Kjarnasjóðurinn
- Styrkir rannsóknarblaðamennsku -
Það er Kjarnanum sönn ánægja að tilkynna um stofnun Kjarnasjóðsins, fyrsta íslenska rannsóknarblaðamennskusjóðsins. Honum er ætlað að styrkja stór og metnaðarfull verkefni á sviði rannsóknarblaðamennsku á Íslandi og um leið efla hana til muna.
Með sjóðnum er ætlunin að gefa blaðamönnum tækifæri til að helga sig alfarið stórum og flóknum verkefnum í dágóðan tíma. Sjóðurinn mun úthluta allt að fimm milljónum króna árlega og getur hver einstaka styrkur numið allt að 500.000 kr.
Öllum verður frjálst að sækja um styrki í sjóðinn og mun þriggja manna sjálfstæð úthlutunarnefnd sjá um að velja úr þau verkefni sem hljóta styrki.
Sjóðnum verður stýrt af Þórði Snæ Júlíussyni, ritstjóra Kjarnans. Auk hans sitja í nefndinni Birna Anna Björnsdóttir, hluthafi í Kjarnanum og einn eiganda ráðgjafafyrirtækisins Suðvesturs, og Valgerður Anna Jóhannsdóttir, aðjúnkt við Háskóla Íslands og umsjónarmaður meistaranáms í blaða- og fréttamennsku við skólann.
Öllum er frjálst að leggja sjóðnum til fjármagn og er áhugasömum bent á að hafa samband á netfangið sjodur@kjarninn.is. Afrakstur þeirra verkefna sem hljóta styrki verður birtur á Kjarnanum.
Tekið er á móti fyrirspurnum vegna Kjarnasjóðsins í síma 551-0708 og með tölvupósti á netfangið sjodur@kjarninn.is.