Viljið þið að upplýsingafulltrúar og spunameistarar segi ykkur fréttir?

Auglýsing

Það að upp­lýsa þýðir að afla eða miðla vit­neskju um eitt­hvað ákveð­ið. Þegar um er að ræða upp­lýs­ingar um til dæmis verk stjórn­valda, sem sam­an­sett eru úr stjórn­mála­mönnum sem hafa mik­inn hag af því hvernig upp­lýs­ing­arnar eru fram­sett­ar, þá skiptir miklu máli hvaða við­mið eru höfð til hlið­sjón­ar. Sama er að segja um þær upp­lýs­ingar sem settar eru fram úr atvinnu­líf­inu. Í báðum til­vikum eru ekki hags­munir almenn­ings af því að fá sem sann­asta mynd af því sem er að ger­ast í fyr­ir­rúmi, heldur það sem kemur stjórn­mála­mönn­unum eða við­kom­andi fyr­ir­tæki best. 

Til­gangur upp­lýs­inga­full­trúa og spuna­meist­ara er ekk­ert endi­lega að segja að segja satt og rétt frá, heldur að gleðja yfir­menn sína. Það blasir enda við að ef sú vinna sem miðl­un­ar­hóp­ur­inn, sem er bæði sýni­legur og starfar á bak­við tjöld­in, setur fram er í and­stöðu við hags­muni yfir­boð­ara þeirra þá verður hann ekki lang­vinnur í starf­i. 

Meðal ann­ars vegna þessa liggur ljóst fyrir að lýð­ræði í frjálsu og opnu sam­fé­lagi þrífst ekki án sjálf­stæðra fjöl­miðla sem vinna eftir því hátimbraða hlut­verki að segja satt, upp­lýsa almenn­ing og veita vald­höfum og öðrum fyr­ir­ferða­miklum leik­endur á sam­fé­lags­svið­inu aðhald. Til þess að ná því mark­miði þurfa fjöl­miðlar að vinna eftir grunn­gildum blaða­mennsku, vera fjöl­breyttir og í eigu ólíkra aðila. Þannig veita þeir hvorum öðrum líka aðhald þegar þörf er á. Ef einn fjöl­mið­ill fer að haga sér meira eins og upp­lýs­inga­full­trúi eða spuna­meist­ari geta hinir bent á það og almenn­ingur stendur þá frammi fyrir upp­lýstri ákvörðun um það hvort hann treysti hinum afvega­leidda leng­ur.

Umbreyt­ingin

Staða fjöl­miðla hefur veikst gríð­ar­lega und­an­farin rúman ára­tug. Það er alþjóð­leg þró­un, ekki sér­ís­lensk. Heilt yfir er ástæðan tækni- og upp­lýs­inga­bylt­ing. Henni hafa fylgt kostir fyrir fjöl­miðla, til dæmis nýjar, skil­virk­ari og ódýr­ari dreifi­leiðir í staf­rænum heim­i. 

En van­kant­arnir eru miklu fleiri. Þeirra hel­stir eru að til­urð sam­fé­lags­miðla sem tekju­sæk­inna fyr­ir­tækja hefur eyði­lagt hefð­bundin tekju­módel fjöl­miðla og gert það að verkum að hægt er með lít­illi fyr­ir­höfn en miklum árangri að koma á fram­færi bjög­uðum eða röngum upp­lýs­ingum til að skapa umræðum eða afleið­ingar sem eiga sér ekki stað­reynda­mið­aðan til­veru­rétt í raun­heim­um. Ef þvæla er end­ur­tekin nægi­lega oft þá öðl­ast hún sjálf­stætt líf sem val­kvæð stað­reynd. 

Auglýsing
Síðustu ár hafa búið til allskyns sér­fræð­inga í þessum sam­fé­lags­miðla­leik. Þeir eiga það allir sam­eig­in­legt að hafa sann­leik­ann ekki að leið­ar­ljósi. 

Hlið­ar­af­urð af þess­ari þróun eru svo fyr­ir­bæri sem kalla sig fjöl­miðla en eru fyrst og síð­ast smellu­beitur og skað­ræði sem til að mynda býr til efni úr minn­ing­ar­greinum fólks sem á um sárt að binda í leit að auk­inni net­um­ferð. 

Ákvörðun um að veikja fjöl­miðla kerf­is­bundið

Ef við horfum ein­ungis á Ísland þá liggur fyrir að stjórn­völd hér, sem hafa teygt sig frá villtasta vinstri og í arg­asta íhald á þessu tíma­bili, hafa ekki gert neitt til að takast á við þessa stöðu. Ekki ein ákvörðun hefur verið tekin til að laga rekstr­ar­um­hverfi fjöl­miðla lands­ins þrátt fyrir að sýnd­ar­ferli þess efnis hafi staðið yfir árum sam­an. 

Við blasir að það þurfi að gera marg­hátt­aðar breyt­ing­ar. Það þarf að taka á skatt­frjálsri tekju­sókn sam­fé­lags­miðl­arisa eins og Ástr­a­lar eru nú að gera með mik­illi prýði. Það þarf að breyta umfangi rík­is­mið­ils­ins á aug­lýs­inga­mark­aði til að búa til aukið súr­efni, aðal­lega fyrir stærstu fjöl­miðla­hús lands­ins. Það þarf að setja upp styrkja­kerfi til að styðja við litla og með­al­stóra fjöl­miðla út um allt land til að tryggja fjöl­breytta flóru svo allt fjöl­miðla­lands­lagið geti sinnt sínu mik­il­væga lýð­ræð­is­lega hlut­verki. Það þarf að afnema sam­keppn­is­bjögun sem fellst meðal ann­ars í því að hið opin­bera nið­ur­greiðir urðun prent­miðla og þar með starf­semi hluta fjöl­miðla. 

Fag­leg hnignun

Afleið­ingar þess að gera ekk­ert í að bæta rekstr­ar­um­hverfi fjöl­miðla eru aðal­lega tví­þætt­ar. Í fyrsta lagi tap­ast mikil fag­mennska úr grein­inni. Frá­bært fag­fólk flýr í önnur betri launuð störf sem fylgja minni áreiti. Það ákveð­ur, eðli­lega, að brenna frekar út í frí­tíma sínum með vinum og fjöl­skyldu en í vinnu sem stjórn­mála­menn virð­ast telja að eigi, sé hún unnin rétt, að mestu að vera unnin af hug­sjón. Hin afleið­ingin er sú að fólk sem hefur áhuga á að ná tökum á umræð­unni í sam­fé­lag­inu býðst til að borga fyrir millj­arða króna tap­rekstur fjöl­miðla í skiptum fyrir að þeir reyni sitt besta til að tryggja þau tök.

Við sáum dæmi um báðar þessar afleið­ingar í vik­unni þegar Frétta­blaðið birti for­síðu­frétt um að Ragnar Þór Ing­ólfs­son, for­maður VR – og maður sem allir helstu skríbent­ar, stjórn­endur og eig­endur blaðs­ins leggja opin­bera fæð á – væri veiði­þjófur þrátt fyrir að hann neit­aði allri aðkomu að mál­inu. Í frétt blaðs­ins stóð: „Hópur þriggja manna stóð að neta­lögn­inni og hefur Frétta­blaðið eftir áreið­an­legum heim­ildum að Ragnar Þór hafi verið á meðal þeirra. Óheim­ilt er að leggja net í ána.“ 

Með fylgdi mynd af for­manni VR, sem nú stendur í for­manns­slag í félag­inu gegn fram­bjóð­anda sem er stig­veldi Frétta­blaðs­ins mun þókn­an­legri. 

Alveg sama þótt frétt sé ósönn

Dag­inn eftir var birt stað­fest­ing lög­reglu að Ragnar væri hvorki grun­aður í mál­inu né hefði stöðu vitn­is. Þrátt fyrir það hefur Frétta­blaðið ekki dregið frétt­ina til baka né birt leið­rétt­ingu. Þess í stað birti blaðið í gær­morgun yfir­lýs­ingu frá Ragn­ari og festi við athuga­semd Jóns Þór­is­son­ar, rit­stjóra Frétta­blaðs­ins. Í henni seg­ir: „Frétt blaðs­ins sem um ræðir er byggð á frá­sögnum tveggja manna sem voru á vett­vangi. Þrátt fyrir ítrek­aðar fyr­ir­spurnir til lög­reglu við vinnslu frétt­ar­innar varð­andi hugs­an­lega aðild Ragn­ars Þórs Ing­ólfs­sonar að meintu veiði­broti feng­ust ekki upp­lýs­ingar um það atriði. Í sam­tali við Frétta­blaðið sagð­ist Ragnar Þór hvergi hafa komið nærri ólög­legri neta­lögn og var því skil­merki­lega haldið til haga í frétt­inn­i.“

Ef þetta er þýtt á manna­mál þá er rit­stjóri Frétta­blaðs­ins að segja að það sé for­svar­an­legt að segja frétt um for­mann stétt­ar­fé­lags, þar sem hann er ásak­aður um lög­brot, eftir tveimur ónafn­greindum heim­ild­ar­mönnum þrátt fyrir að hann neiti fyrir alla aðkomu að mál­inu. Hann er líka að segja að það sé for­svar­an­legt að halda þeim frétta­flutn­ingi til streitu, og draga frétt­ina ekki til baka, þótt fyrir liggi stað­fest­ing frá lög­reglu að Ragnar Þór sé hvorki „skráður sem sak­born­ingur né vitni í tengslum við þetta mál.“

Til­gang­ur­inn helgar með­alið

Frétta­blað­inu, í því ástandi sem það er í dag, er alveg sama þótt það hafi sagt ósatt um mann á for­síðu sinni. Til­gang­ur­inn, að koma höggi á þennan mann sem er illa lið­inn af eig­anda og stjórn­endum blaðs­ins, helgar með­al­ið. 

Þetta er svokölluð alslemma afleið­inga þess ástands sem við höfum skapað fjöl­miðl­um. Öll fag­leg við­mið eru horf­in, allur vilji til að segja almenn­ingi satt er settur til hliðar og blaðið orðið tær leiksoppur í valda­brölti hags­muna­að­ila innan stigs­veldis þess. 

Morg­un­blaðið hefur auð­vitað verið á þessum stað árum sam­an, eða frá því að sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki keyptu útgáf­una 2009 með yfir­lýst mark­mið um það sem eig­endur þeirra vildu ná fram. Um það allt saman má lesa hér

Slag­kraftur þess hefur þó dvínað veru­lega, enda er nú svo komið að ein­ungis tíu pró­sent full­orð­inna lands­manna undir fimm­tugu lesa Morg­un­blað­ið, þrátt fyrir að því hafi að hluta verið breytt í frí­blað.

Veikja fjöl­miðla en styrkja hags­muna­gæslu

Sam­hliða hinni kerf­is­bundnu veik­ingu fjöl­miðlaum­hverf­is­ins hefur valda­fólk eflt veru­lega alla aðra upp­lýs­inga­miðl­un, oft á tíðum með skatt­fé. Varla er til stofnun eða fyr­ir­tæki í land­inu sem heldur ekki út hlað­varpi. Flest þeirra birta reglu­lega eitt­hvað sem þau kalla fréttir en eru efni sem eiga ekk­ert skylt við fréttir fjöl­miðla, enda fyrst og síð­ast efni til að kynna starf­semi eða mála ákvörðun í ljósum lit­u­m. 

Auglýsing
Kjarn­inn greindi frá því í frétta­skýr­ingu í vik­unni að kostn­aður við upp­lýs­inga­full­trúa ráðu­neyta og und­ir­stofn­ana þeirra hafi verið að minnsta kosti 386 millj­ónir króna í fyrra. Árlegur kostn­aður við þá hefur auk­ist um 84 millj­ónir króna á þessu kjör­tíma­bili, eða 29 pró­sent. Til við­bótar kosta aðstoð­ar­menn ráð­herra og rík­is­stjórn­ar, sem hafa meðal ann­ars það hlut­verk að spinna aðstæður fyrir þá, um 250 millj­ónir króna á ári. Reykja­vík­ur­borg, næst stærsta stjórn­vald lands­ins, er svo með tíu stöðu­gildi í upp­lýs­inga­miðl­un, sem kosta vel yfir eitt hund­rað millj­ónir króna á ári. Eitt þeirra er nýráð­inn teym­is­stjóri sem hefur það hlut­verk að fara „með fag­­­­lega for­ystu varð­andi fram­­­­sækni og fram­­­­þróun í upp­­­­lýs­inga­­­­gjöf, vökt­un, miðlun og sam­­­­skiptum borg­­­­ar­innar við starfs­­­­fólk, íbúa, fjöl­miðla og gesti borg­­­­ar­inn­­ar.“

Það hefur hins vegar verið rif­ist um það á þingi, enn án nið­ur­stöðu, nú árum saman hvort til­hlýði­legt sé að greiða 400 millj­ónir króna í rekstr­ar­styrki til á þriðja tug fjöl­miðla árlega. Sumir sem hæst hafa látið í and­stöðu hafa borið fyrir sig að það yrði ógn við lýð­ræðið ef einka­reknir fjöl­miðlar yrðu styrkt­ir. Sem er auð­vitað hlægi­legt þegar allt ofan­greint er talið saman og þegar horft er til ann­arra Norð­ur­landa, þar sem rekstr­ar­styrkir hafa tíðkast ára­tugum sam­an. Þau sitja nefni­lega á toppnum á listum sem teknir eru saman um fjöl­miðla­frelsi í heim­in­um. Í fyrra sat Ísland í 15. sæti á slíkum lista. 

Stjórn­mála­flokkar og fyr­ir­tæki segja fréttir

Stjórn­mála­flokkar hafa líka verið dug­legir að skammta sjálfum sér aukið rekstr­arfé á þessu kjör­tíma­bili, sem þeir hafa meðal ann­ars getað nýtt til að ráða fleira fólk til að hafa áhrif á umræðu og fram­leiða hlað­vörp eða net­þætti þar sem starfs­menn­irnir spyrja yfir­menn sína um hvað það sé helst sem geri þá að yfir­burð­ar­fólki. Á þessu kjör­tíma­bili munu stjórn­mála­flokk­arnir átta sem eiga sæti á Alþingi fá sam­tals rúm­lega 2,8 millj­arða króna til að reka sig. Ef fram­lagið hefði hald­ist eins og það átti að vera fyrir breyt­ing­una þá hefðu flokk­arnir átta skipt með sér rúm­lega 1,1 millj­arði króna á kjör­tíma­bil­inu. Ákvörðun þeirra um að hækka fram­lag til sín skil­aði því 1,7 millj­arði króna umfram það sem áður stóð til í rekstur þeirra á yfir­stand­andi kjör­tíma­bili. Árleg hækkun á fram­lagi, miðað við áætlun 2021 og því sem átti að vera 2018, er um 155 pró­sent. 

Það eru því til nægir pen­ingar í rík­is­sjóði til að hjálpa fram­kvæmda­vald­inu að upp­lýsa, til að hjálpa rík­is­stofn­unum að rétt­læta sig og til að fjár­magna kosn­inga­bar­áttu stjórn­mála­flokka. 

Þá er ótalið að stór­fyr­ir­tækið Sam­herji, sem á yfir 100 millj­arða króna í eigið fé og er meðal ann­ars til rann­sóknar vegna gruns um að hafa greitt mút­ur, þvættað pen­inga og svikið undan skatti, hefur rekið sína eigin „frétta­stofu“ und­an­farin ár. Í gegnum hana hefur fyr­ir­tækið stundað stríðsekstur gegn nafn­greindu fólki og gagn­rýnum fjöl­miðlum í þeim til­gangi að gaslýsa almenn­ing. Í þess­ari veg­ferð hafa helstu stjórn­endur fyr­ir­tæk­is­ins, og mála­lið­arnir sem þeir hafa keypt í skít­verk­in, sýnt að þeir eru til­búnir að ganga mjög langt til að hafa æruna og lífs­við­­ur­værið af þeim sem þeir telja að ógni sér. 

Viljið þið frjálsa fjöl­miðla?

Við lifum í drauma­heimi lobbý­ista og spuna­meist­ara. Það er draumur þeirra að geta verið að mestu óhindrað í hlut­verki sögu­manns­ins í sam­fé­lag­inu. Þess sem ræður því hvernig atburðir eru túlk­aðir í sam­­tíma og hvernig sagan geymir þá. Ef sterkir frjáls­ir, fjöl­breyttir og sjálf­­stæðir fjöl­mið­l­­ar, í ólíku eign­­ar­haldi með sterkar og fyr­ir­­sjá­an­­legar rekstr­­ar­­for­­send­­ur, eru ekki til staðar þá fá slíkir aðilar það hlut­verk end­an­­lega. Við erum ekki komin á þann stað, en stefnan er sann­ar­lega þangað að óbreyttu.

Að­gerðir hins opin­bera á ögur­stundu fjöl­miðla benda allar til þess að ofan­greind lýs­ing sé það sem stjórn­völd vilja. Kerf­is­bundið hefur rekstr­ar­um­hverfi einka­rek­inna fjöl­miðla verið veikt svo að aðstæður skap­ist fyrir fjár­sterka aðila til að kaupa þá og vinna hags­munum sínum frek­ari fram­gang. Sam­hliða hefur geta þeirra valda­stofn­ana sem fjöl­miðl­arnir eiga að veita aðhald til að reka sína eigin upp­lýs­inga­þjón­ustu verið styrkt veru­lega, með miklum opin­berum til­kostn­aði. Stjórn­mála­flokk­arnir sem fjöl­miðl­arnir eiga að veita aðhald hafa líka stór­aukið getu sína til upp­lýs­inga­miðl­unar og spuna, með enn meiri opin­berum til­kostn­aði. Og stór­fyr­ir­tæki í umfangs­mik­illi rann­sókn sem veit vart aura sinna tal hefur gert frétta­til­bún­ing og per­són­u­árásir gegn blaða­mönnum að sýni­leg­asta hluta starf­semi sinn­ar.

Sama fólk og tók ákvarð­an­irnar sem leiddu af sér ofan­greinda stöðu heldur því fram að það megi ekki grípa til hóf­legra aðgerða til að laga rekstr­ar­um­hverfi fjöl­miðla vegna þess að þá muni fjöl­miðlar skirr­ast við að bíta í hend­ina sem fóðrar þá. 

Í þess­ari afstöðu felst þó aug­ljós hugs­un­ar­villa. Stjórn­mála­menn eiga ekki rík­is­sjóð, almenn­ingur á hann. Frjálsir fjöl­miðlar eiga að vinna fyrir almenn­ing og þurfa að standa skulda­skil gagn­vart hon­um. Á þessu ætti allt hugs­andi fólk að átta sig.

En fyrst og síð­ast þurfa stjórn­mála­menn spyrja sig: Skipta fjöl­miðlar máli? Ef svarið er já þá þurfa þeirra að gera eitt­hvað stór­tækt, hratt. 

Hingað til hefur svar­ið, miðað við verk þeirra þvert á flokka, hins vegar verið nei.

Því er sem er.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiLeiðari