Áhrif Panamaskjalanna eru óumdeild og koma fram á góðum tíma. Sjálfstæðum blaðamönnum er að takast það sem Rannsóknarskýrslu Alþingis tókst ekki að fullu; að vekja almenning til alvarlegrar og nákvæmrar vitundar um skaðsemi flókinna fyrirtækjasamstæða sem eru með félög á aflandssvæðum.
Hér verður ekki rakin saga aflandsfélaga, heldur gerð grein fyrir skaðlegum áhrifum þeirra á efnahagslífið almennt og samkeppnisumhverfi fyrirtækja. Þeim sem komið hafa við sögu í Panamaskjölunum hefur verið tíðrætt um að allir hafi þeir jú talið þessi félög fram á skattframtölum og allir skattar hafi fundið leið sína í íslenska ríkiskassann, eins og lög gera ráð fyrir. Skattayfirvöld hafa þó ekki staðfest þessar staðhæfingar og þær hafa því takmarkað gildi sem slíkar.
Hitt hefur eitthvað minna verið rætt og það eru þeir hlutfallslegu yfirburðir sem aflandsfélagaeigendur skapa sér. Fyrirtækjasamstæður þurfa sannarlega ekki allar að vera settar upp af annarlegum hvötum. Sum dótturfélög eru góð, út frá samfélagslegum ábata, sem og út frá fyrirtækjarekstri. Önnur eru slæm út frá samfélagslegum ábata, en hugsanlega góð út frá hagsmunum endanlegs eigenda – og enn önnur hafa engin sérstök áhrif. En það er jafnljóst og að sólin kemur upp að morgni, að aflandsfélög eru sett upp til að þjóna fyrst og fremst hagsmunum eigenda og eru í flestum tilvikum slæm út frá samfélagslegum hagsmunum. Hér er ástæðan: Ekki liggja fyrir samningar við aflandssvæði sem tryggja flæði upplýsinga um rekstrarárangur milli skattaumdæma, og hægt er að leyna eignarhaldi á þeim, sem gerir peningaþvott mun auðveldari. Þannig getur sá sem stofnar aflandsfélag komið sér undan skatti, þannig að skattalög hafa verið brotin, fengið lán á lægri vöxtum en aðrir, sem gerir bankakerfið óstöðugra, fjárfest í öðrum félögum og leynt eignarhaldi sínu þannig að ekki er t.d. hægt að ákvarða hvort samkeppnislög hafa verið brotin.
Við þurfum ekki stjarneðlisfræðing til að segja okkur að sá sem hefur þessa aðstöðu í viðskiptalífinu, hefur hlutfallslega yfirburði yfir þann sem rekur sitt félag t.d. á eigin persónulegu kennitölu (einhver kynni að segja: „hvaða bjáni gerir það? “). Skiptir þá í engu hvort sá hinn sami hafi tapað á öllu saman – hann var engu að síður í séraðstöðu sem skekkir alla heilbrigða samkeppni á markaði. Þannig ryður sá sem á aflandsfélag, hinum sem vill hafa allt á hreinu og fara að lögum í einu og öllu, út af markaðnum.
Í kjölfarið á bankahruninu lækkaði krónan varanlega um næstum 50% og var svo seld í útboðum seðlabankans á 20% lægra verði að meðaltali, til að leysa aflandskrónuhengjuna svokölluðu. Þetta er eins og að fara í “outlet” í Bandaríkjunum og kaupa Armani föt á 50% afslætti og svo 20% afslætti ofan á það. Venjulegur launþegi getur illa keypt þennan lúxusvarning en kæmist hann á slíka útsölu á hann hins vegar í miklu minni vandræðum með það, enda verðið nú orðið 60% lægra. Með sama hætti hefur sá sem á aflandsfélagið, með ódýrar krónur uppá vasann, bolmagn til að bjóða miklu hærra verð í atvinnurekstur eða fullnustueignir bankanna. Bönkunum er auðvitað uppálagt að taka aðeins hæsta verðtilboði fyrir eignirnar sem þeir selja. Þannig tryggir aflandsfélagið honum áframhaldandi aðstöðumun sem og hlut í verðmætasköpun landsins, sem auðvitað hefur verið byggð upp vegna aðstöðu sem aðrir greiða fyrir; svo sem löggæslu, menntun og heilbrigðisþjónustu hans og starfsmanna hans, vegum, sem varan er flutt á út á markað, hafnir sem skipin þeirra sigla frá og svo mætti lengi telja, eins og bandaríski Öldungardeildarþingmaðurinn Elisabeth Warren hefur svo eftirminnilega bent á.
Þessi ruðningur, ef hann er látinn óáreittur, leiðir að endingu til þess að aðeins hinir óheiðarlegu eru eftir á vellinum, en um leið og svo er komið, er enginn leikur í gangi lengur – þ.e. heilbrigð efnahagsstarfsemi leggst af, og einhver allt önnur lögmál ráða henni, rétt eins og ef dómarar hættu að dæma leiki í fótbolta og leikmennirnir byrjuðu að skjóta hvern annan á vellinum til þess eins að koma tuðrunni óhindrað í netið. Aflandsfélagavæðingin og lassez faire stefna í eftirliti hins opinbera hefur getið af sér úrkynjað fyrirbæri sem á lítt skilið við kapitalisma, eins og hann á að virka, rétt eins og komúnisminn féll í valinn fyrir leiðtogum sem spiluðu ekki einu sinni samkvæmt því kerfi.
Bankakerfi óstöðugri
Niðurstöður Rannsóknarnefndar Alþingis (2010), sýndu svo ekki verður um villst að hátt í helmingur af þeim 35 milljörðum evra (ríflega 5.000 milljarðar á gengi dagsins í dag) sem íslenska bankakerfið tók að láni árin fyrir hrun, á skuldabréfamörkuðum, voru áfram veitt að láni inn í eignarhaldsfélög; nokkra flókna köngulóarvefi fyrirtækja, hvers eigendur áttu það sameiginlegt að vera líka kjölfestufjárfestar í bönkunum sjálfum. „Gervimaður útlöndum“ var annar stærsti þiggjandi arðgreiðslna íslenskra fyrirtækja árið 2008, en auk þess voru sex af tíu stærstu arðþiggjendum það ár félög á Bresku jómfrúreyjum, eða stofnsett erlendis (Kýpur, Lúxemborg, osfrv.) af íslenskum aðilum (Margrét Bjarnadóttir og Guðmundur A. Hansen, Skýrsla Rannsóknarnefndar (2010), 9. Bindi, bls. 64). En best voru þó lánin sem ekki „þurfti“ að borga til baka, sem hlupu á hundruðum milljarða. Enginn veit hvaða tekjur aflandsfélagaeigendur eru búnir að hafa af þessum félögum fyrir “ráðgjöf” og annað slikkerí.
Fyrirtækjavefurinn hefur aukinheldur þau áhrif, til handa þeim sem hann vefur, að einkar erfitt er að átta sig á því hversu mikið eigið fé hefur verið lagt inní hann af hendi eigenda. Þess vegna er eftir því erfitt að átta sig á því hversu mikil áhætta fylgir því að lána peninga inní fyrirtæki sem eru í slíkum samstæðum. Það leiðir aftur til þess að meiri líkur eru, en minni, að vextir sem þessum félögum bjóðast eru þar af leiðandi mun lægri en ef öll áhætta væri skynsömum bankamanni ljós. Ef félag C fer fram á lánafyrirgreiðslu í banka með 25% eiginfjárhlutfall, en það félag er aftur í eigu annars félags B sem er með 10% eiginfjárhlutfall og eina eignin er félag C, sem er líka í eigu félags A, sem er með 10% eiginfjárhlutfall og eina eignin er félag B, þá er ljóst að félag C er ekki með 25% eigið fé – heldur eitthvað miklu minna, og ætti því að borga hærri vexti. Aðstöðumunurinn eykst enn frekar – lægri vextir, lægri skattar, lögfylgni við samkeppnislög mjög óljós – því skyldi nokkur maður reka heiðvirt fyrirtæki þegar við þessa aðila er að keppa?
Lán sem veitt eru út úr bankakerfunum á of lágum vöxtum gera bankana sjálfa óstöðuga – þ.e. ef þetta er gert í miklu magni, er lánabók bankans ósjálfbær, sem eykur líkurnar á að bankarnir lendi í vandræðum með að standa í skilum á sínum eigin lánum og innistæður almennings komnar í hættu, fyrir utan þann litla hvata sem liggur fyrir hjá aflandsfélagi að greiða nokkurn tímann skuldirnar. Þá kemur aftur til kasta hins opinbera að bjarga eigum hinna saklausu (almennum innistæðum) með því að nýta skatttekjur sem voru innheimtar af hinum heiðvirðu. Almenningur hefur þá verið tekinn tvisvar í bakaríið – missti af skatttekjum vegna aflandsfélaga, og þarf nú að borga fyrir fall banka sem ekki gátu innheimt skuldir aflandsfélaganna.
Stjórnmálamenn og almannahagsmunir
Að ofan hefur því verið lýst hvernig íslenskir bankar og viðskiptamógúlar með tengingar í aflandsfélög léku íslenskan almenning fyrir og eftir hrun. Þrátt fyrir allt er svo margt sem Íslendingar geta verið ánægðir með og stoltir af. Ísland er eina landið í veröldinni (raunverulegt heimsmet) sem hefur sérstaklega látið rannsaka til hlítar hvað gerðist í bankahruninu og komið böndum yfir allnokkra fjármálaglæpamenn. Það eru hins vegar stjórnmálamenn sem skapa samfélaginu stefnu með því að setja þegnunum skorður í gegnum lög, reglur og eftirlit. Stjórnmálamenn breyta ekki stefnunni nema almenningur krefjist þess – en almenningur krefst þess ekki ef hann veit ekki hvernig kerfið, sem búið er að byggja, leikur það og fer gegn þeirra eigin hagsmunum. Á Íslandi er þetta hins vegar alveg ljóst, vegna hinna opinberu rannsókna sem Alþingi Íslendinga stóð fyrir og nú að hluta til staðfest enn frekar af Panamaskjölunum. Íslendingar vita vel hvert fórnarlambið er. Stjórnmálamenn sem ekki mæla afdráttarlaust gegn starfsemi aflandsfélaga annað hvort skilja ekki áhrifin sem þau hafa á efnahagsstarfsemina og almenning, eða eru keyptir af þeim sem hafa af aflandsfélögunum hag. Í báðum tilfellum eiga þeir hinir sömu ekkert erindi í varðstöðu fyrir almannahagsmuni.
Guðrún Johnsen, hagfræðingur, lektor í fjármálum í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands (í leyfi 2015-2016), varaformaður stjórnar Arion banka og stjórnarmaður og stofnandi Gagnsæis – samtaka gegn spillingu. Samtökin eru tengiliður Transparency International á Íslandi.