Stríðsrekstur fyrirtækis gegn nafngreindu fólki og gagnrýnum fjölmiðlum

Auglýsing

Til er hugtak sem á ensku kallast corporate terrorism. Á íslensku mætti það útleggjast sem hryðjuverkastarfsemi fyrirtækja. Í henni felast meðal annars að fyrirtæki brjóti lög til að hagnast, dreifi misvísandi áróðri og hræðsluáróðri, beiti stjórnmálamenn þrýstingi eða greiði þeim mútur til að fá sínu fram.

Til er annað hugtak sem á ensku kallast corporate warfare, stríðsrekstur fyrirtækis. Í honum felast árásir á einstaklinga, stofnanir eða samkeppnisaðila sem fyrirtækið telur standa í vegi sínum.

Á Íslandi sjáum við eitt stærsta fyrirtæki landsins, í eigu örfárra einstaklinga, sem hefur hagnast um hundruð milljarða króna á nýtingu náttúruauðlinda í eigu þjóðarinnar, ítrekað stunda ofangreint. 

Það fyrirtæki heitir Samherji.

Engin efnisleg niðurstaða

Eftir bankahrunið voru sett fjármagnshöft á Íslandi. Samhliða var sérstakt gjaldeyriseftirlit búið til innan Seðlabanka Íslands og því falið að hafa eftirlit með höftunum. Á meðal þeirra fyrirtækja sem voru rannsökuð var Samherji.

Rann­sókn Seðla­banka Íslands á Sam­herja, sem hófst árið 2012, kom til vegna þess að bank­inn taldi Sam­herja hafa brotið gegn gjald­eyr­is­lögum meðal annars með því að skila ekki hingað til lands hagn­aði og sköttum sem urðu til alþjóð­lega þar sem að yfir­stjórn allra erlendra félaga í Sam­herj­a­sam­stæð­unni væri hér á Íslandi. Sam­herji neit­aði þessu ætið og sagði erlendu félögin ekki lúta íslenskri yfir­stjórn.

Málið var á kært til sérstaks saksóknara en þá hafi komið í ljós að ekki væri laga­stoð fyrir því að kæra fyr­ir­tæki í saka­máli fyrir gjald­eyr­is­brot. Undirskrift ráðherra hafði vantað á reglugerð um gjald­eyr­is­mál sem gefin var út í des­em­ber 2008 sem gerði þetta að verkum. Samherjamálið var á endanum fellt niður á þessum grundvelli. Dómstólar tóku það aldrei til efnislegrar meðferðar eða skáru úr um hvort Samherji hefði gert það sem Seðlabankinn taldi að fyrirtækið hefði gert.

Már vill að öll gögn málsins séu birt

Í bréfi sem Már Guð­munds­son, þáverandi seðla­banka­stjóri, sendi Katrínu Jak­obs­dóttur for­sæt­is­ráð­herra 29. jan­úar 2019, vegna málsins sagði meðal annars að „ýmis helstu gögn máls­ins sem skipta máli varð­andi þá spurn­ingu eru ekki opin­ber, eins og t.d. end­ur­send­ing­ar­bréf sér­staks sak­sókn­ara. Þá gæti það a.m.k. af sumum verið túlkað sem verið væri að halda því fram að Sam­herji væri sekur hvað sem nið­ur­stöðum dómstóla líð­ur. Það hefur reyndar þegar verið gert af hálfu tals­manna Sam­herja þegar ég eftir að dóm­ur­inn féll tjáði mig í fjöl­miðlum til að útskýra mun­inn á þeirri spurn­ingu hvort Sam­herji sé sekur og þeirri hvort aðgerðir Seðla­bank­ans hafi verið til­hæfu­laus­ar. Fari Sam­herji hins vegar í skaða­bóta­mál verður ekki undan þess­ari umræðu vik­ist og að a.m.k. ein­hver máls­skjöl yrðu lögð fyrir dóm­inn og yrðu í þeim skiln­ingi opin­ber. Ég hefði reyndar ekk­ert á móti því að öll gögn máls­ins yrðu gerð opin­ber.“

Auglýsing
Fréttastofa RÚV óskaði eftir því að fá greinagerðir Seðlabankans og Samherja í skaðabótamálinu afhentar á grundvelli upplýsingalaga. Lögmaður Samherja lagðist alfarið gegn því að greinargerðirnar yrðu afhentar, og þar með að efnisinnihald málsins yrði opinberað. Það er sami lögmaður og var einn þriggja viðmælenda í áróðursmyndbandi sem Samherji birti á Youtube-rás sinni í dag. Þar er hann kynntur sem fyrrverandi varaskattrannsóknarstjóri en ekki minnst á að hann sé lögmaður Samherja. Sem hann hefur verið í áraraðir.

Í Seðlabankamálinu einbeitti Samherji sér að því að herja á einstaklinga sem störfuðu innan Seðlabankans. Þar er fyrst og síðast um að ræða Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, sem var ráðin forstöðumaður gjaldeyriseftirlitsins árið 2009, þá 29 ára gömul, og Má Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóra. 

Í herferðinni gagnvart þessu nafngreinda fólki hefur meðal annars verið gefin út bók, „Gjald­eyr­is­eft­ir­litið – vald án eft­ir­lits“ eftir sagn­fræð­ing­inn Björn Jón Braga­son sem kom út fyrir jólin 2016. Samherji keypti heilt upplag af og gaf starfsmönnum sínum í jólagjöf. Á forsíðu hennar er mynd meðal annars af Ingibjörgu og Má. Sú bók málar þetta fólk upp sem forhert sem svífist einskis til að ná sér niðri á harðduglegum og samviskusömum Samherjamönnum.

Börðust fyrir því sem þau töldu að væri rétt

Í lok nóvember í fyrra steig Svein Harald Øygard, sem var seðlabankastjóri á Íslandi um nokkurra mánaða skeið á árinu 2009, fram og skrifaði stöðuuppfærslu á Facebook um að Samherji hefði reynt að þagga niður í ætluðum andstæðingum fyrirtækisins eftir að Seðlabanki Íslands hóf rannsókn á fyrirtækinu á sínum tíma.

Øygard sagði að spurn­ingar um Kýp­ur-­starf­semi Sam­herja, sem nú er til skoð­unar vegna upp­ljóstr­unar Kveiks og Stund­ar­innar á meintum mútu­greiðsl­um, pen­inga­þvætti og skatta­snið­göngu Sam­herj­a-­sam­stæð­unnar vegna veiða í Namib­íu, hefði fyrst vaknað fyrir ára­tug síð­an. Þegar rannsókn hófst hefði Sam­herji byrjað „að elta Seðla­bank­ann. Sumir myndu segja að áreita hann“.

Øygard sagði að Sam­herji hefði meðal annars beðið banka­ráð Seðla­banka Íslands um að grípa til aðgerða gegn stjórn­endum bank­ans. Það hafi banka­ráðið gert, þar sem Sam­herji væri tengdur sterk­ustu póli­tísku öflum á Íslandi. Meira að segja núver­andi for­sæt­is­ráð­herra Íslands, Katrín Jak­obs­dótt­ir, hefði tengst mál­inu með þeim afleið­ingum að nú er fyrr­ver­andi starfs­maður bank­ans, Ingibjörg Guðbjartsdóttir, til rann­sóknar lög­reglu vegna ætl­­aðs upp­­lýs­inga­­leka frá Seðla­­banka Íslands til RÚV.

Í færslu seðlabankastjórans fyrrverandi sagði: „Hand­fylli fólks í Seðla­bank­an­um, þau sem eru á for­síðu bók­ar­inn­ar, leyfði sér ekki að að lúta stýr­ingu. Þau stóðu upp og börð­ust fyrir því sem þau töldu að væri rétt.“

Kostaðir sjónvarpsþættir og ógnandi tilburðir

Árið 2017 voru svo birtir þættirnir „Gjaldeyriseftirlitið“ á sjónvarpsstöðinni Hringbraut. Þeir fjölluðu meðal annars um Samherjamálið og í þeim var birt leynileg upptaka af samtali Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, og Más Guðmundssonar sem Már vissi ekki að væri að eiga sér stað. Samherji kostaði þá þáttargerð að mestu leyti.

Fjölmiðlanefnd tók þættina, og ýmislegt annað sem Hringbraut tók sér fyrir hendur, til umfjöllunar og sektaði sjónvarpsstöðina um alls tvær milljónir króna. Í ákvörðun hennar sagði meðal annars: „Umfjöllun í þátt­un­um Gjald­eyris­eft­ir­litið ein­kenn­ist að stærst­um hluta af ein­hliða gagn­rýni á rann­sókn og fram­kvæmd gjald­eyris­eft­ir­lits Seðlabanka Íslands, án þess að sjón­ar­mið full­trúa bank­ans komi fram.“

Blint hatur Samherjamanna á starfsmönnum Seðlabankans tók á sig sína tærustu birtingarmynd annars vegar þegar forstjóri fyrirtækisins krafðist þess að stjórnmálamenn myndu láta seðlabankastjóra, og aðra lykilstarfsmenn, víkja og hins vegar þegar sonur hans ógnaði Má Guðmundssyni og hreytti í hann orðum eftir fund í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í fyrravor. Bræðin hreinlega ólgaði.

Fókusinn færist á fréttamann

Í lok október 2019 beindi Þorsteinn Már athygli sinni annað en að Seðlabankanum. Hann var búinn að finna nýjan sökudólg í Seðlabankamálinu, fréttamanninn Helga Seljan. Það gerðist fyrst 27. októ­ber 2019 í fréttum Stöðvar 2 þar sem Þorsteinn Már bar þungar sakir á RÚV og Helga, nokkrum vikum eftir að nýr seðlabankastjóri hafði greint honum símleiðis frá því að tölvupóstsamskipti hefðu átt sér stað milli Helga og starfsmanns Seðlabankans í aðdraganda húsleitarinnar 2012.

Tveimur dögum áður hafði honum borist skrifleg beiðni um viðtal frá fréttaskýringaþættinum Kveiki þar sem honum var greint frá því í smáatriðum að hann og Samherji væru til umfjöllunar í þætti um meintar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu í tengslum við starfsemi fyrirtækisins í Namibíu.

Í fréttum Stöðvar 2 þetta kvöld sagði Þor­steinn Már: „Helgi Seljan sagði það 20. jan­úar [2012] austur á fjörðum að hann ætl­aði að taka mig. Ég fékk hring­ingu um það 22. jan­úar að hann hafi sagst ætla að taka mig fyrir fisk­verð. Þannig að Helgi Seljan og RÚV eru ger­endur í þessu ásamt Seðla­bank­anum og má segja þaul­skipu­lögð árás á Sam­herja og starfs­fólk Sam­herj­a.“ 

Þetta er sama ásökun og viðskiptafélagi Þorsteins Más, kynntur sem fyrrverandi starfsmaður Síldarvinnslunnar (í næstum helmings eigu Samherja), setur fram í þætti fyrirtækisins sem birtur var á Youtube-rás þess í dag. 

Þetta var í fyrsta sinn sem Þor­steinn Már ásakaði Helga Seljan og RÚV opin­ber­lega um að vera ger­endur í mál­inu. 

Ástæðan birtist svo landsmönnum 12. nóvember 2019 þegar ítar­leg umfjöllun um meintar mútu­greiðslur, peningaþvætti og skatta­snið­göngu Samherja í tengslum við starfsemi fyrirtækisins í Namibíu var sýnd. Samhliða voru öll gögn málsins gerð opinber af Wikileaks, þannig að hver sem er getur skoðað frumgögnin.

Áróðursdeild mönnuð

Opin­ber­un Kveiks, Stund­­ar­innar, Al Jazeera og Wikileaks var vönd­uð, ítar­leg og studd marg­háttuð gögn­um, til við­bótar við játn­ingu lyk­il­stjórn­anda Sam­herja í Afr­íku á þátt­töku í lög­brotum á borð við millj­arða mútu­greiðsl­ur, skatt­svik og pen­inga­þvætt­i. 

Verið er að rannsaka hana í að minnsta kosti þremur löndum, þar á meðal hérlendis þar sem nokkrir einstaklingar eru með stöðu grunaðs manns

Stjórnendur og eigendur Samherja, með botnlausa sjóði sem myndast hafa vegna nýtingar á þjóðarauðlind, hafa rekið harðan áróður gegn nafngreindu fólki og fjölmiðlum vegna þessa máls, alveg eins og í Seðlabankamálinu. Fyrirtækið réð meðal annars til sín reynslumikinn fjölmiðlamann til að hjálpa til við að ráðast gegn fyrrverandi kollegum hans með undirróðursstarfsemi. Fyrirtækið var þá þegar með á fóðrum rannsakanda sem stundar það að taka leynilega upp samtöl við fréttamenn eftir að hafa boðað þá á fundi á fölskum forsendum, til að klippa saman eftir hentugleika í samræmi við æskilega frásögn, sex árum síðar. Þess á milli villir hann á sér heimildir eða áreitir meinta óvini fyrirtækisins, stafrænt og í raunheimum.  

Auglýsing
Þessi hópur hefur rekið hræðilega illa framkvæmda áróðursherferð sem á líklega að reyna að rétta hlut Samherja. Síðasta útspilið í henni eru sérstaklega framleiddir þættir þar sem bornar eru ásakanir á hendur Helga Seljan, meðal annars um að hafa falsað skýrslu sem í sama þætti er haldið fram að sé ekki til. 

Umrætt gagn var reyndar sýnt í upphaflegri umfjöllun RÚV og því sannarlega til. Það staðfesti meðal annars fyrrverandi nefndarmaður í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, sem segir við Stundina í dag að hann hafi fengið sömu gögn í hendurnar og meira að segja skrifað tímaritsgrein upp úr þeim. Þættirnir eru settir í búning dramatískrar fréttaskýringar, þar sem rætt er við þrjá einstaklinga, sem allir eru starfsmenn Samherja eða viðskiptafélaga eigenda fyrirtækisins, án þess að það sé sérstaklega tilgreint. Enginn ábyrgðarmaður er titlaður fyrir verkinu. Enginn leikstjóri eða framleiðandi. Þó liggur fyrir að einhver af holdi og blóði hefur t.d. keypt efni af safnadeild RÚV til að nota við framleiðsluna, tekið þættina upp og klippt þá saman.

Að öðru leyti er um frekar dapurt efni að ræða. Það trúir því enda varla nokkur með sæmilega meðvitund að hrein rætni og illska drífi margverðlaunaða rannsóknarblaðamenn áfram, frekar en metnaður til að upplýsa almenning og segja satt og rétt frá. Samherji ætti eiginlega að krefja þessa spunameistara sína um endurgreiðslu á útlögðum kostnaði, þar sem illa hannaðar árásir þeirra vinna fyrirtækinu mun meira skaða en gagn. Árásir sem alþjóðlegt stórfyrirtæki í sjávarútvegi með tugmilljarða króna veltu á ári birtir á heimasíðu sinni. Þeirri sömu og notuð er í daglegum viðskiptum þess.

Tilgangurinn er einungis sá að reyna að vega að æru fréttamanns og fjölmiðils sem dirfðust að opinbera Samherja. Og hræða aðra frá því að fjalla um fyrirtækið eða eigendur þess. Undirliggjandi skilaboðin eru: „Þið gætuð verið næst, sleppið þessu bara“. 

Fjölmiðlar sem standa í lappirnar og þeir sem gera það ekki

Ekkert af þessu tekst enda auðvelt fyrir viðföngin að svara þunnt smurðum ávirðingum. Það hafa þau þegar gert vel. Margir fjölmiðlamenn á Íslandi eru orðnir vanir svona aðförum, eftir að hafa staðið í þeim eftir bankahrunið þegar ríkir menn á sakamannabekk stóðu í áralöngu stríði um almenningsálitið. 

Flestir hrista það af sér þegar tuddinn beitir ofbeldinu. Það er samt sem áður ógnvænlegt hversu langt þessir milljarðamæringar, og málaliðar þeirra, eru tilbúnir að ganga til að hafa æruna og lífsviðurværið af þeim sem þeir telja að ógni sér. Venjulegu fólki sem á ekki tugi milljarða króna til að nota í ógnartilburði.

Mestu vonbrigðin eru þó með fjölmiðla sem gera það ekki. Fréttablaðið, mest lesna dagblað landsins, gerði sig sekt um að taka blindandi þátt í áróðursherferð Samherja í morgun. Á forsíðu þess voru settar fram alvarlegar einhliða ásakanir á hendur kollega, algjörlega á forsendum Samherja. Samskipti blaðamanns Fréttablaðsins við Helga Seljan, sem hann hefur birt á samfélagsmiðlum, sýna að hann reyndi ekki einu sinni að bera efnisatriði umfjöllunarinnar undir hann, þrátt fyrir að hann hafi augljóslega vitað um hvað „þáttur“ Samherja snerist. Á þessu ber ritstjóri blaðsins ábyrgð. Og stjórn útgáfufélagsins ber ábyrgð á honum.

Það að Fréttablaðið geri sig sekt um svona þátttöku í áróðursstríði Samherja er áfall fyrir stétt blaðamanna, og stöðu íslenskrar fjölmiðlunar.

En líklega er þetta óumflýjanleg afleiðing þess þegar stjórnmálamenn velja að skapa hér fjölmiðlaumhverfi sem lætur auðmenn borga taprekstur stærstu fjölmiðla landsins árum saman, með tilheyrandi bjögun á samkeppnisumhverfi, atgervisflótta úr geiranum og brotthvarfi faglegra gilda af þeim ritstjórnum.

Þá verða hinir einfaldlega að standa enn fastar í lappirnar. Og munu gera það.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari