Mynd: Birgir Þór

„Meiri tortryggni og reiði innan Sjálfstæðisflokksins en ég átti von á“

Benedikt Jóhannesson hefur verið fjármála- og efnahagsráðherra í fimm mánuði. Hann segir að Bjarni Benediktsson hafi ekki lokað á markaðsleið í sjávarútvegi í stjórnarmyndunarviðræðum, að krónan sé alvarlegasta viðfangsefni ríkisstjórnarinnar og að hann sjái enga möguleika í Brexit fyrir Ísland. Þá segir hann að engir baksamningar hafi verið gerðir í dómaramálinu.

Fyrstu mánuðir nýrrar ríkisstjórnar hafa að mörgu leyti verið stormasamir. Hún er með minnihluta atkvæða á bak við sig, með einungis eins manns meirihluta og mælist með 30 prósent stuðning, sem er fordæmalaust svona skömmu eftir að ný ríkisstjórn tekur við. Þá hefur athygli fjölmiðla, og ekki síður stjórnarandstöðunnar, verið á þeim málum sem ríkisstjórnin er ekki samstíga um og þá sýnilegu bresti sem eru til staðar milli stjórnarliða vegna þeirra mála. Nægir þar að nefna t.d. flugvöllinn í Vatnsmýrinni, aukin virðisaukaskatt á ferðaþjónustu, áherslur í sjávarútvegsmálum og Evrópusambandsmál. Nú síðast kastaðist í kekki vegna tillagna starfshóps á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um aðgerðir gegn skattsvikum, sem fólu meðal annars í sér að banna fimm og tíu þúsund króna seðla. 

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar og fjármála- og efnahagsráðherra, upplifir stöðuna samt sem áður ekki þannig að stjórnarflokkarnir séu ósamstíga né að hans flokkur, Viðreisn, hafi gefið mikið eftir þegar samið var um ríkisstjórnarsamstarf. Samstarfið innan ríkisstjórnarinnar hafi verið mjög gott frá upphafi. „Ég upplifi þetta ekki þannig. Í stjórnarsáttmálanum náðum við fram mjög mörgum af okkar málum. Auðvitað eru þau ekki öll komin fram enn þá og ég veit ekki hvort þau muni öll ná í gegn á endanum. En mörg af þessum málum sem við vorum með á dagskrá komust í gegn og það eru ekki  mál sem ég man eftir að hinir flokkarnir voru að heimta að ná í gegn sem okkur fannst ógeðfelld.“

Benedikt segir að hann hafi ekki haft miklar væntingar til starfs stjórnmálamannsins þegar hann ákvað að hella sér út í stjórnmál. Þ.e. hann hafði ekki gengið með þann draum í maganum síðan að hann var barn að verða ráðherra, en segir að sá hluti starfsins, að vera fjármála- og efnahagsráðherra, sé svipaður og að reka fyrirtæki, sem Benedikt gerði áratugum saman. „Það má segja að þetta sé þríþætt starf sem ég gegni: ég er formaður Viðreisnar, alþingismaður og ráðherra. Mér finnst mjög gaman að vera formaður Viðreisnar og ráðherra. En það er þetta alþingismannastarfið, sá hluti þess sem fer fram í þingsölunum, þar sem menn eru töluvert að setja upp leikrit, það finnst mér svolítið leiðinlegt. Sérstaklega þegar það kemur frá mönnum sem eru almennt vandaðri stjórnmálamenn. En ég þoli það alveg. Og það er mjög gaman að vinna í ákveðnum málum. Ég veit að mörgum finnst hlutirnir gerast hægt, en það tekur stundum tíma að vinna þá almennilega. Það hefur líka komið mér á óvart hvað það er góð samvinna um margt.“

Hann segist ekki hafa hugsað mikið um það hversu lengi hann ætli sér að vera formaður Viðreisnar né hversu lengi hann ætli að ílengjast í stjórnmálum. „Ég var 25 ár í skóla, 30 ár í viðskiptalífinu, og hugsa að ég verði ekki mikið lengur í pólitík.“

Óbilgirni þjappar hópnum saman

Viðreisn varð til í kjölfar þess að hópur Evrópusinna yfirgaf Sjálfstæðisflokkinn. Á meðal þeirra var Benedikt. Það gerðist eftir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar lagði fram þingsályktunartillögu um að draga umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka. Hópurinn taldi forvígismenn Sjálfstæðisflokksins hafa lofað því í aðdraganda þingkosninga árið 2013 að umsóknin yrði ekki dregin til baka nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Þegar á reyndi taldi Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, það vera „pólitískan ómöguleika“ að standa við það loforð.

Viðreisn bauð fram í síðustu kosningum, fékk 10,7 prósent atkvæða og sjö þingmenn. Og eftir langar stjórnarmyndunarviðræður, þar sem reynt var að mynda nær allar tegundir af ríkisstjórnum á grundvelli niðurstöðu kosninganna, varð úr að Viðreisn og Björt framtíð náðu saman við Sjálfstæðisflokk.

Benedikt viðurkennir að það hafi komið honum á óvart hversu mikil tortryggni hefði verið í garð Viðreisnar innan Sjálfstæðisflokksins eftir kosningarnar og segir að hann hafi fundið vel fyrir henni. „Það var meiri tortryggni og reiði innan Sjálfstæðisflokksins en ég átti von á. Sjálfstæðisflokkurinn bætti bæði við sig fylgi í kosningunum og þingmönnum og ég hefði skilið það betur ef þeir hefðu tapað þingmönnum sem hefðu allir farið yfir til Viðreisnar. Það var samt ekki þannig. Menn höfðu varan á sér í samskiptum til að byrja með. Mér finnst það hins vegar hafa snarbatnað. Fólk er auðvitað að kynnast betur. Svo finnst mér þetta líka þannig að eftir því sem árásirnar verða óbilgjarnari á ákveðna aðila þá þjappar það hópnum svolítið saman. Ég tel að síðasta mánuðinn hafi samstarfið innan þingsins verið mun smurðara en það var í upphafi. En menn hafa orðið varir við þessar yfirlýsingar manna innan stjórnarliðsins um hin og þessi mál.“

Telur að höfuðmálin þokist áfram

Áherslur Viðreisnar fyrir síðustu kosningar voru skýrar. Flokkurinn sagðist standa fyrir kerfisbreytingar í sjávarútvegi og landbúnaði, frjálslyndi, breytta peningastefnu og alþjóðasamvinnu sem í fólst meðal annars vilji til að ganga í Evrópusambandið. Ljóst er að þessar áherslur ríma illa við höfuðáherslur Sjálfstæðisflokksins. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður þess flokks og nú áhrifamaður innan Viðreisnar, sagði nýverið í aðsendri grein á Kjarnanum að Sjálfstæðisflokkurinn hefði nánast einungis lagt áherslu á það í stjórnarmyndunarviðræðum að lækka skatta, en annars breyta sem fæstu.

Benedikt er samt sem áður á þeirri skoðun að það þokist í öllum þessum málum og telur Sjálfstæðisflokkinn ekki jafn ósveigjanlegan og margir virðast halda. Hann vonast til að breytingar í t.d. sjávarútvegsmálum náist á þessu kjörtímabili og telur það alls ekki útilokað pólitískt séð. „Í sjávarútvegsmálum er búið að skipa þessa nefnd sem Þorsteinn Pálsson stýrir og hugsunin er að ná sátt um sjávarútveg. Ég hef lagt mikla áherslu á að við reynum að vera með markaðstengingu að einhverju tagi. Í viðræðunum voru Viðreisn og Björt framtíð bæði á þeirri skoðun. Þar kom skýrt fram hjá Bjarna Benediktssyni að hann vildi ekkert loka á þá leið. Hann sagðist ekki sannfærður um markaðsleiðina en vildi skoða hana vel. Ég held að það sé mikilvægt fyrir sjávarútveginn sjálfan að finna leið þar sem næst góð samstaða.“

Hann segist sannfærður um að það verði gerðar breytingar í landbúnaðarmálum. „Ég hef engan rætt við sem er ánægður með landbúnaðarsamninginn eins og hann er núna. Þar get ég nefnt afurðarstöðvarnar, bændur, neytendur. Þar er Þorgerður [Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra] búin að setja fram frumvarp til kynningar um breytta stöðu Mjólkursamsölunnar og að rjúfa einangrunina. Svo er í farvatninu innflutningssamningur við Evrópusambandið sem stóreykur tollkvóta. Því miður hefur hann enn ekki tekið gildi. Ég á líka von á því að Hæstiréttur muni komast að þeirri niðurstöðu von bráðar að leyfilegt verði að flytja inn hrátt kjöt. Ég held að þetta allt saman muni breyta neytendavitundinni. Að við verðum ekki lengur að horfa einhliða bara á framleiðendur heldur á framleiðendur og neytendur í þessum málum.“

Krónan alvarlegasta viðfangsefnið

Þriðja stóra mál Viðreisnar eru hin endalausu átök við gjaldmiðilinn, íslensku krónuna. Utan þess að ganga í Evrópusambandið lagði flokkurinn til að myntráð yrði stofnað og peningastefnunni þar með breytt. Benedikt segir að enginn stjórnmálaflokkur tali nú gegn stöðugra gengi. Viðreisn hafi verið eini flokkurinn sem hafi bent á aðra leið en að skipta um gjaldmiðil til að ná því. Þegar hafi verið skipuð nefnd, undir formennsku Ásgeirs Jónssonar, sem á að leiða vinnu stjórnvalda við end­ur­skoðun á umgjörð pen­inga­mála- og gjald­miðla­stefn­unnar í land­inu. Hún á að skila af sér á þessu ári.

Benedikt segir að hann myndi ekki slá hendinni á móti því að skipta um gjaldmiðil. Alþekkt sé að hann hafi þá skoðun að Íslandi yrði best borgið með því að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Hinn pólitíski raunveruleiki sé þó sá að það er ekki gerlegt sem stendur. „Ég hef talið að myntráð gæti orðið ásættanlegri lausn en sú sem við búum við. Það er ekkert þannig að maður geti sagt að einhver lausn leysi allan okkar vanda. En ef við værum með stöðugra gengi þá væri meiri stöðugleiki í atvinnulífinu.

Benedikt væri mjög til í að taka upp evru og ganga í Evrópusambandið, en hann veit að pólitiskur raunveruleiki gerir það ekki kleift sem stendur.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þegar ég lagði til myntráð þá lagði ég til að festa gengi krónunnar. Að það væri mjög vafasamt að útflutningsatvinnuvegir myndu ráða við lægra verð á evru en 130 krónur. Svo fór það niður í 125 á kjördag, var orðið 118 þegar við loksins tókum við og fyrir skemmstu fór það niður í 110 krónur, þótt krónan hafi aðeins veikst síðan þá. Einhverjir eru að spá því að gengið gagnvart evru geti farið í 100 krónur. Þetta er rosalega alvarlegt mál og þetta er aðalviðfangsefni okkar. Ég hef sagt að eitt af því sem hægt væri að gera væri að lækka vexti. En það er ekki mitt að ákveða heldur peningastefnunefndar Seðlabankans.

Þetta er alvarlegasta málið sem við stöndum frammi fyrir. Ef ekki væri fyrir okkur í Viðreisn þá væri engin vinna í gangi. Það væri enginn að skoða þetta. Við erum búin að vaða í að aflétta höftum. Búin að borga niður helminginn af erlendum skuldum ríkisins til þess að reyna að létta á og færa fjármagn til útlanda. Við höfum verið að þrýsta á lífeyrissjóðina að fjárfesta erlendis. Þetta eru allt aðgerðir gegn styrkingu krónunnar.“

Engin tækifæri í Brexit

Viðreisn varð til, líkt og áður segir, vegna óánægju Evrópusinna innan Sjálfstæðisflokksins. Benedikt felur það ekki að hann myndi óska þess að Ísland væri komið nær því að ganga í sambandið. Það sé hins vegar þannig að þrír flokkar á þing, Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Vinstri græn, séu á móti aðild og saman hafi þessir þrír flokkar meirihluta. „Mér finnst það vega að fullveldisrétti þjóðarinnar að við séum með aukaaðild að ESB sem gerir það að verkum að við verðum að taka upp lagaumhverfið en höfum ekki atkvæðisrétt. En það er mín skoðun. Ef einhverjum líður betur að vera í bandalagi án þess að hafa áhrif, þá verður maður bara að sætta sig við þann pólitíska raunveruleika. En mér þætti meiri reisn í því að við værum fullgildir aðilar.

Á Alþingi er stór hluti þeirrar löggjafar sem við tökum upp Evrópulöggjöf og mér sýnist það, nú þegar við fylgjumst með þessu miklu nánar en áður, að þetta sé hin skynsamlegasta löggjöf. Og sé yfirleitt hagstæð neytendum og umhverfinu og innihalda mörg þeirra gilda sem eru okkur flestum eðlislæg.“

Aðrar breytur flæki líka málin í dag, sérstaklega áform Breta um að ganga úr Evrópusambandinu, hið svokallaða Brexit. Bretland er mikilvægasta útflutningsríki Íslands og því gífurlegir hagsmunir í húfi fyrir Ísland að þeir hagsmunir verði ekki fyrir skaða í úrsagnarferlinu. Bæði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Lilja Alfreðsdóttir, sem sat á þeim ráðherrastóli á undan honum, hafa sagt opinberlega að þau sjái tækifæri fyrir Ísland í Brexit.

Benedikt er þeim algjörlega ósammála. „Ég sé svo sannarlega ekki tækifæri í Brexit. Sú aðgerð er ekkert nema andstæð okkur. Okkar samskipti við Bretland núna viðskiptalega eru þannig að við erum með allt sem að við þurfum. Við erum með samskonar viðskiptaumhverfi, tollaumhverfi sem er afar jákvætt og það eru engar hömlur á flutningi milli landanna. Það eru engin tækifæri í Brexit fyrir Ísland. En það skiptir máli fyrir okkur hvernig Bretar lenda þessu máli. Ef þeir gengu í EES þá væru þeir með allt það sem þeir telja vera ókosti. Myndu þurfa að taka upp allt lagaumhverfið og það yrði frjáls flutningur fólks sem Brexit-niðurstaðan vill ekki.“

Viðreisn hefur ekki riðið feitum hesti frá fylgiskönnunum undanfarna mánuði, sérstaklega eftir að flokkurinn settist í ríkisstjórn. Nú mælist fylgið svo lítið að ef kosið yrði í dag væri Viðreisn á mörkum þess að ná inn manni. Fram undan eru sveitastjórnarkosningar á næsta ári og lengi hefur legið fyrir að Viðreisn ætlaði sér árangur á þeim vettvangi líka. Benedikt staðfestir að til standi að bjóða fram í flestum stærri sveitarfélögum. „Ég reikna með því að víðast hvar verði það í okkar nafni. En ég veit ekki alveg hverjir verða í framboði fyrir Viðreisn. Ég les mest um það í blöðunum. Stundum verða þó slíkir samkvæmisleikir spádómar sem uppfylla sig sjálfa.“

Mikilvægt fyrir þjóðarsálina að vita hver á banka

Í mars var tilkynnt um að þrír vogunarsjóðir og fjárfestingabankinn Goldman Sachs hefðu keypt stóran hlut í Arion banka, og ættu kauprétt á viðbótarhlut sem myndu gera hópinn að meirihlutaeiganda í bankanum. Kaupin hafa verið gagnrýnd harðlega fyrir ógagnsæi þar sem ekki liggur fyrir hverjir séu endanlegir eigendur þeirra sjóða sem eru að kaupa kerfislega mikilvægan viðskiptabanka á Íslandi. Benedikt fagnaði kaupunum opinberlega þegar tilkynnt var um þau en hefur síðan lagt áherslu á að eignarhaldið verði skýrt.

Ég ætla mér ekki að halda neinum leyniupplýsingum um eignarhaldið og hef engar upplýsingar aðrar en þær sem eru opinberar. Ég held að það skipti miklu máli að þetta verði upplýst, ef menn ætla að verða leiðandi eigendur í einum af stærstu bönkunum á Íslandi, hverjir standi á bak við. Ég er ekkert þar með að gefa í skyn að þarna séu einhverjir „lundar“ þarna, að einhver sé að skýla sér bak við „lundagrímuna“. Það skiptir hins vegar máli að við fáum fullvissu um að svo sé ekki.

Eftir því sem menn best vita þá eru þetta raunverulegir erlendir aðilar. En við skulum ekki gleyma því að það var líka sagt varðandi Hauck & Aufhäuser, þegar sá banki keypti i Búnaðarbankanum. Það var skoðað bæði af Fjármálaeftirlitinu og Ríkisendurskoðun. Þar vorum við blekkt. Ég held að það skipti því mjög mikilvægt fyrir heilbrigt viðskiptalíf og þjóðarsálina að þetta liggi fyrir.“

Fjármála- og efnahagsráðherra segir að það sé mikilvægt fyrir þjóðarsálina að endanlegt eignarhald á bönkum liggi fyrir.
mynd: Birgir Þór Harðarson

Það eru ekki bara væntanlegir eigendur Arion banka sem eru faldir á bak við sjóði. Fjölmargir sjóðir í stýringu íslenskra sjóðstýringafyrirtækja eru stórir eigendur í skráðum íslenskum hlutafélögum. Benedikt segist vera þeirrar skoðunar að það eigi að vera hægt að rekja hverjir raunverulegir eigendur hlutdeildarskírteina þeirra sjóða séu líka. „Ég hef sagt það í ræðu á Alþingi og sagði það áður en ég var kosinn á þing og sú skoðun mín hefur ekkert breyst. Ég held að engar skoðanir mínar hafi breyst eftir að ég kom á þing.“

Vill ekki tjá sig um stöðu dómsmálaráðherra

Á lokadögum síðasta þings kom upp mál sem setti samfélagið á hliðina, skipan 15 dómara í Landsrétt. Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra vék frá tillögu hæfisnefndar sem hafði komist að þeirri niðurstöðu að nákvæmlega 15 af þeim 33 sem sóttu um hefðu verið hæfastir í stöðurnar 15. Hún mat 24 hæfa, fjarlægði fjóra af upprunalega listanum og setti aðra fjóra inn, sem höfðu ekki verið taldir hæfastir af hæfisnefnd. Málið tók yfir síðustu daga þingsins og skipan dómara var á endanum afgreidd í bullandi ágreiningi eftir flokkslínum. Tveir þeirra sem hæfisnefnd vildi skipa, en hlutu ekki náð fyrir augum dómsmálaráðherra, hafa höfðað mál gegn ríkinu og vilja að ákvörðuninni verði hnekkt.

Aðspurður um hvort honum þyki málið hafa verið nægilega vel unnið segir Benedikt mikilvægt að taka fram að Viðreisn hafi lagt áherslu á að þegar verið væri að skipa nýjan dómstól þá ættu kynjahlutföll að vera sem jöfnust. Þau hafi ekki verið það samkvæmt upprunalegu mati nefndarinnar en voru orðin það þegar ráðherra lagði fram sína tillögu. „Ég held að þetta mat upprunalegu nefndarinnar hafi örugglega ekki verið yfir gagnrýni hafið frekar en nokkurt annað mat af þessu tagi. Þau hefðu getað gert ráðherranum lífið auðveldara ef þau hefðu sagt: Það eru þessi 20, sem eru hæfust. Svo komast þau að því að einhver sé hæfari en annar með Excel-útreikningum upp á mun um þrjá þúsundustu. Það hafa margir ásakað mig um að búa í Excel-skjali. og Excel hentar ágætlega í suma hluti. Ríkisfjármál til dæmis og fjárlög. En ég er ekki vissu um að það sé besta tækið þegar verið er að meta hæfi dómara.“

En lögin eru eins og þau eru óháð því hvað þér finnst um þau. Finnst þér málið hafa verið nægjanlega vel unnið og að ráðherrann hafi rökstutt sinar breytingar nægjanlega vel?

„Mér fannst hann vera með málefnaleg rök. Það má hins vegar alveg segja það að þetta kom mjög seint inn.  Það var engum að kenna. Þetta vannst svona. Ég er ekki viss um að það sé heppilegt að gera þetta með þessum hætti. Ég sá engan þingmann fagna því að fá að takast á við dómaramálið. En við verðum hins vegar að gera það. Ég get alveg sagt það að það voru engir baksamningar eða nokkurt slíkt í þessu. Við sögðum í febrúar að við myndum ekki sætta okkur við tíu karla og fimm konur. Það væri andstætt okkur grundvallarsjónarmiðum. Og það stendur enn.“

Aðspurður um hvort Sigríði verði stætt sem dómsmálaráðherra ef þau mál sem höfðuð hafa verið tapist er svar fjármála- og efnahagsráðherra: „Ég ætla ekki að tjá mig um það.“

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiViðtal