Umhverfisáhrif Íslands og Íslendinga

Umhverfisáhrif Íslendinga eru margslungin en leiðirnar til þess að komast undan þeim eru margvíslegar. Hér er fyrsta grein í greinaröð á vegum Circular Solutions um umhverfismál á Íslandi.

Stutt er síðan umhverf­is­þing var haldið í Hörpu. Þar voru fjöl­mörg erindi flutt um marg­vís­legar hliðar lofts­lags­breyt­inga, allt frá áhrifum þeirra á Ísland og hvernig við getum best tek­ist á við þann vanda. Það var til að mynda áhuga­vert að heyra frá Mon­iku Araya frá Kosta Ríka hvernig lítil lönd geta haft áhrif á stór alþjóða­leg vanda­mál með því að leggja til og hrinda stórum hug­myndum í fram­kvæmd. Þannig geta lönd eins og Ísland og Kosta Ríka verið fyr­ir­mynd ann­arra landa þar sem erf­ið­ara er að koma djörfum áætlum í gegnum kerf­ið. Þá tók maður það til sín þegar Saga Rut Sunn­evu­dóttir og Bríet Fel­ix­dóttir (nem­endur Mennta­skól­ans við Hamra­hlíð) töl­uðu um skort á umræðu og kennslu fyrir ungt fólk um lofts­lags­mál.

Eftir sem áður var það staða Íslands gagn­vart Kyoto-­bók­un­inni og Par­ís­ar­sátt­mál­anum sem stóð helst upp úr. Íslend­ingar horfa fram á að ná ekki að standa við skuld­bind­ingar sínar gagn­vart Kyoto-­bók­un­inni fyrir tíma­bilið 2013-2020 (1). Svo í beinu fram­haldi tekur Par­ís­ar­sátt­mál­inn við fyrir árin 2021 til 2030 og það er ljóst að þörf er á miklum aðgerðum ef við ætlum að stand­ast skuld­bind­ing­arnar okkar gagn­vart hon­um.

Staðan gagn­vart Kyoto-­bók­unin

Skuld­bind­ing Íslands gagn­vart Kyoto-­bók­un­inni gerir ráð fyrir 20% lækkun á losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda miðað við árið 1990 (2). Staðan í dag er sú að tæp­lega 30% aukn­ing hefur orðið á losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda miðað við árið 1990 (3), það er því ljóst að draga þarf mjög úr losun á rúm­lega tveimur árum. Kristín Linda Árna­dótt­ir, for­stjóri Umhverf­is­stofn­un­ar, setti þetta í sam­hengi á umhvef­is­þing­inu með því að bera saman lækkun á losun fyrir árið 2020 við heild­ar­losun frá fisk­veiðum og vega­sam­göng­um.

Hún sagði í erindi sínu að lækk­unin þurfi að vera meiri en heild­ar­losun frá fisk­veiðum eða 75% af heild­ar­losun vega­sam­gangna. Ef skuld­bind­ingin er ekki upp­fyllt þarf að kaupa los­un­ar­heim­ild­ir, en vegna þess hversu langt við erum frá mark­mið­inu og hversu lít­ill tími er til stefnu er nokkuð ljóst að umtals­verðum fjár­munum þarf að eyða í los­un­ar­heim­ild­ir.

Staðan gagn­vart Par­ís­ar­sátt­mál­anum

Skuld­bind­ing (og fram­lag) Íslands í Par­ís­ar­sátt­mál­anum mun vænt­an­lega vera nálægt 40% lækkun á losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda fyrir árið 2030 miðað við árið 2005. Á umhverf­is­þing­inu kynnti Bryn­hildur Dav­íðs­dótt­ir, pró­fessor í umhverf­is- og auð­linda­fræði við Háskóla Íslands, nið­ur­stöður úr nýlegri skýrslu Hag­fræði­stofn­unar Háskóla Íslands. Í henni eru meðal ann­ars settar fram sviðs­myndir af fram­tíð­inni, þar sem losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda árið 2030 er aukin og áætluð 33-79% hærri en árið 1990 (með kolefn­is­bind­ingu) (3). Mun­ur­inn á lág­gildi (33%) og hágildi (79%) er aðal­lega hversu mikil aukn­ing verður á stór­iðju á Íslandi yfir þetta tíma­bil. Ef við gerum ráð fyrir því að látið verði af frek­ari stór­iðju­fram­kvæmdum er áætl­unin samt sem áður tölu­vert frá mark­mið­inu árið 2030. Það verður því erfitt að lækka kolefn­is­sporið án mik­illar tækni­þró­unar í stór­iðj­unni.

Eiffelturninn í París.
Godreau / Unsplash

Ef við lítum til þess að sam­kvæmt Par­ís­ar­sátt­mál­anum verður stór­iðja skil­greind innan við­skipta­kerfis Evr­ópu og ekki talin með í los­un­ar­bók­haldi Íslands, þá breyt­ast sviðs­mynd­irnar fyrir árið 2030. Án stór­iðju er losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda áætluð minni, það er að segja 18-12% lægri en árið 1990 (með kolefn­is­bind­ingu) sam­kvæmt nið­ur­stöðum skýrslu Hag­fræði­stofn­unar (3). Þar sem það er ekki búið að fast­móta skuld­bind­ingu Íslands er óvíst hversu mikið af kolefn­is­bind­ing­unni verður hægt að telja til mót­væg­is. En án bind­ingar er losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda áætluð 10-16% hærri en árið 1990. Það þarf sem sagt mikið að ger­ast á 12 árum til þess að nálg­ast 40% lækk­un. Það er þess virði að nefna að stór­iðj­una ber ekki að öfunda að vera ekki hluti af los­un­ar­bók­haldi Íslands því skuld­bind­ing aðila að við­skipta­kerfi Evr­ópu verða að öllum lík­indum meiri en fyrir Ísland.

Kolefn­is­fót­spor Íslend­inga

En hvað er kolefn­is­fót­spor Íslend­inga? Los­un­ar­bók­hald Íslands fyrir bæði Kyoto-­bók­un­ina og Par­ís­ar­sátt­mál­ann mið­ast aðal­lega við fram­leiðslu og er mælt út frá losun sem á sér stað innan landamæra og lög­sögu Íslands. Þó svo að við náum að öllum lík­indum ekki að stand­ast Kyoto-­bók­un­ina fyrir árið 2020 hefur losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda á fram­leidda ein­ingu (2010 USD af GDP) þó minnkað um 50% á tæpum 30 árum sé litið á tölur frá Alþjóða­bank­anum (4). Íslend­ingar standa sig því vel þegar litið er til þessa, og þó víða væri leitað (Danir standa sig þó bet­ur). En Banda­ríkja­menn, lönd á Evru­svæð­inu og OECD ríkin losa allt að tvö­falt meira magn af gróð­ur­húsa­loft­teg­undum við hverja fram­leidda ein­ingu heldur en Ísland. Sé litið á mynd 1 má sjá þessa þróun frá árinu 1990 (4).

Útblástur gróðurhúsalofttegunda á framleidda einingu frá ýmsum svæðum og löndum.

Gríð­ar­legum árangri hefur verið náð á stóru svæði heims­ins. Fátæk lönd í Aust­ur-Asíu hafa þó ekki náð slíkum árangri. Á sömu mynd má sjá að hægri y-ás mynd­ar­innar á ein­ungis við þau lönd. Útblástur á því svæði, á hvern fram­leiddan dollar af GDP er nærri því þre­faldur á við Ísland, og tvö­faldur miðað við almennt gildi á Evru­svæð­inu. Velji fyr­ir­tæki fram­leiðslu á því svæði, af kostn­að­ar­á­stæðum eða öðrum, geta þau gert ráð fyrir því að umhverf­is­á­hrifin af iðju sinni verði tölu­vert hærri en þurfa þyk­ir. Á árunum 1990 til 2001 má sjá að miklum fram­förum var náð í fátæk­ari hluta Aust­ur-Asíu, þó tók við tíma­bil á milli 2001 og 2005 þar sem nýtnin gekk til baka og var komin í sama horf árið 2005 og árið 1997 (4).

Útblástur frá mengandi starfssemi.
Jason Blackeye / Unsplash

Með alþjóða­væð­ingu eru vörur sem við neytum hér heima hluti af alþjóð­legum virð­is­keðjum og leiðir til los­unar á gróð­ur­húsa­loft­teg­undum í mörgum öðrum lönd­um. Gróð­ur­húsa­loft­teg­undir sem eru leystar út í and­rúms­loftið á einum stað hafa áhrif á heims­vísu, þar sem þær lifa mjög lengi í and­rúms­loft­inu og dreifast til­tölu­lega hratt. Það er því vert að athuga hvernig neysla okkar Íslend­inga hefur áhrif á lofts­lags­breyt­ingar í heim­in­um. Til þess að gera það er oft stuðst við svo­kall­aðar „inter country input-out­put (ICI­O)“-töflur eða „multi-reg­ion input-out­put (MRI­O)“-töflur sem inni­halda gögn um við­skipti milli landa. OECD reiknar út kolefn­is­fót­spor landa út frá fram­leiðslu þess og neyslu með notkun á ICIO töflum (5).

Það er áhuga­vert að bera saman kolefn­is­spor Íslend­inga út frá fram­leiðslu lands­ins ann­ars vegar og svo neyslu hins vegar yfir tíma­bil. Þá sést mjög vel hvernig efna­hags­leg skil­yrði í land­inu hafa áhrif á kolefn­is­sporið okk­ar. Til að mynda jókst kolefn­is­spor með til­liti til neyslu á árunum fyrir efna­hags­hrunið árið 2008 og dróst svo saman enn hraðar á hrunsár­un­um. Með því að nota tölur frá OECD er einnig hægt að finna hversu mikið af losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda vegna neyslu Íslend­inga er inn­an­lands og hversu mikil los­unin er erlend­is. Frá árunum 1995–2011 var losun erlendis vegna fram­leiðslu á vörum fyrir neyslu Íslend­inga um það bil 60%.

Kolefnisfótspor Íslendinga útfrá framleiðslu og neyslu, ásamt skiptingu á losun innanlands og erlendis

Í grein sem kom út á árinu í vís­inda­tíma­rit­inu „Jo­urnal of Cleaner Prod­uct­ion“ eftir Jack Clar­ke, Jukka Heinonen og Juu­dit Ottelin um kolefn­is­fót­spor Íslend­inga kemur fram að þrátt fyrir að hér sé umhverf­is­væn raf­orka og hús­hitun svipar kolefn­is­fót­spor Íslend­inga til þró­aðra landa sem geta ekki státað af „hreinni“ orku (6). Í þeirri grein kom einnig fram að ástæðan væri aðal­lega vegna auk­inna sam­gangna og neyslu á inn­fluttum vör­um. Ásamt því að nefna að meiri­hlut­inn af kolefn­is­spori Íslend­inga utan land­stein­ana á sér stað í þró­un­ar­löndum við fram­leiðslu á vörum sem Íslend­ingar neyta (6). Umhverf­is­á­hrif Íslands og Íslend­inga eru því mikil og marg­slung­in, en leið­irnar sem hægt er að fara til þess að minnka það eru að sama skapi margar og áhuga­verð­ar. Sú vinna þarf að vera hröð og mark­viss svo við getum haldið áfram að skapa okkur sér­stöðu sem umhverf­is­vænt land og ekki myndi skemma fyrir að vera raun­veru­lega „græn”.


Þessi grein er sú fyrsta af 6 í greina­röð um umhverf­is­mál á Íslandi. Í næstu greinum munum við fjalla hvernig hægt er að minnka umhverf­is­á­hrifin og um umhverf­is­mál í sjáv­ar­út­vegi, land­bún­aði og svo fram­veg­is.

Um höf­unda

Hafþór Ægir Sigurjónsson er doktor í verkfræði frá Tækniháskólanum í Danmörku (DTU). Hann er nýdoktor við Háskóla Íslands og DTU og einn meðstofnenda Circular Solutions ehf.
Reynir Smári Atlason er doktor í umhverfis og auðlindafræði frá Háskóla Íslands. Hann er lektor við Háskólann í Suður Danmörku (SDU) og einn meðstofnenda Circular Solutions ehf.

Heimildir

[1] Ríkisútvarpið; http://www.ruv.is/frett/island-thurfi-ad-kaupa-losunarheimildir

[2] United Nations Framework Conventions on Climate Change; http://unfccc.int/kyoto_protocol/doha_amendment/items/7362.php

[3 Hagfræðistofnun. Ísland og loftslagsmál. Skýrsla nr. C17:01

[4] World Bank. World Development Indicators url: https://data.worldbank.org/data-catalog/world-development-indicators

[5] OECD inter country input-output tables (2016 edition); oe.cd/icio

[6] Clarke, J., Heinonen, J., & Ottelin, J. (2017). Emissions in a decarbonised economy? Global lessons from a carbon footprint analysis of Iceland. Journal of Cleaner Production, 166, 1175-1186.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar