Mynd: Aðsend

Við erum ekki að þýða samstöðuna gegn veirunni

Erlendum ríkisborgurum sem búa á Íslandi hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum árum. Þeir eru nú yfir 50 þúsund. Þær aðstæður sem nú ríkja í íslensku samfélagi skapa allskyns áskoranir fyrir þennan hóp sem eru kannski ekki sýnilegar öðrum. Kjarninn ræddi við borgarfulltrúa og verkefnastjóra hjá Reykjavíkurborg sem eru í framlínunni við að aðstoða nýju Íslendingana.

Á upp­gangs­tímum síð­ustu ára urðu til tug þús­undir starfa hér­lend­is. Flest í ferða­þjón­ustu og tengdum geirum en aukin neysla, og aukin eft­ir­spurn eftir hús­næði, kall­aði líka eftir mik­illi aukn­ingu á starfs­fólki í öðrum mann­afls­frekum geir­um. 

Hér­lendis var ekki til vinnu­afl til að manna þessi störf og Íslend­ingar fjölga sér ekki nægi­lega hratt til að „fram­leiða“ það vinnu­afl sem þurfti til. Því blasti við að það þurfti að flytja vinnu­aflið inn. Og það var gert að umfangi sem hefur ekki áður sést í Íslands­sög­unni.

Í byrjun mars síð­ast­lið­inn voru alls 50.309 erlendir rík­is­borg­arar búsettir hér­lend­is. Það er stærri hópur en allir eldri borg­arar lands­ins. Í þeirri tölu vantar þá sem komu hingað tíma­bundið til að starfa á vegum starfs­manna­leiga. Þrátt fyrir sam­drátt í ferða­þjón­ustu í fyrra og mun minni vöxt í hag­kerf­inu þá hélt þeim samt sem áður áfram að fjölga. 

Frá lokum árs 2011 hefur erlendum rík­is­borg­urum sem hér búa fjölgað um 30 þús­und tals­ins. Þeir eru nú 13,8 pró­sent lands­manna. Lang­flestir útlend­ing­anna sem hér búa koma upp­runa­lega fá Pól­landi, eða tæp­lega 21 þús­und alls. 

Auglýsing

Það blasti alltaf við að að þessi hópur yrði fyrir meiri áhrifum en flestir aðrir sem mynda íslenskt sam­fé­lag þegar skó­inn færi að kreppa að. Þar til fyrir nokkrum vikum var þó búist við mjúkri lend­ingu. Það hefur gjör­breyst.

Fyrir helgi var staðan sú að 46 þús­und manns, rúm­lega fjórð­ungur íslensks vinnu­mark­að­ar, var annað hvort án atvinnu eða á hluta­bót­um. Af þeim rúm­lega 30 þús­und sem sótt höfðu um hluta­bætur vegna minnk­aðs starfs­hlut­falls eru tæp­lega fjórð­ungur erlendir rík­is­borg­ar­ar.

Vant að fá upp­lýs­ingar frá heima­land­inu

Það eru margs­konar áskor­anir sem blasa við þeim hópi inn­flytj­enda sem hér búa þegar for­dæma­lausar aðstæður sem inni­halda heilsu­vá, stór­kost­lega skerð­ingu á frelsi og áður óséð atvinnu­leysi vegna þess að botn­inn datt á nokkrum vikum úr efna­hags­líf­inu, að minnsta kosti tíma­bund­ið. 

Sabine Leskopf, borg­ar­full­trúi Sam­fylk­ing­ar­innar í Reykja­vík, og Edda Ólafs­dótt­ir, verk­efna­stjóri á vel­ferð­ar­sviði Reykja­vík­ur­borg­ar, eru í fram­varð­ar­sveit Reykja­vík­ur­borg­ar, þar sem lang­flestir erlendu rík­is­borg­ar­arnir búa, sem tekst á við þær áskor­an­ir. 

Sabine segir að áskor­anir inn­flytj­enda séu að ein­hverju leyti þær sömu og Íslend­ingar tak­ist á við í þessum aðstæð­um. Það hafa til að mynda allir áhyggjur af heilsu sinni og sinna. „Það sem er öðru­vísi er til dæmis hvernig fólk fær upp­lýs­ing­ar. Stóra vanda­málið er van­traustið gagn­vart þeim stjórn­völdum sem eru að miðla upp­lýs­ing­unum nún­a.“

Sabine Leskopf, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.
Mynd: Aðsend

Hún segir að ein birt­ing­ar­mynd þessa sé sú að for­eldrar af erlendum upp­runa séu síður að senda börn sín í skóla þrátt fyrir að þeir séu opn­ir. Það ráð­ist af því að í heima­löndum þeirra séu þeir lok­að­ir. „Þótt Vísir og RÚV séu til dæmis komin með fréttir á pólsku, sem er frá­bært, þá eru Pól­verjarnir sem búa hérna ekki að skoða þá vefi og þeir byrja ekki á því bara allt í einu. Fólk er vant því að fá upp­lýs­ingar frá heima­land­inu. Úr fjöl­miðlum þar.“

Edda bendir á að hér sé líka ört stækk­andi hópur flótta­fólks, en 530 manns ­fengið vernd, komið hingað sem kvótaflótta­menn eða vegna fjöl­skyldu­sam­ein­ing­ar á síð­asta ári. „Vel­ferð­ar­svið borg­ar­innar hefur áhyggjur af þessum hópi. Í þessum hópi eru ein­stak­lingar sem líða af áfallat­reitu og þetta er enn eitt áfallið sem það er það takast á við.“

Margt sé þó líka vel gert. Upp­lýs­inga­gjöf á COVID.is síð­unni sé til að mynda nú til fyr­ir­myndar þótt það hafi tekið smá tíma að þýða upp­lýs­ing­arnar þar yfir á fleiri tungu­mál og til staðar sé mik­ill sjá­an­leg­ur á­hugi á að standa betur að upp­lýs­inga­gjöf til þessa hóps.

Hið opin­bera þarf að ráða fleiri inn­flytj­endur

Sabine segir að það muni taka ein­hverjar vikur fyrir stöð­una í atvinnu­málum inn­flytj­enda að teikn­ast almenni­lega upp, þótt sterkar vís­bend­ingar séu þegar komnar fram um áhrif. Atvinnu­mála­stefnan hér­lendis hafi verið þannig að Ísland hefur ekki verið að reyna að gera sig aðlað­andi fyrir vel menntað starfs­fólk með því að skapa störf fyrir það, heldur hafi starfs­greinar sem séu vinnu­afls­frekar og búi til störf sem krefj­ist ekki mik­illar mennt­unar verið í for­grunn­i. 

Edda Ólafsdóttir, verkefnastjóri hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar.
Mynd: Hringbraut

Edda bendir á að kreppan sem nú hefur skollið á komi í beinu fram­haldi af víð­tækum verk­föllum í leik­skólum þar sem margir for­eldrar þurftu að vera mikið frá vinnu. Inn­flytj­endur séu margir hverjir með lítið eða ekk­ert bak­land hér­lendis til að hjálpa sér að takast á við þá stöðu og því lítið annað í boða en skert við­vera í vinnu. „Við höfum áhyggjur af þessum hópi en við vitum lika að það eru margir Íslend­ingar í sam­bæri­legri stöð­u.“

Reykja­vík­ur­borg hefur verið mjög áfram um það árum saman að ráða starfs­fólk af erlendum upp­runa inn í stjórn­sýslu borg­ar­inn­ar. Hún hefur til að mynda haldið úti Face­book-­síðum með upp­lýs­ingum á ensku og pólsku frá árinu 2012. Af því býr borgin nú þegar nauð­syn­legt er að þýða mikið magn af upp­lýs­ingum sem þarf að koma til þeirra fjöl­mörgu íbúa hennar sem skilja ekki íslensku. 

Sabine segir að þannig sé staðan ekki hjá rík­inu. Það hafi ein­fald­lega vantað veru­lega upp á að til dæmis ráðu­neytin og und­ir­stofn­anir þess hafi ráðið fólk af erlendum upp­runa í störf, þrátt fyrir að hún viti að margir úr þeim hópi sæki um störf­in. „Það er alltaf ráð­inn Íslend­ingur sem hefur búið í Sví­þjóð. Ef við hleypum inn­flytj­end­unum aldrei að þrátt fyrir góða menntun og íslensku­kunn­áttu þá verðum við áfram með þetta tví­skipta sam­fé­lag sem við erum að glíma við.“

Auglýsing

Flest landa­mæri upp­runa­landa þeirra erlendu rík­is­borg­ara sem hér búa eru sem stendur lok­uð. Þrátt fyrir að fólk sem lendir í til dæmis atvinnu­missi á Íslandi myndi vilja fara aftur til heima­lands­ins þá er það sem stendur nán­ast ómögu­legt fyrir það að kom­ast þang­að.  

Sabine seg­ist skynja að það séu margir í hópi inn­flytj­enda að velta þess­ari stöðu fyrir sér. Hún heyri þó víða að fólk efist um að staðan í heima­land­inu sé betri og því sé mjög ólík­legt að það myndi fara héð­an, þótt það gæt­i. 

Erum ekki að þýða sam­stöð­una

Þessi staða gerir það að verkum að í aðstæðum eins og þeim sem nú eru uppi þá liggja ekki fyrir leiðir til að ná til ýmissa jað­ar­hópa í sam­fé­lag­inu, að sögn Eddu. Þeir ­geta auð­veld­lega gleymst. Dæmi um það sé til dæmis það að fólk sé hvatt til að hringja í síma 1700 til að til­kynna um grun um COVID-19 smit í stað þess að mæta á heilsu­gæsl­ur. Við upp­setn­ingu á því kerf­i virð­ist sem ekki hafi verið gert ráð ­fyrir fólki sem tali hvorki íslensku né ensku. 

Sabine tekur undir þetta og bendir á að það nán­ast almenna traust sem íslenskir rík­is­borg­arar bera til þrí­eyk­is­ins Ölmu Möller land­lækn­is, Þór­ólfs Guðna­sonar sótt­varn­ar­læknis og Víðis Reyn­is­son­ar, yfir­lög­reglu­þjóns hjá almanna­varn­ar­deild rík­is­lög­reglu­stjóra, sé ekki til staðar hjá mörgum erlendum rík­is­borg­ur­um. Þegar hún hafi hlustað á lagði „Ferð­umst inn­an­hús­s“, sem sló í gegn í vik­unni í flutn­ingi stór­kostaliðs íslenskra tón­list­ar­manna og þrí­eyk­is­ins svo­kall­aða, þá hafi hún skynjað þessi skýru skila­boð um að standa saman víða í kringum sig. „En við erum ekki að þýða sam­stöð­una í skila­boð sem ná til inn­flytj­enda eða ann­arra erlendra rík­is­borg­ara í sama mæli.“

Framkvæmdir eru enn víða í fullum gangi. Edda segir að sér virðist sem að tilmæli um fjarlægð milli manna séu ekki virt þar, en flestir sem þar starfa eru erlendir ríkisborgarar. Myndin er úr safni.
Mynd: Bára Huld Beck

Edda bendir á að við sem sam­fé­lag þurfum að vera mjög vak­andi fyrir þessum hópi. Hann gleym­ist ein­fald­lega oft. „Þau eru þarna þegar við þurfum á þeim að halda en ann­ars viljum við sem minnst af þeim vita. Ég keyri oft fram­hjá stórum vinnu­svæð­um. Bygg­inga­svæð­um. Þar eru margir verka­menn enn að vinna, og allar líkur á að flestir þeirra séu útlend­ing­ar. Ég sé þá oft í mik­illi nálægt við hvora aðra, til dæmis saman inni í bíl­um, og velti því fyrir mér hvort að upp­lýs­ingar um til að mynda tveggja metra regl­una séu að ber­ast til þeirra.“ 

Sam­fé­lagið hefur sætt sig við tví­skipt­ingu

Sabine segir að íslenskt sam­fé­lag hafi sætt sig við að sam­fé­lagið sé tví­skipt. Það íslenska sem sé í góðum málum og hið útlenska sem virkar og glímir ekki við stór sýni­leg vanda­mál. „Út­lend­ing­arnir sinna störfum sín­um, trufla ekki mik­ið, krefj­ast ekki mik­ils en við erum ekki að taka þau að fullu inn í okkar sam­fé­lag. Inn­flytj­end­urnir hafa líka margir hverjir sætt sig við þetta ástand. Þar er svo að finna ákveðna stétta­skipt­ingu. Þar er hópur sem talar góða íslensku, á íslenska vini og tekur þátt í íslenska sam­fé­lag­inu. Við erum svo með annan hóp sem á sam­skipti við aðra en þau fara öll fram á ensku. Svo erum með þriðja hóp­inn, mest kannski pólska sam­fé­lag­ið, sem er orðið svo sjálf­bært að lítil tengsl séu við íslenska mál­sam­fé­lag­ið.“

Til þess að byggja brýr milli þess­ara hópa og íslenska sam­fé­lags­ins þurfi að auka áherslu á íslensk­una en líka breyt­ingar í við­horfum allra. Edda bendir á að afar ­mik­il­vægt sé læra af reynsl­unni sem fæst af yfir­stand­andi aðstæðum og tryggja í fram­tíð­inni að það verði reiknað með þessum hópi í upp­lýs­inga­gjöf þegar upp kemur ein­hvers­konar vá. „Við megum ekki gleyma þessum mik­il­væga hópi og verðum að reikna með honum í okkar við­brögðum hver sem þau eru.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar