Ríkir

Afsláttur, ávöxtun og gríðarlegur gengishagnaður

Fjárfestar sem komu fyrstir með peninga í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans mega nú losa fjárfestingar sínar. Þeir fengu 49 milljarða í virðisaukningu og gengishagnað upp á rúmlega 80 milljarða. Fáir, ef einhverjir, hafa grætt jafn mikið á hruninu og þessi hópur.

Þeir aðilar sem komu með 1.100 millj­ónir evra inn í íslenskt hag­kerfi í gegnum fjár­fest­ing­ar­leið Seðla­banka Íslands myndu fá um 1.840 millj­ónir evra fyrir þær krónur sem þeir skiptu evr­unum sínum í miðað við gengi dags­ins í dag. Því hefur styrk­ing íslensku krón­unnar gert það að verkum að geng­is­hagn­aður við­kom­andi aðila er 67 pró­sent. Sá geng­is­hagn­að­ur, mældur í íslenskum krónum á gengi dags­ins í dag, er 83,6 millj­arðar króna. Í ljósi þess að heim­ildir til að færa pen­inga út úr íslenskum fjár­magns­höftum voru rýmkaðar umtals­vert í fyrra­haust, og enn meira um liðin ára­mót, geta þeir sem komu með pen­inga í gegnum fjár­fest­inga­leið­ina farið hægt og rólega að færa þá pen­inga í aðra gjald­miðla.

Ekki er þó víst að allir þeir sem komu með fé inn í landið með þessum hætti vilji fara í burtu alveg strax. Allt útlit er nefni­lega fyrir áfram­hald­andi styrk­ingu krón­unnar næstu miss­er­in, og þar af leið­andi auk­inn geng­is­hagnað fyrir þá sem bíða leng­ur.

Hagn­aður upp á annað hund­rað millj­arða

Þeir aðilar sem komu með pen­inga í gegnum fjár­fest­inga­leið­ina fengu einnig að skipta evr­unum sínum í íslenskar krónur á mun betra gengi en venju­legum Íslend­ingum bauðst í næsta banka. Sam­tals fengu þeir 206 millj­arða króna fyrir evr­urnar sem þeir fluttu inn til lands­ins í gegnum leið­ina. Ef þeim hefði verið skipt í banka á því gengi sem almenn­ingi bauðst hefðu feng­ist 157 millj­arðar króna fyrir þær. Virð­is­aukn­ingin sem þeir aðilar sem nýttu sér fjár­fest­ing­ar­leið­ina fengu vegna hennar var því 48,7 millj­arðar króna.

Ef eng­inn þeirra sem kom með pen­inga inn í íslenskt hag­kerfi í gegnum fjár­fest­inga­leið­ina hefur farið út með hann aftur þá er sam­an­lagður geng­is­hagn­aður og virð­is­aukn­ing vegna hag­stæðs gengis þeirra sem bauðst að nýta sér leið­ina rúm­lega 132 millj­arðar króna. Þá á auð­vitað eftir að telja með þann hagnað sem við­kom­andi höfðu af því að fjár­festa á Íslandi á árum þar sem nán­ast allir fjár­fest­ing­ar­mögu­leikar skil­uðu mik­illi arð­semi.

Var fyrst og fremst fyrir ríkt fólk

Til­gangur fjár­fest­ing­ar­leið­ar­innar var að vinna á hinni svoköll­uðu snjó­hengju. Þ.e. krónu­eignum erlendra aðila sem voru fastar inni í íslenskum höftum og ómögu­legt var að hleypa út úr þeim án þess að það myndi hafa gíf­ur­legar nei­kvæðar afleið­ingar á greiðslu­jöfn­uð.

Þeir sem tóku þátt í leið­inni komu með gjald­eyri og fengu að skipta honum í íslenskar krónur á mun hag­stæð­ara gengi en öðrum bauðst.

Þeir sem tóku á sig „tap­ið“ í þessum við­skiptum voru aðilar sem áttu krónur fastar innan hafta en vildu kom­ast út úr íslenska hag­kerf­inu með þær. Seðla­bank­inn var síðan í hlut­verki milli­göngu­að­ila í við­skipt­un­um.

Alls fóru fram 21 svona útboð á árunum 2012-2015. Framan af tíma­bil­inu gátu ein­ungis þeir sem áttu 50 þús­und evrur eða meira tekið þátt í útboð­un­um. Í byrjun árs 2013 var sú upp­hæð jafn­gildi um 8,1 milljón króna sam­kvæmt gengi Seðla­banka Íslands. Það er því ljóst að fyrst og fremst ríku fólki, sem átti yfir átta millj­ónir króna í lausu fé, stóð þessi leið til boða. Lág­markið var síðar lækkað í 25 þús­und evr­ur, eða rúm­lega fjórar millj­ónir króna á þáver­andi gengi.

20 pró­sent afsláttur á íslenskum eignum

Að með­al­tali fékkst um 20 pró­sent afsláttur á eignum á Íslandi með því að fara þessa leið. Sá bögg­ull fylgdi skamm­rifi að það þurfti að binda fjár­fest­ing­una í eignum í fimm ár hið minnsta, en það mátti þó greiða arð af fjár­fest­ing­unum út á meðan að á þeim tíma stóð. Margir not­færðu sér þetta með því gefa sjálfir út skulda­bréf í íslensku félagi, selja sjálfum sér þau skulda­bréf og láta síðan vexti á þeim vera háa eða þorra upp­greiðslu á fyrstu árum útgáf­unn­ar. Þannig var hægt að losa upp­hæð­ina sem var flutt til lands­ins mun fyrr en Seðla­banki Íslands hafði ætl­að, og nota hana í ann­að. 

Már Guðmundsson er seðlabankastjóri, og hefur gengt því starfi frá árinu 2009.
mynd:Birgir Þór Harðarson

Sam­kvæmt upp­lýs­ingum frá Seðla­banka Íslands var um 47,2 pró­sent af því fjár­magnsinn­streymi sem kom til lands­ins fest í skulda­bréf­um, um 40 pró­sent í hluta­bréf­um, 12,2 pró­sent í fast­eignum og 0,6 pró­sent í verð­bréfa­sjóð­um. Fyrir þá sem bundu þessa pen­inga raun­veru­lega í t.d. fast­eignum eða hluta­bréfum þá hefur arð­semi þeirra verið gríð­ar­leg. Úrvals­vísi­tala Kaup­hall­ar­innar hefur hækkað um 81 pró­sent frá því að fjár­fest­ing­ar­leiðin hóf göngu sína og fram til dags­ins í dag. Fast­eigna­verð á höf­uð­borg­ar­svæð­inu hefur hækkað um 47 pró­sent.

Þá á eftir að taka inn geng­is­á­hrifin ef fjár­fest­ingin er mæld í evr­um. Íslenska krónan hefur nefni­lega styrkst gríð­ar­lega á þessu tíma­bili og þeir sem keyptu hræó­dýrar íslenskar krónur á eft­ir­hrunsár­unum og eiga þær enn munu inn­leysa gríð­ar­legan geng­is­hagnað þegar þeir skipta þeim aftur í evrur eða aðra mynt með tíð og tíma.

Í síð­asta mán­uði, febr­úar 2017, voru liðin fimm ár frá því að fyrsti hóp­ur­inn sem kom með pen­inga í gegnum fjár­fest­ing­ar­leið­ina mátti fara aftur út úr íslensku hag­kerfi með pen­ing­anna. Fimm ára bind­ingin var lið­in. Miðað við gengi evru í dag myndu fást um 1.840 millj­ónir evra fyrir allar þær íslensku krónur sem seldar voru vegna fjár­fest­ing­ar­leið­ar­inn­ar. Geng­is­hagn­aður þess hóps sem fékk að nýta sér þessa leið er því um 740 millj­ónir evra, eða 83,6 millj­arðar króna á gengi dags­ins í dag.

Hvernig sem litið er á það þá hafa þeir sem fengu að taka þátt í fjár­fest­ing­ar­leið Seðla­banka Íslands hagn­ast óheyri­lega á því. Þeir fengu 48,7 millj­arða króna í afslátt á íslenskum eignum sem þeir geta nú inn­leyst. Þeir fengu nán­ast for­dæma­lausa ávöxtun á fjár­fest­ingar sín­ar, sér­stak­lega í hluta­bréfum og fast­eign­um. Og þeir geta inn­leyst um 84 millj­arða króna geng­is­hagn­að.

Íslend­ingar áttu 35 pró­sent af upp­hæð­inni

Það voru ekki bara útlend­ingar sem nýttu sér fjár­fest­ing­ar­leið­ina. Alls komu 794 inn­lendir aðilar með pen­inga inn í íslenskt hag­kerfi með þessum hætti. Um er að ræða 35 pró­sent þeirrar upp­hæðar sem kom inn í landið með þessum hætti. Það þýðir að þriðja hver króna sem var seld með afslætti í gegnum leið­ina var seld inn­lendum aðila.

Alls fengu þessir aðilar 72 millj­arða króna fyrir um 385 millj­ónir evra sem þeir skiptu. Virð­is­aukn­ingin sem þeir fengu vegna þess góða gengis sem Seðla­banki Íslands bauð efn­uðu fólki upp á í gegnum fjár­fest­ing­ar­leið­ina var um 17 millj­arðar króna. Til við­bótar myndi geng­is­hagn­aður hóps­ins, ef öllum krón­unum sem keyptar voru yrði skipt í evrur í dag, vera 256,5 millj­ónir evra, eða 28,8 millj­arðar króna. Það þýðir að inn­lendir aðilar hafa hagn­ast um 45,8 millj­arða króna vegna virð­is­aukn­ingar og geng­is­hagn­að­ar. Til við­bótar kemur hagn­aður vegna þess að fjár­fest­ingar þeirra, sem flestar voru á bruna­út­sölu­verði á tíma­bil­inu sem fjár­fest­ing­ar­leiðin var í boði, hafa hækkað gríð­ar­lega í verði.

Trún­aður um hverjir fengu að nýta leið­ina

Seðla­banki Íslands hefur aldrei viljað upp­lýsa um hvaða aðilar það voru sem fengu að nýta sér þetta ein­staka við­skipta­tæki­færi. Kjarn­inn hefur marg­sinnis beint fyr­ir­spurnum um málið til hans, en bank­inn hefur ávallt borið fyrir sig þagn­ar­skyldu. Banka­ráð Seðla­banka Íslands, sem er póli­tískt skip­að, tók undir þá afstöðu í lok jan­úar síð­ast­lið­ins.

Á meðal þeirra sem fjöl­miðlar hafa þó upp­ljóstrað um að hafi nýtt sér þessa leið eru félög í eigu bræðr­anna Lýðs og Ágústs Guð­munds­sona, Hreið­ars Más Sig­urðs­son­ar, Jóns Ólafs­son­ar, Jóns Von Tetzchner, knatt­spyrnu­manns­ins Gylfa Þórs Sig­urðs­son­ar, Ólafs Ólafs­son­ar, Hjör­leifs Jak­obs­son­ar, Ármanns Þor­valds­son­ar, Kjart­ans Gunn­ars­son­ar, Skúla Mog­en­sen, rekstr­ar­fé­lags Iceland Foods, Alvogen, Karls og Stein­gríms Wern­ers­sona og danskra eig­enda Húsa­smiðj­unn­ar.

Ákveðin skil­yrði voru fyrir því að mega fara í gegnum fjár­fest­ing­ar­leið­ina. Á meðal þeirra er að fjár­festir­inn væri raun­veru­legur eig­andi þeirra fjár­muna sem hann ætlar sér að flytja inn til lands­ins. Auk þess er óheim­ilt að flytja fjár­muni fyrir hönd ann­ars eða ann­arra aðila. Annað skil­yrði var að fjár­festir læg­i„ekki undir rök­studdum grun hjá gjald­eyr­is­eft­ir­liti Seðla­bank­ans um meint brot, ákærður af hand­hafa ákæru­valds eða kærður til lög­reglu af Seðla­bank­an­um, og máli vegna þess sé enn ólokið hjá ákæru­valdi eða lög­reglu“.

Skil­mál­unum var þó breytt í des­em­ber 2012 þegar því var bætt inn að þeir aðilar sem lágu undir rök­studdum grun hjá gjald­eyr­is­eft­ir­liti Seðla­bank­ans um meint brot mættu ekki heldur taka þátt í útboðum fjár­fest­ing­ar­leið­ar­inn­ar.

Engar tak­mark­anir  voru hins vegar á þátt­töku í fjár­fest­ing­ar­leið­inni fyrir aðila sem voru til rann­sóknar eða jafn­vel í ákæru­ferli hjá öðrum emb­ættum en gjald­eyr­is­eft­ir­liti Seðla­bank­ans.

Í skýrslu starfs­hóps um eignir Íslend­inga á aflands­­­­svæð­um, sem birt var í byrjun jan­ú­­ar, er fjallað um fjár­­­­­fest­ing­­­ar­­­leið Seðla­­­banka Íslands og því meðal ann­­­ars velt upp hvort hún hafi orðið til þess að hluti af fjár­­­­­magn­inu frá aflands­­­svæð­um, sem orðið hafi til með ólög­­­mætum hætti, hafi skilað sér Íslands með geng­is­af­slætti í gegnum fjár­­­­­fest­ing­­­ar­­­leið­ina.

Orð­rétt segir í skýrsl­unni: „Miðlun upp­­­lýs­inga um fjár­­­­­magns­flæði inn og út úr land­inu, t.d. aflandskrónur sem fluttar hafa verið til lands­ins og eins þátt­­­taka í fjár­­­­­fest­ing­­­ar­­­leið Seðla­­­bank­ans er ekki til stað­­­ar. Sér í lagi hefur skatt­yf­­­ir­völdum ekki verið gert við­vart af hálfu Seðla­­­bank­ans þegar um grun­­­sam­­­legar fjár­­­­­magnstil­­­færslur er að ræða. Æski­­­legt má telja að sam­­­starf væri um miðlun upp­­­lýs­inga á milli þess­­­ara stofn­ana.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar