Íslensk jarðefni henta að mati erlendra framleiðenda sements vel til íblöndunar. Vikur, móberg og nú sandur úr móbergi undan ströndum Íslands eru allt efni sem dásömuð eru í skýrslum erlendra stórfyrirtækja sem þurfa nú að draga verulega úr kolefnisspori sínu í framleiðslu til að komast hjá því að greiða há mengunargjöld sem vofa yfir innan Evrópusambandsins.
Nýjasta dæmið um vinsældir íslenskra jarðefna í stað hins kolefnisfreka sementsgjalls (sementsklinkers) eru áform þýska sementsrisans Heidelbergs Materials um umfangsmikla efnistöku sands úr sjónum undan strönd Landeyjar- og Eyjafjallasands í Rangárþingi eystra.
Efnisvinnslusvæðin eru fyrirhuguð sitt hvoru megin við Landeyjahöfn. Þótt ekki sé fjallað um áhrif efnistökunnar á sjálfa Landeyjahöfn, þar sem reglulega þarf að dæla miklu magni af sandi í burtu svo Vestmannaeyjaferjan Herjólfur geti athafnað sig, vill Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins, dótturfélags Heidelbergs Materials, meina að hin áformaða efnistaka gæti dregið úr innstreymi sands að höfninni. Þetta þyrfti að gerast í góðri samvinnu við Vegagerðina um fyrirkomulag og staðsetningu vinnslusvæðanna og ætti að auðvelda viðhaldsdýpkun.
„Þetta er spennandi verkefni af því að þarna gæti farið saman nýting á efni sem er að valda vandræðum í höfninni um leið og dregið er úr efnisflutningi inn í höfnina sem gæti aukið rekstraröryggi hennar,“ sagði Þorsteinn í viðtali við Morgunblaðið um síðustu helgi.
Þurfa að tryggja að verkefnið hafi ekki skaðleg áhrif á höfnina
Vegagerðin á hins vegar ekki beina aðkomu að verkinu en vegna þekkingar á aðstæðum við Landeyjahöfn hefur verið farið fram á að hún geri tillögu að rannsóknaráætlun, segir G. Pétur Matthíasson, forstöðumaður samskiptadeildar Vegagerðarinnar við Kjarnann. Hann segir hlutverk stofnunarinnar í málinu að tryggja að efnistakan hafi ekki skaðleg áhrif á jafnvægi strandarinnar í kringum Landeyjahöfn eða neikvæð áhrif á siglingar um höfnina. Verkefnið hafi sem sagt verið kynnt Vegagerðinni og rætt hefur verið um, að sögn G. Péturs, hvort að efnistakan gæti mögulega hjálpað Landeyjahöfn. „Ef að efnistakan hefur engin neikvæð áhrif á jafnvægi strandarinnar við Landeyjahöfn þá er Vegagerðin hlutlaus í þessu máli, og ef að möguleiki er að áhrifin verði til að bæta aðstæður þá er Vegagerðin jákvæð.“
Framkvæmdin sem Heidelberg áformar eru risavaxin. Unnar yrðu 60-75 milljónir rúmmetra af sandi á efnistökusvæðinu á þrjátíu ára tímabili eða um 2 milljónir rúmmetra á ári. Það er erfitt að átta sig á slíkum stærðum. Til að gera tilraun til einhvers samanburðar er Alþinghúsið við Austurvöll 4.370 rúmmetrar. Miðað við áætlanir sem eru framsettar í matsáætluninni á að flytja 7-10 þúsund tonn af efni frá vinnslusvæðinu og til flutningaskipa í Þorlákshöfn 8 til 10 sinnum í viku. Það eru nokkur Alþingishús að rúmmáli.
Móbergið sagt henta vel í sement
Það þarf vart að taka það fram en efnið af Landeyja- og Eyjafjallasandi yrði flutt úr landi. Því sandurinn við Landeyjahöfn, sem Markarfljót skilar úr jöklum og til sjávar, er ekki einhver venjulegur sandur í huga sementsframleiðenda. Og ekki jarðfræðinga ef út í það er farið. Því frumrannsóknir á þessum sandi benda til, að því er segir í skýrslu Heidelbergs, að malað gosefni, móberg, sé að finna á stóru svæði beggja vegna Landeyjahafnar. Og móberg hefur Heidelberg rannsakað í þaula. Þetta undraefni sem verður til við gos undir jökli eða vatni og er að finna víðsvegar á Íslandi en er sjaldgæft á heimsvísu. Efnið sem undirstrikar sérstöðu íslenskrar náttúru rækilega – þar sem eldur og ís hafa tekist á í árþúsundir og gera enn.
Ýmsa þætti má draga fram sem hafa orðið til þess að Heidelberg Materials horfir hýru auga til sandsins við Landeyjahöfn. Í fyrsta lagi eru sementsframleiðendur að leita logandi ljósi að staðgengilsefni í sement í stað flugösku sem hingað til hefur verið notuð í stað hins mjög svo mengandi sementsgjalls. Flugaska verður til við bruna kola í kolaverum en þeim á að loka einu af öðru á næstu árum og áratugum vegna umhverfissjónarmiða. Kolabruni er vissulega ekki umhverfisvænn en nýting aukaafurða sem verða til við slíkan bruna er vissulega jákvæð og í anda hringrásarhagkerfisins.
Framburður jarðefna með Markarfljóti, sem á upptök sín í Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli, gerir þetta svæði undan suðurströnd Íslands eftirsótt til námuvinnslu. Það bætist sífellt í. Allt fram streymir endalaust, eins og sagt er. Eða í það minnsta þangað til að jöklarnir hverfa.
Hægt að nýta fyrri rannsóknir
Í þriðja lagi hafa þegar verið gerðar töluverðar rannsóknir á þessum slóðum vegna Landeyjahafnar, sem framkvæmdaaðili getur nýtt sér, m.a. við mat á umhverfisáhrifum. Heidelberg mun m.a. nýta sér rannsóknir Vegagerðarinnar og fleiri aðila í gegnum tíðina. Í matsáætluninni er vísað til einnar slíkrar, frá árinu 2020, vegna viðhaldsdýpkunar í höfninni. Þær rannsóknir eru sagðar sýna að efni sem kemur úr Landeyjahöfn sé að langmestu leyti fínn og meðalgrófur sandur. Dýptarmælingar Vegagerðarinnar munu einnig nýtast sem og jarðvegssýni sem stofnunin hefur tekið. Þá munu rannsóknir sem unnar voru fyrir umhverfismat Landeyjarhafnar árið 2007 koma að notum.
Frekari rannsókna á ýmsum sviðum er þó þörf því nánast engar rannsóknir hafa farið fram á nákvæmlega því svæði sem til greina kemur til efnistöku. Hefur Hornsteinn, dótturfélag Heidelbergs, leyfi Orkustofnunar til rannsókna á lausum jarðefnum á hafsbotni á svæði allt frá Þorlákshöfn að Landeyjahöfn. Leyfið var útgefið í vor og gildir til ársloka 2024.
Nýlegar segulómmælingar sem unnar voru í tengslum við fyrirhugaða efnistöku sýna að umtalsvert efni sem talið er henta til framleiðslu íblöndunarefnis í sementsframleiðslu sé þar að finna. Að í það minnsta 50 metra þykkir setbunkar af efni, sem virðist einsleitt að gerð, hafi safnast upp beggja vegna Landeyjahafnar.
Í fjórða lagi þá þýðir efnistaka undan ströndinni að ekki þarf að flytja þetta gífurlega magn landleiðina til Þorlákshafnar eins og raunin er með áformaða vikurvinnslu á Mýrdalssandi og væntan brottflutning Litla-Sandfells í Þrengslum, verkefnis sem Heidelberg kemur einnig að. Efninu yrði dælt upp af hafsbotni í borð í 90-110 metra löng skip sem myndu svo sigla með það rakleiðis til Þorlákshafnar.
Í fimmta lagi mætti nefna mögulegan ávinning af framkvæmdinni fyrir Landeyjahöfn sjálfa og Vegagerðina sem þarf eins og staðan er í dag að halda henni við með miklum tilkostnaði. Þetta er hins vegar ekki markmið Heidelberg með framkvæmdinni í sjálfu sér enda gekk forstjóri Hornsteins ekki lengra í samtali við Morgunblaðið en að segja að samlegðaráhrif gætu orðið. Ekki er um samstarfsverkefni við Vegagerðina að ræða ef marka má matsáætlun Heidelberg. Þar segir þó að rannsaka þurfi strauma og setflutninga á fyrirhuguðu vinnslusvæði og hvaða áhrif efnistakan gæti haft á setflutninga og strandrof. „Gert er ráð fyrir að Vegagerðin muni annast rannsóknir á þessum umhverfisþáttum í samstarfi við aðra aðila,“ segir Heidelberg í skýrslu sinni.
Í þágu loftslagsins
Yfirlýst markmið framkvæmdarinnar er að sækja jarðefni sem íauka í sement svo draga megi úr losun gróðurhúsalofttegunda, eða viðhalda henni svo ekki komi til þess að nota þurfi sementsgjall í meira mæli. Í matsáætlun eru rifjuð upp loftslagsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem kalli eftir því að samfélagið bregðist við og fari í aðgerðir sem stuðli að minni losun gróðurhúsalofttegunda. „Með verkefninu skapast grundvöllur til þess að minnka þessa losun,“ segir í áætluninni.
Efnistakan færi fram utan netlaga, en það er skilgreint 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði. Dýpi er á bilinu 5-40 metra en öldugangur er mikill og veldur róti á hafsbotninum svo dýpi á svæðinu er mjög breytilegt. „Dæling og löndun efnis undan Suðurströnd Íslands er framkvæmd sem er ekki hættulaus og meðal annars háð veðri og aðstæðum,“ bendir Heidelberg á.
Gert er ráð fyrir að þegar sandskip er orðið full lestað verði siglt með efnið til Þorlákshafnar. Þar yrði því landað og það unnið áfram í verksmiðju Heidelberg sem staðsett verður, ef áætlanir fyrirtækisins ganga eftir, skammt frá hafnarsvæðinu í Þorlákshöfn.
Á þessu stigi er hins vegar óljóst hvernig sandinum verði landað í Þorlákshöfn. Um er að ræða tvo möguleika. Annars vegar að þurrka það úti á sjó og landa því með færibandi frá hafnaraðstöðu að verksmiðjunni. Löndun á þurru efni myndi kalla á uppbyggingu færibands á þeim hafnarkanti sem yrði nýttur. Hinn möguleikinn er að landa efninu blautu í sérstakt setlón. Í því tilviki þyrfti að gera ráð fyrir landrými nálægt höfninni.
Verksmiðjan sem vísað er til í matsáætluninni er ekki risin en um hana hafa þó þegar risið miklar deilur. Íbúar í Þorlákshöfn eru margir hverjir efins um ágæti þess að hafa svo stóra verksmiðju, með fleiri tuga háum sílóum, rétt við íbúabyggð – og rétt við fjöruna sem er einn vinsælasti útivistarstaðurinn á þessum slóðum. Verksmiðjan myndi líka mylja móbergið úr Litla-Sandfelli, sem Eden Mining ætlar að grafa upp til agna og Heidelberg að kaupa.
Skiptar skoðanir
Verksmiðjan er því framkvæmd sem tengist mögulegri efnistöku við Landeyjahöfn en er ekki hluti af því umhverfismati sem nú er hafið á því verkefni. Reyndar hefur enn ekki verið kveðið upp úr um hvort að verksmiðjan þurfi í umhverfismat. Og meirihluti skipulags- og umhverfisnefndar Ölfuss telur enga þörf á slíku umstangi. Minnihlutinn er hins vegar á allt annarri skoðun.
Skipulagsstofnun bað Ölfus um umsögn um málið, þ.e. hvort að sveitarfélagið kallaði eftir því að framkvæmdin færi í umhverfismat. Erindið var tekið fyrir á fundi í byrjun desember og lögðu fulltrúar B-lista Framfarasinna, sem sitja í nefndinni fyrir hönd minnihlutans, fram eftirfarandi álit: „Talið er mikilvægt að mölunarverksmiðjan fari í umhverfismat, sökum umfangs hennar miðað við samfélagið í Þorlákshöfn.”
Minnihlutinn undrandi
Þegar fundargerð þess fundar var lögð fram á bæjarstjórnarfundi 15. desember til samþykktar, rataði álit bæjarfulltrúa Framfarasinna ekki inn í umsögnina sem sveitarfélagið sendi til Skipulagsstofnunar þar sem fram kom að meirihlutinn telji ekki þörf á umhverfismati.
„Þessi afstaða meirihlutans vekur mikla furðu okkar bæjarfulltrúa í minnihluta,“ skrifa Ása Berglind Hjálmarsdóttir, H-lista, Hrönn Guðmundsdóttir, B-lista, og Vilhjálmur Baldur Guðmundsson, B-lista í Ölfusi, í aðsendri grein sem birt var á Vísi í gær.
Rifja þau upp að í skilyrðum sem bæjarstjórn samþykkti í nóvember að setja Heidelberg segi að bæjarstjórn „áskilji sér fullan rétt til að tryggja hagsmuni samfélagsins við vinnslu málsins“, og að „ekki komi til greina að gefinn verði afsláttur af almennum kröfum um hljóðmengun, rykmengun og annað það sem valdið getur samfélaginu ama“.
„Hvers vegna í ósköpunum fer bæjarstjórn þá ekki fram á að verksmiðjan fari í umhverfismat og þar með í gaumgæfilega skoðun sem tekur á málum er varða hagsmuni íbúa og umhverfis?“ skrifa fulltrúar minnihlutans. „Hvaða hagsmuni er verið að vernda með þeirri afstöðu? Hvernig geta íbúar tekið vel ígrundaða ákvörðun þegar kemur að íbúakosningu, sem búið er að lofa en enginn veit hvenær verður, þegar sveitarfélagið beitir sér ekki fyrir því að leiða fram allar mögulegar upplýsingar um áhrif sem framkvæmdin kann að hafa?“
Óskar umsagna margra
Skipulagsstofnun hefur enn ekki birt ákvörðun sína um hvort fyrirhuguð verksmiðja Heidelberg þurfi að fara í umhverfismat. Afstaða sveitarfélagsins hefur þar ekki úrslitaáhrif enda óskar Skipulagsstofnun eftir umsögnum margra stofnana sem sérfræðingar stofnunarinnar horfa svo til við ákvörðunartökuna. Hennar er að vænta á næstu dögum.