25
merkilegustu fréttamál ársins
Ritstjórn Kjarnans tók saman þau fréttamál sem þóttu standa uppúr á árinu 2015. Bæði er horft á innlendar og erlendar fréttir. Reynt er að vigta fréttamálin eftir því hversu merkileg þau þóttu.
Eldgosinu í Holuhrauni lauk
Eldgosið í Holuhrauni hafði staðið í rúmlega hálft ár þegar því lauk 27. febrúar 2015. Þá hafði hraunbreiðan teygt sig yfir 85 ferkílómetra og orðið fimmta stærsta hraungos á sögulegum tíma á Íslandi. Nokkur gasmengun varð frá gosinu sem hafði áhrif í byggð og varð til þess að svæðinu umhverfis sprunguna var lokað almenningi. Ekki var hins vegar víst hvað kalla ætti þetta nýja hraun sem varð til í Holuhrauni, norðan Vatnajökuls. Heiti á borð við Nornahraun og Flæðahraun urðu til en Örnefnanefnd ákvað í desember að kalla hraunið Holuhraun.
#Mahlín kúgar forsætisráðherra
Systur á fertugsaldri eru handteknar í úthverfi Hafnarfjarðar fyrir að reyna að kúga fé út úr forsætisráðherra. Önnur er fyrrum ástkona umsvifamikils fjölmiðlaeiganda sem á sér langa pólitíska forsögu. Þær ætluðu að notfæra sér upplýsingar sem áttu að sýna fram á að forsætisráðherrann hefði tekið þátt í fjármögnun á kaupum á fjölmiðli án þess að slík kaup væru gerð opinber, til að hafa af forsætisráðherranum átta milljónir króna. Þetta hljómar eins kvikmyndahandrit, en er íslenskur veruleiki.
54 ára útilokun lokið
Bandaríkin hófu stjórnmálasamband við Kúbu á nýjan leik eftir að hafa slitið öllum stjórnmálasamskiptum árið 1961. Bandaríski fáninn var dreginn að húni í Havana í ágúst þegar sendiráð Bandaríkjanna opnaði. Í kjölfar opnunar sendiráðs á Kúbu hyggjast bandarísk stjórnvöld fella niður viðskiptabann milli ríkjanna. Stjórnmálasambandi við Kúbu var slitið árið 1961 þegar Kúbudeilan stóð sem hæst og barátta Bandaríkjanna og Johns F. Kennedy gegn kommúnisma var í algleymingi.
Trúfélagaþátttaka
Í október var birt könnun sem sýndi að mikill meirihluti þjóðarinnar er fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju. Alls eru nú tæplega 90 þúsund Íslendingar utan þjóðkirkjunnar. Á árinu komst samvisufrelsi presta til að meina samkynhneigðum um giftingu í umræðuna og var á endanum bannað. Aukin framlög til kirkjunnar voru einnig gagnrýnd mjög og Ólöf Nordal innanríkisráðherra opnaði á að taka öll samskipti ríkis og kirkju upp. Svo náðu Zúistar, trúfélag sem ætlar að endurgreiða öll sóknargjöld, í yfir 3.000 fylgjendur.
Fifa-rannsóknin
Í maí réðst lögreglan í Sviss, að undirlagi bandarískra yfirvalda, í margþættar aðgerðir vegna spillingarmála innan Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA. Ástæðan var rökstuddur grunur um marglaga spillingu og múturgreiðslur innan samtakanna, sérstaklega í efsta lagi þeirra. Fjölmargir stjórnendur og stjórnarmenn FIFA hafa verið handteknir og ákærðir vegna málsins, Sepp Blatter hefur þurft að segja af sér sem forseti FIFA og var nýverið dæmdur í átta ára bann frá knattspyrnu ásamt goðsögninni Michel Platini, sem þótti líklegur eftirmaður hans.
Menguðu 40 sinnum meira en þeir máttu
Volkswagen tók árið 2015 fram úr Toyota sem stærsti bílaframleiðandi í heimi. Á fyrstu sex mánuðum ársins seldi þýski framleiðandinn 5,04 milljónir bíla. Í september varð þessi stærsti bílaframleiðandi í heimi uppvís af mengunarskandal þegar það kom í ljós að dísel-bílar með merkjum Volkswagen í Bandaríkjunum væru búnir hugbúnaði sem svindlar á mengunarprófunum. Stjórnendur fyrirtækisins viðurkenndu svo að skandallinn væri enn stærri því bílarnir með svindlbúnaðinum hefðu verið seldir um allan heim, meðal annars á Íslandi. Virði fyrirtækisins hrundi í kjölfarið og stjórnendur sögðu af sér.
Frosin átök í Úkraínu
Leiðtogar Rússlands, Úkraínu, Þýskalands og Frakklands; Pútín, Porósjenkó, Merkel og Hollande, settust að samningaborðinu í upphafi árs til að reyna að binda endi á átökin í Austur-Úkraínu þar sem barist hafði verið í um ár. Það tók tvær tilraunir í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands til að ná fram vopnahléi. Eftir seinni samningaviðræðurnar hefur hvorug fylkingin lagst í landvinninga. Stríðinu er hins vegar ekki lokið, þó aðeins til smávægilegra bardaga hafi komið.
Innanríkisráðherra út fyrir valdsvið sitt
Umboðsmaður Alþingis setti punktinn bakvið lekamálið með birtingu frumkvæðisathugunar sinnar á samskiptum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur,fyrrum innanríkisráðherra og Stefáns Eiríkssonar, fyrrum lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, í janúar. Í því sagði umboðsmaður að Hanna Birna hefði haft ítrekuð og mikil afskipti af rannsókn lekamálsins og gengið langt út fyrir valdsvið sitt í samskiptum sínum við Stefán. Hanna Birna hefur beðið Stefán afsökunar á framgöngu sinni.
Kjarnorkusamningur við Íran
Samkomulag við stjórnvöld í Íran um kjarnorku var undirritað í júlí. Samkomulaginu er ætlað að koma í veg fyrir að Íranir geti þróað kjarnorkuvopn en í skiptum fyrir það verður efnahagsþvingunum gegn Íran létt á næstu árum. Samningaviðræður Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Kína, Rússlands og Þýskalands við Íran hófust árið 2006. Ísraelar hafa mótmælt samkomulaginu og sagt Írana nú eiga auðveldara með að framleiða kjarnorkuvopn. Eftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna munu eiga greiðan aðgang að Íran samkvæmt samkomulaginu.
Síminn skráður á markað
Ákveðið var að skrá Símann á markað í október. Áður fengu tveir hópar að kaupa hlut á lægra verði en bauðst í útboðinu. Annar hópurinn var samansettur af helstu stjórnendum Símans og fjárfestum sem þeir tengdu saman. Þeir fengu að kaupa á gengi sem var um þriðjungi lægra en útboðsgengið. Þá fengu valdir vildarviðskiptavinir Arion banka að kaupa á lægra verði líka. Bankinn viðurkenndi að gagnrýni á sölu til vildarviðskiptavina hefði verið réttmæt en stóð með ákvörðuninni að selja stjórnendahópnum.
Gunnar Bragi segir ESB upp með bréfi
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra greindi frá því í mars að hann hefði afhent utanríkisráðherra Lettlands bréf um að ríkisstjórnin liti svo á að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki að Evrópusambandinu. Málið var gríðarlega umdeilt og samkvæmt könnun Fréttablaðsins var mikill meirihluti Íslendinga ósáttur við framgöngu Gunnars Braga. ESB leit svo á að þetta væri ekki formleg afturköllun og stjórnarandstaðan sendi eigið bréf og sagði það Alþingis að taka ákvörðun af þessu tagi.
Loftárásir í Sýrlandi
Fjöldi ríkja heims hélt áfram loftárásum á Íslamska ríkið í Sýrlandi. Enn fleiri bættust í hóp þeirra sem berjast gegn Íslamska ríkinu. Þar á meðal eru Rússar sem standa með stjórn Bashar al-Assad í Sýrlandi. Það hefur gert Sýrland að velli átaka í alþjóðastjórnmálum milli Vesturlanda og Rússlands. Þegar hefur kastast í kekki á milli bandalagsþjóða og Rússa því Tyrkir skutu niður orustuþotu rússneska hersins sem sagt er að hafi farið inn í lofthelgi Tyrkja. Rússar neita því staðfastlega. Var þetta í fyrsta sinn sem til beinna átaka kemur á milli NATO-ríkis og Rússlands.
Ragnheiður Elín gerð afturreka með náttúrupassa
Samhliða gríðarlegri fjölgun ferðamanna jókst þrýstingur á stefnumótun og gjaldtöku á ferðamannastöðum til uppbyggingar. Ragnheiður Elín Árnadóttir lagði fram frumvarp um náttúrupassa sem vakti mjög harða gagnrýni víðast hvar, og svo fór að ákveðið var að málið færi ekki lengra, enda enginn stuðningur við aðferðina. Seinna á árinu kynnti hún svo ásamt öðrum stofnun stjórnstöðvar ferðamála, sem á að samhæfa aðgerðir í ferðamálum. Enn bólar þó ekkert á stefnumótun um gjaldtöku á ferðamannastöðum.
Illugi og Orka Energy
Illugi Gunnarsson komst í vandræði þegar upp komst að hann hefði þegið fjárstuðning frá Hauki Harðarsyni, stjórnarformanni Orku Energy. Í honum fólst að Haukur keypti íbúð Illuga af honum og leigði honum hana síðan aftur auk þess sem Illugi hafði starfað sem ráðgjafi hjá Hauki. Þetta fjárhagslega hæði var tortryggt vegna þess að Illugi tók Hauk með í opinbera heimsókn til Kína í mars 2015 og opnaði fyrir honum viðskiptalegar dyr. Illugi hefur þvertekið fyrir að hafa gert nokkuð óeðlilegt.
Ráðist á skopblað og 12 drepnir
Tveir franskir bræður réðust þungvopnaðir inn á ritstjórnarskrifstofur franska skopblaðsins Charlie Hebdo í janúar og skutu þar tólf manns til bana og særðu ellefu áður en þeir lögðu á flótta. Charlie Hebdo hafði birt myndir af Múhameð spámanni og er það talið hafa verið ástæða árásarinnar. Flótti bræðranna stóð ekki lengi því degi síðar féllu þeir fyrir hendi lögreglu í smábæ utan við París. Samstaða almennings var mögnuð; fjölmargir deildu #JeSuisCharlie á samfélagsmiðlum og meira en 40 þjóðarleiðtogar gengu hönd í hönd um stræti Parísar til að standa með lýðræðinu, tjáningarfrelsinu og Frökkum.
130 létust í skæðustu hryðjuverkaárás í Frakklandi
Þaulskipulagðar hryðjuverkaárásir voru gerðar í París í nóvember á sex stöðum samtímis með þeim afleiðingum að 130 manns létust og 368 særðust. Árásarmennirnir voru felldir í umsátri í úthverfi Parísar fáeinum dögum síðar en þeir eru taldir hafa haft tengsl við Íslamska ríkið. Francois Hollande, Frakklandsforseti, lýsti yfir neyðarástandi í landinu sem stendur enn og sagði Frakka ætla að hefna fyrir þessi ódæði. Strax í kjölfarið juku Frakkar loftárásir sínar á Íslamska ríkið. Árásirnar hafa einnig aukið á efasemdir Evrópubúa um ágæti flóttafólksins sem streymdi til álfunnar árið 2015. Samstaða alþjóðasamfélagsins gegn Íslamska ríkinu varð aftur á móti traustari.
Hörðustu kjaradeilur í langan tíma
Árið 2015 má segja að vinnumarkaðurinn hafi logað í illdeilum. Árið hófst á verkföllum lækna, sem fengu á endanum miklar hækkanir í kjarasamningum. Það setti tóninn fyrir kjaradeilurnar sem á eftir komu. Fjölmargar stéttir fóru í verkfall, sjúkraliðar og hjúkrunarfræðingar, margar iðnaðarmannastéttir, Bandalag háskólamanna og fleiri. Lög voru sett á verkföll hjúkrunarfræðinga og BHM, en BHM hefur nú vísað því máli til mannréttindadómstóls Evrópu. Enn er ósamið í sex kjaradeilum, en 57 kjaradeilur komu inn á borð ríkissáttasemjara á árinu.
Húsnæðismálanna beðið lengst af
Mikið var beðið eftir húsnæðisfrumvörpum sem Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra hafði boðað. Ekkert frumvarpanna náði fram að ganga á síðasta þingi þrátt fyrir yfirlýsingar Eyglóar þar um. Eygló og Bjarni Benediktsson deildu opinberlega um frumvörpin og hörð gagnrýni kom úr ráðuneyti Bjarna á frumvörpin. Aðgerðir í húsnæðismálum voru þó á meðal þess sem ríkisstjórnin lofaði aðilum vinnumarkaðarins í lok maí. Undir lok ársins komu frumvörpin loks fram á ný, og til stendur að klára þau snemma á nýju ári.
Vitundarvakning og umræða um kynferðisbrotamál
Mikið var rætt um kynferðisbrotamál, umfjöllun og meðferð þeirra. Fjöldi byltinga átti sér stað á Twitter og í hópnum Beauty Tips á Facebook, þar sem konur frelsuðu geirvörtur gegn hefndarklámi, ræddu mismunun, viðbrögð við kynferðisbrotum, þöggun og margt fleira. Á seinni hluta ársins kom upp mikil umræða um meðferð mála hjá lögreglu og í dómskerfinu, fyrst í tengslum við þjóðhátíð og síðar nauðgunarmál í Hlíðunum, dóm í hópnauðgunarmáli og fleira.
Menningarlegur rasismi í íslenskri orðræðu
Í íslenskri stjórnmálaorðræðu má tvímælalaust greina sterkan menningarlegan rasisma. Þetta niðurstaðan rannsóknar sem gerð var við Háskólann á Bifröst og Kjarninn greindi frá. Fjölmargar fréttir hafa verið sagðar af málum þar sem skilyrði menningarlegs rasisma eru uppfyllt. Þar ber helst að nefna moskumálið, hugmyndir Ásmundar Friðrikssonar um bakgrunnsrannsókn á múslimum og umræðuna í kringum skipan Gústafs Níelssonar í mannréttindaráð Reykjavíkur. Árið 2015 var árið þar sem opinber umræða um útlendinga, innflytjendur, fjölmenningu og alþjóðaskamskipti náði nýjum hæðum.
Gríski harmleikurinn
Efnahagskrísan í Grikklandi hélt áfram. Ný stjórnvöld tóku við í janúar, með háar hugmyndir um skuldaniðurfellingar. Fyrri hluti ársins einkenndist af fréttum af framgangi, eða skorti á framgangi, í skuldaviðræðum. Í júní slitu grísk stjórnvöld viðræðunum og tilkynntu að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um björgunartillögur ESB og AGS. Kjósendur höfnuðu tillögunum og í júlí var svo gengið frá samningum. Dramatíkin hélt áfram og í ágúst hafði stjórnarflokkurinn Syriza klofnað, sagði af sér og boðaði til nýrra kosninga, þar sem forsætisráðherra hélt velli.
Orku- og auðlindamál
Á árinu komst umræða um sæstreng til Bretlands á flug og ákváðu David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra að skipa vinnuhóp til að taka út möguleika þeirrar framkvæmdar. Landsvirkjun hefur auk þess staðið í samningaviðræðum við Norðurál um endurnýjun raforkusamnings og mikill þrýstingur hefur skapast á fyrirtækið að selja orkuna áfram á lágu verði til að verja störf, meðal annars frá verkalýðsfélagi og Samtökum Iðnaðarins. Forstjóri Landsvirkjunar, hefur sagt að aukin arðsemi fyrirtækisins sé eitt mesta efnahagslega hagsmunamál íslensku þjóðarinnar.
Losun fjármagnshafta
Í júníbyrjun kynntu stjórnvöld áætlun sína um losun hafta. Hún byggði á því að slitabúum föllnu bankanna var gefin kostur á því að semja um að greiða stöðugleikaframlag gegn því að klára nauðasamninga sína eða fá á sig 39 prósent stöðugleikaskatt. Eftir að kynningunni lauk kom í ljós að öll slitabúin höfðu þegar samið um að ljúka málinu með greiðslu stöðugleikaframlags. Það verður greitt á næstunni og nemur um 339 milljörðum króna.
Mesti straumur flóttamanna í Evrópu síðan í seinni heimstyrjöld
Aldrei hafa jafn margir flóttamenn streymt um Evrópu síðan í seinni heimstyrjöldinni. Flóttamannastraumurinn jókst jafnt og þétt eftir því sem leið á árið og náði hámarki í lok sumars og í haust. Flóttamannalög Evrópusambandsins reyndust ekki höndla þennan mikla straum fólks sem flýr stríð og bágan hag í Sýrlandi, Írak og Afganistan. Sum ríki Evrópu kusu að loka landamærum sínum, önnur hertu landamæraeftirlit sitt með þeim afleiðingum að samstarf Evrópuríkja um landamæraeftirlit, Schengen, stendur veikara og þar með ein af stoðum Evrópusambandsins. Talið er að meira en 980.000 manns hafi komist til Evrópu á þessu ári.
Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna
Sögulegt samkomulag um loftslagsmál náðist í París um miðjan desember. Er þetta víðtækasta alþjóðasamkomulag sem gert hefur verið enda samþykktu það nær öll ríki heims. Sameiginlegt markmið ríkjanna sem skrifuðu undir er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hægja á hlýnun jarðar. Um er að ræða markmið næstu áratuga en margt er þó enn óráðið; munu ríkin innleiða markmið sín um minni losun? Er hlýnun jarðar innan við tvær gráður raunhæft markmið? Ísland samdi með Evrópusambandinu og Noregi og mun semja um hlutdeild sína í samkomulaginu á nýju ári.