Þórsmörk ehf., eigandi Árvakurs, tapaði 160 milljónum króna á árinu 2015. Allt tapið, og rúmlega það, er vegna hlutdeildar Þórsmerkur í tapi dótturfélaga sinna, Árvakurs, sem gefur út Morgunblaðið og rekur mbl.is, og Landsprents, sem rekur prentsmiðju. Samanlagt töpuðu dótturfélögin 163 milljónum króna á árinu 2015. Það er tæplega fjórum sinnum meira tap þeirra á árinu 2014, þegar Árvakur og Landsprent töpuðu samtals 42 milljónum króna. Þá var allt það tap vegna rekstur Árvakurs. Þetta kemur fram í ársreikningi Þórsmerkur fyrir árið 2015, sem skilað var inn til ársreikningaskráar í júní.
Árvakur hefur tapað umtalsverðum fjárhæðum á undanförnum árum. Rekstrartap félagsins var 667 milljónir króna árið 2009. Árið eftir tapaði það 330 milljónum króna alls og árið 2011 nam tapið 205 milljónum króna. Tapið 2012 var 47 milljónir króna. Árið 2013 skilaði Árvakur sex milljóna króna hagnaði en 2014 var reksturinn aftur kominn öfugu megin við núllið. Þá tapaði félagið 42 milljónum króna.
Ef tap Þórsmerkur í fyrra er allt vegna tapreksturs á fjölmiðlafyrirtækinu Árvakri, líkt og verið hefur árin á undan, þá nemur tap Árvakurs frá 2009, þegar uppistaðan í núverandi eigendahópi eignaðist félagið, og til loka síðasta árs verið tæplega 1,5 milljarðar króna.
Félög með tengsl við útveg eiga 96 prósent
Þórsmörk ehf. er að langmestu leyti í eigu félaga sem tengjast stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins.
Á meðal þeirra sem stýra félögum sem eiga hlut er Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja (18,43 prósent), Sigurjón Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga (9,10 prósent. Félagið sem hann stýrir er síðan að fullu í eigu Kaupfélagsins), Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis (1,97 prósent), Gunnþór Ingvarsson, forstjóri Síldarvinnslunnar, (6,14 prósent) Ólafur Marteinsson, forstjóri Ramma (6,14 prósent), Einar Valur Kristjánsson, forstjóri hraðfrystihússins Gunnvarar (1,72 prósent), Aðalsteinn Ingólfsson, forstjóri Skinney-Þinganes (4,10 prósent) og dánarbú Páls Hreins Pálssonar, stofnanda Vísis og föður þingmanns Framsóknarflokksins Páls Jóhanns Pálssonar (2,05 prósent). Samtals eiga þessir aðilar 49,65 prósent hlut í Þórsmörk, og þar með Árvakri.
Stærsta hlutinn í Þórsmörk og Árvakri, og þar af leiðandi í Morgunblaðinu, eiga hins vegar félög tengd Ísfélagi Vestmannaeyja. Hlynur A ehf., einkahlutafélag Guðbjargar Matthíasdóttur, aðaleiganda Ísfélagsins og á 16,38 prósent hlut, Ísfélagið á beint 13,34 prósent hlut. Auk þess keypti félag sem heitir Legalis 12,37 prósent hlut Óskars Magnússonar, sem leiddi kaupin á Árvakri árið 2009 og starfaði sem útgefandi félagsins árum saman, í fyrra. Sigurbjörn Magnússon veitir því félagi forstöðu en eigendur þess eru sagðir hann, Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson og Hanna Ólafsdóttir. Gunnlaugur Sævar er stjórnarformaður Ísfélags Vestmannaeyja og Sigurbjörn situr í stjórn þess. Samanlagt eiga því aðilar með bein tengsl við Ísfélag Vestmanneyinga 42,09 prósent hlut.
Stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins eiga því 91,74 prósent í Þórsmörk og Árvakri. Þegar við bætist hlutur sem Halldór Kristjánsson, tengdasonur fyrrum eigenda Stálskipa, fer þetta hlutfall þeirra sem eru með sterka sjávarútvegstengingu upp í 95,84 prósent.
Flestir forsvarsmenn félaganna hittast víðar en á hluthafafundum Árvakurs. Þeir sitja nær allir í stjórn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), sem áður hét Landssamband íslenskra útgerðarmanna (LÍÚ).
Aðrir eigendur eru Þorgeir Baldursson, fyrrverandi forstjóri Odda (0,08 prósent), Jón Pálmason, sem á m.a. Ikea á Íslandi ásamt bróður sínum (2,05 prósent) og er bróðir Ingibjargar Pálmadóttur, aðaleiganda 365 miðla, og Ásgeir Bolli Kristinsson, fjárfestir sem oftast hefur verið kenndur við tískuvöruverslunina Sautján (2,05 prósent).
Því er ljóst að stórir hagsmunaaðilar í íslensku samfélagi halda um alla þræði í félaginu sem á Morgunblaðið. Fyrir utan hina mjög sýnilegu tengingu við sjávarútvegsfyrirtæki landsins nær það net víðar. Kaupfélag Skagfirðinga, sem á 9,1 prósent hlut í Þórsmörk, á til að mynda hlut í Mjólkursamsölunni. Félög tengd Guðbjörgu Matthíasdóttur eiga eitt stærsta heildsölufyrirtæki landsins, Íslensk Ameríska. Þá eiga félög tengd Samherja m.a. stóran hlut í Olís.
Í umboði Þórsmerkur sitja fimm manns í stjórn Árvakurs. Sigurbjörn Magnússon er stjórnarformaður en auk hans sitja þar Ásdís Halla Bragadóttir (fyrrum bæjarstjóri Garðabæjar fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins og einn aðaleiganda heimaþjónustunnar Sinnum), Bjarni Þórður Bjarnason (framkvæmdastjóri Arctica Finance), Katrín Pétursdóttir (forstjóri Lýsis) og Friðbjörn Orri Ketilsson (fyrrum ritstjóri og ábyrgðarmaður vefsins amx.is, sem hætti starfsemi 1. október 2013).
Grundvöllurinn viðskiptalegs eðlis
Uppistaðan í þessum hópi hefur átt ráðandi hlut í Morgunblaðinu frá því í febrúar 2009. Þá var tilkynnt að hópur undir forystu Óskars Magnússonar hefði stofnað félagið Þórsmörk ehf., sem myndi eignast Árvakur með yfirtöku skulda og nýju hlutafé.
Óskar sagði við Morgunblaðið að þessu tilefni að markmiðið með kaupunum væri „fyrst og fremst það að reka góðan, traustan og trúverðugan fjölmiðil sem Morgunblaðið hefur verið og koma honum upp úr því fari sem hann hefur verið í að undanförnu[...]Við teljum að það megi gera úr þessu góðan og arðvænlegan rekstur. Það er aðalmarkmið þeirra fjárfesta sem hafa komið til liðs við mig í þessu verkefni til þessa. Svo eru sjálfsagt mismunandi ástæður hjá hverjum og einum. Eflaust bera allir einhverjar tilfinningar til Morgunblaðsins, hafa áhuga á þessu merka fyrirbæri í íslenskri fjölmiðlasögu og vilja af ýmsum ástæðum að það blað verði gefið út áfram. Grundvöllurinn er samt sem áður viðskiptalegs eðlis“.
Kaupverðið ekki gefið upp
Til að eignast Árvakur þurfti ekki að borga Íslandsbanka neitt. Það þurfti einfaldlega að yfirtaka einhverjar skuldir og leggja til nýtt hlutafé. Samkvæmt tilkynningu Íslandsbanka um málið kom fram að um 200 milljónum króna hefði munað á tilboði Þórsmerkur og næsthæsta tilboðinu, sem var frá félagi í eigu Steve Cosser og viðskiptafélaga hans Everhard Visser. Kaupverðið var hins vegar ekki gefið upp.
Nýir eigendur réðust ekki í neinar sérstakar breytingar innanhúss fyrst um sinn. Ólafur Stephensen, sem hafði verið ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins sumarið 2007, hélt stóli sínum og engar stórvægilegar uppsagnir voru boðaðar. Það breyttist allt um miðjan september þegar Ólafi var sagt upp störfum. Ólafur, sem er yfirlýstur Evrópusambandssinni, hafði haldið á lofti stefnu í þeim málaflokki sem var nýjum eigendum ekki að skapi. Auk þess voru þeir ekki ánægðir með afstöðu sem birtist í ritstjórnarskrifum blaðsins í Icesave-málinu, sem þá var farið að taka á sig býsna hatramma mynd. Í þeim skrifum hafði samningaleið verið gert hátt undir höfði. Ítrekað hafði verið þrýst á Ólaf að skipta um kúrs í þessum málum, en hann hafði ávallt neitað.
Í stað Ólafs voru tveir nýir ritstjórar ráðnir. Þeir voru Haraldur Johannessen, fyrrum ritstjóri Viðskiptablaðsins, og Davíð Oddsson, fyrrum forsætisráðherra, seðlabankastjóri og formaður Sjálfstæðisflokksins. Haraldur er auk þess í dag framkvæmdastjóri bæði Þórsmerkur og Árvakurs.
Skýr stefnubreyting með nýjum ritstjórum
Með ráðningu þeirra Davíðs og Haraldar voru send skýr skilaboð um breytta stefnu blaðsins. Sú stefna hefur alla tíð síðan einkennst af nokkrum ráðandi þáttum: Andstöðu við vinstristjórnina sem sat frá 2009 - 2013, Evrópusambandið, Icesave-samninganna, breytingar á stjórnarskrá, RÚV og við breytingar á kvótakerfinu og aukna gjaldtöku á sjávarútvegsfyrirtæki. Það má með nokkurri vissu segja að hörð andstaða Morgunblaðsins og skoðanasystkina þess hafi borið mikinn árangur. Vinstristjórnin hrökklaðist frá sem ein óvinsælasta ríkisstjórn sögunnar, Evrópusambandsaðild hefur verið lögð á hilluna, Icesave-samningarnir fóru í þjóðaratkvæði og fyrir dómstóla, komið hefur verið í veg fyrir allar breytingar á stjórnarskrá, RÚV hefur verið fjársvelt og undið hefur verið ofan af álagningu veiðigjalda með þeim hætti að þau eru nú einungis brotabrot af því sem þau áttu að vera.
Á undanförnum misserum hefur bæst við mjög sterkur stuðningur við Sigmund Davíð Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, og þá skýringu að hann hafi verið leiddur í gildru eða orðið fyrir árás þegar hann sagði ósatt um aflandsfélag sitt í sjónvarpsviðtali snemma í apríl síðastliðnum. Blaðið beitti sér einnig mjög í síðustu forsetakosningum, sérstaklega í gagnrýni á frambjóðandann Guðna Th. Jóhannesson og í stuðningi við Davíð Oddsson, ritstjóra þess, sem var í framboði. Þessi stefna birtist sérstaklega í ritstjórnargreinum Morgunblaðsins. Síðustu vikurnar hefur meginþema þeirra skrifa verið að tala fyrir því að hætt verði við kosningar í haust.
Hafa sett 1,2 milljarða inn í félagið
Líkt og áður sagði var kaupverðið á Árvakri aldrei gefið upp. Hlutafé Þórsmerkur í félaginu var hins vegar metið á 300 milljónir króna í ársreikningi félagsins fyrir árið 2009. Því verður að teljast líklegt að það sé sú upphæð sem greidd hafi verið fyrir það. Til viðbótar settu nýir eigendur Árvakurs strax 150 milljónir króna inn í reksturinn á árinu 2009. Alls greiddu þeir 650 milljónir króna í hlutafé inn í Þórsmörk, svo ljóst var að þeir ætluðu sér að hafa borð fyrir báru. Í lok árs 2009 voru enn rúmlega 200 milljónir króna til að draga á frá eigendunum.
Ekki leið á löngu þar til að það fé var uppurið og hluthafarnir greiddu 540 milljónir króna í nýtt hlutafé inn í Árvakur árið 2012. Skömmu áður hafði Árvakur farið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu, númer tvö frá árinu 2009, á árinu 2011. Þá afskrifaði viðskiptabanki þess um einn milljarð króna af skuldum þess og gerði Árvakur að frekar skuldléttu félagi. Samanlagt hafði því um 4,5 milljarðar króna af skuldum félagsins verið afskrifaðar.
Kjarninn hefur ársreikning Þórsmerkur vegna ársins 2015 undir höndum. Þar kemur fram að eigendur félagsins hafi alls sett 1.221 milljónir króna inn í Þórsmörk, en eina eign félagsins er Árvakur og Landsprent, félag utan um rekstur prentsmiðju félagsins. Þar kemur einnig fram að kröfur á tengd félög, sem eru ofangreind, hafi vaxið um 35 milljónir króna í fyrra og að eftirstandandi handbært fé Þórsmerkur sé 66 milljónir króna.
Raunar er taprekstur eitthvað sem eigendur Þórsmerkur/Árvakurs eru orðnir býsna vanir. Rekstrartap félagsins var 667 milljónir króna árið 2009. Árið eftir tapaði það 330 milljónum króna alls og árið 2011 nam tapið 205 milljónum króna. Tapið 2012 var 47 milljónir króna. Árið 2013 skilaði Árvakur sex milljóna króna hagnaði en 2014 var reksturinn aftur kominn öfugu megin við núllið. Þá tapaði félagið 42 milljónum króna. Miðað við það sem kemur fram í ársreikningi Þórsmerkur um hlutdeild þess í tapi einu dótturfélaga sinna, Árvakurs og Landsprents, þá hefur tapið verið um 163 milljónir króna í fyrra.
Samtals nemur tap Árvakurs á tímabilinu 2009 til loka árs 2015, eða þann tíma sem uppistaðan í núverandi eigendahópi hefur átt félagið, því 1.448 milljónum króna króna.
Skuldir Árvakurs hafa lækkað umtalsvert undanfarin ár, sérstaklega vegna skuldaniðurfellinga viðskiptabanka félagsins, og voru um 1,1 milljarður króna í lok árs 2014. Langtímaskuldir hafa einnig minnkað hratt og voru um 536 milljónir króna. Ársreikningi Árvakurs fyrir 2015 hefur ekki verið skilað inn til ársreikningaskráar og því er liggja ekki fyrir upplýsingar um uppfærða skuldastöðu.