Skjáskot: BBC

Sonur mannsins með leppinn: „Svona flúði ég vígasamtök föður míns“

Dakota Adams, sonur leiðtoga vígasamtakanna the Oath Keepers, ólst upp við að heimsendir væri í nánd og að öruggast væri að klæðast herklæðum og eiga sem flestar byssur. Dakota tókst að frelsa móður sína og yngri systkini frá heimilisföðurnum, sem á nú yfir höfði sér 20 ára fangelsi fyrir aðild sína að árásinni á bandaríska þinghúsið. Dakota andar rólegar.

Hann var búinn að hugsa um flótt­ann árum sam­an. Herag­inn sem hann ólst upp við kom sér kannski vel við skipu­lagnin­una. En það var það sem hann var að flýja.

Svo rann dag­ur­inn upp. Kaldur og drunga­legur dagur í febr­úar 2018. Hann ætl­aði að hjálpa móður sinni og fimm yngri systk­inum að kom­ast undan ofríki föð­ur­ins á heim­il­inu.

Og það tókst.

„Ég lifði algjör­lega undir ógn­ar­stjórn and­legs hryðju­verka­manns,“ segir Dakota Adams, áður Dakota Stewart Rhodes, sem vill ekki lengur kenna sig við föður sinn á nokkurn hátt. Hann og móðir hans, Tasha Adams, segja frá hvernig þau, ásamt fimm yngri systk­inum Dakota, flúðu Rhodes og víga­sveit­ina sem hann leiddi, í ítar­legu við­tali við BBC.

Fað­ir­inn, Elmer Stewart Rhodes, er stofn­andi og leið­togi öfga- og víga­sveit­ar­innar the Oath Keepers. Í síð­ustu viku var Rhodes sak­felldur fyrir upp­reisn­ar­á­róður gegn banda­ríska rík­inu fyrir aðild sína að árásinni á banda­ríska þing­húsið í jan­úar 2021. Hann á yfir höfði sér 20 ára fang­els­is­dóm. Fjöl­skyldan sér loks fram á að geta end­ur­byggt líf sitt.

Upp­gangur vopn­aðra sveita borg­ara með auk­inni skautun

Elmer Stewart Rhodes er 57 ára fyrr­ver­andi fall­hlífa­her­­maður með lög­­fræð­i­gráðu frá Yale-há­­skóla. Kleinu­hringja­skegg og leppur fyrir vinstra aug­anu gera það að verkum að hann er auð­þekkj­an­legur og varð hann fljót­lega með þekkt­ari leið­togum vopn­aðra sveita borg­ara (e. militi­as) í Banda­ríkj­un­um.

Með auk­inni skautun eða pól­aris­er­ingu í banda­rískum stjórn­málum hefur upp­gangur vopn­aðra sveita borg­ara ágerst og er the Oath Keepers gott dæmi um slíka sveit. Víga­sveitir þessar hafa margar orðið upp­­vísar að því að hóta, hvetja til og beita ofbeldi í mót­­mæla­að­­gerðum sem breyt­­ast þá enn frekar í ofbeld­is­­fullar óeirð­­ir.

Víga­veitum sem þessum hefur fjölgað í for­seta­tíð Don­alds Trump og enn frekar eftir að hann lét af emb­ætti í árs­byrjun í fyrra. 92 vopn­aðar sveitir borg­ara voru starf­andi í Banda­ríkj­unum á síð­asta ári í 30 ríkjum sam­kvæmt úttekt frjálsu félaga­sam­tak­anna Southern Poverty Law Cent­er.

Víga­sveitin the Oath Keepers eru öfga­hægri-­­sam­tök þar sem her­­þjálfun er grunn­þátt­­ur. Starf­­semi slíkra vopn­aðra sveita er for­m­­lega ólög­­leg í öllum ríkjum Banda­­ríkj­anna en þær hafa fengið að starfa að mestu óáreitt­­ar. Rhodes stofn­aði sam­tökin eftir að Barack Obama var kjör­inn for­­seti árið 2008. Rhodes sagði skoð­­anir Obama stang­­ast á við banda­rísku stjórn­­­ar­­skrána og vildi grípa til sinna ráða.

Fyrr­ver­andi fall­hlíf­ar­her­maður sem skaut sjálfan sig í augað

Mik­ill fjöldi víga­­manna í sveitum sem þessum eru fyrrum eða núver­andi her- og lög­­­reglu­­menn. Rhodes er einmitt fyrr­ver­andi her­mað­ur. Fall­hlíf­ar­her­mað­ur.

Rhodes hætti í hernum eftir að hann bak­brotn­aði við æfingar og hóf nám í stjórn­­­mála­fræði og starf­aði sem aðstoð­­ar­­maður Ron Paul, þing­­manns Repúblikana, árið 2001. Hann útskrif­að­ist sem lög­­fræð­ingur frá Yale-há­­skóla árið 2004 og starf­aði sem lög­­­maður til árs­ins 2015 þegar hann var sviptur lög­­­manns­rétt­indum fyrir að brjóta gegn siða­­reglum Hæsta­réttar í Mont­ana. Frá 2015 hefur hann því alfarið ein­beitt sér að the Oath Keepers.

Rhodes hefur verið áhuga­maður um byssur frá unga aldri. Árið 1993 varð hann fyrir því óhappi að skjóta sjálfan sig í augað með 22 kali­bera skamm­­byssu sem hann átti. Rhodes er með gervi­­auga en kýs oft­­ast að nota lepp sem hefur orðið að eins konar ein­­kenn­is­­tákni og er hann orð­inn þekktur sem „mað­­ur­inn með lepp­inn“.

„Viljið þið koma heim með steik?“

Dakota flúði ásamt móður sinni, Tasha Adams, og fimm yngri systk­inum hans frá heim­ili fjöl­skyld­unnar í smá­bænum Kalispell í Mont­ana.

Aðdrag­andi flótt­ans var langur en þegar þau létu til skarar skríða gekk allt upp. Systk­ini Dakota földu sig undir teppum í bílnum og Dakota og móðir hans sögðu við Rhodes að þau ætl­uðu að skjót­ast á rusla­haug­ana með gam­alt drasl sem stóð til að henda fyrir löngu.

Rhodes kall­aði á eftir þeim þegar þau voru í þann mund að leggja af stað og mæðginin voru sann­færð um að hann vissi hvað stóð til og ótt­uð­ust hið versta. „Viljið þið koma heim með steik?“

Það var allt og sumt. Þau keyrðu í burtu og komu aldrei heim aft­ur.

Heimsendir­inn sem var yfir­vof­andi

Fjöl­skyldan flutti til Kalispell skömmu eftir stofnun the Oath Keepers árið 2009. Fljót­lega varð til smátt sam­fé­lag liðs­manna víga­sveit­ar­innar sem áttu það sam­eig­in­legt að vilja helst vera látnir í friði og fá að und­ir­búa yfir­vof­andi árás frá banda­rískum stjórn­völd­um, hvort sem það yrði í formi heim­sendis eða ann­ars konar ham­fara eða árás­ar.

Dakota ólst upp við að heimsendir væri yfir­vof­andi og á margar myrkar minn­ingar um föður sinn. Eitt sinn þegar Dakota vakti föður sinn af blundi um miðjan dag spratt hann á fætur og ógn­aði Dakota með hníf. Hann var fjög­urra ára. „Hann grín­að­ist með að þetta væru hans karl­mann­legu, dýrs­legu, hell­is­búa við­brögð sem heil­inn virkj­aði áður en hann vakn­að­i,“ segir Dakota. „Ég hef aldrei heyrt talað um slík við­brögð ann­ars stað­ar.“

Stewart Rhodes og Tasha Adams höfðu verið gift í 25 ár þegar Tasha flúði með börn þeirra sex. Mynd: Facebook

Dakota lýsir því hvernig hann eyddi heilu sumri í að grafa göng í garði fjöl­skyld­unnar sem hugsuð voru sem flótta­leið þegar stjórn­völd myndu ráð­ast inn á land­svæði þeirra. Því það er það sem átti eftir að ger­ast.

Tasha og Rhodes höfðu verið gift í nærri 25 ár. Þegar þau kynnt­ust var hann ekki sér­stak­lega póli­tískur en var samt sem áður alltaf að leiða hug­ann að því hvernig hann myndi flýja ímynd­aða óvini. Tasha nefnir sem dæmi að þegar Rhodes þurfti að athuga olí­una á bíl þeirra bað hann hana um að standa vörð og tryggja að eng­inn gæti „skellt húdd­inu á höfuð hans“.

„Yf­ir­lýs­ing um fyr­ir­mæli sem við munum ekki hlýða“

Eftir stofnun the Oath Keepers sat Rhodes við kvöld og nætur og skrif­aði.

Eitt kvöldið ákvað hann að birta nokk­urs konar lífs­regl­ur, eða stefnu­yf­ir­lýs­ingu, víga­sveit­ar­inn­ar, sem felst á einn eða annan hátt í því hvað liðs­menn sveit­ar­innar ætla ekki að gera til að fram­fylgja vilja stjórn­valda.

„Tíu fyr­ir­mæli sem við munum ekki gegna“ var yfir­skrift blogg­færslu sem hann birti sem komst á flug og varla var að finna frétta­stöð þar sem Rhodes var ekki til við­tals dag­ana á eft­ir.

Tasha segir Rhodes ítrekað hafa beitt ofbeldi og misst stjórn á skapi sínu. Hann baðst alltaf afsök­unar og sagði hegðun sína orsakast af því að hann væri ekki búinn að finna til­gang sinn í líf­inu. „Hluti af mér trúði því að þetta myndi hjálpa til við að laga það sem væri að hjá hon­um,“ segir Tasha.

Með „þetta“ á hún við and­vökunætur Stewarts þar sem hann hamr­aði lífs­reglur the Oath Keepers á lykla­borð­ið. Lífs­reglur um allt það sem stjórn­völd vilja að almennir borg­arar geri og liðs­menn the Oath Keepers ætl­uðu alls ekki að fara eft­ir.

Leið­tog­inn sem ætl­aði að bjarga Banda­ríkj­unum

Í fyrstu virtst Rhodes hafa fundið köllun sína. Fjöl­skyldan var öll hluti af the Oath Keepers. Dakota segir að þegar hann lítur til baka var fjöl­skyldan ekk­ert annað en „auka­hlutur við vöru­merkið Stewart Rhodes“.

Faðir hans hafði „gert fjöl­skyld­una að mið­punkti per­són­unnar sem hann vildi sjálfur verða“. „Og í þessum raun­veru­leika er hann mesti bjarg­vætt­ur­inn í sögu Banda­ríkj­anna,“ segir Dakota.

Faðir Dakota tók þátt í árásinni á þinghúsið í Washington DC í janúar 2021. Árásin markaði nokkurs konar hápunkt starfsemi The Oath Keepers, vígasamtakanna sem Stewart Rhodes stofnaði árið 2009.
EPA

Her­klæðn­aður var eitt af ein­kenn­is­merkjum liðs­manna the Oath Keepers og Dakota leið alltaf jafn fárán­lega þegar faðir hans skip­aði honum að fara í her­klæðnað frá toppi til táar. „Ég hef ekki hug­mynd um hvort að mér finnst gaman að skjóta úr byssu eða hvort mér finnst gaman að vera „byssunörd“ af því að öll nýleg reynsla af byssum og notkun þeirra teng­ist Stewart eða Oath Keepers og það hefur verið mjög óþægi­leg reynsla,“ segir Dakota, sem ávarpar föður sinn með nafni en kallar hann ekki lengur pabba.

Fór að trúa að heimsendir væri ekki í nánd

Eftir að hafa þvælst um Banda­ríkin með the Oath Keepers, þar sem Rhodes lof­aði fjöl­skyld­unni vellyst­ing­um, fór Dakota að sjá föður sinn í réttu ljósi.

Liðs­menn the Oath Keepers greiða árgjald. Í fyrstu var það 30 doll­arar en hækk­aði síðar í 50 doll­ara, eða sem nemur rúmum sjö þús­und krón­um. Liðs­menn the Oath Keepers voru 38 þús­und í fyrra. Rhodes hefur ekki skilað skatta­skýrslu frá stofnun sam­tak­anna og óljóst er því í hvað fjár­mun­irnir hafa far­ið. Tasha segir að eig­in­maður hennar hafi farið illa með allt fjár­magn sem hann komst yfir og varið því í það sem hanna kall­aði „út­búnað til að lifa af“, skot­færi og ferða­kostn­að.

„Ég fór að sjá Stewart eins og hann er í raun og veru og ég trúði ekki lengur á enda­lok­in. Ég trúði ekki að heimsendir væri yfir­vof­and­i,“ segir Dakota.

Þegar það rann upp fyrir honum fór hann að sjá fram­tíð­ina í nýju ljósi. „Ég átt­aði mig á að það eru hlutir í minni fram­tíð sem ég gat enn bjarg­að. En til þess þurfti ég að bjarga fjöl­skyldu minni frá Stewart.“

En hvern­ig?

Dakota átti enga pen­inga, hafði ekki fengið neina mennt­un, að und­an­skil­inni heima­kennslu frá föður sínum um frels­is­stríð Banda­ríkj­anna, og félags­legt net hans var lítið sem ekk­ert. Hann byrj­aði á því að taka bíl­próf og lauk prófi sem sam­svarar stúd­ents­prófi (e. GED).

Sjálf­boða­liða­starf í slökkvi­liði leiðin út

Eftir að hann fékk bíl­próf keyrði hann föður sinn af og til á fundi víga­sam­tak­anna. Í einni slíkri ferð stopp­aði hann á bens­ín­stöð þar sem afgreiðslu­mað­ur­inn kynnti hann fyrir slökkvi­starfi bæj­ar­ins og að þar væri hægt að ger­ast sjálf­boða­liði. Mikil þörf væri á slíkum til að kljást við skóg­ar­elda.

Dakota sló til og kynnt­ist þar nýju lífi og gild­um. Í slökkvi­lið­inu var ekki talað um aldagamla bar­daga, mik­il­vægi þess að birgja sig upp af mat og skot­færum fyrir yfir­vof­andi heimsendi og að búa sig undir að takast á við stjórn­völd. Til­gang­ur­inn var að fara út í sam­fé­lagið og hjálpa fólki.

Með því að ganga til liðs við slökkvi­liðið kynnt­ist Dakota nýju fólki, ferð­að­ist um Banda­ríkin og fékk greitt fyrir að berj­ast við skóg­ar­elda. Faðir hans gaf honum leyfi til að sinna starf­inu þar sem það pass­aði vel við þau karl­mann­legu gildi sem hann vildi að elsti sonur hans til­eink­aði sér.

„Allt landið er örugg­ara með hann í fang­elsi“

Allt var til reiðu í febr­úar 2018 og flótt­inn gekk eft­ir. Rhodes hefur ein­beitt sér að the Oath Keepers. Án fjöl­skyld­unn­ar.

Lífið eftir flótt­ann hefur reynst fjöl­skyld­unni erfitt á ýmsa vegu þó léttir­inn sé mik­ill.

„Þegar eitt­hvað slæmt kemur fyrir Stewart kemur eitt­hvað slæmt fyrir mig,“ segir Tasha. Hún sótti um skilnað kvöldið áður en þau flúðu en skiln­að­ur­inn hefur enn ekki gengið í gegn og hefur hún áhyggjur af því að dóms­mál Rhodes muni hafa bein áhrif á hana, til að mynda þegar kemur að greiðslu skaða- eða miska­bóta.

Tasha Adams sótti um skilnaði kvöldið áður en hún flúði eiginmann sinn. Hann hefur ekki enn gengið í gegn.
Skjáskot: BBC

„En ég vil að hann fari í fang­elsi því það er eina leiðin til að tryggja öryggi okk­ar,“ segir Tasha. Ekki liggur fyrir hvenær dómur verður kveð­inn upp yfir Rhodes, en hann á yfir höfði sér 20 ára fang­elsi­dóm.

„Ég er örugg­ari. Börnin eru örugg­ari. Og allt landið er örugg­ara með hann í fang­elsi,“ segir Tasha. Fjöl­skyldan býr enn í Mont­ana og verk­efnið þeirra nú snýst um að aðlag­ast líf­inu utan víga­sveit­ar­inn­ar.

Dakota er 25 ára ára í dag og býr í lít­illi íbúð við sveita­veg skammt fyrir utan smá­bæ­inn Kalispell í Mont­ana, ekki langt frá heim­ili fjöl­skyld­unnar sem hann flúði. Hann sinnir sjálf­boða­liða­störfum í slökkvi­liði bæj­ar­ins sem honum líkar vel ásamt því að stunda háskóla­nám.

Vissu strax að þetta væri hann fyrir utan þing­húsið

Tasha býr sig undir að draugur Rhodes, þó hann sé enn sprellif­andi, og the Oath Keepers muni ásækja hana og fjöl­skyld­una alla tíð.

Það var einmitt til­fellið 6. jan­úar í fyrra þegar hópur fólks réðst á banda­ríska þing­hús­ið. Tasha og Dakota fylgd­ust með í sjón­varp­inu og á sam­fé­lags­miðlum og þurftu ekki að sjá and­lit Rhodes til að vera full­viss um að hann væri þarna.

Þau þekktu liðs­menn the Oath Keepers strax. Þeir röð­uðu sér upp í ein­falda röð og lögðu hendur á axlir manns­ins fyrir framan sig og mar­ser­uðu þannig inn í þing­hús­ið.

Dakota og systk­ini hans hafa nokkrum sinn hitt föður sinn eftir flótt­ann. En eftir að kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn braust út hafa þau ekki hitt hann en hann sendir Dakota SMS-skila­boð endrum og eins. Hann hefur ekki svarað neinu þeirra.

Tæp fimm ár eru liðin frá því að Dakota sagði skilið við föður sinn en reiði í hans garð er enn áþreif­an­leg. En það er léttir­inn líka.

„Ég get andað róleg­ar.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnErla María Markúsdóttir
Meira úr sama flokkiErlent