Tvíhöfði í hlaðvarpi Kjarnans
Nú eru Tvíhöfðaþættirnir sem birtust í Hlaðvarpi Kjarnans veturinn 2014 og 2015 aðgengilegir á ný á vefnum. Kjarnanum hafa borist fjölmargar áskoranir um að þættirnir birtist á ný.
Tvíhöfðaþættirnir sem birtust í Hlaðvarpi Kjarnans veturinn 2014 og 2015 eru nú aðgengilegir á ný hér á vefnum. Kjarnanum hafa borist gríðarlega margar áskoranir um að þættirnir birtist á ný. Hér að neðan má hlusta á alla þættina sem birtust í hlaðvarpi Kjarnans. Meðal þeirra dagskrárliða sem Tvíhöfði endurvakti var til dæmis smásálin þar sem púlsinn var tekinn þjóðfélaginu.
Þeir Sigurjón Kjartansson og Jón Gnarr gerðu 16 þætti í Hlaðvarpi Kjarnans veturinn 2014 og 2015 sem nutu gríðarlegra vinsælda. Tvíhöfði er fyrir löngu orðinn goðsagnakenndur útvarpsþáttur en þeir Sigurjón og Jón hófu samstarf sitt í útvarpi árið 1994 en höfðu þá „verið með eitthvað sprell í gangi síðan þeir hittust fyrst“ um átta árum áður. Í framhaldi af því urðu þeir báðir partur af Fóstbræðraþáttunum sem sýndir voru á Stöð 2 frá 1997.
Tvíhöfði skóp íslenskan nútímahúmor með ómældum hætti í bæði útvarpi og sjónvarpi. Ásamt því að hafa verið með vikulegan útvarpsþátt í mörg ár gaf Tvíhöfði út hljómplötur með sketsum, gerði innslög í sjónvarpsþætti og teiknimyndaseríu undir nafninu TVíhöfði. Gamalt grín þeirra félaga nýtur enn mikilla vinsælda á internetinu. Klassíska brandara á borð við andsetnu eiginkonuna og Suðu-Sigfús hafa allir heyrt og geta hlustað á aftur.
Hægt er að hlusta á alla þættina hér að neðan. Einnig er hægt að hlusta á alla þættina í röð á Soundcloud.