Mynd: Nasdaq Iceland

Stærsti eigandi Marel fær 25 milljarða að láni og erlendir sjóðir geta eignast 8,1 prósent í félaginu

Það var mikið um að vera hjá Marel, verðmætasta félaginu á íslenska hlutabréfamarkaðinum, í gærkvöldi. Það birti uppgjör, tilkynnti um tugmilljarða króna sambankalán og stærsti eigandinn gerði samning um að fá 25 milljarða króna frá tveimur erlendum fjárfestingarsjóðum gegn því að þeir fái rétt til að eignast þriðjung af hlutafé hans í Marel, félagi sem hefur lækkað um rúmlega 280 milljarða króna það sem af er ári.

Eyrir Invest, stærsti eig­andi Mar­el, hefur fengið 175 millj­ónir evra, um 25,2 millj­arða króna, að láni frá tveimur erlendum fjár­fest­ing­ar­sjóðum JNE Partners LLP og The Baupost Group. 

Lánin eru til fjög­urra ára. Í lok þess tíma fá sjóð­irnir rétt til að eign­ast 8,1 pró­sent hlut í Mar­el, verð­mætasta skráða fyr­ir­tæk­is­ins á íslenskum hluta­bréfa­mark­aði. frá Eyri Invest. Um er að ræða þriðj­ung af eign­ar­hlut Eyris Invest í Marel en mark­aðsvirði hans við lokun mark­aða í gær var um 31 millj­arður króna. 

Bréf í Marel hafa lækkað gríð­ar­lega það sem af er ári, eða um 41 pró­sent. Mark­aðsvirði félags­ins var 663,5 millj­­arðar króna um síð­­­ustu ára­­mót en er nú 382,4 millj­arðar króna. Það þýðir að 281,1 millj­arðar króna af virði Marel hafa þurrkast út það sem af er ári.

HNE Partners er þegar hlut­hafi í Marel og Baupost Group hefur umtals­verða reynslu af því að sýsla á Íslandi. Sjóð­ur­inn, sem var stofn­aður og er stýrt af Seth Klarman, er sá sjóður sem hagn­að­ist einna mesta allra á falli íslensku bank­anna

Nýtt sam­banka­lán og minni hagn­aður

Í gær­kvöldi var einnig til­kynnt um að Marel hafi und­ir­ritað samn­ing um nýtt sam­banka­lán til þriggja ára upp á 300 millj­ónir Banda­ríkja­dala, um 43,8 millj­arða króna. Lánið er frá sömu bönkum og komu að 700 milljón evra, 100,8 millj­arða króna, sam­banka­lána­línu til félags­ins í febr­úar 2020,, þ.e. ABN AMRO, BNP Pari­bas, Danske Bank, HSBC, ING, Rabo­bank, og UniCredit. 

Allt þetta gerð­ist sam­hliða því að Marel birti upp­gjör sitt fyrir fyrstu níu mán­uði árs­ins þar sem fram kom að hagn­aður félags­ins á fyrstu níu mán­uðum árs­ins var 40,2 millj­ónir evra, um 5,8 millj­arðar króna. Það er næstum 40 pró­sent minni hagn­aður en á sama tíma­bili í fyrra. Hagn­aður á þriðja árs­fjórð­ungi var 60 pró­sent minni en á sama árs­fjórð­ungi í fyrra. Tekjur Marel hafa hins vegar auk­ist mik­ið, eða um tæp 23 pró­sent milli ára, og voru tæp­lega 176 millj­arðar króna á fyrstu níu mán­uðum árs­ins.

Þegar Marel birti hálfs­árs­upp­gjör sitt fyrr á árinu sendi félagið frá sér afkomu­við­vörun þar sem rekstr­­ar­n­ið­­ur­­staða ann­­ars árs­fjórð­ungs var undir vænt­ing­um, að upp­i­­­stöðu vegna „áfram­hald­andi áskor­ana tengdum aðfanga­keðju og hárrar verð­­bólgu sem leiddi til hæg­­ari tekju­­vaxtar en vænt var.“ Dag­inn eftir að afkomu­við­vör­unin var send út lækk­­uðu hluta­bréf í Marel um tæp ell­efu pró­­sent. 

Í til­­kynn­ingu til Kaup­hallar kom fram að Marel myndi grípa til aðgerða til að bæta rekstr­­ar­af­komu sína þegar í stað. „Til að lækka kostnað hefur sú erf­iða ákvörðun verið tekin að fækka starfs­­mönnum félags­­ins um fimm pró­­sent á heims­vís­u.“

Eyrir Invest hagn­að­ist um rúm­lega 23 millj­arða króna á árinu 2021 ef miðað er við gengi evru í dag. Eigið fé félags­ins var 127,1 millj­arður króna um síð­ustu ára­mót. Það hafði þá auk­ist um 76,5 millj­arða króna síðan í lok árs 2018. 

Lang­verð­mætasta eign Eyris er 24,7 pró­sent eign­ar­hlutur í Mar­el, en Eyrir hefur verið stærsti hlut­haf­inn í Marel frá 2005. Hlut­ur­inn í Marel var met­inn á 156,1 millj­arð króna um síð­ustu ára­mót, sem var um 94 pró­sent af öllum eignum Eyris Invest. Hluta­bréf í Mar­el, sem er langstærsta félagið í íslensku Kaup­höll­inni ásamt því að vera líka skráð á markað í Amster­dam, hafa lækkað umtals­vert það sem af er árinu 2022, eða um 41,5 pró­sent. Þau hafa hins vegar hækkað um 10,7 pró­sent á síð­ast­liðnum mán­uð­i. Allt hefur þetta bein áhrif á eigið fé Eyri Invest sem þessum lækk­unum nem­ur.

Eyrir Invest á auk þess 46,5 pró­sent hlut í Eyri sprotum sem fjár­festir í vaxt­ar­fyrt­ir­tækj­um, allt hlutafé í Eyri Ventures og 23,4 pró­sent hlut í sprota­sjóðnum Eyri vexti sem settur var á fót í fyrra. Þá á félagið Eyrir Venture Mana­gement sem ann­ast rekstur sjóð­anna; Eyrir sprot­ar, Eyrir vöxtur og Eyrir Ventures auk félags­ins Grænt met­anól ehf. sem er 100 pró­sent í eigu Eyris Invest.

Feðgarnir stærstu eig­end­urnir

Stærstu eig­endur Eyris Invest eru feðgarnir Þórður Magn­ús­son og Árni Oddur Þórð­ar­son, sem einnig er for­stjóri Mar­el. Þórður á 20,6 pró­sent hlut í Eyri en Árni Oddur 17,9 pró­sent. Sam­an­lagður hlutur þeirra, miðað við upp­lausn­ar­virði sam­kvæmt bók­færðu eigin fé félags­ins, var því 49 millj­arða króna virði um síð­ustu ára­mót. 

Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyris Invest.
Mynd: Eyrir Invest

Í til­kynn­ingu frá Eyri Invest vegna samn­ings­ins við erlendu fjár­fest­ing­ar­sjóð­ina segir að samn­ing­ur­inn styrki efna­hag Eyris og auð­veldi umtals­verðar end­ur­greiðslur banka­skulda. Þá styðji hann við upp­bygg­ingu og vöxt næstu ára í sam­ræmi við áætl­anir félags­ins. Þar er haft eftir Þórði Magn­ús­syni, stjórn­ar­for­manni Eyris Invest og eins stærsta ein­staka hlut­hafans í félag­inu, að staða Marel sé mjög sterk, þrátt fyrir þá þróun í heims­hag­kerf­inu sem átti hafi sér stað. „Með inn­komu JNE Partners og The Baupost Group er Eyrir nú enn betur í stakk búið til að styðja frekar við Marel sem kjöl­festu­fjár­fest­ir. Sam­kvæmt þeirri fram­tíð­ar­sýn sem stjórn­endur Marel hafa dregið upp opin­ber­lega má búast við veru­legum vexti og virð­is­aukn­ingu Marel á næstu árum sem og í öðrum eignum í eigna­safni Eyr­is.“

Almenn­ingur á óbeinan hlut í Marel í gengum Lands­bank­ann

Á meðal ann­arra stórra eig­enda er Lands­bank­inn, sem á 14,1 pró­sent hlut í Eyri Invest, og þar af leið­andi um 3,5 pró­sent óbeinan hlut í Marel í gegnum það eign­ar­hald. Eig­andi Lands­bank­ans er íslenska rík­ið. 

Sá hlutur var um 23,6 millj­­arða króna virði í lok júni í fyrra, eftir mikla hækk­­un­­ar­hr­inu sem átti sér stað sam­hliða því að kór­ón­u­veiru­far­ald­­ur­inn skall á. Alls hækk­­uðu hluta­bréf í Marel um 93,2 pró­­sent frá því í mars 2020 og til ágúst­loka 2021. Þau næstum tvö­­­föld­uð­ust. Og virði þeirra bréfa sem Lands­­bank­inn heldur á í félag­inu jókst um sama hlut­­fall. 

Hlutur Lands­­bank­ans í Marel er nú met­inn á 13,4 millj­­arða króna. Hann hafði lækkað um rúm­lega tíu millj­­arða króna á rúmu ári. Þar er því komin stærsta ástæðan fyrir því að hagn­aður Lands­­bank­ans var jafn mikið úr takti við hagnað hinna stóru bank­anna tveggja á fyrstu níu mán­uðum árs­ins. 

Aðrir sem eiga yfir tíu pró­sent hlut í Eyri Invest eru Líf­eyr­is­sjóður starfs­manna rík­is­ins (A- og B-deild) með 14,1 pró­sent hlut og Líf­eyr­is­sjóður verzl­un­ar­manna sem á 11,2 pró­sent hlut.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar