Mynd: Úr safni.

Hrunið: Bankarnir endurreistir og Deutsche Bank bauðst til að leysa Icesave

Gríðarleg endurskipulagning blasti við í íslensku efnahagslífi eftir bankahrunið. Það þurfti til að mynda að endurskipuleggja bankanna. Og reyna að leysa Icesave.

Sam­keppn­is­eft­ir­litið taldi að við banka­hrunið hafi um 70 pró­sent af 120 stærstu fyr­ir­tækjum lands­ins verið undir beinum eða óbeinum yfir­ráðum banka. Annað hvort voru bank­arnir bein­línis búnir að taka fyr­ir­tækin yfir eða skulda­staða þeirra var þess eðlis að þau voru í gjör­gæslu bank­anna og gátu ekki ráðið sínum málum sjálf. Þessi 120 fyr­ir­tæki mynd­uðu um helm­ing íslensks þjón­ustu­mark­að­ar.

Þótt ekki hafi verið birtar rann­sóknir sem sýna hver staðan var hjá öllu atvinnu­líf­inu var það skoðun Sam­keppn­is­eft­ir­lits­ins og allra stóru bank­anna að þessa tölu, 70 pró­sent, megi í raun yfir­færa á starf­semi lands­ins í heild. Því stóðu stjórn­völd, stofn­anir og atvinnu­fyr­ir­tæki frammi fyrir risa­vöxnu og ein­stöku verk­efni. Hvernig átti að end­ur­skipu­leggja allt á Íslandi? Og hver átti að gera það?

Aug­ljós­asta svarið var að bank­arn­ir, sem héldu að mestu leyti á skuldum atvinnu­lífs­ins, ættu að sjá um end­ur­skipu­lagn­ing­una. Vanda­málið var að bank­arnir sjálfir voru ekki fjár­magn­aðir og óvissa ríkti um hvort sú leið sem farin var við stofnun þeirra myndi halda. Þeir höfðu því ekki getu til að takast á við það risa­vaxna verk­efni sem þeir þurftu – og áttu – að taka að sér.

Þurfti að end­ur­skipu­leggja bank­ana

Snemma árs 2009 blasti því þessi staða við. Það þurfti að end­ur­skipu­leggja bank­ana þrjá, Lands­banka, Íslands­banka og Arion banka, áður en þeir gátu farið að end­ur­skipu­leggja við­skipta­vini sína. Skipti þar engu hvort um var að ræða fyr­ir­tæki eða ein­stak­linga. Banki sem veit í raun ekki hversu miklar eignir eða skuldir hann á getur ekki ráð­ist í að að skrifa niður skuldir ann­arra.

Þegar bank­arnir þrír voru stofn­settir voru allar inn­stæður færðar yfir í þá. Til að standa undir þeim var mikið magn eigna, sem með réttu til­heyrði kröfu­höfum föllnu bank­anna, fært með. Virði þess­ara eigna var mjög óljóst. Í neyð­ar­lög­unum seg­ir: „Fjár­mála­eft­ir­lit­inu er heim­ilt að taka í sínar vörslur þær eignir sem mæta eiga skuld­bind­ingum fjár­mála­fyr­ir­tækis og láta meta verð­mæti eigna og ráð­stafa þeim til greiðslu áfall­inna krafna eftir því sem þörf kref­ur“. Við þær aðstæður sem ríktu um haustið 2008 og fram á vorið 2009 treysti sér hins vegar eng­inn til að meta eign­irnar nákvæm­lega og miklir fyr­ir­varar voru gerðir við öll möt sem skilað var.

Sam­kvæmt þeirri áætlun sem lagt var upp með í neyð­ar­lög­unum og við stofnun nýju bank­anna var slíkt verð­mat nauð­syn­legt. Kröfu­haf­arnir áttu að fá allt umfram­virði þeirra eigna sem færðar voru til nýju bank­anna til banka með skulda­bréfi þegar búið væri að leggja mat á þær. Eign­irnar voru sann­ar­lega færðar yfir á lágu virði. Það má segja að gef­inn hafi verið afsláttur af þeim. Sá afsláttur var ekki hugs­aður sem var­an­legur afslátt­ur. Alltaf stóð til að virð­is­aukn­ingu, eigna umfram það sem þurfti til að mæta inn­stæð­um, yrði skilað til kröfu­haf­anna.

Í bráða­birgða­stof­nefna­hags­reikn­ingum bank­anna þriggja, sem gerðir voru 14. nóv­em­ber 2008, var gert ráð fyrir að eignir þeirra yrðu 2.886 millj­arða króna virði. Þar af myndi ríkið leggja þeim til 385 millj­arða króna og síðan yrðu gefin út skulda­bréf til gömlu bank­anna sem greiðsla fyrir mis­mun eigna og skulda. Virði þeirra skulda­bréfa átti að vera 1.153 millj­arðar króna. Deloitte var síðan fengið til að leggja mat á yfir­færðar eignir og skuld­ir. Því mati var skilað 22. apríl 2009 og gaf til kynna að end­ur­heimtur lána sem færð voru yfir í nýju bank­anna yrðu 47-55 pró­sent. Það þýddi að útgefin skulda­bréf til gömlu bank­anna yrðu sam­tals 442-766 millj­arðar króna. Þau skulda­bréf áttu að greið­ast í erlendum gjald­eyri. Deloitte fór hins vegar fram á algjört skað­leysi. Sam­kvæmt því gat fyr­ir­tækið ekki undir neinum kring­um­stæðum verið gert ábyrgt fyrir mat­inu ef kröfu­hafar myndu rengja það fyrir dóm­stól­um.

Það kom í hlut ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, og fjármálaráðherrans Steingríms J. Sigfússonar, að klára fjármögnun á bankakerfinu.
Mynd: EPA

Kröfu­hafar bank­anna voru ekki sáttir við þá áætlun sem lögð hafði verið fram. Þeir töldu hana ein­hliða og að þeir hefðu ekki haft mögu­leika á að gæta hags­muna sinna með almenni­legum hætti. Íslenskir ráða­menn voru smeykir um að kröfu­haf­arnir gætu, á grund­velli inn­lends og alþjóð­legs skipta­rétt­ar, eða á eign­ar­rétt­ar­á­kvæði stjórn­ar­skrá­ar­inn­ar, farið með deil­una fyrir dóm­stóla. Þar hrædd­ust þeir ekki ein­ungis mögu­legt tap heldur einnig áhrif þess að draga draga fjár­mögnun nýju bank­anna úr hófi. Ef ekki tæk­ist að fjár­magna þá og hefja vinn­una við að end­ur­skipu­leggja atvinnu­lífið yrðu áhrif krepp­unnar mun verri en þegar stefndi í. Auk þess blasti við sú blá­kalda stað­reynd að íslenska ríkið var ein­fald­lega ekki í stakk búið til að fjár­magna alla bank­ana þrjá. Það hefði þýtt auka­skuld­setn­ingu upp á nokkur hund­ruð millj­arða króna og auka vaxta­kostnað sem myndi fylgja henni.

Í huga Stein­gríms J. Sig­fús­son­ar, sem tók við emb­ætti fjár­mála­ráð­herra snemma árs 2009, og þeirra sem unnu náið með honum gerðu þessar aðstæður það að verkum að þrjár leiðir voru fær­ar: Að sam­komu­lag næð­ist við kröfu­hafa um end­an­legt virði þeirra eigna sem teknar voru yfir í nýju bank­anna, að gerð­ar­dómur yrði feng­inn til að skera úr um slíkt eða að haldið yrði áfram með ein­hvers konar upp­gjörs- og mats­ferli, þar sem við­bót­ar­virði eigna yrði skilað í þrota­bú­ið. Þeim þótti lang­skyn­sam­leg­asta leiðin á þeim tíma að ná sam­komu­lagi við kröfu­haf­ana. Sú afstaða stjórn­valda leiddi til þess að end­ur­reisn­ar­á­ætlun banka­kerf­is­ins var breytt þannig að ákveðið var að reyna að ná nið­ur­stöðu um virði eigna með samn­ingum frekar en með ein­hliða ákvörð­un.

Fyrsta hreina tveggja flokka vinstri stjórnin við völd

Fjár­mála­ráðu­neytið sá um við­ræður fyrir hönd nýju bank­anna. Til að leiða þær var Þor­steinn Þor­steins­son ráð­inn, vanur samn­inga­maður sem hafði meðal ann­ars starfað lengi hjá Nor­ræna fjár­fest­inga­bank­an­um. Síðar var alþjóð­lega ráð­gjafa­fyr­ir­tækið Hawk­point einnig fengið til að koma að við­ræð­unum fyrir Íslands hönd. Hinum megin við borðið sátu skila­nefndir gömlu bank­anna, studdar af full­trúum kröfu­hafa.

Á þessum tíma­punkti, snemma árs 2009, var fyrsta hreina tveggja flokka vinstri stjórnin nýsest að völdum á Íslandi. Stein­grímur J. Sig­fús­son fékk það verk­efni að bera ábyrgð á end­ur­skipu­lagn­ing­ar­vinn­unni. Það blasti við Stein­grími og stjórn­völdum að það yrði að koma bönk­unum í gang strax. Þeir yrðu að fá end­an­legan efna­hags­reikn­ing og þá yrði að fjár­magna hratt og örugg­lega. Án þess yrði ekk­ert tekið á vanda­málum atvinnu­lífs­ins og ein­stak­linga.

Samn­inga­við­ræð­urnar fóru að mestu leyti fram í Reykja­vík í hús­næði rík­is­sátta­semj­ara en einnig í London í hús­næði Hawk­point og undir lokin í Reykja­vík í höf­uð­stöðvum LOGOS, sem var ráð­gjafi skila­nefnda Glitnis og Lands­bank­ans. Við­ræð­urnar voru eðli­lega afar flókn­ar, bæði út frá fjár­málum og lög­fræði. Að þeim kom fjöldi ráð­gjafa fyrir hönd allra sem þær snertu. Þar á meðal voru fjöl­margar lög­fræði­stof­ur, bæði inn­lendar og erlend­ar, og alþjóð­legir bankarisar á borð við UBS, Morgan Stan­ley, Barclays og Deutsche Bank.

Deutsche Bank átti mikið undir á Íslandi. Full­trúar hans höfðu kvartað mikið við íslensk stjórn­völd vegna neyð­ar­laga­setn­ing­ar­innar sem gerði inn­lán að for­gangs­kröf­um. Vegna stærðar sinnar í kröfu­hafa­hópnum og mik­illa tengsla við Ísland um margra ára skeið var aðgengi full­trúa Deutsche Bank að íslenskum ráða­mönnum meira en margra ann­arra. Bank­inn gat því lagt fram ýmsar „lausnir“ á Íslands­vand­anum sem aðrir fengu ekki tæki­færi til að leggja fram.

Ein slík lausn, sem virt­ist fylgja tölu­verð alvara, var að bank­inn myndi koma inn í og leysa Ices­a­ve-­málið þegar deilur um það stóðu sem hæst. Deutsche Bank lagði til að bank­inn myndi yfir­taka allar Ices­a­ve-inn­stæð­urnar ásamt eignum á móti, eða gamla Lands­bank­ann allan, og gera síðan upp lág­marks­inn­stæður við Breta og Hol­lend­inga, sem höfðu þá þegar greitt slíkar út til Ices­a­ve-­reikn­ings­eig­enda í lönd­unum tveim. Sam­hliða þessu yrði end­ur­samið um greiðslur á við­bót­ar­greiðslum land­anna til inn­stæðu­eig­enda umfram lág­marks­trygg­ing­una (e. top-up) sem höfðu einnig verið greiddar út og gerðar að for­gangs­kröf­um. Deutsche Bank og fleiri kröfu­hafar voru á því að umfram­greiðsl­urnar ættu aldrei að fá for­gang og að hægt yrði að auka end­ur­heimtir almennra kröfu­hafa með því að láta reyna á það. 

Af þessu varð aldrei.

Hvernig voru bank­arnir end­ur­reist­ir?

Þann 20. júlí 2009 var skrifað undir ramma­samn­ing (e. Head of Terms) við Glitni og Kaup­þing um hvernig ætti að ná sátt við kröfu­haf­ana. Sam­bæri­legur samn­ingur var gerður við Lands­bank­ann 10. októ­ber sama ár. Ástæður þess að ekki var samið saman við alla bank­ana sam­tímis var að í kröfu­hafa­hópi Glitnis og Kaup­þings voru skulda­bréfa­eig­endur ráð­andi. Hjá Lands­bank­anum var ráð fyrir því gert að meiri líkur en minni væru á því að ekki myndi nást að end­ur­heimta nægi­lega mikið af pen­ingum til að gera upp við for­gangs­kröfu­hafa, sem voru að mestu leyti Ices­a­ve-inn­stæðu­eig­end­ur.  

Þýski risabankinn Deutsche Bank átti mikið undir á Íslandi. Og bauð ýmsar lausnir á vanda landsins sem efasemdir voru um að högnuðust nokkrum öðrum en bankanum sjálfum.
Mynd: Úr safni

Í grófum dráttum sner­ist sam­komu­lagið við kröfu­hafa Glitnis og Kaup­þings um að þrotabú bank­anna, fyrir hönd kröfu­hafa, myndu eign­ast uppi­stöð­una í nýju bönk­unum sem stofn­settir voru utan um hluta eigna og skulda þeirra. Þannig myndi við­bót­ar­virði þeirra eigna sem færðar voru yfir í nýju bank­anna alltaf renna til kröfu­haf­anna með ein­hverjum hætti, án þess að það þyrfti að fara mats­leið til þess. Á móti losn­aði íslenska ríkið undan því að fjár­magna þessa tvo banka. En það sem mestu skipti á þessum tíma­punkti var að ef kröfu­haf­arnir gengju að sam­komu­lag­inu myndu bank­arnir fljót­lega verða full­fjár­magn­aðir og til­búnir til að takast á við þau umfangs­miklu end­ur­reisn­ar­verk­efni sem blöstu við í atvinnu­líf­inu.

Ritað var undir aðal­samn­inga við Glitni og Kaup­þing í byrjun sept­em­ber, en síðar varð nauð­syn­legt að gera tvo breyt­ing­ar­samn­inga við Kaup­þing. Sam­kvæmt þeim eign­uð­ust kröfu­hafar 87 pró­sent í Arion banka og 95 pró­sent í Íslands­banka. Afgang­ur­inn yrði í eigu íslenska rík­is­ins. Þegar samn­ing­unum lauk kom í ljós að þær eignir sem færðar höfðu verið frá Glitni til Íslands­banka voru 52 millj­örðum krónum verð­mæt­ari en þær skuldir sem færðar voru þang­að. Íslands­banki gaf því út skulda­bréf fyrir þeirri fjár­hæð til þrota­bús­ins. Hins vegar reynd­ust þær eignir sem voru færðar til Arion banka 38 millj­örðum krónum verð­minni en yfir­færðar skuld­ir. Kaup­þing þurfti því að gefa út skulda­yf­ir­lýs­ingu til Arion banka. Glitnir not­aði skulda­bréfið sitt til að eign­ast sinn 95 pró­senta hlut í Íslands­banka en Kaup­þing þurfti að leggja Arion banka til nýjar eignir til að greiða fyrir 87 pró­senta eign­ar­hlut sinn, sem var lágmarks­eign­ar­hlutur sam­kvæmt þeim mörkum sem íslensk stjórn­völd höfðu sett í við­ræð­un­um.

Önnur staða hjá Lands­bank­anum

Eins og áður sagði var staðan önnur hjá Lands­bank­an­um. Þar var kröfu­hafa­hóp­ur­inn öðru­vísi sam­sett­ur, líkur á almennum end­ur­heimtum taldar minni, auk þess sem þáver­andi fjár­mála­ráð­herra hafði engan áhuga að láta stærsta end­ur­reista bank­ann frá sér. Ríkið skyldi eiga hann áfram. Það var póli­tísk ákvörðun rík­is­stjórn­ar­innar sem sat að völd­um.

Sam­komu­lagið sem gert var með Lands­bank­ann og var und­ir­ritað í des­em­ber 2009 var þannig að ríkið hélt 81,3 pró­senta hlut í bank­anum en kröfu­haf­arnir fengu 12,7 pró­sent. Sam­hliða gaf Lands­bank­inn hins vegar út tvö skulda­bréf. Ann­að, sem var upp á 260 millj­arða króna í erlendri mynt, átti að greið­ast til baka fyrir árs­lok 2018 vegna yfir­tek­inna eigna. Hitt, sem var svo­kallað skil­yrt skulda­bréf, var bundið við virð­is­þróun eigna í tveimur eigna­söfn­um, Pegasus og Pony. Annað er safn lána til stærri fyr­ir­tækja og hitt til smærri fyr­ir­tækja.

Lána­söfnin voru færð yfir í nýja Lands­bank­ann á lágu verði. Ef virð­is­aukn­ing ætti sér stað átti nýi Lands­bank­inn að fá 15 pró­sent hennar en 85 pró­sent áttu að renna til þrota­bús gamla bank­ans. Sá hluti sem átti að fara til þrota­bús­ins átti að greið­ast með skil­yrta skulda­bréf­inu. Ef virði þess næði 92 millj­örðum króna fyrir árs­lok 2012 átti þrota­búið auk þess að afhenda eign­ar­hlut sinn í nýja bank­anum til rík­is­ins og nýja bank­ans.

Skemmst er frá því að segja að eign­irnar voru mun verð­meiri en reiknað var með í upp­hafi. Í apríl 2013 var skil­yrt skulda­bréf upp á 92 millj­arða króna gefið út til þrota­bús­ins og um 17 pró­senta hlutur var í stað­inn afhentur íslenska rík­inu, sem á þar með 98 pró­senta hlut í nýja Lands­bank­an­um. Það sem upp á vant­ar, tveggja pró­senta hlut­ur, rann til Lands­bank­ans og á þar að mynda stofn fyrir kaupauka­kerfi starfs­manna. Virði þess hlutar var um 4,5 millj­arðar króna í lok árs 2012. Í yfir­lýs­ingu sem bank­inn sendi frá sér vegna kaupauka­kerf­is­ins snemma árs 2010 sagði að af „frum­kvæði kröfu­hafa var gert sam­komu­lag á milli skila­nefndar Lands­banka Íslands hf. (gamla bank­ans), fjár­mála­ráðu­neyt­is­ins f.h. rík­is­sjóðs og Lands­bank­ans (NBI hf.) um að hluti hluta­bréfa í NBI hf. sem skila­nefndin heldur nú á, myndi stofn fyrir kaupauka­kerfi sem næði til allra starfs­manna“.

Kaupauka­kerfið átti þannig að verða verð­laun fyrir starfs­fólk bank­ans ef það næði að inn­heimta lánin sem voru inni í Pegasus og Pony söfn­unum með meiri ávinn­ingi fyrir þrota­bú­ið. Eins konar rukk­un­ar­verð­laun.

Kaupaukakerfið sem Landsbankinn setti upp fyrir starfsmenn sína var afar umdeilt.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þessi skulda­bréf sem samið var um að greiða kröfu­höfum Lands­bank­ans í erlendum gjald­eyri voru í upp­hafi árs 2013 ein sýni­leg­asta ógnin sem til staðar var gagn­vart íslenskum fjár­mála­stöð­ug­leika. Íslend­ingar voru ein­fald­lega ekki að fram­leiða nægi­lega mik­inn gjald­eyri til að hægt yrði að greiða þessa hund­ruði millj­arða króna.

Minni en lagt var upp með í byrjun

Eftir að samið hafði verið við kröfu­haf­ana um bank­ana þrjá og verð­meta eignir þeirra var stof­nefna­hags­reikn­ingur þeirra 1.760 millj­arðar króna. Auk þess var svokölluð skil­yrt verð­mæta­aukn­ing upp á 215 millj­arða króna. 

Í ein­földu máli sner­ist hún um að auknum inn­heimtum af ýmsum lánum til fyr­ir­tækja var skipt á milli þrota­bú­anna og nýju bank­anna. Sam­tals gerðu þetta eignir upp á tæp­lega 2.100 millj­arða króna. Bank­arnir reynd­ust því vera minni en lagt var upp með í byrjun en þeir voru samt mjög vel fjár­magn­aðir og til­búnir til að takast á við þær miklu afskriftir sem óhjá­kvæmi­lega myndu fylgja end­ur­skipu­lagn­ingu á rúm­lega 2/3 hluta íslensks atvinnu­lífs.

Frétta­skýr­ingin byggir að hluta til á efni sem birt­ist áður í bók­inni Ísland ehf - Auð­menn og áhrif eftir hrun eftir Magnús Hall­dórs­son og Þórð Snæ Júl­í­us­son.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar