Kaldur pólitískur vetur framundan
Stór pólitísk átakamál, sem stjórnarflokkarnir eru í grundvallaratriðum ósammála um, eru á dagskrá í vetur. Óvinsældir ríkisstjórnarinnar og hverfandi fylgi Viðreisnar og Bjartrar framtíðar munu reyna á samstöðu hennar á kosningavetri. Það er kalt á ríkisstjórnarheimilinu þessa daganna.
Ríkisstjórnin fundaði síðastliðinn föstudag. Hún hafði þá ekki fundað í 41 dag, sem er lengsta frí sem ríkisstjórn hefur tekið frá slíkum fundarhöldum í tólf ár. Þingnefndir byrjuðu líka að funda í vikunni og þing verður sett að nýju 12. september. Pólitíkin er því að vakna úr sumardvala.
Sá dvali einkenndist mestmegnis af skoðanakönnunum sem sýndu slæma stöðu ríkisstjórnarinnar, og sérstaklega litlu flokkana sem hana skipa, og tilraunum þeirra flokka til að sýna að þeir væru ekki bara hækjur fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Á komandi vetri verður tekist á um lykilkerfisbreytingar í íslensku samfélagi. Um landbúnaðarkerfið og hvort ráðast eigi í uppkaup á offramleiðslu fyrir ríkisfé, um breytingar á gjaldtöku í sjávarútvegi og endurskoðun á umgjörð peningamála- og gjaldmiðlastefnunnar. Í ljósi þess að í ríkisstjórn sitja flokkar sem eru á öndverðu meiði í þessum stóru málum er eðlilegt að velta fyrir sér hvort hún muni lifa af þann kalda pólitíska vetur sem er framundan. Sérstaklega þar sem sveitastjórnarkosningar eru í vor, og staða flokkanna á landsvísu mun án nokkurs vafa smitast inn í árangur þeirra þar.
Óvinsældirnar minnka ekkert
Sumarið hefur einkennst af stöðutöku milli ríkisstjórnarflokkanna. Sitjandi ríkisstjórn hefur ekki farið vel af stað. Það er að minnsta kosti ekki mat kjósenda, enda hefur engin ríkisstjórn orðið jafn fljótt jafn óvinsæl og sú sem nú situr. Í síðustu könnun Gallup mældist stuðningur við hana einungis 32,7 prósent. Flokkarnir sem að ríkisstjórninni standa myndu einungis ná inn 21 þingmanni ef kosið yrði í dag, ellefu færri en í kosningunum fyrir um tíu mánuðum síðan, og eru því órafjarri því að halda meirihluta sínum.
Líkt og venjan er í stjórnarsamstarfi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er þungamiðjan þá bitna óvinsældirnar fyrst og síðast á samstarfsflokkunum. Samkvæmt könnunum heldur Sjálfstæðisflokkurinn kjarnafylgi sínu, fengi 26,5 prósent atkvæða og 18 þingmenn. Hann yrði því áfram stærsti flokkur landsins ef kosið yrði í dag. Viðreisn myndi hins vegar helmingast í fylgi, og rétt skríða inn á þing með 5,3 prósent atkvæða og þrjá þingmenn. Staðan hjá Bjartri framtíð er enn verri. Einungis 3,7 prósent aðspurðra í könnun Gallup sögðust ætla að kjósa flokkinn. Það myndi þýða að Björt framtíð næði ekki inn manni á þing en flokkurinn hefur nú fjóra þingmenn.
Umræðan um að Viðreisn og Björt framtíð séu fyrst og síðast til skrauts í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks sem ætlar engu að breyta truflar framámenn í báðum flokkum mikið. Þeir virðast gera sér grein fyrir því að ákvörðun um að afgreiða skipan í nýjan Landsrétt á lokametrum síðasta þings, þar sem atkvæði féllu að öllu leyti eftir víglínum stjórnar og stjórnarandstöðu, var síst til að draga úr þeirri upplifun fólks. Hvort sem þeim líkar betur eða verr leit afgreiðsla málsins út sem pólitísk hrossakaup í augum ansi margra. Fyrir vikið er litlu flokkunum tveimur mikið í mun að skerpa á því hver munurinn á stefnu þeirra og Sjálfstæðisflokksins sé.
Reynt að búa til bil
Það sást á sumarmánuðum. Fyrst skrifaði Þorsteinn Pálsson, áhrifamaður innan Viðreisnar, grein á Kjarnann þann 13. júní þar sem hann sagði flokkanna tvo vera að koma stórum málum á dagskrá. „Með hæfilegri einföldun má segja að við myndun þessarar stjórnar hafi Sjálfstæðisflokkurinn aðeins farið fram á skattalækkanir en óbreytt ástand að öðru leyti. Viðreisn og Björt framtíð vildu setja á dagskrá breytingar í landbúnaðarmálum, nýjar hugmyndir um veiðileyfagjöld, róttæka endurskipan á gjaldmiðils- og peningamálum og þjóðaratkvæði um hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið,“ skrifaði Þorsteinn. Þessi skrif fóru ekki vel í Sjálfstæðismenn.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar og fjármála- og efnahagsráðherra, og Jóna Sólveig Elínardóttir, varaformaður flokksins, hafa síðan verið dugleg að skrifa greinar um peningamál, þar sem áhersla hefur verið lögð á að gagnrýna krónuna. Benedikt skrifaði til að mynda grein í Fréttablaðið 20. júlí sem bar yfirskriftina: „Má fjármálaráðherra hafna krónunni?“ Niðurstaða hans var já, og að fjármálaráðherra beri hreinlega „skylda til að leggja til þann kost sem er farsælastur fyrir Íslendinga.“ Sá kostur væri ekki krónan.
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur einnig verið áberandi og meðal annars tjáð sig ítrekað um þörfina á breytingum á landbúnaðarkerfinu. Síðast þann 8. ágúst, þegar hann skrifaði að það væri ekki náttúrulögmál að vera með hæsta matvælaverð í heimi. Hann kallaði eftir Costco- og IKEA-áhrifum á landbúnað. Benedikt hefur tekið undir með honum. Þetta hefur truflað ýmsa Sjálfstæðismenn. Páll Magnússon, leiðtogi þeirra á Suðurlandi, gagnrýndi þá harðlega í stöðuuppfærslu á Facebook í gær. Þar sagði hann að Þorsteinn og Benedikt hefðu fjallað á „yfirborðslegan en skilningslítinn hátt um þann alvarlega vanda sem nú blasir við sauðfjárbændum.“
Þá hefur barátta fórnarlamba Roberts Downey (áður Róbert Árni Hreiðarsson), og aðstandenda þeirra, fyrir því að fá upplýsingar um af hverju hann hafi fengið uppreista æru og lögmannsréttindi að nýju einnig fallið í skýrar pólitískar skotgrafir á einhvern ótrúlegan hátt. Málið hefur gert það að verkum að Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hefur boðað breytingar á því hvernig uppreist æru er veitt.
Og í liðinni viku gerðist það að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var kölluð saman til að ræða þær breytingar. Þar voru ýmis gögn um mál Roberts Downey lögð fram í trúnaði. Meðal annars upplýsingar um nöfn þeirra sem skrifuðu undir meðmæli fyrir því að Robert Downey fengi uppreist æru. Þeir nefndarmenn stjórnarmeirihlutans, sem mættir voru á fundinn, gengu út af honum þegar nöfnin voru lögð fram. Eini stjórnarþingmaðurinn sem varð eftir var Brynjar Níelsson, formaður nefndarinnar.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar og heilbrigðisráðherra, tjáði sig um málið í kjölfarið. Í stöðuuppfærslu a Facebook sagði hann uppákoman í nefndinni, þegar nefndarmenn stjórnarflokka gengu út, hefði virkað„furðuleg“. „ Hún þarfnast skýringa og ég skil ekki þau rök sem komið hafa fram.“ Björt framtíð á ekki fulltrúa í nefndinni og gagnrýnin beindist augljóslega þeim stjórnarþingmönnum sem gengu út. Í morgun bætti hann í málið og sagðist vilja leggja af uppreist æru. Ljóst væri að það hefði mistekist hrapalega að ná samkomulagi um hvernig meðhöndla ætti málið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.
Jón Steindór Valdimarsson, varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og þingmaður Viðreisnar, tilkynnti síðar sama dag að hann myndi óska eftir því að fá öll gögn um mál Roberts Downey afhent á næsta fundi nefndarinnar. Hann hefði ekki komist á fundinn í vikunni. Það verða því einungis nefndarmenn Sjálfstæðisflokks sem munu neita að sjá umrædd gögn. Sú afstaða hefur farið mismunandi í fólk.
Fyrrverandi formaður segir stjórnina ekki standa fyrir neitt
Það liggur fyrir að kjósendur Viðreisnar og Bjartrar framtíðar vildu ekki stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Skoðanakannanir sýna það. T.d. kom fram í könnun sem gerð var í febrúar, skömmu eftir að ríkisstjórnin tók við, að tæplega 40 prósent kjósenda Viðreisnar væru ánægðir með samstarfið og einungis 14 prósent kjósenda Bjartrar framtíðar.
En það er heldur ekki ánægja með það hjá öllum Sjálfstæðismönnum. Margir flokksmenn hreinlega þola ekki Viðreisn og þetta stjórnarsamstarf. Benedikt Jóhannesson kom inn á þessa stöðu í viðtali við Kjarnann í júní. Þar sagði hann að það hefði komið honum á óvart hversu mikil tortryggni hefði verið í garð Viðreisnar innan Sjálfstæðisflokksins eftir kosningarnar.
Fremstur í flokki gagnrýnenda fer Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og nú ritstjóri Morgunblaðsins.
Á síðustu vikum hefur hann ritað ritstjórnargreinar þar sem hann hefur gagnrýnt ríkisstjórnina mjög harkalega. Í leiðara sem birtist um síðustu mánaðamót, skrifaði Davíð: „Íslenska ríkisstjórnin hefur setið í hálft ár og þegar misst allt álit þótt hún hafi ekki gert neitt sem öllum almenningi mislíkar. Hún stendur ekki fyrir neitt. Málefnasamningur hennar hrópar það framan í fólk. Þar er ekkert handfast nema helst langur kafli sem virðist undirstrika að nauðsynlegt sé að fjölga innflytjendum. Sú nauðsyn var ekki orðuð í kosningunum.“
Hann endurtók sömu orð að mestu í Reykjavíkurbréfi 4. ágúst. Og bætti svo við: „Einhverjir eru í spyrja sig og aðra, með hliðsjón af fallandi stuðningi, hvort þessi ríkisstjórn sé við það að falla. En það er með öllu óvíst að hún sé fær um það. Ríkisstjórn, sem samkvæmt sameiginlegum sáttmála sínum stendur ekki fyrir neitt, á ekki auðvelt að finna sér mál til að falla á. Meira að segja þegar hún mætir með sín allra vitlausustu mál fyrir þingið mun stjórnarandstaðan taka þeim fagnandi. Ríkisstjórn sem telur að það bendi til þess að hún sé á réttri leið hefur týnt áttavitanum sem hún fékk í fermingargjöf.“
Ein öflugasta andstaðan gegn ríkisstjórn sem stýrt er af Sjálfstæðisflokknum kemur því frá hinu íhaldssama bandamanni Morgunblaðinu um þessar mundir, og fyrrverandi formanni flokksins, sem þar heldur um valdataumanna.
Á lánstíma í pólitík
Innan Bjartrar framtíðar virðist ekki mikill æsingur yfir stöðunni. Flokksstarfið er enda lítið sem ekkert um þessar mundir og þeir sem gagnrýndu flokkinn mest innan frá hafa einfaldlega yfirgefið hann.
Liðsmenn Bjartrar framtíðar þekkja þá stöðu að hverfa nánast í könnunum. Þannig var staða hans nánast allt síðasta kjörtímabil, eða þar til andstaða við gerð búvörusamninga á hárréttum tíma, rétt fyrir kosningar, hleypti flokknum skyndilega aftur á hinn pólitíska matseðil. Það má því segja að Björt framtíð sé á lánstíma í pólitík og ofan á það rötuðu þau í ríkisstjórn. Afstaða þeirra sem eru í forystu flokksins er því sú að sitja út kjörtímabilið og reyna að koma sem mestu í verk í krafti stöðu sinnar. Engin ástæða er fyrir þau að sprengja ríkisstjórn og sérstaklega ekki að boða til kosninga, sem kannanir benda til þess að Björt framtíð myndi ekki lifa af.
Ef erfiðlega gengur að koma á umbótum á kvótakerfinu og atkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna við Evrópusambandið á næstu misserum gæti Óttarr Proppé þó verið minntur á stöðuuppfærslu sem hann setti á Facebook 15. nóvember 2016, þegar slitnaði upp úr fyrstu stjórnarmyndunarviðræðum þeirra flokka sem nú mynda ríkisstjórn. Þá sagði hann að flokkurinn hefði staðið fast á sínum prinsipum og að hann myndi gera það áfram.
Telja Sjálfstæðisflokkinn vera að valda sér erfiðleikum
Viðreisn er hins vegar flokkur sem var búinn til með miklum tilkostnaði. Og ætlaði sér langlífi í íslenskum stjórnmálum sem valkostur fyrir frjálslynda og alþjóðlega sinnaða kjósendur. Í ljósi þess að fyrstu sveitarstjórnarkosningar flokksins eru framundan á næsta ári er ljóst að staða flokksins á landsvísu nú um stundir mun ekki vera gott veganesti inn í þá baráttu.
Jón Steindór sagði í viðbrögðum við einni af skoðanakönnunum sem sýndu afleita stöðu Viðreisnar að flokkurinn þyrfti að skoða stöðu sína. Ljóst væri að sambúðin við Sjálfstæðisflokkinn væri að valda flokknum erfiðleikum. Viðreisn hafi þurft að gera málamiðlanir þegar hann gekk til ríkisstjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn.„Kannski höfum við gengið of langt þar, ég veit það ekki.“
Tveir kostir eru fyrir Viðreisn og Bjarta framtíð ef flokkarnir ákveða að slíta stjórnarsamstarfinu. Annar er að kjósa aftur, sem getur varla verið eftirsóknarvert í ljósi stöðu flokkanna í könnunum. Hinn er að reyna enn og aftur á myndun fimm flokka ríkisstjórn sem innihéldi þá annað hvort Pírata eða Framsóknarflokkinn ásamt Vinstri grænum og Samfylkingu.
Morgunljóst má vera að Sjálfstæðisflokkurinn sprengir að minnsta kosti ekki ríkisstjórnina, þrátt fyrir óánægju harðlínuaflanna í Hádegismóum. Ástæðan er sú að Sjálfstæðisflokkurinn vill vera við völd. Hann hefur haldið á slíkum nær óslitið frá lýðveldisstofnun og mótað íslenskt samfélag. Þau kerfi vill hann verja úr valdastöðu, ekki stjórrnarandstöðu. Og með hverjum öðrum ætti flokkurinn að starfa?
Vinstri græn eru óskakandidat ýmissa íhaldsafla innan flokksins, í ljós þess að þau telja að flokkarnir geti náð saman um að verja sjávarútvegs- og landsbúnaðarkerfin og því að viðhalda gildandi peningamálastefnu.
Megináhersla Vinstri grænna í pólitík nú um stundir er hins vegar stóraukin samneysla. Í ríkisstjórnarmyndunarviðræðum sem flokkurinn tók þátt í í lok síðasta árs kom skýrt fram að hann vildi fara í fjárfestingar í velferð og innviðum sem gætu kostað tugi milljarða króna á ári til viðbótar við það sem rekstur ríkissjóðs kostar í dag. Þær fjárfestingar þyrfti að fjármagna með nýjum sjálfbærum tekjum. Það þýðir að ráðast þyrfti í ýmiss konar skattahækkanir, m.a. álagningu hátekjuskatts, til viðbótar við hækkun á gjöldum sem tekin yrðu vegna nýtingar á auðlindum og nýrra gjalda sem hægt yrði að leggja á ferðaþjónustuna.
Í ljósi þess að sitjandi ríkisstjórn liggur undir stanslausu ámæli fyrir að vinna fyrst og síðast að hagsmunum hinna efnameiri er ljóst að þessi afstaða Vinstri grænna hefur ekki mildast. Hún hefur styrkst ef eitthvað er, og sú staða hefur skilað flokknum auknu fylgi í könnunum.
Líkurnar á því að Sjálfstæðisflokkurinn muni beygja sig undir slíkar skattahækkanir og aukin ríkisumsvif, til að haldast við völd, verða að teljast litlar sem engar.
Framsókn dugar ekki lengur
Einungis einn annar stjórnmálaflokkur sem á fulltrúa á Alþingi sem stendur myndi raunhæft starfa með Sjálfstæðisflokknum, utan þeirra sem nú sitja með honum í ríkisstjórn. Það er Framsóknarflokkurinn. Flokkarnir tveir, sem eru vanir því að stjórna á Íslandi, eru hins vegar ekki með nægjanlegan þingstyrk til að mynda meirihlutastjórn saman.
Og ekki myndi staðan lagast ef boðað yrði til kosninga. Framsókn mælist með rúmlega ellefu prósent fylgi í síðustu könnunum sem er í efri mörkum þess sem flokkurinn hefur mælst með á kjörtímabilinu.
Kerfisvarnarflokkarnir tveir myndu fá 37,9 prósent atkvæða ef kosið yrði í dag. Að minnsta kosti fimm þingmenn myndi vanta upp á til að ná eins manns meirihluta. Það er minna en þeir fengu í síðustu kosningum þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsókn fengu samtals 41,9 prósent atkvæða. Raunar hafa þessir flokkar ekki mælst með sameiginlegan meirihluta í könnunum frá því fyrir kosningarnar 2013, en í þeim fengu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur samanlagt 51,1 prósent atkvæða.
Flokkarnir virðast auk þess vera að fiska mest megnis í sömu tjörnum eftir kjósendum. Þ.e. ef kjósandi Sjálfstæðisflokks ákveður að kjósa annað færir hann sig vanalega yfir til Framsóknar. Og öfugt. Undantekningin frá þessu fyrirkomulagi var í kosningunum 2013, þegar Framsóknarflokkurinn náði að höfða til breiðari hóps með popúlísku loforði um að gefa hluta verðtryggðra húsnæðislántakenda peninga ef þeir kæmu flokknum til valda.
Staðan virðist vera þannig að tími tveggja flokka kerfisvarnarstjórnar þessara tveggja flokka sé liðinn.
Því er líklegt að ríkisstjórnin reyni áfram að halda áfram í sínu margstaðfesta ástlausa hjónabandi á næsta þingvetri. Aðrir möguleikar í stjórnarmynstri eru enn jafn fjarri og þeir voru í lok síðasta árs þegar nánast allar tegundir af ríkisstjórnarsamsetningum voru mátaðar. En samskiptin verða áfram stirð. Og stjórnarandstöðuflokkarnir munu fá nægt hráefni til að vinna úr næsta árið við að reyna að hrinda ríkisstjórn sem hefur minnsta mögulega þingmeirihluta.