Óflokkað

Sagan um Fönix-liðið, Skepnuna og sturluðu stuðningsmennina

Árið 1988 vann Wimbledon F.C. FA-bikarinn. Fjórtán árum síðar var ákveðið að flytja félagið til Milton Keynes. Nýtt félag, AFC Wimbledon, var stofnað og fjórtán árum síðar komst það í þriðju efstu deild.

Frá rit­stjórn Kjarn­ans: AFC Wimbledon lagði MK Dons í leik lið­anna í fyrstu deild ensku knatt­spyrn­unn­ar, 2-0. Stuðn­ings­menn lið­anna sungu „Hvar voruð þið þegar þið voruð við,“ þegar sig­ur­inn var vís.

Athuga­semd bætt við 18. mars 2017.

Þann 30. maí 2002 var stofnað nýtt knatt­spyrnu­lið í Kingston u­pon Thames borg­ar­hlut­anum í London. Það fékk nafnið AFC Wimbledon. Aðstæð­ur­ voru afar óvenju­legar og stofnun félags­ins var sprottin upp úr mót­mælum gegn á­kvörðun eig­enda ann­ars félags, Wimbledon F.C., að flytja það úr hverf­inu og til Milton Key­nes, í 90 kíló­metra fjar­lægð.

Félagið var stofnað af fyrrum stuðn­ings­mönnum Wimbledon F.C. ­sem gátu ekki sætt sig við flutn­ing liðs­ins sem þeir studdu, og hafði sterkar rætur í nær­sam­fé­lag­inu, til ann­arrar borg­ar. Þegar gamla Wimbledon breytti svo ­nafn­inu sínu í Milton Key­nes Dons árið 2004 hurfu öll tengsl.

Þann 30. maí 2016, fjórtán árum eftir stofnun AFC Wimbledon ­upp á dag, vann liðið fræk­inn 2-0 sigur á Plymouth í úrslitum umspils í Leagu­e 2, fjórðu efstu deild ensku deild­ar­keppn­inn­ar. Með sigrinum komst liðið upp um ­deild í sjötta sinn á þessum fjórtán árum og mun á næstu leik­tíð leika í söm­u ­deild og liðið sem stal lið­inu þeirra, Milton Key­nes Dons.

Hinir klikk­uðu

Wimbledon F.C. var stór­merki­legt knatt­spyrnu­fé­lag. Það var ­stofnað 1889 og lék í ensku deild­ar­keppn­inni frá árinu 1977. Undir lok níunda ára­tugar síð­ustu aldar var Wimbledon orðið ráð­sett lið í efstu deild og náð­i sínum merkasta áfanga þegar það sigr­aði í ensku FA-bik­ar­keppn­inni árið 1988 í ó­trú­legum 1-0 sigri á einu besta Liver­pool-liði allra tíma með marki frá Lawri­e Sanchez. Hetja liðs­ins var mark­vörð­ur­inn og fyr­ir­lið­inn Dave Bea­sant sem varð í leiknum fyrstur til að verja víta­spyrnu í úrslita­leik bik­ar­keppn­inar og auk þess fyrsti ­mark­vörð­ur­inn til að leiða lið til sig­urs í henni sem fyr­ir­liði.

Lið Wimbledon á þessum árum var á þessum árum sam­an­sett af ansi lit­ríkum karakt­erum og fékk við­ur­nefnið „Cr­azy Gang“, eða hinir klikk­uðu. Á meðal leik­manna liðs­ins var hinn alræmdi Vinnie Jones, Dennis Wise, Eric Young og John Fas­hanu. Liðið þótti leika afskap­lega hart og beita öllum til­tækum brögðum til að vinna. Atferli þeirra jaðr­aði oft við að vera hrein­t of­beldi.

Bein­skeyttur stíll og villt við­horf stóð lið­inu þó ekki ­fyrir þrif­um. Þvert á móti gekk því vel á þessum árum og þótt and­stæð­ingar þess höt­uðu það þá fjölg­aði sífellt þeim sem höfðu taugar til litla, grófa liðs­ins ­sem gat.

Hinir klikkuðu unnu sér það til frægðar að vera fanta grófir og gera engar málamiðlanir í leikstíl sínum. Af öðrum ólöstuðum voru frægustu ruddar liðsins á þessum tíma þeir Vinnie Jones og John Fashanu.

Liðið var þó í aðstöðu­vand­ræð­um. Þótt það hafi risið í gegnum deildir Eng­lands á ljós­hraða þá lék það enn heima­leiki sína á Ploug­h La­ne, líkt og það hafði gert frá árinu 1912. Völl­ur­inn var í öllum meg­in­at­rið­u­m eins árið 1991 og hann hafði verið þegar Wimbledon lék í utandeild­inni. Á þessum árum voru kröfur til leik­valla auknar mik­ið, sér­stak­lega í kjöl­far hins hörmu­lega Hills­boroug­h-slyss sem átti sér stað 1989 og dró 96 til dauða. Í kjöl­farið þurftu leik­vangar liða í efstu deild að bjóða ein­ungis upp á sæt­i. ­Bannað var að standa, líkt og flestir áhorf­endur gerðu á Plough Lane.

Til stóð að byggja nýjan völl, með ein­ungis sæt­um, í Merton en af því varð ekki. Til að mæta þeim kröfum sem nýr veru­leiki gerði hóf lið­ið að leika leiki sína á heima­velli Crys­tal Palace, Sel­hurst Park, haustið 1991. Þessi ­flutn­ingur reynd­ist upp­hafið að enda­lok­un­um.

Wimbledon F.C. verður MK Dons

Á tíunda ára­tugnum var félagið í eigu Sam Hammam, lit­rík­s fjár­festis frá Líbanon. Hann þótti ekki síður klikk­aðri en leik­menn liðs­ins. Á þessum tíma var því stýrt af Íranum Joe Kinn­ear og náði prýði­legum árangri. Árið 1994 lék meira að segja í fyrsta og eina skiptið í Evr­ópu­keppni þegar það tók þátt í hinni van­hugs­uðu Inter­toto keppni.

Árið 1997 keyptu norsku kaup­sýslu­menn­irnir Bjørn Rune Gjelsten og Kjell Inge Røkke 80 pró­sent hlut í Wimbledon og ­þremur árum síðar eign­uð­ust þeir það sem upp á vant­aði. Í milli­tíð­inni hafði Joe K­inn­ear hætt sem knatt­spyrnu­stjóri vegna veik­inda og þeir ákveðið að ráða Egil „Drillo“ Olsen, fyrrum lands­liðs­þjálf­ara norska lands­liðs­ins, í hans stað. Það ­reynd­ist afleit ákvörðun og þegar „Drillo“ var rek­inn, nokkrum dögum fyrir lok ­fyrsta og eina tíma­bils­ins sem hann stýrði lið­inu, sat það í fall­sæt­i. Wimbledon féll nokkrum dögum síð­ar, þann 14. maí 2000, nákvæm­lega tólf árum eftir að liðið lyfti eina titli sínum á Wembley árið 1988.

Ljóst var að skortur á eigin heima­velli háði Wimbledon mjög. Hammam hafði reynt að flytja liðið til Írlands við litlar vin­sæld­ir ­stuðn­ings­manna, en sú áætlun gekk ekki upp. Norsku eig­end­urnir seldu gamla heima­völl liðs­ins Plough Lane til Safeway stór­mark­aðskeðj­unnar sem lét rífa hann. Síðar voru byggðar íbúðir á reitn­um. Wimbledon var þar með form­lega orðið heim­il­is­laust félag.

Eftir fall úr efstu deild var liðið komið í tölu­vert alvar­leg fjár­hags­vand­ræði. Á þeim tíma hafði hópur fjár­festa sem leiddur var af tón­leika­hald­ar­anum Pete Winklem­an, og inni­hélt meðal ann­ars Asda-keðj­una og I­KEA, leitað til ýmissa liða í ensku deild­ar­keppn­inni með þá hug­mynd um að þau ­myndu flytja sig á nýjan völl sem hóp­ur­inn ætl­aði sér að byggja sem hluta af fast­eigna­þró­un­ar­verk­efni í borg­inni Milton Key­nes. Þeir höfðu þegar rætt við Luton, Wimbledon, Crys­tal Palace, Barnet og Queens Park Rangers um hug­mynd­ina en án árang­urs.

Það breytt­ist árið 2001 eftir að norsku eig­endur Wimbledon ­skip­uðu nýjan stjórn­ar­for­mann, mann sem heitir Charles Kopp­el. Sá var hrif­inn af hug­mynd Winkleman og félaga og taldi hana einu lausn­ina til að koma í veg ­fyrir að Wimbledon færi hrein­lega í þrot. 2. ágúst 2001 til­kynnti hann um að ­fé­lagið myndi flytja til Milton Key­nes og tæpu ári síð­ar, 28. maí 2002, ­sam­þykkti þriggja manna nefnd á vegum enska knatt­spyrnu­sam­bands­ins að heim­ila ­flutn­ing­inn. Atkvæði féllu tvö á móti einu.

Flutn­ing­ur­inn tafð­ist þó og fjár­hags­erf­ið­leikar Wimbledon héldu áfram að áger­ast. Í júní 2003 fór félagið í greiðslu­stöðv­un, í sept­em­ber það sama ár lék það fyrsta heima­leik sinn í Milton Key­nes og á árinu 2004 keypti Winkleman það af skipta­búi þess. Hann breytti merki félags­ins, lið­slit­unum og síð­ast en ekki síst nafn­inu. Nú hét liðið Milton Key­nes Dons. Wimbledon F.C. var ekki lengur til.

Egil „Drillo“ Olsen, fyrrum landsliðsþjálfari norska landsliðsins, fer yfir myndbönd af leikjum Wimbledon þegar hann var knattspyrnustjóri liðsins. Undir stjórn hans féll liðið úr efstu deild. Það reyndist upphafið að endalokum Wimbledon F.C.

Stuðn­ings­menn liðs­ins voru brjál­aðir og nær eng­inn þeirra ­fylgdi lið­inu leng­ur. Raunar voru þeir byrj­aðir að skipu­leggja andóf í verki ári áður en liðið þeirra flutti til Milton Key­nes. Tveimur dögum eftir að ­þriggja manna nefndin hafði heim­ilað flutn­ing­inn, 30. maí 2002, stofn­uðu þeir nýtt félag. Hug­myndin hafði fæðst eftir of margar ölkrúsir á krá nærri Plough Lane og byggði á því að liðið þyrfti alltaf að vera í að minnsta kosti 75 pró­sent eig­u ­stuðn­ings­manna. Merki nýja félags­ins var nær eins og merki Wimbledon F.C., lið­slit­irnir voru þeir sömu og liðið hlaut nafnið AFC Wimbledon. Á fót­bolta­máli er svona lið kall­ast „Fön­ix-lið“, lið sem rís úr ösku­tóni ann­ars eins og fugl­inn Fön­ix. Og þum­al­putt­ar­reglan er sú að stofnun slíkra liða sé afleit hug­mynd.

Mán­uði síðar hélt hið nýstofn­aða félag prufur í al­menn­ings­garði þar sem allir samn­ings­lausir leik­menn voru vel­komnir til að ­reyna að kom­ast í lið­ið. Alls mættu 230 leik­menn í pruf­urnar og þeir sem hlut­u ­náð fyrir augum aðstand­enda mynd­uðu kjarn­ann að fyrsta liðs­hópi AFC Wimbledon. Á þeim tíma átti liðið engan heima­völl, var ekki með neina fasta æf­inga­að­stöðu og átti ekki bún­inga.

Heima­völlur liðs­ins varð síðar Kings­mea­dow völl­ur­inn sem tek­ur tæp­lega fimm þús­und manns, þar af tæpan helm­ing í sæti. Fyrrum Wimbledon F.C. ­leik­mað­ur­inn Terry Eames var ráð­inn sem knatt­spyrnu­stjóri og liðið hóf leik i n­í­undu efstu deild á Englandi síð­sum­ars 2002.

Næstu ár voru stans­laust ævin­týri. Liðið náði að klífa upp­ úr hverri utandeild­inni á fætur annarri og setti meðal ann­ars met þegar það tap­að­i ekki í 78 leikjum í röð frá febr­úar 2003 til des­em­ber 2004. Alls náði liðið að fara fimm sinnum upp um deildir á níu árum og 2011 náði það þeim merka áfanga að kom­ast upp úr utandeild­inni inn í hina eig­in­legu ensku deild­ar­keppni, þeg­ar AFC Wimbledon vann sér rétt til þess að leika í League 2, D-deild­inni. Sá réttur var tryggður með marki úr víta­spyrnu frá Danny Ked­well (sjá hér að neðan frá sjón­ar­horni stuðn­ings­manna). Með því varð liðið það fyrsta sem stofnað var á 21. öld­inni til að öðl­ast keppn­is­rétt í deild­ar­keppn­inni.

Það er ekki bara AFC Wimbledon liðið sjálft sem er nær ein­stakt. Helstu stuðn­ings­að­ilar liðs­ins eru ekki beint hefð­bundn­ir. Frá stofnun hefur tölvu­leikja­fyr­ir­tækið Sports Inter­act­i­ve, sem bjó til hina feiki­vin­sælu Champ­ions­hip Mana­ger og síð­ar­ ­Foot­ball Mana­ger tölvu­leiki, sem eyði­lagt hafa fjöl­mörg hjóna­bönd­in, verið hel­sti ­styrkt­ar­að­ili liðs­ins og vöru­merki helstu vöru fyr­ir­tæk­is­ins, Foot­ball Mana­ger, verið framan á bún­ingum þess. Með því vildu Sports Inter­act­ive sýna í verki ­stuðn­ing sinn við gras­rót­ar­knatt­spyrnu.

Annar ein­kenni­legur stuðn­ings­að­il­i er banda­ríski rit­höf­und­ur­inn og YouTu­be-­stjarnan John Green. Sá er marg­verð­laun­að­ur­ ­rit­höf­undur sem skrif­aði meðal ann­ars bók­ina The Fault in Our Stars, sem feyki­vin­sæl kvik­mynd var gerð eftir árið 2014. Raunar virð­ast flest öll ­kvik­mynda­tengd verk­efni sem Green kemur nálægt verða að gulli.

Green hefur á und­an­förnum árum einnig ein­beitt sér að því að stofna YouTu­be-rásir með bróður sínum Hank, sem hafa gengið afburða­vel og skilað þeim miklum aug­lýs­inga­tekj­um. Sumt efnið sem þeir hafa ­borið á borð þar hefur alvar­legan und­ir­tón, t.d. Crash Cour­se, þar sem þeir héldu nokk­urs konar hrað­nám­skeið í mik­il­vægum mál­efnum á borð við sög­u heims­ins, sögu Banda­ríkj­anna, bók­mennt­um, efna­fræði, líf­ræði, vist­fræð­i, sál­fræði, heim­speki, stjörnu­fræði, hag­fræði og eðl­is­fræði.

Annað efni er ekki jafn alvar­legt. John Green hefur til að mynda hlaðið upp leikjum sem hann spil­aði í tölvu­leiknum FIFA 14 upp á eina af YouTu­be-rásum bræðr­anna. Hann lýsir þar leikj­unum sjálfur og er alltaf sama lið­ið, AFC Wimbledon. Það sem er athygl­is­vert við þessa skrýtnu iðju er að John Green er hræði­lega slakur FIFA-­spil­ari. Geta hans í leiknum hefur verið borin saman við getu Hill­ary Clinton til að breik-d­ansa. Hann skapar hins vegar mjög skemmti­legan heim í kring­um liðið sitt, sem hann lýsir síðan fyrir áhorf­endum. Til dæmis heita báðir aðal­fram­herjar liðs­ins John Green og þeir eru, að sögn John Green, giftir hvor öðr­um. „Engir aðrir leik­menn hafa sömu tengsl sín á milli og sköll­ótti John Green og hinn John Green,“ segir hann í einni lýs­ing­unni.

Þetta hljómar allt frekar skringi­lega, en varð alveg fár­an­lega vin­sælt. Og líkt og ger­ist þegar YouTu­be-efni verður vin­sælt, þá fóru aug­lýs­inga­tekjur að streyma inn.

John Green ákvað að það þyrfti að nýta þetta fé á almenni­legan máta, setti sig í sam­band við AFC Wimbledon í nóv­em­ber 2013 og bauðst til að styrkja félag­ið. Í fyrra­sumar jók hann við þann stuðn­ing og síð­ast­liðið ár hefur norð­ur­stúkan á Kings­mea­dow-vell­inum verið þekkt sem John Green-stúk­an. Í lok mars síð­ast­liðnum til­kynnti Green svo að hann ætl­aði sér, í sam­vinnu við Fox 2000, að fram­leiða Hollywood-­kvik­mynd um AFC Wimbledon.

Áhugaverðasti leikmaður AFC Wimbledon á undanförnum árum er án nokkurs vafa „Skepnan", Adebayo Akinfenwa. Hann er yfir 100 kíló og tekur tæplega tvöfalda líkamsþyngd sína í bekk.

Eftir að hafa eytt fimm árum í ensku D-deild­inni náði AFC Wimbledon þeim árangri á liðnu tíma­bili að kom­ast í um­spil um sæti í næstu deild fyrir ofan, þriðju efstu deild í Englandi. Það ­gerði liðið undir stjórn Neil Ardley, sem lék árum saman með Wimbledon F.C. eftir að hafa komið upp í gegnum ung­linga­starf þess. Liðið komst í gegn­um und­anúr­slit umspils­ins með hádramat­ískum sigri á Accr­ington Stanley þar sem ­stjörnu­fram­herji liðs­ins, Lyle Taylor, skor­aði í fram­leng­ingu til að tryggja lið­inu sæti í úrslita­leik gegn Plymouth Argyle á Wembley. Já, AFC Wimbledon var að fara að spila á Wembley.

Og það merki­lega var að úrslita­leik­ur­inn ­fór fram fjórtán árum upp á dag eftir að AFC Wimbledon var stofn­að. 

Auð­vitað gat úrslita­leik­ur­inn ein­ungis farið á einn veg. Sögur eins og þessar verða að vera með góðum end­i, og AFC Wimbledon vann 2-0. Til að gera þetta allt saman enn Hollywood-­legra skor­aði Adebayo Akin­fenwa, tæp­lega 110 kíló vöðva­buffið sem tekur 180 kíló í bekk og kallar sjálfan sig „Skepn­una“ (e. Beast), síð­asta mark leiks­ins á n­í­undu mín­útu upp­bót­ar­tíma úr víti eftir að hafa rif­ist við létt­ari liðs­fé­laga sína um hver ætti að taka það.

Akin­fenwa er gríð­ar­lega vin­sæll á með­al­ ­stuðn­ings­manna, enda einn sér­kenni­leg­asti knatt­spyrnu­maður sem fyrir finnst. ­Þrátt fyrir það mun hann lík­lega ekki fá nýjan samn­ing í sum­ar, þegar sá ­gild­andi rennur út. Hann not­aði tæki­færið í við­tali við breska sjón­varps­menn eftir úrslita­leik­inn til að fara aðeins yfir þá stöðu. Sjón er sögu rík­ari.



Það sem gerir næsta tíma­bil enn á­huga­verð­ara og dramat­ískara fyrir AFC Wimbledon er að þá mun liðið leika í sömu deild og liðið sem stal kenni­tölu þess, hið sál­ar­lausa MK Dons. Liðin hafa áður mæst í bik­ar­leikjum en ljóst er að fátt er sæt­ara í aug­um ­stuðn­ings­manna AFC Wimbledon en að lið þeirra standi nú jafn­fætis MK Dons. Þeir bera þá gleði þó ekki á torg og segjast raunar ekk­ert hlakka neitt sér­stak­lega til leikja sinna við MK Dons eða ætla að gera neitt stór­mál úr þeim. Ástæðan er sú að AFC Wimbledon stuðn­ings­menn við­ur­kenna ekki til­veru­rétt MK Dons og vilja því ekki gefa lið­inu það vægi að vera erki­fj­endur sín­ir. Þannig er það þó auð­vitað í raun­veru­leik­an­um.

Lík­leg­ast verða næstu ár ­tölu­vert basl hjá lið­inu. Umfang rekst­urs þess er fjarri því að vera á pari við það sem er hjá flestum öðrum liðum í þriðju efstu deild. Til að takast á við þennan veru­leika hafa stjórn­endur liðs­ins m.a. barist fyrir því að fá að ­byggja nýjan leik­vang, stein­snar frá því sem gamli heima­völl­ur­inn Plough Lane v­ar. Nýi völl­ur­inn, sem nýr borg­ar­stjóri í London mun taka ákvörðun um hvort verði að veru­leika á allra næstu miss­erum, á að ­taka ell­efu þús­und manns í sæt­i en ­mögu­leiki verður á því að stækka hann upp í að taka 20 þús­und í sæti, haldi ævin­týrið áfram. Völl­ur­inn, verði hann byggð­ur, verður auð­vitað kenndur við Plough Lane.

Í gegnum allt þetta fjórtán ára æv­in­týri hafa sauð­tryggir áhan­gendur AFC Wimbledon sungið stans­laust til­ ­stuðn­ings sínu liði. Einn söngvanna sem fylgt hefur þeim í gegnum allt það tíma­bil er: „Show Me the Way to Plough Lane. I’m tired and I want to go home. / I had a foot­ball ground twenty years ago / And I want one of my own.”

Allir með hjarta hljóta að vona að þessum þol­in­móðu, dass sturluðu en dásam­legu knatt­spyrnu­á­han­gendum verði að ósk sinni.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None