Hið stéttlausa samfélag sem vill hreinsa sig af boðflennum

Auglýsing

Af tveimur ræðum sem fluttar voru um helg­ina af sama mann­inum að dæma má ætla að allt gott sem hefur gerst á Íslandi síð­ustu ár sé aðal­lega honum og stað­festu hans að þakka en allt sem miður fór ytri aðstæðum sem ekk­ert var við ráðið að kenna. 

Sami ræðu­hald­ari lof­aði stöð­ug­leika í lág­vaxtaum­hverfi án verð­bólgu fyrir síð­ustu kosn­ingar en segir nú ríkja stöð­ug­leika, sem hold­gervist í honum per­sónu­lega, þrátt fyrir að stýri­vextir hafi verið hækk­aðir níu sinnum í röð úr 0,75 í 5,75 pró­sent. Þrátt fyrir að verð­bólga hafi tvö­fald­ast á einu ári, sé næstum tíu pró­sent og fari hækk­andi.

Afleið­ingar þess­ara breyt­inga eru meðal ann­ars þær að sú kaup­mátt­ar­aukn­ing sem flest heim­ili upp­lifðu er nú að étast upp í verð­bólgu og auknum afborg­unum af óverð­tryggðum lánum sem hafa hækkað hjá mörgum um vel á annað hund­rað þús­und krónur á mán­uði, vel á aðra milljón króna á ári. Kaup­mátt­ur­inn hefur ekki verið minni síðan 2020

Seðla­banki Íslands hefur sagt það upp­hátt að lífs­kjör fólks á Íslandi ráð­ist nú af stöðu fólks á fast­eigna­mark­aði. Um þriðj­ungur full­orð­inna lands­manna hefur aldrei átt eigið hús­næði. Þegar horft er á full­orðið fólk undir fimm­tugu þá kemur í ljós að um helm­ingur hóps­ins hefur aldrei átt hús­næði. Ef horft er á aðra jað­ar­setta, eins og til dæmis inn­flytj­endur og öryrkja, verður staðan enn ójafn­ari. Í nýlegri frétt var greint frá því að sumir öryrkjar séu að með­al­tali 3.500 krónur í mínus um hver mán­aða­mót eftir að hafa greitt föst útgjöld. 

En hér á samt sem áður að ríkja ein­hvers­konar stöð­ug­leiki.

Sumir eru jafn­ari en aðrir

Ísland er stétt­laust sam­fé­lag, heyrð­ist í annarri ræðu manns­ins um helg­ina, á fundi sem kost­aði 15 þús­und krónur inn á og bauð upp á áfenga bólu­setn­ingu gegn komm­ún­isma. Jöfn tæki­færi allra gera það að verk­um. Þau leiða af sér það eina sem er nokk­urs vert, auk­inn kaup­mátt og vöxt. Allir vinna. 

Þetta sagði hann þrátt fyrir að allar hag­tölur sýni að hinn aukni kaup­máttur lendi mjög mis­jafn­lega, og étist mun hraðar upp hjá flestum en sum­um. Það liggur til að mynda fyrir að hröð aukn­ing fjár­­­magnstekna í fyrra gerði það að verkum að ráð­­stöf­un­­ar­­tekjur þeirrar tíundar lands­­manna sem höfðu hæstu tekj­­urn­­ar, og hafa helst tekjur af fjár­­­magni, juk­ust um tólf pró­­sent á föstu verð­lagi á einu ári. Restin af lands­­mönn­um, 90 pró­­sent, juku sínar ráð­­stöf­un­­ar­­tekjur á raun­virði um fjögur pró­­sent. Því juk­ust ráð­­stöf­un­­ar­­tekj­­ur, laun að frá­­­dregnum sköttum og öðrum lög­­bundnum gjöld­um, efstu tíu pró­­sent­anna þrefalt á við aðra þegar þær eru reikn­aðar á föstu verð­lagi.

Þessi kjaragliðnun milli launa­fólks og fjár­magns­eig­enda hefur verið að eiga sér stað frá 2011, þótt hún hafi verið ýkt­ust á síð­asta ári.

En samt erum við stétt­laust sam­fé­lag. Senni­lega vegna þess að 90 pró­sentin voru ekki nægi­lega dug­leg að nýta tæki­færin sem ræðu­mað­ur­inn færði þeim, en tíu pró­sent­in, og sér­stak­lega efsta lagið í þeirri tíund, gerði það sann­ar­lega.

Stétt­leysi eða eins­leitni?

Ræðu­mað­ur­inn stétt­lausi er af mestu valda­ætt lands­ins. Hann fædd­ist inn í stjórn­mála­lega valda­stöðu og atvinnu­lífs­á­hrif. Hann hefur alltaf haft aðgengi að tæki­færum, upp­lýs­ingum og pen­ingum ann­arra sem nýt­ast við eigin fram­gang sem fæstum lands­mönnum bjóð­ast á lífs­leið­inni. Hann hefur alið mann­inn í því sveit­ar­fé­lagi höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins, Garða­bæ, sem er hlut­falls­lega með lang­fæsta íbúa af erlendu bergi brotnu, en alls eru 5,6 pró­sent íbúa þess þannig á meðan að hlut­fallið er næstum 20 pró­sent í Reykja­vík og lands­með­al­talið er 16,3 pró­sent. 

Hann stýrir flokki sem hefur haft hreinan meiri­hluta í tveimur sveit­ar­fé­lögum á höf­uð­borg­ar­svæð­inu um ára­tuga­skeið, sem auk Garða­bæjar er Sel­tjarn­ar­nes (hlut­fall erlenda rík­is­borg­ara: 9,6 pró­sent). Með­­­al­tals­fjár­­­­­magnstekjur íbúa á Sel­tjarn­­­ar­­­nesi og í Garðabæ voru umtals­vert hærri á síð­­asta ári en í öðrum stærri sveit­­­ar­­­fé­lögum á höf­uð­­­borg­­­ar­­­svæð­in­u. Á Sel­tjarn­­ar­­nesi voru þær 1.585 þús­und krónur á hvern íbúa í fyrra en 1.556 þús­und krónur í Garða­bæ. Á sama tíma voru þær 679 þús­und krónur á hvern íbúa Reykja­vík­­­­­ur, 746 þús­und krónur á íbúa í Kópa­vogi, 554 þús­und krónur á íbúa í Mos­­­fellsbæ og 525 þús­und krónur í Hafn­­­ar­­­firð­i. Alls var með­­­al­­­tal fjár­­­­­magnstekna á land­inu 709 þús­und krón­ur. 

Auglýsing
Hann er alinn upp, og býr enn, í því sveit­ar­fé­lagi á höf­uð­borg­ar­svæð­inu sem er með lægsta hlut­fall félags­legra íbúða, eða 0,67 pró­sent allra slíkra innan marka þess. Til sam­an­burðar eru félags­legar íbúðir 5,3 pró­sent allra íbúða í Reykja­vík. Ekk­ert annað sveit­­ar­­fé­lag á land­inu sem hefur yfir eitt þús­und íbúðir innan sinna vébanda er með svo lágt hlut­­fall allra íbúða helg­aðar félags­­­lega kerf­inu, en í Garðabæ eru alls 6.447 íbúð­­ir. Skammt á eftir kemur Sel­tjarn­ar­nes.

Af þessum tölum er aug­ljóst hvaða stétt er lík­leg til að hreiðra um sig í eins­leitn­inni í Garðabæ og á Sel­tjarn­ar­nesi. Það eru ekki brúnt og svart fólk og ekki fólk sem glímir við félags­lega erf­ið­leika. Það er sent yfir til nágranna­sveit­ar­fé­lag­anna á þeirra kostn­að.

Varla er nokkur að velkj­ast í vafa hvaða stétt ræðu­mað­ur­inn til­heyr­ir. Hann sér kannski stétt­leysi út um eld­hús­glugg­ann hjá sér. En sú rang­hug­mynd á sér enga stoð í raun­veru­leik­an­um.

Af „þykjustuflótta­mönn­um“ og „boð­flenn­um“

Það eru alls­konar aðrar stéttir á Íslandi sem búa við allt annan veru­leika. Ein þeirra er fólk á flótta. Aðfara­nótt fimmtu­dags voru 15 úr þeirri stétt flutt burt með valdi og miklum til­kostn­aði, í fylgd 41 lög­reglu­manns. Einn var dreg­inn með valdi upp úr hjóla­stól og bor­inn út í bíl, til að keyra hann á flug­völl og fljúga með hann til Grikk­lands svo hann gæti, ásamt fjöl­skyldu sinni, sofið á götu og ekki fengið þá heil­brigð­is­þjón­ustu sem hann þarf. Í þess­ari aðgerð end­ur­spegl­að­ist ákveðin teg­und stétt­leys­is. Sú að ákveðið fólk er ekki vel­kom­ið, og telst þar af leið­andi ekki með. Það er ekki reiknað inn í stöð­ug­leik­ann. Því býðst ekki jöfnu tæki­fær­in. Þau eru fyrir útvalda. 

Þetta gerð­ist í kjöl­far þess að núllsummu­leikja­fræði (e. zer­o-sum) skaut enn og aftur upp koll­inum í íslenskri umræðu. Á Íslandi er mikið fram­boð af stjórn­mála­mönnum sem eru til­búnir að hræra í kyn­þátta­hyggju­pottum og stilla upp við­kvæmum hópum sem and­stæð­ing­um. Sem hunda­flauta um að ef íslenskir öryrkjar og jað­ar­hópar vilji hafa það betra þarf að spara í þjón­ustu við fólk á flótta. Í stétt­lausa sam­fé­lag­inu. Þar sjá þeir atkvæði og þess vegna er reglu­lega gripið í sleif­ar. Mark­miðið er að hræða fólk. Búa til strá­menn sem það geti kennt um aðstæður sínar svo það kenni ekki stjórn­völdum um þær. 

Á síð­ustu vikum hefur þessi leikja­fræði opin­ber­ast í upp­hróp­unum um nauð­syn lok­aðra flótta­manna­búða, lygum um fjölda fals­aðra vega­bréfa, lygum um að Schen­gen-­sam­starfið væri í hættu ef ekki yrði beitt meiri hörku gagn­vart fólki á flótta og óljósum dylgjum um tengsl skipu­lagðrar glæp­a­starf­semi við fólk á flótta sem áttu að vera ein­hvers­konar rök­stuðn­ingur fyrir því að draga úr þjón­ustu við það.

Öllu þessu hefur verið pakkað inn og fylgt eftir af fjöl­miðli. Þar er ekki um að ræða þá fjöl­miðla eða blaða­menn sem ræðu­mað­ur­inn sagð­ist um helg­ina hafa gef­ist upp á vegna þess að honum fynd­ist þeir gerðir út til að koma á fram­færi við lands­menn „ein­hverri skoðun sem er kannski and­stæð okk­ar.“ 

Þar er auð­vitað um ræða Morg­un­blað­ið, sem kemur á hverjum degi fram skoðun sem er ekki and­stæð flokki ræðu­manns­ins. Sem skrif­aði í rit­stjórn­ar­grein í síð­asta mán­uði um „þykjustuflótta­menn“ og í Reykja­vík­ur­bréfi um helg­ina að „ekk­ert land er skuld­bundið til að taka við boð­flenn­um.“

Ísland er eft­ir­bátur í mót­töku flótta­fólks

Stöldrum aðeins við þessar ætl­uðu „boð­flenn­ur“. Sam­kvæmt flótta­manna­stofnun Sam­ein­uðu þjóð­anna voru 103 millj­ónir manna á flótta í heim­inum um mitt þetta ár. Alls 72 pró­sent þeirra koma upp­haf­lega frá fimm lönd­um: Sýr­landi, Venes­ú­ela, Úkra­ínu, Afganistan og Suð­ur­-Súd­an. Fimm lönd taka við 36 pró­sent þessa hóps. Tyrk­land, með sinn samn­ing við Evr­ópu­sam­bandið um að hleypa ekki flótta­mönnum frá Mið­aust­ur­löndum inn, hýsir flesta, eða 3,7 millj­ónir alls. Af ríkjum Evr­ópu­sam­bands­ins stendur Þýska­land með höfuð og herðar yfir aðra og hefur tekið við 2,2 millj­ón­um, eða næstum sex íslenskum þjóð­um. Stór nágranna­ríki landa sem mik­illi flótti er frá; Kól­umbía, Úganda og Pakistan, eru svo hin þrjú sem draga vagn­inn í þessum efn­um. Að Þýska­landi und­an­skildu eru þetta alls ekki rík lönd.

Auglýsing
Raunar er það þannig að þrír af hverjum fjórum flótta­mönnum eru nú í löndum sem flokk­ast sem mið- eða lág­tekju­lönd og 22 pró­sent þeirra eru stað­settir í löndum sem telj­ast til þeirra van­þró­uð­ustu í heim­in­um. 

Haldi ein­hver að Ísland hafi sögu­lega tekið á móti mörgum flótta­mönnum þá er það mik­ill mis­skiln­ing­ur. Hér hefur vissu­lega orðið mesta sam­fé­lags­lega breyt­ing sem nokkru seinni hefur orðið í Íslands­sög­unni síð­ast­lið­inn ára­tug þegar erlendum rík­is­borg­urum hefur fjölgað úr rúm­lega 20 þús­und í tæp­lega 63 þús­und. Flestir þeirra hafa þó komið hingað til að vinna og starfa á grund­velli EES-­samn­ings­ins og með því búið til góð­ærið sem skall á með ferða­mennsku og mak­ríl eftir hrunið sem ræðu­mað­ur­inn stór­henti full­yrti að væri fyrst og síð­ast sér að þakka. 

Til hliðar við það erum við með fólk á flótta.

Upp­blásin umræða um fjölda flótta­manna

Fólk á flótta skipt­ist í tvo hópa. Annar er svo­kallað kvótaflótta­fólk sem kemur hingað í boði stjórn­valda. Frá því að Ísland byrj­aði að taka á móti slíkum og til árs­ins 2018 tókum við á móti sam­tals 695 kvótaflótta­­­­mönnum á 62 árum, eða 12,2 að með­­al­tali á ári. Árið 2019 ætl­uðum við að taka á móti 85 en þeir urðu 74 á end­an­um. Þrátt fyrir stór­kost­lega aukn­ingu í mót­töku kvótaflótta­manna sam­kvæmt frétta­til­kynn­ingum stjórn­ar­ráðs­ins, en til stóð að þeir yrðu 100 árið 2020, var ekki tekið á móti neinum það árið. Vísað var í kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn sem ástæðu. Hann stöðv­aði þó ekki nágranna­þjóðir okkar sem tóku á móti sínum kvótum. Í ágúst í fyrra hafði ein­ungis verið tekið á móti broti þeirra sem búið var að lofa mót­töku á því ári. Tölur um kvótaflótta­menn hafa ekki verið upp­færðar á vef stjórn­ar­ráðs­ins síðan fyrir árið 2019. Sam­an­dregið er þó eng­inn vafi að við erum við til skammar í sam­an­burði við önnur vel­meg­andi ríki þegar kemur að mót­töku kvótaflótta­manna.

Frá byrjun árs 2003 og til loka októ­ber hafa umsóknir um vernd á Íslandi verið 10.272. 

Frá lokum árs 2012, þegar hin mikla aukn­ing á erlendum íbúum lands­ins hóf­st, og til síð­ustu ára­móta, voru umsóknir um vernd hér­lendis tæp­lega 6.200 tals­ins. Hluta þeirra var vita­skuld synjað og við­kom­andi sendur ann­að. Þetta er ekki sá hópur sem hefur fengið að vera til lang­dval­ar, heldur hefur haft ein­hverja við­veru á Íslandi sem flótta­mað­ur. Hann er ekki stærri en þetta. 

Ákvarð­anir stjórn­valda

Það sem af er þessu ári hefur hins vegar orðið spreng­ing og á fyrstu tíu mán­uðum þess komu hingað 3.467 og sóttu um vernd. Alls 1.999 þeirra eru frá Úkra­ínu og 764 frá Venes­ú­ela. Átta af hverjum tíu eru því frá þessum tveimur löndum.

Það byggir á því að árið 2018 var ákveðið að Útlend­inga­stofnun veitti umsækj­endum um alþjóð­lega vernd frá Venes­ú­ela við­bót­ar­vernd með vísan til almennra aðstæðna í heima­ríki óháð ein­stak­lings­bundnum aðstæðum hvers umsækj­anda. Reynt var að breyta þess­ari fram­kvæmd frá 1. jan­úar 2022 til að draga úr komu þessa fólks. Kæru­nefnd útlend­inga­mála felldi hins vegar úrskurð í júlí síð­ast­liðnum þar sem stóð að ástandið í Venes­ú­ela hefði ekk­ert lag­ast frá því að upp­haf­lega ákvörð­unin var tek­in, og raunar farið versn­andi „og að umfang og alvar­leiki glæpa gegn mann­kyni hafi auk­ist.“ Bætt ástand í Venes­ú­ela gat því ekki verið rök­stuðn­ingur fyrir því að synja umsækj­endum um við­bót­ar­vernd hér á land­i. 

Þann 4. mars á þessu ári ákvað Jón Gunn­ars­son dóms­mála­ráð­herra að virkja ákvæði útlend­inga­laga sem fól í sér að mót­taka flótta­manna frá Úkra­ínu hér­lendis myndi ná til sömu skil­greindu hópa og þeirra sem Evr­ópu­sam­bandið hafði ákvarð­að. „Þessi aðferð er fyrst og fremst til þess að geta veitt þeim sem flýja Úkra­ínu skjóta og skil­virka aðstoð, nánar til­tekið tíma­bundna vernd, án þess að mót­takan og aðstoðin verði vernd­ar­kerfi Íslands ofviða.“

Fyrir þá sem halda að við séum að taka við mörgum frá Úkra­ínu er vert að velta eft­ir­far­andi fyrir sér hvað Eist­land, Tékk­land, Pól­land, Lit­há­en, Lett­land, Slóvakía, Þýska­land, Írland, Aust­ur­ríki, Sviss, Finn­land, Dan­mörk Ísra­el, Nor­eg­ur, Portú­gal, Belgía, Sví­þjóð og Hol­land eigi sam­eig­in­legt? Allt eru þetta lönd innan OECD sem taka við fleiri flótta­mönnum frá Úkra­ínu á hverju þús­und íbúa en Ísland. Hversu mörg þess­ara ríkja voru með hærri lands­fram­leiðslu á mann en Ísland í fyrra? Fjög­ur. Það þýðir að sam­kvæmt þeim mæli­kvarða taka 14 OECD-lönd sem eru fátæk­ari en við á móti fleiri flótta­mönnum vegna stríðs­ins í Úkra­ínu.

Fyrir utan þá sem koma frá þessum tveimur ríkjum hafa komið hingað 704 flótta­menn það sem af er ári. Það eru færri en komu hingað árin 2016, 2017, 2018, 2019 og 2021. 

Buðum í mat en eld­uðum ekki

Almennt er talið að inn­flæði flótta­fólks leiði af sér skamm­tíma­kostnað vegna hús­næð­is, matar og þjón­ustu en til lengri tíma leiði þeir af sér auk­inn hag­vöxt og hafi marg­feld­is­á­hrif á hag­kerf­ið. Það er því efna­hags­lega hag­kvæmt að taka vel á móti flótta­fólki, sér­stak­lega fyrir land eins og Ísland þar sem gríð­ar­leg vöntun er á fólki til að standa undir áfram­hald­andi vext­i. 

Auglýsing
Vandamálið sem Ísland glímir við er því ekki fjöldi flótta­manna, heldur ára­löng kerf­is­bundin svelti­stefna gagn­vart vel­ferð­ar­kerfum lands­ins sem leitt hefur af sér að þau geta ekki þjón­u­stað með boð­legum hætti þá lands­menn sem þurfa á þeim að halda, og hvað þá nýja íbúa sem þurfa auð­vitað líka á þeim að halda. Hér er átt við hús­næð­is­kerfi, heil­brigð­is­kerfi, mennta­kerfi. Aðra félags­lega inn­viði. Stoð­þjón­ustu og upp­færða fram­færslu. Hér eru ekki stunduð vel­ferð­ar­stjórn­mál nema í glæru­kynn­ingum fyrir kosn­ing­ar. Hér er stunduð kerf­is­bundin skattaí­viln­un­ar­stjórn­mál og efna­hags­leg til­færslupóli­tík til þeirra sem best hafa það í sam­fé­lag­inu.

Gunnar Smári Egils­son, for­maður fram­kvæmda­ráðs Sós­í­alista­flokks Íslands, orð­aði þetta ágæt­lega í Silfr­inu í síð­asta mán­uði þegar hann sagði: „Vanda­málið sem við stöndum frammi fyrir og flótta­fólkið er það að rík­is­stjórnin bauð fólki frá Úkra­ínu og Venes­ú­ela að koma hingað en gerði ekk­ert til þess. Þau eru eins og fólk sem að býður fólki í mat en það er ekki eldað og ekki einu sinni keypt í mat­inn. Þar af leið­andi er gríð­ar­legt álag á grunn­kerf­in.“

Sú staða sem nú er uppi er afleið­ing póli­tískra ákvarð­ana.

Hægt að sækja gríð­ar­legar við­bót­ar­tekjur

Ríkið hefur margar leiðir til þess að sækja sér aukið fé og setja það fé í vel­ferð­ar­þjón­ustu. Það er póli­tískt val að gera það ekki.

Það hefði til að mynda verið hægt að sækja 5,3 millj­arða króna í nýjar tekjur ef fjár­magnstekju­skattur í fyrra hefði verið hækk­aður úr 22 í 25 pró­sent. Rík­ustu tíu pró­sent lands­manna hefðu greitt 87 pró­sent þeirrar upp­hæð­ar, eða 4,6 millj­arða króna. Þar er um að ræða hóp sem var með 147 millj­arða króna í fjár­magnstekjur á síð­asta ári, að mestu vegna bólu­mynd­unar á eigna­mörk­uðum sem var til­komin vegna aðgerða rík­is­stjórnar Katrínar Jak­obs­dóttur og Seðla­banka Íslands til að bregð­ast við efna­hags­legum áhrifum kór­ónu­veiru­far­ald­urs­ins.

Það hefði líka verið hægt að hækka banka­skatt upp í það sem hann var áður en rík­is­stjórn Katrínar Jak­obs­dóttur ákvað að lækka hann vorið 2020 til að hjálpa bönkum að takast á við kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn. Það hefði skilað rík­is­sjóði 9,4 millj­örðum króna í auka­tekjur. Þess má geta að helsti rök­stuðn­ing­ur­inn fyrir því að lækka banka­skatt var að það myndi draga úr vaxta­mun, og þar af leið­andi vaxta­kostn­aði heim­ila og fyr­ir­tækja. Vaxta­munur hefur hins vegar hækkað eftir ákvörð­un­ina og er nú mestur 3,2 pró­sent. Sem er miklu hærra en tíðkast hjá nor­rænum bönkum af sam­bæri­legri stærð.

Þá hefði verið hægt að sleppa því að kaupa mont­hús undir ráðu­neyti vara­for­manns Sjálf­stæð­is­flokks­ins – en ráðu­neytin eru nú tólf til að tryggja stöð­ug­leik­ann – á sex millj­arða króna á dýrasta stað á land­inu af rík­is­banka sem byggði umrætt hús í bull­andi and­stöðu við vilja nær allra kjör­inna full­trúa.

Hund­ruð millj­arða í vasa útgerðar­að­als

Senni­lega hefði skil­virkasta aðgerðin þó verið að leggja sann­gjarnt, rétt­látt og eðli­legt gjald á sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki sem fá að nýta sér þjóð­ar­auð­lind. Met­hagn­aður var í sjáv­ar­út­vegi í fyrra, þegar geir­inn hal­aði inn 65 millj­örðum króna eftir skatta og gjöld. Alls jókst hagn­að­ur­inn um 124 pró­sent milli ára. Á sama tíma greiddu sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækin 22,3 millj­arða króna í öll opin­ber gjöld. Veiði­gjöld, tekju­skatt og trygg­inga­gjöld. Það þýðir að rúm­lega fjórð­ungur af kök­unni sem var bökuð úr nýt­ingu fisk­veiði­auð­lind­ar­innar í fyrra varð eftir hjá eig­anda hennar en tæp­lega 75 pró­sent fór til þess sem fær að nýta hana. Ef þessi köku­skipt­ing væri til dæmis til helm­inga hefðu tekjur hins opin­bera auk­ist um 21,5 millj­arða króna á síð­asta ári. Og hagn­aður útgerða bara verið 43,5 millj­arðar króna, eða 14,5 millj­örðum krónum meiri en árið 2020. 

Ef helm­inga­skiptin hefðu verið við­höfð frá árinu 2009 hefði rík­is­sjóður haft úr 158 millj­örðum króna til við­bótar að spila úr sem hefðu til dæmis getað nýst til að full­fjár­magna heil­brigð­is­kerfi, hækka barna- og vaxta­bæt­ur, afnema skerð­ing­ar, byggja upp þjón­ustu fyrir komu­fólk svo það geti fundið fæt­urna, aðlag­ast og orðið að mik­il­vægum skatt­greið­endum í land­inu. Nú eða bara að borga fyrir ÍL-­sjóð. 

Þess í stað fóru þessir pen­ingar að uppi­stöðu til fámennrar klíku í eig­enda­hópi útgerð­ar­fyr­ir­tækja sem hafa notað þá í að kaupa sig inn í flest alla aðra geira á land­inu. Með þeim afleið­ingum að hér er hægt og örugg­lega að verða til fáveld­i. 

Frasar í baði

Það þarf að breyta ýmsu í mál­efnum flótta­fólks á Íslandi. Efst á þeim lista ætti að vera að full­fjár­magna þá þjón­ustu sem fólkið sem hingað kemur þarf að standa til boða og dreifa byrð­unum af því að veita þá þjón­ustu á öll burðug sveit­ar­fé­lög lands­ins, í stað þess að láta Reykja­vík, Hafn­ar­fjörð og Reykja­nesbæ bera þær að mestu ein. 

Það má sann­ar­lega breyta kerf­inu þannig að hægt verði að flýta afgreiðslu umsókna öllum til hags­bóta og veita öllum sem hingað sækja vernd skil­yrð­is­laust leyfi til að vinna. En lausn­irnar mega ekki verða lok­aðar flótta­manna­búðir og stans­lausar end­ur­send­ingar til Grikk­lands þar sem fólk lendir á göt­unni án nokk­urra mögu­leika á boð­legu lífi. Það má alveg inn­leiða mannúð í þennan mála­flokk og líta á nýja Íslend­inga sem tæki­færi frekar en vanda­mál. Við höfum allt til þess að gera það. Næga pen­inga, næga þekk­ingu, næga inn­viði. Eina sem vantar er póli­tískur vilji og lang­tíma­hugs­un. 

Það er ekki Útlend­inga­stofn­un, Kæru­nefnd útlend­inga­mála eða stoð­deild rík­is­lög­reglu­stjóra að kenna að þessi staða er uppi. Þar reynir fólk að vinna sína vinnu eftir þeim lögum og reglum sem gilda í land­inu.

Það eru stjórn­mála­menn með völd sem bera ábyrgð­ina, og halda á lykl­inum að lausn­inni. Þeir kjósa bara að snúa honum ekki.

Sama má segja um stöðu margra aðra jað­ar­settra hópa á Íslandi, til dæmis lág­launa­fólks, erlendra verka­manna og öryrkja. Það er val að halda þeim í fjötrum óör­yggis og fátækt­ar. Val að láta þau búa við allt of háan hús­næð­is­kostnað fyrir allt of lélegan hús­næð­is­kost. Póli­tík á að vera list hins mögu­lega. Hér á landi er hún orðin að ein­hvers­konar upp­gjaf­ar­gjörn­ingi sem hverf­ist í kringum ímynd­aðan póli­tískan ómögu­leika.

Í stað aðgerða og stefnu fáum við inni­halds­lausa fra­sa, upp­hugs­aða í baði í ein­býli í Garðabæ, um stétt­leysi og jöfn tæki­færi.

Frasa sem allir með sæmi­lega dóm­greind og lesskiln­ing sjá að eru án allrar inni­stæðu.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiLeiðari