Þegar fólki sem á umframgæði, eða fer með völd, finnst stöðu sinni ógnað þá grípur það oft til þess að ásaka aðra um öfund. Jafnvel andstyggð á duglegu fólki sem eigi skilið að njóta afraksturs síns brauðstrits á grunni sinna verðleika. Þá birtist hinn svokallaði sundurlyndisfjandi, en í honum á að felast að óduglegt, jafnvel illa gefið, fólk sem sem hefur ekki unnið sér inn umframgæði kvartar yfir því að kökunni sé misskipt.
Ýmislegt sem opinberað hefur verið undanfarið hefur leitt af sér að þessi gaslýsing um öfundina og sundurlyndisfjandann hefur skotið upp kollinum á ný. Að sjálft vandamálið sé ekki vandamálið heldur þeir sem bendi á, og tali um, vandamálið.
Þar má fyrst nefna gögn um hvernig tekjur og eignir landsmanna skiptast á milli hópa. Gögnunum var dreift á Alþingi síðdegis á föstudegi, á tíma sem oft er kallaður Bermúdaþríhyrningur upplýsinga. Það er gert í þeirri von að komandi helgi, með fámenni starfandi á boðlegum fjölmiðlum, dugi til að draga mesta broddinn úr áhrifum þess sem verið er að setja út.
Þar kom líka fram að það eitt prósent landsmanna sem átti mest eigið fé átti 995 milljarða króna í lok síðasta árs og jók slíkt um 93,5 milljarða króna í fyrra. Það þýðir að um 16 prósent alls nýs eigin fjár sem varð til í fyrra var aflað af þessum hóp. Ríkasta 0,1 prósent landsmanna átti 325 milljarða króna og jók sitt eigið fé um 32,2 milljarða króna á árinu 2021, sem þýðir að þær öfluðu tæplega sex prósent alls nýs eigin fjár sem var varð til á Íslandi í fyrra.
Áður hafði verið greint frá því að alls 54,4 prósent af þeim nýja auð sem varð til í fyrra hafi lent hjá ríkustu tíund landsmanna. Það er langt umfram meðaltal áratugarins á undan, sem var 43,5 prósent. Ofan á þetta allt liggur ljóst fyrir að eigið fé hópsins er verulega vanmetið. Verðbréf eru til að mynda metin á nafnvirði í þessum tölum, ekki á því verði sem hægt er að selja þau á. Sem er margfalt hærra en nafnvirðið.
Tilfærsla á fjármunum til ríkustu hópa samfélagsins
Allir sem geta lesið sér til gagns sjá að þetta er afleiðing margháttaðra efnahagsaðgerða stjórnvalda og Seðlabanka Íslands á árunum 2020 og 2021 sem leiddu til þess að hlutabréfa- og fasteignamarkaðir hækkuðu mikið. Aðgerðirnar fólu meðal annars í sér margháttaðar styrktargreiðslur til fyrirtækja og veitingu á vaxtalausum lánum í formi frestaðra skattgreiðslna. Þá afnam Seðlabanki Íslands hinn svokallaða sveiflujöfnunarauka sem jók útlánagetu banka landsins um mörg hundruð milljarða króna og stýrivextir voru lækkaðir niður í 0,75 prósent. Þeir höfðu aldrei verið lægri.
Þeir sem áttu fleiri en eina fasteign eða hlutabréf, sem að uppistöðu er efsta lagið í tekju- og eignastiganum á Íslandi, juku eigið fé sitt mest við þessar aðstæður. Tilfærsla varð á fjármunum til fjármagnseigenda.
Samandregið blasir við að misskipting í íslensku samfélagi jókst á árinu 2021. Það er einfaldlega töluleg staðreynd. Þegar hún er svo mátuð við það fákeppnis-, einokunar- og pilsfaldarkapítalista umhverfi sem ræður ríkjum í íslensku kerfunum er ekki skrýtið að að sá hópur sem berst um mylsnunnar í 9,3 prósent verðbólgu og rýrnandi kaupmætti finni til í réttlætistauginni.
Hætt við aukna gjaldtöku
Samhliða er verið að úthluta fjármunum úr opinberum sjóðum, og ákveða hverjir eigi að borga hvað til samneyslunnar. Ýmis dæmi úr fjárlagavinnunni eru ekki til að draga úr óréttlætistilfinningunni.
Tökum nokkur nýleg dæmi. Til stóð að hækka gjaldtöku á sjókvíaeldi í haust. Sú hækkun átti að skila 450 milljónum króna í viðbótartekjur í ríkissjóð á næsta ári og allt að 800 milljónum króna á ári þegar hún væri að fullu komin til framkvæmda.
Raunar átti einfaldlega að færa gjaldtökuna í það horf sem hún átti alltaf að vera, áður en atvinnuveganefnd ákvað að breyta henni án útskýringar milli umræðna þegar gjaldið var fyrst sett á árið 2019.
Nú hefur verið fallið frá þessari hækkun. Ástæðan: hagsmunagæslusamtök sjávarútvegsins voru óánægð með að umbjóðendur þeirra þyrftu að greiða hærri skatta og fóru fram á að það yrði dregið til baka. Það var einfaldlega gert.
Bréf mágkonu sem bað um 100 milljónir
Á sama tíma var fjárlaganefnd að klára breytingartillögur á fjárlögum milli umræða. Þar vakti ein breytingin ansi mikla athygli. Meirihluti nefndarinnar hafði ákveðið að veita 100 milljóna króna framlag „vegna reksturs fjölmiðla á landsbyggðinni sem framleiða eigið efni fyrir sjónvarpsstöð.“ Ekkert lá fyrir í umsögnum um fjárlagafrumvarpið að óskað hefði verið eftir þessu framlagi.
Kjarninn greindi svo frá því í vikunni að framlagið væri viðbragð við beiðni N4, fjölmiðils á Akureyri sem er meðal annars í eigu KEA, Kaupfélags Skagfirðingar og Síldarvinnslunnar (þar sem Samherji er stærsti eigandinn) um að ríkissjóður gefi sér 100 milljónir króna. N4 er ekki fréttamiðill með ritstjóra né fréttamenn, heldur selur umfjallanir á forsendum þeirra sem borga. Þegar þannig er í pottinn búið er ekki um fréttamennsku að ræða, heldur upplýsingamiðlun.
Eftirleikurinn nánast verri en verknaðurinn
Eftir að fréttamiðlar sem sitjandi ríkisstjórn hefur gert sitt allra besta til að svelta til þrots á líftíma sínum opinberuðu málið var fjárveitingin dregin til baka og peningarnir þess í stað settir inn í styrkjakerfi fyrir einkarekna fjölmiðla. Það var gert eftir að fjárlaganefndar meirihlutinn var húðskammaður af ráðherrum á bakvið luktar dyr, ekki vegna þess að þau sáu að sér. Enn fremur kom í ljós að beiðni N4 hafði verið send eftir að formaður þingflokks Framsóknarflokksins hafði hvatt framkvæmdastjórann til að senda hana í nefndina sem mágur hennar situr í.
Eftiráskýringar nefndarmanna, sem opinberuðu sig fullkomlega sem ábyrgðarlausa fyrirgreiðslupólitíkusa af gamla skólanum með enga virðingu fyrir meðferð opinberra fjármuna en ríka tilhneigingu til kjördæmapots, hafa verið vandræðalegar, og gert málið enn verra.
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, margreyndur blaðamaður, orðaði þetta ágætlega í færslu á Facebook þegar hún sagði að það sem særi mest í þessu dæmalausa máli sé ekki spillingin heldur heimskan. „Það er hægt að varpa ljósi á spillingu og stundum uppræta hana en það er erfiðara að uppræta hreina og klára heimsku. Það sem stendur eftir í orðagjálfri stjórnmálamanna um lýðræðislegt mikilvægi fjölmiðla og varnir gegn upplýsingaóreiðu er hundrað milljóna króna styrkur til sjónvarpsþátta félags sem selur þá hæstbjóðanda hverju sinni og framleiðir ekkert fréttaefni. Það er gert til að bregðast við betlibréfi frá mágkonu fjárlaganefndarmanns úr Framsóknarflokknum. Þetta er viðhorfið til fjölmiðla í hnotskurn.“
Eyða samkeppni til að koma á einokun
Höldum okkur í skagfirskri hagsmunagæslu. Enn eitt málið sem skotið hefur upp kollinum felur í sér að matvælaráðherra ætlar að leggja fram frumvarp sem heimilar sláturleyfishöfum að eiga ólögmætt samráð. Þetta er klætt í þann búning að eiga að hjálpa bændum vegna afleiðinga stríðsins í Úkraínu. En í raun er verið að koma á einokun örfárra stórfyrirtækja í slátrun og frumvinnslu afurða.
Samkeppniseftirlitið slátraði málinu í ítarlegri umsögn og sagði meðal annars að engin ákvæði væru í frumvarpsdrögunum sem verji „bændur, aðra viðskiptavini eða neytendur gagnvart sterkri stöðu afurðastöðva. Þannig er afurðastöðvum mögulegt að eyða samkeppni án þess að bændur geti spornað við því og engin opinber stýring eða eftirlit er til staðar til að verja hagsmuni bænda, annarra viðskiptavina afurðastöðva og neytenda.“
Neytendasamtökin kölluðu frumvarpsdrögin aðför að neytendum.
Það fyrirtæki sem hagnast mest á þeirri einokun sem verið er að koma á er fáveldið í Skagafirði, Kaupfélag Skagfirðinga, stórfyrirtæki sem hagnaðist um 18,3 milljarða króna á síðustu fjórum árum, þar af 5,4 milljarða króna í fyrra. Fyrirtæki sem, líkt og Félag atvinnurekenda benti á í umsögn, er orðið svo fjáð að það á í vandræðum með að koma peningunum sínum vinnu innanlands eftir að hafa byggt upp stórveldi í sjávarútvegi og landbúnaði, og er nú farið að kaupa upp skyndibitakeðjur á höfuðborgarsvæðinu. Milli þess sem kaupfélagið sturtar fjármunum í rekstur Morgunblaðsins.
Verði umrætt frumvarp lagt fram er sennilegt að það fari til vinnslu í atvinnuveganefnd. Formaður hennar er áðurnefndur Stefán Vagn, frá Sauðárkróki í Skagafirði, en faðir hans var stjórnarformaður Kaupfélags Skagfirðinga um árabil.
Vísvitandi tilraunir til að blekkja almenning
Það má alveg telja ýmislegt annað til þegar verið er að hringa þær vandræðalegu kerfislægu og óheiðarlegu meinsemdir sem eru á þessu strokuspillta íslenska kerfi. Til dæmis tilraun ríkisstjórnarinnar til að klæða tveggja milljarða króna hækkun á barnabótum á tveggja ára tímabili í fimm milljarða króna búning með því að telja með fjármuni sem þegar var heimild fyrir á fjárlögum, en voru búnir að skerðast í burtu vegna nýgerðra kjarasamninga. Um er að ræða framsetningu sem hefur þann eina tilgang að blekkja almenning til að halda að ráðamenn séu að gera annað og meira en þeir eru raunverulega að gera.
Óorði komið á góða framkvæmd
Meira að segja góðu verkefnin eru útfærð illa. Eins og auknir styrkir til rannsóknar og þróunar. Þeir eru frábær vegferð enda afar nauðsynlegt að styðja við framgang hugvits og uppbyggingu hugvitsfyrirtækja til að skapa nýja stoð undir efnahagslífið, fjölbreyttara atvinnulíf og stuðla að meiri framleiðni.
Áætlaðir styrkir til nýsköpunarfyrirtækja hafa farið úr 1,3 milljarði króna í 13,8 milljarða króna á átta árum. Skatturinn hefur hins vegar lýst því yfir að fyrirtæki séu sennilega að svindla á styrkjakerfinu til að fá styrki. Það er gert með því að fyrirtæki telji fram almennan rekstrarkostnað sem rannsóknar- eða þróunarkostnað og fái hann svo endurgreiddan á grundvelli þess að sérfræðigeta Skattsins til að meta styrkjabeiðnir er engin.
Þetta er litla skítuga leyndarmálið varðandi þessa styrki og mikið er pískrað um ýmis fyrirtæki sem hvorki rannsaka né þróa nokkuð, en fá styrki sem slagi upp í hagnaðinn sem þau greiða út i vasa eigendanna á ári.
Afleiðing þessa er tvíþætt neikvæð. Annars vegar er auðvitað verið að seilast í skattfé á fölskum forsendum og hins vegar er verið að koma óorði á frábært framtak sem getur í réttri framkvæmd skilað gríðarlegum samfélagslegum ávinningi.
Ekkert hefur verið gert til að mæta áhyggjum Skattsins.
Réttsýni er ekki öfund
Það að gagnrýna þá kerfisbundnu misskiptingu, fyrirgreiðslupólitík, frændhygli, strokuspillingu og gegndarlausan pilsfaldarkapítalisma sem viðurgengst á Íslandi á baki vandræðalegs samkurls stjórnmála og atvinnulífs er ekki einhverskonar niðurrif. Það byggir ekki á öfund né er merki um einhvern sundurlyndisfjanda sem með fýlu er að eyðileggja góða veislu.
Það byggir á því að þótt Ísland sé frábært land, með mikil tækifæri, þá er hér margt gert sem er svo fjarri því að vera í lagi. Þeir sem hafa völdin, og njóta þessara kerfa og hefða, reyna eðlilega að verja tilvist þeirra með öllum mögulegum ráðum.
Við hin, sem gjöldum þeirra, reynum áfram sem áður að benda á nekt konungsins og koma honum í föt.
Það er fyrst og síðast frekar fámennur hópur fólks sem virðist heltekinn af peningum sem beitir fyrir sér þessum röksemdarfærslum. Sem telur magn fjármuna sem hægt sé að sanka að sér vera einu mælistikuna á eftirsóknarverð lífsgæði og árangur. Og eyðir ótrúlegum kröftum í að verja þessa sjóði sína fyrir ágangi óduglega, takmarkaða og öfundsjúka fólksins. Oft með einhverskonar frelsisrökum.
Allt byggir þetta á kenningunni um verðleika sem séu áunnir á grundvelli jafnra tækifæra. Um er að ræða mikla möntru þeirra sem aðhyllast einstaklingshyggju og hafa ríka þörf fyrir að skilgreina sig sem betri en aðrir, oft án þess að nokkur innistæða sé fyrir því. Fyrir vikið þurfa þeir að treysta á fyrirgreiðslu úr bjöguðum kerfum til að viðhalda stöðu sinni.
Þótt flestir átti sig á að peningar séu stór hluti lífsins þá eru ekki allir helteknir af þeim né láta þá ekki skilgreina sig. Þess vegna er það ekki öfund sem veldur því að heiðarlegu fólki brennur það þegar svindl, spilling, valdníðsla eða óskammfeilin fyrirgreiðsla tækifæra, upplýsinga eða fjármuna úr opinberum sjóðum veldur því að staða sumra ýkist á kostnað annarra.
Það er réttsýni.