Andri Snær Magnason rithöfundur ætlar að tilkynna ákvörðun sína um forsetaframboð í næstu viku. Andri Snær hefur verið orðaður við framboð í marga mánuði en hefur verið að hugsa málið. „Það er fullt af öflugu fólki sem vill vera með mér í liði og það kemur eitthvað í ljós eftir helgi,” segir Andri Snær í samtali við Kjarnann.
Sækir um launalaust leyfi fari hún fram
Bryndís Hlöðversdóttir, ríkissáttasemjari og fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, ætlar að tilkynna ákvörðun sína á næstu dögum.
„Ég hef ekki gefið mér tóm vegna anna í öðru til að ígrunda þessa ákvörðun. Það eru margar stórar spurningar sem maður þarf að svara áður en hún liggur fyrir, meðal annars hvort ég telji mig þess verðuga að sinna þessu mikilvæga embætti. Eins hvort ég eigi það brýnt erindi við þjóðina í að ég sé tilbúin í þennan leiðangur, meðal annars með því að hverfa úr því krefjandi og skemmtilega starfi sem ég sinni í dag,” segir hún.
Bryndís varð ríkissáttasemjari fyrir tíu mánuðum, í lok maí 2015. Spurð hvort hún ætli að segja starfi sínu lausu fari hún í framboð segist hún ætla að óska eftir launalausu leyfi á meðan á kosningabaráttu stendur, verði ákvörðunin sú.
Fordæmi eru fyrir slíku, en Guðlaugur Þorvaldsson fór í forsetaframboð árið 1980 eftir fjóra mánuði í starfi sem ríkissáttasemjari. Hann tók sér leyfi í kosningabaráttunni og hélt svo áfram starfi sínu sem ríkissáttasemjari 15 ár eftir að henni lauk.
Davíðar hugsa málin
Samkvæmt heimildum Kjarnans vinnur bakland Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra, nú að því að láta mæla fylgi hans við mögulegt forsetaframboð. Davíð lét líka mæla fylgi sitt fyrir kosningarnar 1996, þegar Ólafur Ragnar Grímsson bauð sig fyrst fram, en fór ekki á móti honum.
Nafni hans, Davíð Þór Jónsson, prestur, grínisti og rithöfundur, segist í samtali við Mbl.is í dag að líkurnar séu að aukast að hann bjóði sig fram. Hann ætlar að tilkynna ákvörðun sína á næstu vikum.
Samfylkingarsúpa
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingar og fyrrverandi utanríkisráðherra, hefur ekki viljað tjá sig um um framboð sitt við fjölmiðla, en hann skrifaði grein í Fréttablaðið á dögunum þar sem hann fór ítarlega yfir hugmyndir sínar um forsetaembættið.
Það má teljast líklegt að eitthvað verði að frétta þaðan á næstunni, en leiða má líkur að því að hann bíði fregna frá Bryndísi, sem kemur úr Samfylkingunni eins og hann og er bakland þeirra svipað. Mikið ákall hefur verið eftir konu í forsetaembættið og eftir að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, gaf út að hún ætlaði ekki fram, hefur það ákall orðið áþreifanlegra. Stefán Jón Hafstein, umdæmisstjóri Þróunarsamvinnustofnunar í Úganda og fyrrverandi borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, hefur einnig verið sterklega orðaður við framboð þó lítið hafi heyrst frá honum varðandi það annað en almennar hugleiðingar um embættið.
Fjöldi kvenna undir feldi
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Samtökum atvinnulífsins og fyrrverandi menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, íhugar einnig framboð sem og Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar. Sigrún Stefánsdóttir, forseti hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri, er líka að íhuga framboð sem og Linda Pétursdóttir, athafnakona og fyrrverandi fegurðardrottning.
Ekkert hefur heyrst frá Ólafi Jóhanni Ólafssyni, rithöfundi og aðstoðarforstjóra Time Warner samsteypunnar, varðandi framboð, en hann hefur ítrekað verið orðaður við embættið og mælst hátt í skoðanakönnunum.
Á annan tug frambjóðenda hafa nú þegar komið fram og ætla sér að taka baráttuna um Bessastaði. Kosningar fara fram þann 25. júní næstkomandi og rennur framboðsfrestur út um miðjan maí.