Fjáfestingafélagið Berkshire Hathaway, sem Warren Buffett stýrir enn sem stjórnarformaður og forstjóri, er við það að kaupa Precision Castparts (PC) fyrir um það bil 37,2 milljarða Bandaríkjadala, sem jafngildir um 4.800 milljörðum króna.
Warren Buffett just made his biggest deal ever http://t.co/NpFmNwJ1HF
— TIME.com (@TIME) August 10, 2015
Fyrirtækið er risi á heimsvísu í framleiðslu á ýmsum búnaði sem snýr að olíu-, gas- og flugiðnaði, þar á meðal er framleiðsla á pípum sem notaðar eru til olíuflutninga.
Stærstu kaupin í sögunni
Þessi kaup verða þau stærstu í sögu Berkshire Hathaway en upphæðin sem greidd er fyrir félagið jafngildir meira en tvöfaldri árlegri landsframleiðslu Íslands. Á undanförnum tveimur mánuður hefur markaðsvirði PC lækkað um 19,7 prósent. Lækkunin er meðal annars rakin til erfiðra markaðsaðstæðna á olíumörkuðum en heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað um tæplega 60 prósent á innan við ári, með tilheyrandi hliðarverkunum á ýmsan iðnað sem á allt sitt undir olíuvinnslu og olíusölu. Í þessum aðstæðum sér Buffett tækifæri og lætur til skarar skríða í kjölfar skarprar lækkunar á markaðsvirðinu.
Warren Buffett's Berkshire Hathaway will feel the drop in oil prices #invest#investing#money#billion#finance#smart#love#stocks#exchange#follow#sky#me#wallstreet#stockmarket#way#famous#official#charisma#cars#rich#tallent#selfie#famouspeople#experience#realestate#qhotes#trade#technical#analysis#qhote A photo posted by Warren Buffett (@_warrenbuffett) on
Hvað býr að baki?
En hvað eru forsvarsmenn Berkshire að hugsa, með Buffett í broddi fylkingar, þegar kemur að þessum kaupum og raunar fleirum þar sem fjárfest er í innviðum samfélaga? Samkvæmt frásögn Wall Street Journal horfir Buffett til þess að fjárfestingar í traustum innviðum, sem hafa langan líftíma, sem trausta fjárfestingu fyrir stóran hluta þeirra langtímafjárfesta sem eru hluthafar í Berkshire. Þó Buffett stjórni því sem hann vill hjá félaginu, sem hann fjárfesti fyrst í árið 1962, sjö árum eftir stofnun þess, þá verður fjárfestingastefna félagsins að taka mið af þörfum hluthafanna.
Eftir hrunið á fjármálamörkuðum frá 2007 til 2009 og fall á fasteignamarkaði hefur Buffett horft í meira mæli til fjárfestinga sem teljast til innviða. Næststærsta fjárfestingin í sögu félagsins voru kaup á lestar- og lestarteinaframaleiðandanum Burlington Northern fyrir 26 milljarða Bandaríkjadala árið 2009. Hugsunin að baki þeirri fjárfestingu var svipuð og nú, samkvæmt frásögnum fjölmiðla: kaupa traustar langtímaeignir, sem hafa traustan rekstur og möguleika til þess að auka markaðsvirði á grunni hans.
Sterk vörumerki
En þrátt fyrir að langtímasýnin hafi verið á innviðafjárfestingar þá hefur Berkshire einnig horft til þess að eiga eignarhluti í þekktum alþjóðlegum fyrirtækjum sem hafa sterk vörumerki, sem geta staðið af sér skammtíma storma á mörkuðum. Þannig á félagið stóra eignarhluti í Coca Cola, IBM, Wells Fargo, Heinz og American Express, svo eitthvað sé nefnt.
Í fullu fjöri á níræðisaldri
Buffett, oft nefndur spámaðurinn frá Omaha, er fæddur í Nebraska þar sem höfuðstöðvar Berkshire Hathaway eru. Hann er 84 ára gamall en slær hvergi af þegar kemur að ákvörðunum um fjárfestingastefnu og lykilfjárfestingar. Hann hefur minnkað daglega vinnuskyldu sína töluvert en leggur þeim mun meira upp úr því að fylgjast vel með og hafa yfirsýn á mörkuðum og í rekstri Berkshire. Heildareignir Buffetts eru metnar á 66,7 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur 8.870 milljörðum króna, sem gerir hann að einum af fimm ríkustu einstaklingum heims. Hann hyggst ráðstafa þeim að stærstum hluta í þágu góðgerðarmála, en stærstur hluti eigna hans er þó bundinn í hlutafé Berkshire Hathaway.
Efnahagsreikningur þess félags er risavaxinn, en heildartekjur félagsins námu tæplega 200 milljörðum Bandaríkjadala í fyrra eða sem nemur tæplega 27 þúsund milljörðum króna. Í ljósi stærðar félagsins þarf það reglulega að fjárfesta til að koma peningum sínum í arðsama ávöxtun, og þar mun Buffett vafalítið halda áfram að láta til sín taka.