremur millj­ón­um ein­taka á einni viku. Áður en platan kom út hafði því ver­ið velt upp í fjöl­miðlum hvort hún gæti mögu­lega jafnað sölu­met­ið, sem stráka­sveitin 'NSYNC átti þá. Þeir seldu 2,4 millj­ónir af No Strings Attached í vik­unni eftir að hún kom út árið 2000. Adele jafn­aði ekki bara metið heldur sló það svo ræki­lega að talið er ólík­legt að nokkur muni ná henn­i. 

Og í Bret­landi var sömu sögu að ­segja. 800 þús­und ein­tök og gott betur seld­ust í fyrstu vik­unn­i þar, yfir 100 þús­undum meira en sölu­hæsta platan þar í landi fram að því. Fyrsta dag­inn seld­ust 300 þús­und ein­tök. Be Here Now með Oas­is, hafði áður verið mest selda platan á einni viku, en hún seld­ist í 696 þús­und ein­tökum vik­una sem hún kom út árið 1997. 

Hún sló alls konar önnur met í öðrum lönd­um. Til að mynda setti hún sölu­met á Nýja-­Sjá­landi og sló þar út Susan Boy­le, sem hafði átt metið þar í land­i. 

25 fór í fyrsta sæti á iTu­nes list­anum í 106 af 119 löndum þessa fyrstu viku og seld­ist þar í 900 þús­und ein­tök­um. Nýj­ustu tölur segja að platan hafi selst í nítján milljón ein­tök­um um allan heim

Adele á Grammy-verðlaununum nýverið.
Mynd: EPA

Ekki platan sem bjargar tón­list­ar­heim­inum

Það er mjög vel þekkt að tón­list­ar­sala og neysla á tón­list hefur breyst gríð­ar­lega síð­ustu ár, og plötu­sala dregst veru­lega saman ár frá ári. Það gerir gríð­ar­lega vel­gengni plötu eins og 25 sér­staka, það að hún slái svona mörg met þrátt fyrir stöð­una á mark­aðn­um. Adele ákvað að setja plöt­una ekki á streym­is­síður eins og Spoti­fy, og hún kemst upp með slíka ákvörð­un, sem lík­lega jók bara söl­una. 

En það þýðir ekki neitt fyrir almenna plötu­sölu, segja sér­fræð­ing­ar. „Þetta er óvenju­legt. Þetta er ekki merki um það hvert iðn­að­ur­inn stefn­ir, og bara þótt við höfum eina stóra og far­sæla plötu­sölu þýðir það ekki að allir fari að kaupa plötur aft­ur,“ sagði tón­list­ar­grein­and­inn Mark Mulli­gan við Guar­dian þegar 25 var nýkomin út. Þetta væri ekki platan sem bjarg­aði tón­list­ar­heim­in­um,  miklu nær væri að líta aðeins neðar á listana til þess að finna raun­veru­lega stöðu iðn­að­ar­ins. Raunin er sú að efsta eina pró­sentið af tón­list­ar­mönnum fái 77% allra tekna. Með öðrum orð­um, súper­stjörn­urnar græða pen­inga og selja plöt­ur, en hin 99% tón­list­ar­mann­anna lenda í vand­ræð­u­m. 

Fleiri sem græða 

Það eru samt ekki bara Adele og plötu­fyr­ir­tækið hennar sem græða stór­kost­lega á þess­ari vel­gengni. Tón­list­ar­síðan djbooth hefur reynt að meta hvað aðrir sem unnu að plöt­unni, eins og upp­töku­stjórar og laga­höf­und­ar, hafi fengið í sinn hlut. Til að mynda er sagt að Greg Kur­stin, sem gerði Hello með Adele, hafi grætt meira en tvær millj­ónir doll­ara. Eins og síðan seg­ir: það þýðir að maður sem eng­inn veit hver er, er að græða meiri pen­inga en 90% þeirra tón­lista­manna sem gefa út plöt­ur. 

Áætlað er að auð­æfi Adele séu í kringum 75 millj­ónir doll­ara, tæp­lega 10 millj­arðar íslenskra króna. Það er bara af tón­list, vegna þess að þrátt fyrir fjöl­mörg boð þar um, hefur hún sagt nei við hverju ein­asta til­boði um að aug­lýsa eða ger­ast tals­kona hluta. Í við­tali við Guar­dian í haust sagði hún að henni hefði verið boðið að aug­lýsa allt mögu­legt. Bæk­ur, föt, drykki, mat, bíla, leik­föng, smá­forrit og kerti, tók hún sem dæmi. „Milljón pund fyrir að syngja í afmæl­is­veisl­unni þinnig? Ég myndi frekar gera það ókeypis ef ég geri það á annað borð, takk,“ sagði hún. 

Tón­leika­ferða­lagið heldur henni á toppnum áfram

Í síð­ustu viku hóf Adele svo fyrsta tón­leika­ferða­lagið sitt í fjögur ár. Hún neydd­ist til að hætta að koma fram árið 2011 vegna radd­vand­ræða, sem hún fór í aðgerð til að laga. Upp­haf­lega var því haldið fram að hún myndi ekki fara í neina tón­leika­ferð vegna nýju plöt­unn­ar, en svo not­aði hún sam­fé­lags­miðla enn á ný til þess að til­kynna að hún hygð­ist víst ætla að halda tón­leika. 

Hún byrj­aði í Belfast, og fer nú um Evr­ópu fram á sum­ar. Þá fer hún til Norð­ur­-Am­er­íku, þar sem hún heldur tón­leika fram til 15. nóv­em­ber, en síð­ustu tón­leik­arnir hennar verða í Mexík­ó­borg það kvöld. 105 tón­leikar eru áform­að­ir, 49 í Evr­ópu, 56 í Norð­ur­-Am­er­íku. Upp­selt er á alla tón­leik­ana, en það seld­ist upp á Evr­óput­úr­inn strax svo að fleiri tón­leikum var bætt við. 

Dæmi eru um að miðar á tón­leika með henni séu í end­ur­sölu fyrir meira en 290 sinnum upp­haf­legt verð. Sæti sem kost­uðu 85 pund á tón­leika í London eru í sölu fyrir tæp­lega 25 þús­und pund, sem eru rúm­lega 4,5 millj­ónir króna. 

Síð­asta plata Adele, 21, var í fyrsta sæti á Bill­bo­ard list­anum í 24 vik­ur, sem var met. Aldrei ­fyrr hafði kona náð við­líka árangri á list­an­um. Hún var í 23 vikur á toppi breska vin­sæld­ar­list­ans og fór á topp­inn í yfir 30 lönd­um. Allar líkur eru taldar á því að hún slái sitt eig­ið ­met með 25. Nú í upp­hafi tón­leika­ferða­lags­ins hefur platan þegar setið í topp­sæti Bill­bo­ard í 10 vikur og á breska vin­sæld­ar­list­anum í níu. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórunn Elísabet Bogadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar