Mynd: Íslandsbanki

Stór hluti þeirra sem fengu að kaupa í Íslandsbanka eru ekki lengur á meðal hluthafa

Samanburður á hluthafalista Íslandsbanka fyrir lokaða útboðið í mars og listanum eins og hann leit út í gær sýnir að margir þeirra sem fengu að taka þátt í útboðinu hafa selt sig niður að einhverju eða öllu leyti. Hópurinn hefur hagnast um 1,6 til 2,1 milljarð króna á því að eiga bréfin í nokkra daga. Lífeyrissjóðir hafa verið að kaupa bréf af miklum móð síðustu vikur á hærra verði en stóð til boða í útboðinu.

Alls eru 132 þeirra 207 fjár­festa sem fengu úthlutað hlutum í Íslands­banka í nýlegu lok­uðu útboði ekki skráðir fyrir sama hlut og þau fengu úthlut­að. Margir þeirra hafa selt sig niður að ein­hverju eða öllu leyti. Sam­an­lagt keyptu þessir aðilar fyrir um 18,7 millj­arða króna í útboð­inu þann 22. mars síð­ast­lið­inn, en útboðs­gengið var 117 krónur á hlut sem var 4,1 pró­sent lægra en mark­aðs­gengi þess dags. 

Frá því að greitt var fyrir bréfin 28. mars hefur gengi bréfa í Íslands­banka verið lægst 126,8 krónur á hlut og hæst 130,2 krónur á hlut. Miðað við það hefur þessi 132 aðila hópur hagn­ast um 1,6 til 2,1 millj­arða króna á því að taka þátt í hinu lok­aða útboði og selja bréfin aftur skömmu síð­ar. 

Þetta má sjá með því að bera saman lista yfir kaup­endur að hlut í Íslands­banka, sem birtur var síð­ast­lið­inn mið­viku­dag, og hlut­haf­alista bank­ans eins og hann var í lok dags í gær, 11. apríl 2022. 

Lang­flestir þeirra 132 félaga, sjóða og ein­stak­linga sem tóku þátt í útboð­inu en hafa selt hluti síðan þá eru ekki lengur skráðir fyrir neinum hlut í Íslands­banka.

Mikil velta eftir útboð

Heim­ild­ar­menn Kjarn­ans innan banka­kerf­is­ins segja að í flestum til­vikum séu við­kom­andi ein­fald­lega búnir að selja hlut­inn og leysa út hagn­að­inn af því að hafa fengið að taka þátt í útboð­inu með afslætti. Í ein­hverjum til­vikum hafi verið fram­virkir samn­ingar við þá og við­kom­andi fengið lán fyrir kaup­unum sem hafi svo í sumum til­vikum verið gert upp strax á fyrstu dögum eftir að hægt var að selja að nýju. Það sem eftir sat lenti svo í vasa við­kom­andi fag­fjár­festis sem hreinn hagn­að­ur. 

Í öðrum til­vikum hafi hlut­ur­inn þó verið fluttur á vörslu­reikn­inga í eign­ar­stýt­ingu við­kom­andi. Ómögu­legt er að sjá af hlut­haf­alist­anum hverjir færðu bréfin sín með þeim hætti og hverjir seldu. Velta með bréf í Íslands­banka, þar sem sem þau eru keypt og seld, dag­anna eftir að útboð­inu lauk var marg­föld það sem hún var að með­al­tali á dag frá ára­mótum og fram að útboði. frá 23. mars og til 11. apríl höfðu um 152,6 millj­ónir hluta skipt um eig­end­ur. Það er um þriðj­ungur þess sem selt var í útboð­in­u. 

Upp­fært 15. apr­íl. Banka­sýsla rík­is­ins birti yfir­lit yfir það hvernig hún ætlar að þróun á eign­ar­haldi þeirra sem keyptu hlut í Íslands­banka 22. mars hafi verið frá útboði. Hægt er að lesa umfjöllun um það yfir­lit hér að neð­an.

Í kynn­ingu sem Banka­­­sýsl­a rík­is­ins hélt fyrir ráð­herra­nefnd um efna­hags­mál 1. apríl síð­ast­lið­inn var há hlut­­­deild einka­fjár­­­­­festa í útboð­inu rök­studd með því að áskriftir þeirra hefðu skertar á kostnað almennra fjár­­­­­festa í frumút­­­­­boð­inu á hlutum í Íslands­­­­­banka í fyrra­­sum­­­ar. 

Erlendu sjóð­irnir farnir

Mesta athygli vekur að þeir erlendur sjóðir sem sölu­ráð­gjafar Banka­sýslu rík­is­ins buðu að taka þátt í lok­aða útboð­inu eru flestir búnir að selja allan þann hlut sem þeir fengu úthlut­að. Um er að ræða sjóði sem tóku líka þátt í almenna útboð­inu í fyrra­sumar og seldu sig þá strax niður í kjöl­far­ið. Þeir voru því að taka snún­ing númer tvö á hluta­bréfa­eign í Íslands­banka þar sem sölu­að­il­inn var íslenska rík­ið. Eftir almenna útboðið seldur sex þeirra erlendu sjóða sem keyptu í bank­­anum bréfin sem þeim var úthlutað innan þriggja daga eftir skrán­ingu með umtals­verðum hagn­aði, en sölu­and­virðið var um fjórir millj­­arðar króna. Á meðal þess­­ara sex voru sjóðir Sil­ver Point Capital, Fiera Capital, Lans­downe Partners og Key Squ­are Partners.

Allir fjórir sjóð­irnir voru aftur með í lok­aða útboð­inu. Sil­ver Point keypti fyrir rúm­­lega 1,3 millj­­arða króna, Lands­down Partners fyrir næstum 556 millj­­ónir króna, Fiera Capi­tal fyrir 468 millj­­ónir króna og KeySqu­are Partners fyrir 409,5 millj­­ónir króna. Sam­tals keyptu þessir fjórir sjóðir því fyrir rúm­­lega 2,7 millj­­arða króna í lok­aða útboð­inu og fengu í stað­inn 5,2 pró­­sent hlut í Íslands­­­banka.

Sam­kvæmt hlut­haf­alista Íslands­banka í gær hafa Sil­ver Point, Fiera Capi­tal og KeySqu­are Partners þegar selt allan þann hlut sem þeim var úthlutað í lok­aða útboð­inu í mar­s. 

Auk þess var sjóður í stýr­ingu banda­ríska sjóð­­stýr­ing­­ar­­fyr­ir­tæk­is­ins RWC Asset Mana­gement val­inn sem einn horn­­steins­fjár­­­fest­anna í Íslands­­­banka í aðdrag­anda almenna útboðs­ins í fyrra. Sá sjóður fékk þá að kaupa 1,54 pró­­sent hlut á 2,4 millj­­arða króna. Hann hafði selt þorra eignar sinnar um síð­­­ustu ára­­mót og leyst um leið út umtals­verðan hagn­að. Sjóður í stýr­ingu RWC Asset Mana­gement fékk að kaupa hluti fyrir tæp­­lega tvo millj­­arða króna í útboð­inu í mars. Hann hefur þegar selt rúm­lega fjórð­ung þeirra bréfa og leyst út hagn­að. 

Flestir „litlu“ fjár­fest­arnir búnir að selja

Á sam­an­burð­ar­list­anum sem Kjarn­inn hefur undir höndum kemur skýrt fram að flestir „litlu“ fjár­fest­arn­ir, sem keyptu fyrir smærri upp­hæð­ir, eru búnir að selja sinn hlut, en alls fengu 59 aðilar að kaupa fyrir undir 30 millj­ónir króna og 79 fyrir minna en 50 millj­ónir króna. Gagn­rýnt hefur verið að fjár­festar sem kaupa fyrir svo lágar upp­hæðir fái afslátt í gegnum lokað útboð. Engin ástæða er fyrir því að lokka þá sér­stak­lega inn í eig­enda­hóp­inn í gegnum slíka sölu­að­ferð heldur geti þeir keypt á eft­ir­mark­aði eins og aðr­ir.

Það er stefna ríkisstjórnarinnar að selja allan hlut ríkisins í Íslandsbanka fyrir árslok 2023. Áframhaldandi sala hefur nú verið sett á ís á meðan að síðasta sala er rannsökuð.
Mynd: Bára Huld Beck

Á meðal stærri fjár­festa, sem keyptu fyrir nokkur hund­ruð millj­ónir króna, sem eru ekki lengur skráðir fyrir hlut í Íslands­banka eru Eign­ar­halds­fé­lagið Steinn, í eigu Þor­steins Más Bald­vins­sonar og fyrr­ver­andi eig­in­konu hans, tvö félög í eigu bræðr­anna Ágústs og Lýðs Guð­munds­sona, félag í eigu Guð­bjargar Matth­í­as­dóttur og fjöl­skyldu, félag í eigu Pálma Har­alds­son­ar, félög Þórðar Más Jóhann­es­sonar og fjár­fest­inga­fé­lagið Stoð­ir. Í frétt sem Inn­herji birti mið­viku­dag­inn 13. apríl neita Þor­steinn Már og Guð­björg því að hafa selt hluti og segja að kaup þeirra hafi verið í gegnum fram­virka samn­inga. Sömu sögu er að segja um Þórð Má Jóhann­es­son og Ágúst og Lýð Guð­munds­son.

Umdeildasta nafnið sem birt­ist á kaup­enda­list­anum var félagið Haf­silf­ur, í eigu Bene­dikts Sveins­son­ar. Ástæða þess er að Bene­dikt er faðir Bjarna Bene­dikts­son­ar, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, sem ber ábyrgð á sölu Íslands­banka sam­kvæmt lög­um. Félag Bene­dikts heldur enn á þeim hlut sem það keypti fyrir tæp­lega 55 millj­ónir króna. Virði hlut­ar­ins hefur hækkað um fimm millj­ónir króna frá því að útboðið átti sér stað.

Líf­eyr­is­sjóð­irnir að kaupa mikið magn á hærra verði

Veru­leg umfram­eft­ir­spurn var eftir bréfum í útboð­inu. Banka­sýslan hefur þegar opin­berað að fjár­festar hafi skráð sig fyrir hlutum fyrir sam­tals meira en 100 millj­arða króna, en selt var fyrir 52,65 millj­arða króna. Fram hefur komið að líf­eyr­is­sjóð­irnir fengu að kaupa mun minna en þeir vildu í útboð­in­u. 

Á sam­an­burð­ar­list­anum má sjá að það eru aðal­lega líf­eyr­is­sjóðir sem hafa verið að bæta við sig hlutum í Íslands­banka á eft­ir­mark­aði eftir að útboðið var gert upp. Þannig hefur Líf­eyr­is­sjóður starfs­manna rík­is­ins keypt 29 millj­ónir hluta frá þeim tíma, sem á virði dags­ins í dag kosta um 3,6 millj­arða króna. Lífs­verk líf­eyr­is­sjóður hefur keypt fyrir um 1,7 millj­arða króna, Brú líf­eyr­is­sjóður fyrir tæp­lega 600 millj­ónir króna og Gildi fyrir tæp­lega 400 millj­ónir króna. 

Aðrir stofn­ana­fjár­festar eins og trygg­inga­fé­lögin Sjóvá og VÍS, ásamt íslenskum sjóð­stýr­ing­ar­fyr­ir­tækj­um, hafa líka bætt við sig hlutum á verði sem er tölu­vert umfram það sem stóð til boða í útboð­inu. Þegar við er bætt þeim hlut sem sjóð­ur­inn Capi­tal Group, einn stærsti eig­andi Íslands­banka, hefur bætt við sig frá því að útboðið fór fram kemur í ljós að níu stofn­ana­fjár­festar hafa keypt rúm­lega 40 pró­sent þeirra hluta sem seldir hafa verið eftir útboð. 

Því hafa líf­eyr­is­sjóðir og aðrir stofn­ana­fjár­fest­ar, sem líta á eign í Íslands­banka sem lang­tíma­eign, síð­ustu vikur keypt stóran hluta þeirra bréfa sem minni fjár­festar hafa selt með skyndigróða á hærra verði en bauðst í útboð­in­u. 

Frétta­skýr­ingin var upp­færð og leið­rétt 13. apríl með upp­lýs­ingum um að félög Þor­steins Más Bald­vins­son­ar, Guð­bjargar Matth­í­as­dótt­ur, Þórðar Más Jóhanns­sonar og Ágústar og Lýðs Guð­munds­sona hefðu ekki selt hlut sinn í Íslands­banka. Sam­hliða var orða­lagi í fyrstu máls­grein breytt lít­il­lega. Hún var aftur upp­færð og leið­rétt 15. apríl eftir að upp­lýs­ingar komu fram um að starfs­menn og eig­endur sölu­ráð­gjafa sem ráðnir voru til að sinna útboð­inu væru enn skráðir fyrir sínum hlut­um, og upp­færð í þá veru.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar