Mynd: Birgir Þór Harðarson

Hrunið: Lagt til að ríkið keypti öll þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki í vanda

Rúmlega ⅔ hlutar íslensks atvinnulífs þurfti á endurskipulagninu að halda eftir bankahrunið. Ýmsar hugmyndir voru uppi um hvernig ætti að fara að því.

Íslenska efna­hags­kerfið er ekki fyrsta ríkið sem farið hefur á hlið­ina, þótt það hafi lík­lega gert það með meiri stæl og umfangi miðað við höfða­tölu en nokk­urt annað ríki. Þegar hið risa­stóra verk­efni að end­ur­skipu­leggja hag­kerfið lá fyrir var því hægt að horfa á reynslu og árangur ýmissa ann­arra ríkja til að finna upp­skriftir að vel­gengni eða víti til varn­að­ar.

Margir sér­fræð­ingar litu til Norð­ur­landa­þjóð­anna, einkum Finna og Svía, og hvernig þær höfðu brugð­ist við sinni banka­kreppu snemma á tíunda ára­tugn­um.

Vítið til varn­aðar sem oft­ast er notað er Jap­an, þar sem mikil banka­kreppa geis­aði í upp­hafi tíunda ára­tug­ar­ins. Sá ára­tugur er iðu­lega kall­aður „týndi ára­tug­ur­inn“ þar í landi. Ástæðan er sú að bankar lok­uðu ekki á fyr­ir­tæki sem voru í van­skilum né end­ur­skipu­lögðu þau heldur lengdu ein­fald­lega í lán­unum og veittu ný. Þau fyr­ir­tæki sem svo var ástatt um eru kölluð „upp­vakn­ing­ar“ (e. zombie firms).

Um tíma, framan af árinu 2009, bjóst rík­is­stjórnin við því að fá fleiri fyr­ir­tæki í fang­ið. Þess vegna var meðal ann­ars und­ir­búin stofnun svo­kall­aðs eigna­um­sýslu­fé­lags rík­is­ins, sem átti að geta tekið við slíkum fyr­ir­tækj­um. Ljóst var að nokkur þjóð­hags­lega mik­il­væg fyr­ir­tæki myndu ekki fá að fara á von­ar­völ af neinu tagi. Á meðal fyr­ir­tækja sem skil­greind voru sem slík voru flutn­ings­fyr­ir­tæki og fjar­skipta­fyr­ir­tæki. Efst á þeim lista var Icelanda­ir. Það hefði aldrei komið til greina að láta það fyr­ir­tæki lenda í vand­ræðum vegna mik­il­vægis þess fyrir flutn­inga á fólki og vörum til og frá land­inu. Rík­is­stjórnin hafði gert sér vonir um að ferða­þjón­usta gæti orðið ein af vaxta­grein­unum eftir hrun sem myndi hjálpa til við efna­hags­batann. Aukn­ing innan hennar var ómögu­leg án Icelanda­ir.

Önnur fyr­ir­tæki sem raun­veru­lega var rætt um að ríkið myndi taka yfir var Míla. Ríkið átti þá þegar Lands­net og þurfti síðar að setja mikið fé í Farice, sem rekur sæstrengi til lands­ins. Hug­myndin var þá að setja Mílu, sem er félag utan um grunn­fjar­skipta­net­ið, ásamt Lands­neti og Farice inn í eitt stórt og öfl­ugt flutn­ings- og fjar­skipta­fé­lag í eigu rík­is­ins.

Hug­myndin um opin­bert eigna­um­sýslu­fé­lag er oft­ast kennd við Sví­ann Mats Jos­efs­son. Hann kom hingað til lands fyrir til­stuðlan Alþjóða­gjald­eyr­is­sjóðs­ins og hafði ára­tuga reynslu af end­ur­skipu­lagn­ing­ar­störf­um, meðal ann­ars í banka­krepp­unni í Sví­þjóð eftir árið 1990. Jos­efs­son setti strax fram ákveðnar hug­myndir um hvernig ætti að end­ur­reisa atvinnu­lífið eftir hrun­ið. Það skyldi gert á grund­velli þess að vernda sam­keppni ann­ars vegar og síðan þjóð­hags­lega mik­il­væg fyr­ir­tæki hins veg­ar. Jos­efs­son lagði til að öll þjóð­hags­lega mik­il­væg fyr­ir­tæki sem stæðu höllum fæti yrðu sett í sér­stakt eigna­um­sýslu­fé­lag í opin­berri eigu, í það minnsta fyrst um sinn. Með þjóð­hags­lega mik­il­vægum fyr­ir­tækjum var átt við rekstur sem hag­kerfið þurfti nauð­syn­lega á að halda, svo sem rekstur á sviði skipa­flutn­inga, flug­sam­gangna og fjar­skipta.



Jos­efs­son kynnti þessar hug­myndir í umboði Alþjóða­gjald­eyr­is­sjóðs­ins og taldi að þær væru best til þess fallnar að end­ur­heimta traust, fljótt og vel. Hann var for­maður nefndar um end­ur­reisn fjár­mála­kerf­is­ins, sem rík­is­stjórnin og Alþjóða­gjald­eyr­is­sjóð­ur­inn komu sér saman um að skipa, og hafði það meg­in­mark­mið að sam­ræma aðgerðir stjórn­valda, eft­ir­lits­stofn­ana og bank­anna við þá vinnu fyrstu mán­uð­ina eftir að nýtt banka­kerfi varð til í kjöl­far neyð­ar­lag­anna.

Nýir bankar voru endurreistir á grunni hinna gömlu. Þeir fengu stór hlutverk í endurskipulagningunni. Einn þeirra var nýi Kaupþing en nafni hans var síðar breytt í Arion banki.
Mynd: Birgir Þór Harðarson
Strax var ljóst að mikil and­staða var til staðar innan end­ur­reistu bank­anna og hags­muna­sam­taka atvinnu­lífs­ins, sér­stak­lega Sam­taka atvinnu­lífs­ins og Sam­taka iðn­að­ar­ins, við þær hug­myndir sem Jos­efs­son boð­aði. And­staðan var einkum gagn­vart hug­mynd­inni um stofnun eigna­um­sýslu­fé­lags á vegum rík­is­ins. Margir ótt­uð­ust póli­tíska spill­ingu við stjórn félags­ins og einnig að arð­sem­is­sjón­ar­mið fengju ekki að ráða för í rekstri, þ.e. að póli­tísk stefna yrði að ein­hverju leyti ráð­andi við ákvarð­ana­töku innan fyr­ir­tækj­anna sem yrðu í félag­inu. Horft var til ýmissa fyr­ir­tækja sem gætu farið inn í þetta félag, svo sem Eim­skips, Icelandair Group og Skipta, móð­ur­fé­lags Sím­ans.



And­staðan við hug­myndir Jos­efs­son magn­að­ist eftir því sem leið á end­ur­reisn­ar­starfið og varð brátt hávær innan stjórn­ar­flokk­anna. Þar var komin upp óánægja með störf Jos­efs­son í upp­hafi árs 2009 þegar nefndin sem hann stýrði hafði aðeins starfað í nokkra mán­uði.



Í maí­mán­uði það ár dró til tíð­inda. Þá snöggreidd­ist Jos­efs­son á fundi með stjórn­völdum og hót­aði að hætta störfum þegar í stað. Morg­un­blaðið greindi frá þessu á for­síðu 25. maí 2009. Jóhanna Sig­urð­ar­dóttir for­sæt­is­ráð­herra stað­festi í umræðum á þing­inu sam­dæg­urs að Jos­efs­son hefði hótað að hætta. Ástæðan fyrir reiði­kasti Jos­efs­son og hót­unum hans í kjöl­farið var að hann taldi end­ur­reisn bank­anna ekki ganga nógu hratt. Var hann sér­stak­lega pirr­aður yfir því að bank­arnir væru ekki að leggja nógu mikið af mörkum við að greina eigna­söfn sín og taka á vanda fyr­ir­tækj­anna. Innan end­ur­reistu bank­anna horfðu málin öðru­vísi við og var þeim sjón­ar­miðum marg­sinnis komið skýrt á fram­færi að hug­myndir Jos­efs­son væru á skjön við það sem stjórn­endur og starfs­fólk bank­anna teldu rétt­ast. Þeim hugn­að­ist ekki stofnun eigna­um­sýslu­fé­lags­ins og töldu skyn­sam­leg­ast að vandi fyr­ir­tækja, einnig þeirra sem væru þjóð­hags­lega mik­il­væg, yrði fyrst og fremst í höndum bank­anna og hann yrði leystur sér­tækt en samt á grund­velli almennra laga og reglna.

Eygló Harð­ar­dótt­ir, þáver­andi þing­kona Fram­sókn­ar­flokks­ins, spurði for­sæt­is­ráð­herra sér­stak­lega út í það hvers vegna Mats Jos­efs­son hefði hótað að hætta störfum og hvaða skil­yrði hann hefði sett fyrir áfram­hald­andi störfum fyrir stjórn­völd.

Fyr­ir­spurn Eyglóar var svohljóð­andi:

Hvaða skil­yrði setti Mats Jos­efs­son fyrir áfram­hald­andi starfi í sam­ræm­ing­ar­nefnd um end­ur­reisn banka­kerf­is­ins þegar hann hót­aði að hætta sem for­maður nefnd­ar­innar vegna megnrar óánægju með hæga­gang við end­ur­skipu­lagn­ingu bank­anna?



Í svari Jóhönnu við fyr­ir­spurn­inni sagði að Jos­efs­son hefði komið þeirri skoðun sinni „skýrt á fram­færi“ við stjórn­völd að end­ur­reisn banka­kerf­is­ins hefði verið tíma­frek­ari en að hefði verið stefnt.



„Frá lokum árs­ins 2008 hefur verið starf­andi svo­nefnd sam­ræm­ing­ar­nefnd í banka­málum sem Mats Jos­efs­son hefur stýrt og hefur sú nefnd haldið viku­lega fundi. Í þess­ari nefnd hafa setið auk Mats full­trúar for­sæt­is­ráðu­neyt­is, fjár­mála­ráðu­neyt­is, við­skipta­ráðu­neyt­is, utan­rík­is­ráðu­neyt­is, Fjár­mála­eft­ir­lits­ins og Seðla­banka Íslands. Í síð­asta mán­uði var ákveðið í fullu sam­ráði við Mats Jos­efs­son að breyta fyr­ir­komu­lagi þess­ara mála á þann hátt að í stað sam­ræm­ing­ar­nefnd­ar­innar yrði sett á lagg­irnar tíma­bund­inn stýri­hópur um end­ur­reisn banka­kerf­is­ins. Meg­in­til­gangur þess­arar breyt­ingar er að styrkja fram­kvæmd end­ur­reisn­ar­starfs­ins enn frekar nú þegar nær dregur þeim tíma­punkti að ríkið leggi nýju bönk­unum til nýtt eigið fé þegar samn­ingum við kröfu­hafa gömlu bank­anna lýk­ur. Stýri­hóp­ur­inn hefur fundað mjög ört og að jafn­aði þrisvar til fjórum sinnum í viku. Í stýri­hópnum sitja, auk Mats Jos­efs­son­ar, seðlabanka­stjóri, sem stýrir starfi nefnd­ar­inn­ar, full­trúi for­sæt­is­ráðu­neytis og fjár­mála­ráðu­neytis auk aðstoð­ar­manna for­sæt­is-, fjár­mála- og við­skipta­ráð­herra.

Eygló Harðardóttir spurði út í afstöðu Mats Josefssonar.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Mats Jos­efs­son hefur því ekki sett nein skil­yrði fyrir áfram­hald­andi starfi en hann hefur komið þeirri skoðun sinni skýrt á fram­færi við stjórn­völd að það fyr­ir­komu­lag sem upp­haf­lega var sett upp varð­andi end­ur­upp­bygg­ing­ar­starfið í banka­málum hafi ekki verið eins skil­virkt og stefnt var að. Með nýju fyr­ir­komu­lagi í þessum málum er brugð­ist við þessum ábend­ingum Mats Jos­efs­son­ar,“ sagði í svari for­sæt­is­ráð­herra.



Eftir því sem leið á vinn­una við end­ur­skipu­lagn­ingu banka­kerf­is­ins og stærstu fyr­ir­tækj­anna var ljóst að Mats Jos­efs­son var ekki að ráða för og inn­takið í hans hug­myndum fékk ekki hljóm­grunn hjá stjórn­völdum eða innan end­ur­reistu bank­anna. Á fundum sem hann sat með emb­ætt­is­mönnum og starfs­fólki úr bönk­unum kom marg­sinnis fram í hans máli að hann hefði litla trú á íslensku fag­fólki og helst vildi hann fá erlenda ráð­gjafa hingað til lands­ins til að stýra eigna­um­sýslu­fé­lag­inu. Aðeins þannig væri hægt að tryggja fag­lega stjórn yfir hinum þjóð­hags­lega mik­il­vægu fyr­ir­tækj­um.

Virkjun eigna­um­sýslu­fé­lags­ins reynd­ist óþörf eftir að bank­arnir voru orðnir starf­hæf­ir. Þá gátu þeir sjálfir tekið á vand­ræðum atvinnu­lífs­ins. Það er hins vegar ljóst að hug­myndin um eigna­um­sýslu­fé­lag rík­is­ins, sem hefði fært eign­ar­hald margra fyr­ir­tækja til hins opin­bera, var hótun sem virk­aði ágæt­lega gagn­vart bönk­un­um. Hún var hvati til að drífa þá af stað. Jos­efs­son hætti störfum árið 2011. Hug­myndir hans fengu aldrei neitt braut­ar­gengi hjá íslenskum stjórn­völd­um.

Frétta­skýr­ingin byggir að hluta til á efni sem birt­ist áður í bók­inni Ísland ehf - Auð­menn og áhrif eftir hrun eftir Magnús Hall­dórs­son og Þórð Snæ Júl­í­us­son.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar