Mynd: Bára Huld Beck Fólk
Mynd: Bára Huld Beck

Tíu hlutir sem Íslandsbanki hefur spáð að gerist í íslenska hagkerfinu

Í gærmorgun var ný þjóðhagsspá Íslandsbanka birt. Frá því að spá bankans kom út í upphafi árs hefur öllum takmörkunum vegna kórónuveirufaraldurs verið aflétt og stríð skollið á í Úkraínu. Fyrir vikið hefur sá efnahagslegi veruleiki sem bankinn spáir fyrir um að mörgu leyti tekið stakkaskiptum.

Hag­vöxtur verður sá mesti síðan 2007

Íslands­banki spáir því að hag­vöxtur verði kröft­ugur í ár, eða 7,3 pró­sent. Gangi sú spá eftir mun það verða mesti hag­vöxtur á Íslandi í 15 ár, eða frá hápunkti banka­góð­ær­is­ins 2007 þegar hag­vöxtur mæld­ist 8,5 pró­sent.

Það verður þó að taka inn í reikn­ing­inn að sam­dráttur varð í þjóð­ar­bú­skapnum upp á 6,8 pró­sent árið 2020 og vöxt­ur­inn úr þeirri lægð í fyrra var 4,4 pró­sent, aðal­lega vegna mik­illar einka­neyslu. Íslands­banki spáir því að útflutn­ings­vöxtur muni vera helsta rót hag­vaxtar á síð­ari hluta yfir­stand­andi árs. 

Í jan­úar spáði bank­inn því að hag­vöxtur í ár yrði 4,7 pró­sent, að hann yrði 3,2 pró­sent á næsta ári og 2,6 pró­sent árið 2024. Nú gerir bank­inn ráð fyrir að hag­vöxt­ur­inn verði mun meiri í ár, en minni á næsta ári (2,2 pró­sent í stað 3,2 pró­sent) og þarnæsta (2,4 pró­sent í stað 2,6 pró­sent).  

Verð­bólgan miklu meiri en fyrri spár gerðu ráð fyrir

Bank­inn spáir því nú að árs­verð­bólgan í ár verði 8,1 pró­sent, en hún mælist sem stendur 9,7 pró­sent. Í þjóð­hags­spánni er sagt að það sé enn „langur vegur framundan og tals­vert í það að verð­bólga verði við 2,5 pró­sent verð­bólgu­mark­mið Seðla­bank­ans.“ Grein­ing Íslands­banka telur að verð­bólgan verði 6,3 pró­sent á næsta ári og 3,9 pró­sent árið 2024. Því muni hún ekki ná að verða við verð­bólgu­mark­mið Seðla­bank­ans á spá­tím­an­um. 

Í jan­úar spáði bank­inn því að verð­bólga myndi hjaðna jafnt og þétt út þetta ár og yrði að jafn­aði 4,3 pró­sent á árinu 2022. Íslands­banki gerði þá ráð fyrir að verð­bólgan yrði að jafn­aði 2,5 pró­sent á næsta ári og 2,7 pró­sent árið 2024. 

Stýri­vextir áttu að verða 3,25 pró­sent en verða senni­lega sex pró­sent

Stýri­vextir Seðla­banka Íslands hafa hækkað skarpt und­an­farna mán­uði. Frá því í maí í fyrra hafa þeir farið úr 0,75 í 5,5 pró­sent. Á árinu 2022 einu saman hafa þeir hækkað um 3,5 pró­sentu­stig. Í þjóð­hags­spá bank­ans sem birt var í jan­úar 2022 var sann­ar­lega ekki búist við þess­ari þró­un, en þá spáði grein­ing Íslands­banka því að stýri­vextir Seðla­banka Íslands yrðu komnir upp í 3,25 pró­sent í lok þessa árs og myndu toppa í fjórum pró­sentum í árs­byrjun 2024. 

Nú er annað hljóð í strokkn­um. Bank­inn telur að stýri­vextir verði „í námunda við“ sex pró­sent í árs­lok og hald­ist óbreyttir inn á mitt ár 2023, þegar vext­irnir taki að lækka á seinni hluta þess árs. Við taki „hæg­fara lækk­un­ar­ferli“ sem gætu skilað stýri­vöxtum í grennd við 4,5 pró­sent undir lok árs 2024. 

Gangi sú spá eftir er ansi langt þangað til að það fólk sem hefur séð greiðslu­byrði íbúða­lána sína hækka um rúm­lega hund­rað þús­und krónur á mán­uði á rúmu ári fari að sjá þá greiðslu­byrði minnka. 

Fjöldi erlendra ferða­manna miklu meiri en gert var ráð fyrir

Íslands­banki spáir því að 1,7 millj­ónir ferða­manna muni heim­sækja Íslands heim á þessu ári. Það er svip­aður fjöldi og kom til lands­ins fyrir sex árum síð­an. Á næsta ári náist það svo að ferða­menn­irnir verði á ný yfir tvær millj­ónir tals­ins og árið 2024 verði þeir 2,2 millj­ón­ir. Þetta er bara sá fjöldi sem kemur í gegnum Kefla­vík­ur­flug­völl. Þá á eftir að telja þá sem koma til Íslands í gegnum Akur­eyr­ar­flug­völl og með skemmti­ferða­skip­um.

Ferðaþjónustan hefur tekið við sér af mun meiri krafti en reiknað var með.
Mynd: Bára Huld Beck

Í jan­úar var Íslands­banki tölu­vert svart­sýnni á það hvernig ferða­þjón­ustan myndi taka við sér en raun bar vitni. Þá spáði grein­ing bank­ans því að ferða­menn sem myndu heim­sækja Íslands yrðu 1,1 til 1,2 millj­ónir á árinu 2022, að þeir yrðu 1,5 millj­ónir á næsta ári og 1,7 millj­ónir á árinu 2024. 

Nú er vanda­málið ekki skortur á störf­um, heldur skortur á starfs­fólki

Hjöðnun atvinnu­leysis hér­lendis hefur verið mjög hröð síðan að heild­ar­at­vinnu­leysi mæld­ist 12,8 pró­sent í jan­úar í fyrra. Í ágúst síð­ast­liðnum var það komið niður í 3,1 pró­sent og er nú á svip­uðum slóðum og í byrjun árs 2019, áður en WOW air fór á haus­inn. 

Nú er staðan sú að skortur er á starfs­fólki og þau störf sem verða til í hag­kerf­inu eru að stórum hluta fyllt af erlendu starfs­fólki, sem er nú um 20 pró­sent af öllu vinnu­afli hér­lend­is. Íslands­banki spáir því að atvinnu­leysi verði á svip­uðum slóðum á næstu tveimur árum, eða á bil­inu 3,2 til 3,6 pró­sent. 

Í jan­úar spáði bank­inn því að með­al­at­vinnu­leysi á Íslandi yrði 4,5 pró­sent á þessu ári og á bil­inu 3,6 til 3,7 pró­sent á árunum 2023 og 2024. Þá töldu um 40 pró­sent stjórn­enda 400 stærstu fyr­ir­tækja lands­ins að skortur væri á vinnu­afli en nú er það hlut­fall 54 pró­sent.

Við­snún­ingur á íbúða­mark­aði framundan

Í byrjun árs spáði grein­ing Íslands­banka því að íbúða­verð myndi hækka að nafn­virði um átta pró­sent á árinu 2022, og að hækk­un­ar­takt­ur­inn sem sleg­inn var árið áður með 15 pró­sent hækkun á höf­uð­borg­ar­svæð­inu myndi taka að hægj­ast. Bank­inn spáði því einnig að íbúða­verð myndi hækka um 3,5 pró­sent á næsta ári og 2,9 pró­sent árið 2024 sam­hliða því að jafn­vægi myndi mynd­ast á íbúða­mark­að­i. 

Í nýju þjóð­hags­spánni eru þessar tölur veru­lega end­ur­skoð­að­ar. Þar er bent á að íbúða­mark­aðir hafi kólnað tals­vert hraðar í öðrum löndum en á Íslandi þrátt fyrir að stýri­vextir hafi verið hækk­aðir mun hraðar hér og skil­yrði fyrir lán­töku hert veru­lega. Þar skipti mestu að eft­ir­spurn er enn langt frá fram­boði vegna upp­safn­aðrar þarfar og að lýð­fræði­leg þróun ýki eft­ir­spurn­ina. Nú spáir bank­inn því að raun­verð íbúa muni hækka um 11,6 pró­sent í ár og að sú hækkun sé nú þegar að mestu komin fram. Á næsta ári verði raun­hækk­unin ein­ungis 0,8 pró­sent og á árinu 2024 muni verðið nán­ast standa í stað sam­hliða því að aukin fjöldi íbúða komi inn á mark­að­inn sem skapi nýtt jafn­væg­i. 

Kaup­máttur launa far­inn að drag­ast saman

Íslands­banki spáði því í jan­úar að kaup­máttur myndi halda áfram að aukast á þessu ári, alls um 2,5 pró­sent. Sá vöxtur myndi halda áfram inn á næstu tvö ár. 

Þessi spá hefur ekki gengið eft­ir. Kaup­máttur launa er nefni­lega far­inn að rýrna, alls um 4,2 pró­sent á þessu ári. Nú spáir bank­inn því að þessi þróun haldi áfram, eða þar til að verð­bólgan hjaðni veru­lega. Alls spáir grein­ing Íslands­banka því að kaup­mátt­ur­inn rýrni um 0,6 pró­sent á þessu ári en vaxi um 0,8 pró­sent strax á næsta ári. 

Einka­neysla hægir á sér þegar fólk klárar sparn­að­inn

Þegar kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn skall á dróst einka­neysla sam­an, nánar til­tekið um þrjú pró­sent milli áranna 2019 og 2020. Í fyrra stórjókst hún hins vegar að nýju, enda mikil kaup­mátt­ar­aukn­ing að eiga sér stað vegna launa­hækk­ana, minni vaxt­ar­kostn­aðar og ýmissa ann­arra hag­felldra breyta.

Fyrir vikið taldi bank­inn að einka­neysla myndi halda áfram að vaxa og verða 4,2 pró­sent árið 2022 og 3,2 til 3,5 pró­sent á næstu tveimur árum eftir það.

Vöxtur í einka­neyslu hefur verið miklu meiri en spár gerðu ráð fyr­ir, og er gert ráð fyrir að hann verði 8,8 pró­sent á þessu ári. Íslands­banki spáir því einnig að einka­neyslan auk­ist um 1,8 pró­sent á næsta ári þegar heim­ili lands­ins hafi gengið umtals­vert á sparnað sinn í neyslu og kaup­mátt­ar­vöxt­ur­inn verður frekar lít­ill. Árið 2024 muni einka­neyslan svo aukast um 2,7 pró­sent sam­hliða því að verð­bólga hjaðn­i. 

Krónan styrk­ist

Þegar kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn skall á veikt­ist gengi íslensku krón­unnar umtals­vert og Seðla­bank­inn réðst í umfangs­mikil gjald­eyr­is­við­skipti til að draga úr sveiflum á gengi henn­ar. Í fyrra styrkt­ist gengið svo um tæp­lega þrjú pró­sent. Þegar grein­ing Íslands­banka spáði í spilin í upp­hafi árs varð nið­ur­staða þeirra bolla­legg­inga sú að krónan yrði átta til níu pró­sent sterk­ari í lok árs 2024 en hún var í árs­byrjun 2024. Raun­gengi miðað við hlut­falls­legt verð­lag yrði þá svipað og árið 2018.

Krónan hefur hins vegar sveifl­ast meira en búist var við. Hún styrkt­ist umtals­vert, alls um sjö pró­sent, frá byrjun árs og út maí­mán­uð. Frá þeim tíma og fram að síð­ustu mán­aða­mótum hefur hún hins vegar veikst um fimm pró­sent. Stæor ástæða fyrir veik­ing­unni í sumar er aukið gjald­eyr­is­út­flæði vegna fjár­fest­inga, aðal­lega íslenskra líf­eyr­is­sjóða. 

Íslenska krónan leikur sem fyrr lykilhlutverk í heilbrigði íslensks efnahags.
Mynd: Almenni lífeyrissjóðurinn

Grein­ing Íslands­banka spáir því nú að krónan verði um það bil sex pró­sent sterk­ari í lok árs 2024 en hún var í lok ágúst 2022. Raun­gengið miðað við hlut­falls­legt verð­lag verður á svipað og árin 2018 og 2019. 

Spá því að halli verði afgangur

Í níu ár sam­fellt, fram að árinu 2021, var við­skipta­af­gangur af utan­rík­is­við­skiptum Íslands. Það þýðir að við seldum vörur og þjón­ustu fyrir hærri upp­hæð en við keyptum slíkt. Halli skap­að­ist hins vegar í fyrra upp á 65 millj­arða króna, vegna þess að inn­lend eft­ir­spurn jókst mun fyrr en útflutn­ingur eftir þann sam­drátt sem varð á fyrra ári kór­ónu­veiru­far­ald­urs­ins, 2020. 

Í jan­úar spáði Íslands­banki því að hall­inn myndi verða skamm­vinnur og strax árið 2022 myndi við­skipta­af­gangur verða 1,8 pró­sent. Hann myndi svo verða enn mynd­ar­legri á næstu tveimur árum, eða 3,1 pró­sent á hvoru ári fyrir sig. 

Í nýju þjóð­hags­spánni er annað upp á ten­ingn­um. Nú spáir grein­ing Íslands­banka því að það verði 1,5 pró­sent við­skipta­halli í ár. Það náist þó að snúa þeirri stöðu hóf­lega við strax á næsta ári með eins pró­sent afgangi og að hann verði svo 2,4 pró­sent árið 2024. Þó er sér­stak­lega til­tekið að það velti „ekki síst á þróun raun­gengis og við­skipta­kjara þegar frá líður hvort við­skipta­jöfn­uð­ur­inn verður áfram hag­felld­ur.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar