Mynd: EPA Sýrlensk stúlka í flóttamannabúðum Sýrlendinga í Akkar í Líbanon, apríl 2021.

Hinum Norðurlöndunum hefur tekist að bjóða kvótaflóttafólk velkomið í heimsfaraldrinum

Enginn kvótaflóttamaður kom til Íslands í fyrra og einungis 11 af þeim 100 sem átti að bjóða velkomin í fyrra samkvæmt ákvörðunum stjórnvalda eru komin. Von er á hópi sýrlenskra fjölskylda í septembermánuði og vonir standa til að afganskir flóttamenn komist til landsins í haust. Kjarninn kannaði hvernig hinum Norðurlöndunum hefur gengið að bjóða flóttafólk velkomið á tímum veiru.

Þrátt fyrir að heimsfaraldurinn hafi óumdeilanlega sett strik í reikninginn varðandi móttöku kvótaflóttamanna hafa flest hin Norðurlöndin þegar náð að taka við góðum skerf af þeim kvótaflóttamönnum sem ríkin ætluðu sér að taka á móti í fyrra og á þessu ári.

Ísland, á sama tíma, náði ekki að taka á móti neinum kvótaflóttamanni í fyrra, en til stóð og stendur enn að taka á móti alls 100 manns, samkvæmt ákvörðunum stjórnvalda. Ellefu manns komu til landsins undir lok júní úr þeim fimmtán manna hópi sem íslensk stjórnvöld buðust til að taka við úr Moria-flóttamannabúðunum á Lesbos í Grikklandi, eftir að eldur braust þar út síðasta haust.

Móttaka annarra flóttamanna, Sýrlendinga sem eru staddir í Líbanon, flóttafólki frá Keníu og afgönsku flóttafólki sem er staðsett í Íran, hefur hins vegar ekki komist til framkvæmda. Samkvæmt svörum sem Kjarninn fékk frá félagsmálaráðuneytinu munu viðtöl og fræðsla fyrir hópinn sem er í Líbanon fara fram núna um miðjan mánuðinn og eru fjölskyldurnar frá Sýrlandi væntanlegar til landsins fyrri hluta septembermánaðar.

Afganska flóttafólkið hefur þegar farið í viðtöl og fengið stutta fræðslu um hvað bíði þeirra á Íslandi og núna er unnið að því í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna að útvega nauðsynleg ferðagögn. Vonir standa til að hópurinn komi til landsins á haustmánuðum en ferðatilhögun mun ekki liggja fyrir fyrr en búið er að ganga frá ferðagögnum.

„Varðandi hópinn í Kenía hafa verið meiri tafir en undirbúningur er hafinn,“ samkvæmt svari frá félagsmálaráðuneytinu.

Stefnt að því að taka við 100 í ár til viðbótar við þau sem eru nú væntanleg

Samkvæmt svörum frá félagsmálaráðuneytinu er það stefna ríkisstjórnarinnar að taka á móti 100 kvótaflóttamönnum árið 2021, til viðbótar við þá 100 sem stefnt var að því að taka á móti árið 2020.

„Vegna þeirra tafa sem hafa orðið á móttöku hópsins sem átti að koma árið 2020 hefur undirbúningur vegna nýs hóps tafist. Stefna stjórnvalda hefur ekkert breyst þó að ljóst sé að tafir séu á móttöku árin 2020 og 2021,“ segir í svari ráðuneytisins, en íslensk stjórnvöld hafa aldrei ætlað sér að taka á móti fleiri kvótaflóttamönnum á einu ári og raunin er nú.

Kjarninn leitaði til þeirra opinberu aðila í Noregi, Danmörku og Finnlandi sem sjá um mótttóku kvótaflóttafólks og spurðist fyrir um hversu margir einstaklingar hefðu komið af þeim fjölda sem áætlað var að taka á móti í fyrra og það sem af er þessu ári og hvernig mótttökuferlið hefði gengið, á tímum heimsfaraldurs. Hvað Svíþjóð varðar var stuðst við upplýsingar í skýrslu frá flóttamannastofnun landsins, þar sem svör við þeim spurningum sem á blaðamanni brunnu var að finna.

Svíar tóku við 3.599 af 5.000 í fyrra og ætla að bæta það upp í ár

Svíþjóð hefur löngum tekið á móti fleiri kvótaflóttamönnum en önnur ríki á Norðurlöndum. Í fyrra var stefnan sett á að taka á móti 5.000 manns til landsins, en einungis náðist að taka á móti 3.599 manns af þeim kvóta.

Vandkvæði vegna faraldursins ollu truflunum í starfi bæði Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) og Alþjóðlegu fólksflutningastofnunarinnar (IOM) og sænska flóttamannastofnunin ákvað að flytja enga kvótaflóttamenn til landsins frá mars og fram í ágúst í fyrra, samkvæmt því sem segir í skýrslu sænsku flóttamannastofnunarinnar um starf ársins 2020.

„Þar sem það verkefni að koma fólki sem þarf vernd fyrir á nýjum stað er gríðarlega mikilvægt hélt sænska flóttamannastofnunin áfram með að flytja fólk til Svíþjóðar um miðjan ágúst og út árið,“ segir í skýrslu sænsku stofnunarinnar.

Auglýsing

Þar kemur einnig fram að sökum þess að verr hafi gengið að taka á móti flóttafólki en gert var ráð fyrir hafi sænska ríkisstjórnin ákveðið að veita flóttamannastofnuninni tækifæri til þess að fylla þau pláss sem ekki tókst að nýta í fyrra. Í ár ætla Svíar því að taka á móti 6.401 kvótaflóttamanni, í stað 5.000 eins og áður hafði verið stefnt að.

Danmörk tók við 31 kvótaflóttamanni í fyrra

Danir hafa á undanförnum árum, samfara öðrum breytingum sem gerðar hafa verið á lögum um málefni fólks á flótta þar í landi, dregið verulega úr móttöku kvótaflóttamanna og tóku raunar ekki á móti neinum slíkum á árunum 2018 né 2019 og einungis fimm flóttamönnum árið 2017, samkvæmt tölum frá UNHCR. Á árunum 2010-2016 tóku Danir á móti á milli 320 og 650 kvótaflóttamönnum árlega.

Samkvæmt upplýsingum sem Kjarninn fékk frá dönsku innflytjendaþjónustunni, sem heyrir undir ráðuneyti innflytjendamála og aðlögunar þar í landi, tók Danmörk á móti 31 kvótaflóttamanni í fyrra. Fólkið kom til landsins á kvóta sem ákvarðaður var af dönskum stjórnvöldum árið 2019.

Kvóti ársins 2020 hjóðaði upp síðan á 200 flóttamenn, sem allir munu koma frá Rúanda. Enginn þeirra er enn kominn, en búist er við að þeir komi síðar á þessu ári, samkvæmt svari dönsku stofnunarinnar.

Danir hættu að taka við kvótaflóttamönnum í ráðherratíð Inger Støjberg, sem fór með útlendingamál.
EPA

Þar segir einnig frá því að COVID-faraldurinn hafi sett strik í reikninginn í starfi bæði UNHCR og IOM í Rúanda. Danska innflytjendaþjónustan hafi vegna faraldursins neyðst til þess að fresta námskeiðum um danskt samfélag sem haldin eru fyrir flóttamenn á erlendri grundu áður en fólkið er flutt til nýrra heimkynna í Danmörku. Þar er boðin kennsla um danskt samfélag, venjur og hefðir og grundvallarréttindi borgara.

Ríkisstjórnin er ekki búin að gefa út kvóta Danmerkur fyrir árið 2021, en UNHCR hefur í skýrslum sínum hvatt Dani til þess að taka á móti fleiri kvótaflóttamönnum en þeir gera nú.

Litlir hópar koma á nánast hverjum degi til Noregs

Faraldurinn hefur flækt móttöku flóttamanna til Noregs mjög, samkvæmt svörum sem Kjarninn fékk frá norsku útlendingastofnuninni. Flutningur flóttafólks hefur þannig tafist gríðarlega, bæði vegna sóttvarnaráðstafana og reglugerða þeim tengdum og sökum þess að starfsmenn stofnunarinnar hafa ekki getað ferðast og tekið viðtöl við fólkið sem er á leiðinni til landsins.

„Við erum að framkvæma fjarviðtöl yfir Teams og Skype. Það er tímafrekara og við náum að afgreiða mun færri mál en áður en faraldurinn hófst,“ segir í svari frá fjölmiðlafulltrúa stofnunarinnar til Kjarnans.

EPA

Þrátt fyrir þetta tók Noregur á móti 1.504 kvótaflóttamönnum í fyrra, samkvæmt tölum frá UNHCR. Það sem af er ári er búið að samþykkja að taka á móti 1.573 flóttamönnum og þann 4. ágúst höfðu 1.147 manns þegar komið til Noregs. Það eru „litlir hópar að koma á nánast hverjum einasta degi,“ samkvæmt svari frá útlendingastofnuninni en margir þeirra sem komu nú eru í hópi þeirra sem samþykkt var að taka við í fyrra.

Norðmenn hafa frá árinu 2015 tekið á móti 2.200-3.150 flóttamönnum árlega, nema í fyrra þegar fjöldinn fór niður í 1.504, sem áður segir.

Finnar náðu að taka við 661 af 850

Þrátt fyrir faraldurinn náðu Finnar að bjóða velkomna hátt hlutfall af þeim kvótaflóttamönnum sem þeir höfðu ætlað sér að taka á móti, eða 661 af þeim 850 einstaklingum sem ríkisstjórn landsins ákvað að taka á móti.

Kvótinn fyrir árið 2021 hefur verið hækkaður og stefnt er að því að taka á móti 1.050 manns á þessu ári. Í lok júlí var búið að taka við 280 manns, en samkvæmt sérfræðingi í innanríkisráðuneyti Finnlands sem veitti Kjarnanum svar standa vonir til þess að komast nærri markmiðinu um að taka á móti 1.050 kvótaflóttamenn velkomna á haustmánuðum.

Auglýsing

Ferðatakmarkanir og faraldursflækjur komu í veg fyrir að sendinefndir Finna kæmust utan til þess að taka viðtöl við flóttamenn, en samkvæmt svörum innanríkisráðuneytisins kom tæknin að miklu gagni við að halda móttökuferlinu gangandi.

Í svarinu frá Finnlandi segir jafnframt að UNHCR hafi hvatt móttökuríki til þess að nota fjarviðtöl með hjálp tölvutækninnar og málsskjöl til þess að meta þörf fólks og reynslan af þessu hafi verið jákvæð. Nánast hafi tekist að halda í áætlanir ríkisins um móttöku kvótaflóttafólks.

„Að sjálfsögðu kjósum við þó frekar venjulegar sendifarir og viljum halda þeim áfram eins fljótt og mögulegt er,“ segir í svarinu frá finnska ráðuneytinu.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar