Karl 16. Gústaf (Karl Gústaf) er fæddur 30. apríl 1946 og er sjöundi í röð konunga Svíþjóðar af ætt Bernadotte. Þjóðhöfðingjar Svíþjóðar hafa allir verið karlar, burtséð frá því hvar þeir hafa verið í aldursröðinni. Var enda bundið í lögum að þjóðhöfðinginn skyldi vera karl. Karl Gústaf er yngstur fimm systkina, hann á fjórar eldri systur. Faðir þeirra systkina, Gústaf Adólf fórst í flugslysi í janúar 1947, hann var erfðaprins, en ekki krónprins, þar sem faðir hans, Gústaf 6, og afi voru báðir á lífi þegar slysið varð. Núverandi konungur, Karl Gústaf, erfði krúnuna frá afa sínum (sem var líka afi Margrétar Þórhildar Danadrottningar).
Eins og áður sagði á Karl Gústaf konungur fjórar eldri systur. Aldrei kom til greina að sú elsta yrði þjóðhöfðingi. Lögin heimiluðu það ekki og breytingar komu á þeim tíma ekki til álita.
Konungur 1973
Við fráfall Gústafs 6. árið 1973 varð Karl Gústaf konungur Svíþjóðar, hann var þá 27 ára. Á Ólympíuleikunum í Munchen kynntist hann Silvíu Sommerlath frá Heidelberg sem var túlkur á leikunum. Þau gengu í hjónaband árið 1976. Silvía hafði lagt stund á tungumála- og túlkanám og talar, auk þýsku og sænsku, frönsku, spænsku, portúgölsku, ensku og sænskt táknmál.
Börnin og heiðursskotin
Sænsku konungshjónin eiga þrjú börn. Elst er Viktoría fædd 1977, Karl Filippus fæddur 1979 og yngst er Magdalena fædd 1982. Tvö eldri börnin eru lesblind eins og faðirinn.
Löng hefð er fyrir því að fagna, með fallbyssuskotum (púðurskotum) fæðingu í fjölskyldu Svíakonungs. Þegar ríkisarfi kemur í heiminn eru skotin 42 talsins en annars eru skotin 21.
Þegar Viktoría kom í heiminn 14. júlí 1977 var hleypt af 21 skoti, hún var jú samkvæmt gildandi lögum ekki ríkisarfi. Karl Filippus fæddist 13. maí 1979 og þá var hleypt af 42 skotum, ríkisarfi var kominn í heiminn.
Lagabreytingin 1980
Þótt miklar umræður um breytingar á ríkisarfalögunum hefðu átt sér stað í Svíþjóð á síðari hluta áttunda áratugarins voru gömlu lögin um að karlar gengju framar konum í röðinni enn í gildi þegar Viktoría og Karl Filippus fæddust. En 1. janúar 1980 tóku ný lög gildi. Samkvæmt þeim skyldi elsta barn ríkjandi þjóðhöfðinga, óháð kyni, erfa krúnuna. Með samþykkt þessara laga var sjö og hálfs mánaðar krónprinstímabil Karls Filippusar á enda og Viktoría sem hafði borið prinsessutitil var nú orðin krónprinsessa.
Ósáttur við breytinguna
Í sjónvarps- og blaðaviðtölum eftir lagabreytinguna í ársbyrjun 1980 lýsti konungurinn óánægju sinni. Sonur sinn hefði fæðst sem krónprins og nú hefði hann svo verið sviptur titlinum „allt tekið af honum“ eins og kóngur orðaði það. Hann sagði að ekki væri hægt að breyta lögum á þennan hátt, afturvirkt. Karl Gústaf sagði ennfremur að konungsstarfið væri of erfitt fyrir stúlkur.
Þessi ummæli konungs vöktu mikla athygli og hneykslan margra. Þetta er reyndar ekki í eina skiptið sem orð og gerðir hans hafa vakið undran og jafnvel reiði.
Árið 2004 fór Karl Gústaf í opinbera heimsókn til Brúnei. Sú heimsókn olli mikilli gagnrýni Svía og ekki síður ummæli konungs í viðtölum eftir að heimsókninni lauk. Soldáninn í Brúnei er einvaldur sem stjórnar ríki sínu með harðri hendi, hann er allt í senn, forsætisráðherra, varnarmálaráðherra og fjármálaráðherra. Þar að auki er hann yfirmaður hersins og lögreglunnar. Í Brúnei situr þing en það er algjörlega valdalaust.
Þegar fréttamenn ræddu við Karl Gústaf eftir heimsóknina 2004 spurðu þeir hvort hann teldi að soldáninn væri einræðisherra sagði kóngur það af og frá. Soldáninn væri í nánum tengslum við þjóð sína (sem telur um 400 þúsund manns) og árlega byði hann þúsundum landa sinna í höllina þar sem boðið væri upp á veitingar og almenningur fengi þar tækifæri til að ræða við soldáninn og hátt setta embættismenn.
Þáverandi forseti sænska þingsins gagnrýndi konunginn harðlega fyrir heimsóknina, ekki léti hann nægja að blanda sér í stjórnmál, sem væri ekki hlutverk hans, heldur hefði hann hyllt einræðisherrann.
Stendur fast við fyrri ummæli
Í nýjum heimildaþætti sænska sjónvarpsins, SVT, eru áðurnefnd ummæli konungs um óánægju sína með lagabreytinguna árið 1980 rifjuð upp, og sömuleiðis þau orð sem hann lét falla um soldáninn í Brúnei.
Í viðtali sem tekið var við konung við gerð nýja heimildaþáttarins sagði hann það enn skoðun sína að rangt hefði verið að breyta lögunum um ríkisarfann, með afturvirkum hætti. Hann undirstrikaði að þetta teldi hann eiga að gilda um öll lög. Hann sagði ennfremur í viðtalinu að hann bæri fullt traust til Viktoríu dóttur sinnar og samkomulagið í fjölskyldunni væri eins og best yrði á kosið.
Þessi orð konungs hafa sænskir fjölmiðlar tekið óstinnt upp. Benda á að Viktoría sé vinsæl meðal Svía en það sama verði ekki sagt um alla í fjölskyldunni. Viðhorf konungs sé gamaldags og lýsi karlrembu. Og þótt hann segist bera fullt traust til Viktoríu séu ummæli hans, nú endurtekin 40 árum síðar, vanvirðing við dótturina.
Varðandi ummælin um Brúnei og soldáninn eftir heimsóknina 2004 sagði kóngur að orð sín hefðu verið misskilin. Hann hefði verið að tala um tengsl soldánsins við þjóð sína. Og endurtók síðan ummæli sín um gott samband soldáns og þjóðar. En bætti svo við að stjórnarfyrirkomulagið í Brúnei væri annað en hjá Svíum.
Heimildaþátturinn er aðgengilegur á streymisveitu sænska sjónvarpsins SVT en verður sýndur á aðalrás SVT 12. janúar næstkomandi.