Mynd: Birgir Þór Harðarson Bjarni Benediktsson Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Fátt bendir til þess að pólitískt veðmál Vinstri grænna gangi upp

Vinstri græn hafa ekki mælst með minna fylgi frá vormánuðum 2013. Flokkurinn hefur tapað um 55 prósent af kjósendum sínum frá því að sitjandi ríkisstjórn var sett á laggirnar, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur á sama tíma bætt við sig fylgi. Yfirvofandi er frekari ógn frá vinstri sem ýfa upp slæmar minningar úr afhroðinu sem varð í sveitarstjórnarkosningunum 2018. Ef fer sem horfir munu Vinstri græn fá sína verstu niðurstöðu í sögu flokksins í þingkosningum eftir tíu mánuði.

Vinstri græn sett­ust fyrst í rík­is­stjórn snemma árs 2009, til að taka til eftir banka­hrun­ið. Eftir kosn­ing­arnar það ár sátu þau þar með Sam­fylk­ing­unni og mynd­uðu fyrstu hreinu tveggja flokka meiri­hluta­stjórn lýð­veld­is­sög­unn­ar. Flokk­ur­inn hafði fengið 21,7 pró­sent upp úr kjör­köss­unum í apríl 2009, sem var það mesta sem hann hafði nokkru sinni feng­ið. Það met stendur enn. Til að setja þann árangur í annað sam­hengi þá fengu Vinstri græn 3.789 færri atkvæði en Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn í þeim kosn­ing­um, og á þeim mun­aði tveimur pró­sentu­stig­um. 

Þegar komið var að því að kjósa næst, í apríl 2013, var staða önn­ur. Katrín Jak­obs­dóttir var nýtekin við Vinstri grænum og Stein­grímur J. Sig­fús­son var sestur aftur í stjórn­mála­vagn­inn sem hann átti mestan þátt í að smíða árið 1999, þótt hann ætti enn eftir tvö kjör­tíma­bil þangað til hann lýkur þing­ferli sem teygir sig inn á fimm mis­mun­andi ára­tug­i. 

Breyt­ing­arnar virt­ust ekki ætla að skila miklu, að minnsta kosti fyrst um sinn. Í könnun MMR sem birt var 14. apríl 2013 mæld­ist fylgi Vinstri grænna 6,7 pró­sent. Afhroð blasti við í kosn­ing­unum tveimur vikum áður en gengið var til þeirra. 

Auglýsing

Staðan batn­aði á þeim tíma og í síð­ustu könnun MMR fyrir kosn­ing­arnar 2013 mæld­ist fylgið 11,6 pró­sent. Nið­ur­staðan varð á þeim nót­um, eða 10,9 pró­sent fylgi. Nú mun­aði hins vegar 13,5 pró­sentu­stigum og tæp­lega 26 þús­und atkvæðum á Vinstri grænum og Sjálf­stæð­is­flokkn­um. 

Sá for­sæt­is­ráð­herra sem flestir vildu

Flokk­ur­inn náði vopnum sínum í stjórn­ar­and­stöðu og fékk 15,9 pró­sent þegar kosið var haustið 2016. Hann varð næst stærsti flokkur lands­ins í fyrsta sinn þótt mun­ur­inn gagn­vart Sjálf­stæð­is­flokknum væri enn svip­að­ur, eða um 25 þús­und atkvæði. Þar skiptu per­sónu­legar vin­sældir Katrínar ekki síst miklu máli. Hún var sá stjórn­mála­leið­togi sem flestir lands­menn vildu sjá sem for­sæt­is­ráð­herra. Stuðn­ingur við það, um 40 pró­sent í októ­ber 2016, var langt umfram mælt fylgi Vinstri grænna. 

Margir höfðu bundið miklar vonir við að hún myndi leiða félags­hyggju­öfl aftur til valda. Á meðal þeirra var rit­höf­und­ur­inn Jón Kalman Stef­áns­son sem skrif­aði grein á Kjarn­ann sem birt­ist í maí 2015. Þar sagði hann meðal ann­ars að vinstra- og miðju­fólk gæti „ann­að­hvort haldið upp­­­teknum hætti, gengið sundruð til næstu kosn­­inga og þannig tryggt áfram­hald­andi mis­­­skipt­ingu. Eða fylkt okkur á bak við þann eina stjórn­­­mála­­mann sem hefur getu og vin­­sældir til að leiða breið­­fylk­ingu í anda R-list­ans: Katrínu Jak­obs­dótt­ur[...]Ef hún hefur áhuga á að hrifsa sam­­fé­lagið úr járn­klóm hags­muna, nýfrjáls­hyggju og lýð­skrumara, þá verður hún að stíga fram og sam­eina vinstri– og miðju­­menn að baki sér. Og aðrir for­yst­u­­menn eiga að víkja. Þeir eiga að taka hags­muni þjóðar fram yfir per­­són­u­­legan metnað og verða ridd­­arar í sveit Katrínar Jak­obs­dótt­­ur. Hennar tími er ein­fald­­lega runn­inn upp. Hvort sem henni líkar betur eða verr.“

Leið­in­leg­asti tím­inn í stjórn­málum

Í þeim kosn­ingum voru sjö flokkar kjörnir á þing, sitj­andi stjórn kol­féll og engin sýni­leg stjórn var í kort­un­um. Því þurfti að leita óhefð­bund­inna leiða til að mynda rík­is­stjórn og úr varð stjórn­ar­kreppa sem stóð fram í jan­úar 2017. Við tók erfið stjórn­ar­kreppa enda erfitt að mynda starf­hæfa rík­is­stjórn. 

Í bók­inni Hreyf­ing rauð og græn – Saga VG 1999-2019 eftir Pétur Hrafn Árna­son sagn­fræð­ing, sem kom út fyrir ári i í til­efni af 20 ára afmæli Vinstri grænna, var þetta tíma­bil gert upp. Þar var haft eftir Katrínu að stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræð­urnar sem áttu sér stað eftir kosn­ing­arnar 2016, og dróg­ust í marga mán­uði, hafi verið mjög óvenju­legur tími í íslenskri póli­tík. „Ég myndi segja að hann hafi verið sá leið­in­leg­asti sem ég hef upp­lifað á mínum póli­tíska ferli. Ég eig­in­lega lærði í þessum stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræðum – í eitt skipti fyrir öll – að maður þarf mjög að gæta þess hverjum maður treystir í póli­tík. Þetta er stað­reynd sem stjórn­málin standa frammi fyrir eftir hrun­ið, traust milli manna er af mjög svo skornum skammti.“

Úr varð að rík­is­stjórn Bjarna Bene­dikts­son­ar, sem skipuð var Sjálf­stæð­is­flokki, Við­reisn og Bjartri fram­tíð, var mynduð í jan­úar 2017. 

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar varð skammlíf.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Tími Katrínar var ekki runn­inn upp. Hún myndi hins vegar fá nýtt tæki­færi fyrr en flesta grun­að­i. 

Lands­rétt­ar­málið og Upp­reist-æru málið ollu stjórn­inni stór­kost­legum erf­ið­leikum og öllum sem fjöll­uðu um stjórn­mál, eða tóku beinan þátt í þeim, var ljóst að rík­is­stjórnin myndi lík­ast til ekki verða lang­líf. Hún sprakk um miðjan sept­em­ber og boðað var til nýrra kosn­inga. 

Í lok októ­ber 2017 var svo kosið í annað sinn á einu ári. 

Nafn­lausi áróð­ur­inn sem virk­aði

Fylgi Vinstri grænna var í hæstu hæðum á þessum tíma. Í könnun MMR mán­uði fyrir kosn­ingar mæld­ist það um 25 pró­sent. Það féll hins vegar hratt á þeim mán­uði. Í áður­nefndri bók sagði Katrín að hún væri nokkuð viss um að nafn­laus áróð­ur, sem var fram­settur af stuðn­ings­mönnum hægri afla með mynd­böndum á Face­book og Youtube þar sem tugir þús­und sáu, hafi skipt þar máli.  „Til­lögur VG í skatta­málum voru gerðar tor­tryggi­legar og það hafði heil­mikil áhrif. Fylgið féll jafnt og þétt og að lenda í slíkri vörn strax í upp­hafi er þrælerfitt í kosn­inga­bar­átt­u.“

Á end­anum fékk flokk­ur­inn 16,9 pró­sent, sem gerði hann að næst stærsta flokki lands­ins. Vinstri græn bættu samt ein­ungis við sig einum þing­mann­i. 

Eftir að stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræðum við Sam­fylk­ingu, Pírata og Fram­sókn­ar­flokk heima hjá Sig­urði Inga Jóhanns­syni, for­manni Fram­sókn­ar, í Hruna­manna­hreppi var slitið eftir fjóra daga fóru af stað þreif­ingar milli Vinstri grænna, Fram­sóknar og Sjálf­stæð­is­flokks. Í bók­inni segir enda að áhugi innan allra þeirra flokka á slíku sam­starfi hafi verið „verst geymda leynd­ar­málið í póli­tík­inni“ á þeim tíma. 

Rík­is­stjórn Katrínar Jak­obs­dóttir tók form­lega við völdum í lok nóv­em­ber 2017. 

Afhroð í borg­ar­stjórn­ar­kosn­ingum

Tveir þing­menn Vinstri grænna, Rósa Björk Brynj­ólfs­dóttir og Andrés Ingi Jóns­son, studdu ekki myndun rík­is­stjórn­ar­innar né stjórn­ar­sátt­mál­ann og hafa í dag bæði sagt sig úr flokkn­um. 

Rík­is­stjórn­ar­sam­starfið við sér­stak­lega Sjálf­stæð­is­flokk­inn, sem margir innan Vinstri grænna líta á sem höf­uð­and­stæð­ing flokks­ins í stjórn­mál­um, var risa­stórt póli­tískt veð­mál. 

Auglýsing

Flokk­ur­inn kann­aði hvernig sam­starfið væri að mæl­ast fyrir í könnun árið 2018. Þar var leitað álits 2.437 ein­stak­linga úr félaga­skrá Vinstri grænna og 2.979 úr handa­hófs­kenndu úrtaki. Nið­ur­staðan var að ein­ungis 44 pró­sent flokks­manna sem tóku þátt í könn­un­inni voru ánægðir með störf rík­is­stjórn­ar­inn­ar. 

Betri mæl­ing fékkst á stöð­una í lok maí 2018, þegar sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ingar fóru fram. Nið­ur­staðan á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, þar sem fylgi Vinstri grænna mæld­ist mest í aðdrag­anda þing­kosn­ing­anna árið áður, var afhroð. Í Reykja­vík, þar sem for­maður flokks­ins býður fram, fékk flokk­ur­inn ein­ungis 2.700 atkvæði, eða 4,6 pró­sent. Í Kópa­vogi, næst stærsta sveit­ar­fé­lagi lands­ins, voru atkvæðin 910 og hlut­fallið 5,7 pró­sent. Í Hafn­ar­firði fékk flokk­ur­inn 776 atkvæði eða 6,7 pró­sent.

Stein­grímur kveður sviðið

Nú eru rúmir tíu mán­uðir til kosn­inga. Stein­grímur J. Sig­fús­son, sem hefur tryggt að Norð­aust­ur­kjör­dæmi hefur verið sterkt vígi, til­­kynnti nýverið að hann ætl­­aði að hætta á þingi í aðdrag­anda næstu kosn­­inga og því liggur fyrir að nýr odd­viti mun leiða í kjör­­dæm­inu. Óli Hall­­dór­s­­son hefur þegar til­­kynnt fram­­boð í það hlut­verk. Bjarkey Olsen Gunn­ars­dótt­ir, sem var í öðru sæti á list­anum haustið 2017, sæk­ist líka eftir því hlut­verki. Flestir við­mæl­endur Kjarn­ans, jafnt innan sem utan Vinstri grænna, eru sam­mála um að Kol­beinn Ótt­ars­son Proppé, sem hefur setið sem þing­maður Reykja­vík­ur­kjör­dæmis suður frá 2016, sé líka að máta sig við odd­vita­sæt­ið. Hann er frá Siglu­firði og festi nýverið kaup á hús­næði þar, sem gaf þeim get­gátum byr undir báða vængi. Vinstri græn voru næst stærsti flokk­ur­inn þar í síð­ustu kosn­ing­um, fengu 88 atkvæðum færri en Sjálf­stæð­is­flokkur og alls 19,9 pró­sent allra greiddra atkvæða. Þar spilar per­sónu­fylgi Stein­gríms, sem hefur á ára­tuga­löngum ferli beitt sér mikið fyrir kjör­dæm­ið, til dæmis í stór­iðju- og sam­göngu­mál­um, stóra rullu. Alls óvíst er að spor­göngu­fólk hans nái að við­halda því fylg­i. 

Steingrímur J. Sigfússon bauð sig fyrst fram til þings árið 1978 og náði fyrst kjöri árið 1983. Hann mun stíga af sviðinu árið 2021.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Vinstri græn eru í ýmis konar öðrum vanda. Í síð­ustu tveimur könn­unum MMR mæld­ist fylgi flokks­ins ann­ars vegar 7,5 og hins vegar 7,6 pró­sent. Það er minnsta fylgi sem hann hefur mælst með í könn­unum MMR frá því í apríl 2013, eða í sjö og hálft ár. Fylgið er áhyggju­efni fyrir Vinstri græn af nokkrum ástæð­u­m. 

Líkt og Kjarn­inn greindi frá í grein­ingu um miðjan síð­asta mánuð þá hefur stuðn­ingur við Vinstri græn hrunið á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Í kosn­ing­unum 2017 fengu Vinstri græn til að mynda 21,5 pró­sent atkvæða í Reykja­vík norð­ur, þar sem Katrín Jak­obs­dóttir leiddi list­ann. Það var mesta fylgi sem flokk­ur­inn fékk í nokkru kjör­dæmi. 

Grein­ing Kjarn­ans, sem byggði ann­ars vegar á könn­unum MMR fyrir og eftir síð­ustu kosn­ingar og hins vegar á tveimur könn­unum sem gerðar voru í októ­ber og nóv­em­ber 2020, sýndi að fylgið á höf­uð­borg­ar­svæð­inu er nú tæpur helm­ingur þess sem það var fyrir rúmum þremur árum síð­an. 

Þá hefur MMR mælt fylgi Vinstri grænna meira í síð­ustu könnun fyr­ir­tæk­is­ins fyrir síð­ustu þrjár þing­kosn­ing­ar, þótt það hafi alltaf verið innan skekkju­marka. Sú nið­ur­staða bendir samt sem áður til þess að fylgi Vinstri grænna sé frekar ofmetið í könn­unum MMR en van­met­ið.

Eng­inn tapað meiru en Vinstri græn

Eng­inn flokkur hefur tapað meira fylgi en Vinstri græn það sem af er kjör­tíma­bili. Alls hafa 9,3 pró­sentu­stig horf­ið. Ef sú staða sem nú mælist kæmi upp úr kjör­köss­unum yrði það versta nið­ur­staða Vinstri grænna frá því að flokk­ur­inn var stofn­aður árið 1999 og yrði í fyrsta sinn frá árinu 2007 sem flokk­ur­inn fengi ekki yfir tíu pró­sent stuðn­ing í kosn­ing­um. 

Þegar staðan er borin saman við hina stjórn­ar­flokk­anna tvo er aug­ljóst hver það er sem tapar mestu á þessu rík­is­stjórn­ar­sam­starfi. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn er sem stendur að mæl­ast með 1,9 pró­sentu­stigi meira en hann fékk haustið 2017 og með fylgi sitt í hæstu hæðum miðað við síð­ustu ár, þar sem 27,1 pró­sent lands­manna segj­ast styðja flokk­inn. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn á í miklum erf­ið­leikum og stefnir hrað­byrði á sína verstu nið­ur­stöðu í Íslands­sög­unni, en fylgið mælist nú 3,1 pró­sentu­stigi undir kjör­fylgi og ein­ungis 7,6 pró­sent lands­manna segj­ast ætla að kjósa flokk­inn. Sam­an­lagt hafa þessir tveir flokkar því tapað 1,2 pró­sentu­stigi á sama tíma og Vinstri græn hafa tapað 55 pró­sent af fylgi sín­u. 

Ógn frá vinstri

Í bók­inni eftir Pétur Hrafn sagn­fræð­ing, sem kom út fyrir ári síð­an, var meðal ann­ars reynt að leita skýr­inga á því hvað hefði farið úrskeiðis hjá Vinstri grænum í aðdrag­anda síð­ustu kosn­inga, þegar fylgið fór úr 25 pró­sentum í 16,9 pró­sent á mán­uði. Ein skýr­ingin sem þar var viðruð er að Flokkur fólks­ins, sem hafi höfðað til hinna minna meg­andi, hafi náð umtals­verðum árangri á loka­metr­unum sem skil­aði flokknum í fyrsta sinn inn á þing. Fylgi flokks­ins hefði, sam­kvæmt könn­un­um, lækkað hjá þeim sem höfðu ein­ungis grunn­skóla­próf en var hærra en hjá nokkrum öðrum flokki hjá þeim sem voru háskóla­mennt­að­ir. 

Í borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­unum 2018 voru Vinstri græn ekki ein­ungis að glíma við að Flokkur fólks­ins tók til sín atkvæði, sem skil­aði þeim flokki inni borg­ar­full­trúa, heldur líka að komið var rót­tækt afl vinstra megin við Vinstri græn, Sós­í­alista­flokkur Íslands, sem gekk mun betur að höfða til vinstri­s­inn­aðra kjós­enda. 

Auglýsing

Sós­í­alista­flokk­ur­inn mælist nú með fimm pró­sent fylgi sem myndi skila honum með menn á þing. Hafa verður þann fyr­ir­vara að flokk­ur­inn á eftir að kynna stefnu­skrá sína fyrir næstu kosn­ingar og hvaða fólk verður á lista, sem er lík­legra til að auka fylgið frekar en hitt. Sú fylg­is­aukn­ing yrði, að minnsta kosti að hluta, sótt til Vinstri grænna. 

Sem stendur virð­ist því sem hið risa­stóra veð­mál flokks­ins, að mynda íhalds­sama rík­is­stjórn með þeim flokkum sem Vinstri græn hafa helst stillt sér upp á móti í póli­tískri orð­ræðu síð­ustu ára, sé alls ekki lík­legt til að ganga upp.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar