Öfundin, sundurlyndisfjandinn og vandræðalega strokuspillingin

Auglýsing

Þegar fólki sem á umfram­gæði, eða fer með völd, finnst stöðu sinni ógnað þá grípur það oft til þess að ásaka aðra um öfund. Jafn­vel and­styggð á dug­legu fólki sem eigi skilið að njóta afrakst­urs síns brauð­strits á grunni sinna verð­leika. Þá birt­ist hinn svo­kall­aði sund­ur­lynd­is­fjandi, en í honum á að fel­ast að ódug­legt, jafn­vel illa gef­ið, fólk sem sem hefur ekki unnið sér inn umfram­gæði kvartar yfir því að kök­unni sé mis­skipt. 

Ýmis­legt sem opin­berað hefur verið und­an­farið hefur leitt af sér að þessi gas­lýs­ing um öfund­ina og sund­ur­lynd­is­fjand­ann hefur skotið upp koll­inum á ný. Að sjálft vanda­málið sé ekki vanda­málið heldur þeir sem bendi á, og tali um, vanda­mál­ið. 

Þar má fyrst nefna gögn um hvernig tekjur og eignir lands­manna skipt­ast á milli hópa. Gögn­unum var dreift á Alþingi síð­degis á föstu­degi, á tíma sem oft er kall­aður Bermúda­þrí­hyrn­ingur upp­lýs­inga. Það er gert í þeirri von að kom­andi helgi, með fámenni starf­andi á boð­legum fjöl­miðl­um, dugi til að draga mesta brodd­inn úr áhrifum þess sem verið er að setja út. 

Auglýsing
Í gögn­unum kom meðal ann­ars fram að þær 244 fjöl­skyldur – það 0,1 pró­sent sem þén­aði mest á síð­asta ári –  þén­uðu alls 36 millj­arða króna í fjár­magnstekjur á árinu 2021. Það voru 20 pró­sent af öllum slíkum tekjum sem urðu til á því ári. Hóp­ur­inn þén­aði 4,2 pró­sent af öllum tekjum sem urðu til í land­inu, en það hlut­fall hefur ekki verið hærra síðan á hátindi banka­góð­ær­is­ins, árinu 2007. 

Þar kom líka fram að það eitt pró­­sent lands­­manna sem átti mest eigið fé átti 995 millj­­arða króna í lok síð­­asta árs og jók slíkt um 93,5 millj­­arða króna í fyrra. Það þýðir að um 16 pró­­sent alls nýs eigin fjár sem varð til í fyrra var aflað af þessum hóp. Rík­­asta 0,1 pró­­sent lands­­manna átti 325 millj­­arða króna og jók sitt eigið fé um 32,2 millj­­arða króna á árinu 2021, sem þýðir að þær öfl­­uðu tæp­­lega sex ­pró­­sent alls nýs eigin fjár sem var varð til á Íslandi í fyrra.

Áður hafði verið greint frá því að alls 54,4 pró­­sent af þeim nýja auð sem varð til í fyrra hafi lent hjá rík­­­ustu tíund lands­­manna. Það er langt umfram með­al­tal ára­tug­ar­ins á und­an, sem var 43,5 pró­sent. Ofan á þetta allt liggur ljóst fyrir að eigið fé hóps­ins er veru­lega van­met­ið. Verð­bréf eru til að mynda metin á nafn­virði í þessum töl­um, ekki á því verði sem hægt er að selja þau á. Sem er marg­falt hærra en nafn­virð­ið. 

Til­færsla á fjár­munum til rík­ustu hópa sam­fé­lags­ins

Allir sem geta lesið sér til gagns sjá að þetta er afleið­ing marg­hátt­aðra efna­hags­að­­gerða stjórn­valda og Seðla­banka Íslands á árunum 2020 og 2021 sem leiddu til þess að hluta­bréfa- og fast­­eigna­­mark­aðir hækk­­uðu mik­ið. Aðgerð­­irnar fólu meðal ann­­ars í sér marg­hátt­aðar styrkt­­­ar­greiðslur til fyr­ir­tækja og veit­ingu á vaxta­­­lausum lánum í formi frestaðra skatt­greiðslna. Þá afnam Seðla­­­banki Íslands hinn svo­­­kall­aða sveiflu­­­jöfn­un­­­ar­auka sem jók útlána­­­getu banka lands­ins um mörg hund­ruð millj­­­arða króna og stýri­vextir voru lækk­­­aðir niður í 0,75 pró­­­sent. Þeir höfðu aldrei verið lægri.

Þeir sem áttu fleiri en eina fast­eign eða hluta­bréf, sem að uppi­stöðu er efsta lagið í tekju- og eigna­stig­anum á Ísland­i,  juku eigið fé sitt mest við þessar aðstæð­ur. Til­færsla varð á fjár­munum til fjár­magns­eig­enda. 

Sam­an­dregið blasir við að mis­skipt­ing í íslensku sam­fé­lagi jókst á árinu 2021. Það er ein­fald­lega tölu­leg stað­reynd. Þegar hún er svo mátuð við það fákeppn­is-, ein­ok­un­ar- og pils­fald­ar­kap­ít­alista umhverfi sem ræður ríkjum í íslensku kerf­unum er ekki skrýtið að að sá hópur sem berst um mylsn­unnar í 9,3 pró­sent verð­bólgu og rýrn­andi kaup­mætti finni til í rétt­lætistaug­inn­i. 

Hætt við aukna gjald­töku

Sam­hliða er verið að úthluta fjár­munum úr opin­berum sjóð­um, og ákveða hverjir eigi að borga hvað til sam­neysl­unn­ar. Ýmis dæmi úr fjár­laga­vinn­unni eru ekki til að draga úr órétt­læt­is­til­finn­ing­unn­i. 

Tökum nokkur nýleg dæmi. Til stóð að hækka gjald­töku á sjó­kvía­eldi í haust. Sú hækkun átti að skila 450 millj­ónum króna í við­bót­ar­tekjur í rík­is­sjóð á næsta ári og allt að 800 millj­ónum króna á ári þegar hún væri að fullu komin til fram­kvæmda.  

Raunar átti ein­fald­lega að færa gjald­tök­una í það horf sem hún átti alltaf að vera, áður en atvinnu­vega­nefnd ákvað að breyta henni án útskýr­ingar milli umræðna þegar gjaldið var fyrst sett á árið 2019. 

Nú hefur verið fallið frá þess­ari hækkun. Ástæð­an: hags­muna­gæslu­sam­tök sjáv­ar­út­vegs­ins voru óánægð með að umbjóð­endur þeirra þyrftu að greiða hærri skatta og fóru fram á að það yrði dregið til baka. Það var ein­fald­lega gert. 

Bréf mág­konu sem bað um 100 millj­ónir

Á sama tíma var fjár­laga­nefnd að klára breyt­ing­ar­til­lögur á fjár­lögum milli umræða. Þar vakti ein breyt­ingin ansi mikla athygli. Meiri­hluti nefnd­ar­innar hafði ákveðið að veita 100 millj­óna króna fram­lag „vegna rekst­­urs fjöl­miðla á lands­­byggð­inni sem fram­­leiða eigið efni fyrir sjón­­varps­­stöð.“ Ekk­ert lá fyrir í umsögnum um fjár­laga­frum­varpið að óskað hefði verið eftir þessu fram­lagi.

Kjarn­inn greindi svo frá því í vik­unni að fram­lagið væri við­bragð við beiðni N4, fjöl­mið­ils á Akur­eyri sem er meðal ann­ars í eigu KEA, Kaup­fé­lags Skag­firð­ingar og Síld­ar­vinnsl­unnar (þar sem Sam­herji er stærsti eig­and­inn) um að rík­is­sjóður gefi sér 100 millj­ónir króna. N4 er ekki frétta­mið­ill með rit­stjóra né frétta­menn, heldur selur umfjall­anir á for­sendum þeirra sem borga. Þegar þannig er í pott­inn búið er ekki um frétta­mennsku að ræða, heldur upp­lýs­inga­miðl­un. 

Auglýsing
Í beiðn­inni, sem var ekki gerð opin­ber, voru færð fjór­þætt rök fyrir því að N4 ætti að fá þessa pen­inga úr sam­eig­in­legum sjóð­um. Rökin vísa að uppi­stöðu í vill­andi eða rangar upp­lýs­ing­ar. Samt var þessi sér­kenni­legi styrkur afgreiddur af meiri­hluta fjár­laga­nefnd­ar, sem nefnd­ar­menn stjórn­ar­flokk­anna skipa. Á meðal þeirra sem það gerðu var Stefán Vagn Stef­áns­son, þing­maður Fram­sókn­ar­flokks, og bróðir eig­in­manns fram­kvæmda­stjóra N4, sem sendi beiðn­ina á fjár­laga­nefnd. 

Eft­ir­leik­ur­inn nán­ast verri en verkn­að­ur­inn

Eftir að frétta­miðlar sem sitj­andi rík­is­stjórn hefur gert sitt allra besta til að svelta til þrots á líf­tíma sínum opin­ber­uðu málið var fjár­veit­ingin dregin til baka og pen­ing­arnir þess í stað settir inn í styrkja­kerfi fyrir einka­rekna fjöl­miðla. Það var gert eftir að fjár­laga­nefndar meiri­hlut­inn var húð­skammaður af ráð­herrum á bak­við luktar dyr, ekki vegna þess að þau sáu að sér. Enn fremur kom í ljós að beiðni N4 hafði verið send eftir að for­maður þing­flokks Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði hvatt fram­kvæmda­stjór­ann til að senda hana í nefnd­ina sem mágur hennar situr í. 

Eft­irá­skýr­ingar nefnd­ar­manna, sem opin­ber­uðu sig full­kom­lega sem ábyrgð­ar­lausa fyr­ir­greiðslupóli­tíkusa af gamla skól­anum með enga virð­ingu fyrir með­ferð opin­berra fjár­muna en ríka til­hneig­ingu til kjör­dæma­pots, hafa verið vand­ræða­leg­ar, og gert málið enn verra. 

Þóra Kristín Ásgeirs­dótt­ir, marg­reyndur blaða­mað­ur, orð­aði þetta ágæt­lega í færslu á Face­book þegar hún sagði að það sem særi mest í þessu dæma­lausa máli sé ekki spill­ingin heldur heimsk­an. „Það er hægt að varpa ljósi á spill­ingu og stundum upp­ræta hana en það er erf­ið­ara að upp­ræta hreina og klára heimsku. Það sem stendur eftir í orða­gjálfri stjórn­mála­manna um lýð­ræð­is­legt mik­il­vægi fjöl­miðla og varnir gegn upp­lýs­inga­óreiðu er hund­rað millj­óna króna styrkur til sjón­varps­þátta félags sem selur þá hæst­bjóð­anda hverju sinni og fram­leiðir ekk­ert frétta­efni. Það er gert til að bregð­ast við betli­bréfi frá mág­konu fjár­laga­nefnd­ar­manns úr Fram­sókn­ar­flokkn­um. Þetta er við­horfið til fjöl­miðla í hnot­skurn.“

Eyða sam­keppni til að koma á ein­okun

Höldum okkur í skag­fir­skri hags­muna­gæslu. Enn eitt málið sem skotið hefur upp koll­inum felur í sér að mat­væla­ráð­herra ætlar að leggja fram frum­varp sem heim­ilar slát­ur­leyf­is­höfum að eiga ólög­mætt sam­ráð. Þetta er klætt í þann bún­ing að eiga að hjálpa bændum vegna afleið­inga stríðs­ins í Úkra­ínu. En í raun er verið að koma á ein­okun örfárra stór­fyr­ir­tækja í slátrun og frum­vinnslu afurða. 

Sam­keppn­is­eft­ir­litið slátr­aði mál­inu í ítar­legri umsögn og sagði meðal ann­ars að engin ákvæði væru í frum­varps­drög­unum sem verji „bænd­­ur, aðra við­­skipta­vini eða neyt­endur gagn­vart sterkri stöðu afurða­­stöðva. Þannig er afurða­­stöðvum mög­u­­legt að eyða sam­keppni án þess að bændur geti spornað við því og engin opin­ber stýr­ing eða eft­ir­lit er til staðar til að verja hags­muni bænda, ann­­arra við­­skipta­vina afurða­­stöðva og neyt­enda.“ 

Neyt­enda­sam­tökin köll­uðu frum­varps­drögin aðför að neyt­end­um. 

Það fyr­ir­tæki sem hagn­ast mest á þeirri ein­okun sem verið er að koma á er fáveldið í Skaga­firði, Kaup­fé­lag Skag­firð­inga, stór­fyr­ir­tæki sem hagn­að­ist um 18,3 millj­­­arða króna á síð­­­­­ustu fjórum árum, þar af 5,4 millj­­­arða króna í fyrra. Fyr­ir­tæki sem, líkt og Félag atvinnu­rek­enda benti á í umsögn, er orðið svo fjáð að það á í vand­ræðum með að koma pen­ing­unum sínum vinnu inn­an­lands eftir að hafa byggt upp stór­veldi í sjáv­ar­út­vegi og land­bún­aði, og er nú farið að kaupa upp skyndi­bita­keðjur á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Milli þess sem kaup­fé­lagið sturtar fjár­munum í rekstur Morg­un­blaðs­ins.  

Verði umrætt frum­varp lagt fram er senni­legt að það fari til vinnslu í atvinnu­vega­nefnd. For­maður hennar er áður­nefndur Stefán Vagn, frá Sauð­ár­króki í Skaga­firði, en faðir hans var stjórn­ar­for­maður Kaup­fé­lags Skag­firð­inga um ára­bil. 

Vís­vit­andi til­raunir til að blekkja almenn­ing

Það má alveg telja ýmis­legt annað til þegar verið er að hringa þær vand­ræða­legu kerf­is­lægu og óheið­ar­legu mein­semdir sem eru á þessu stroku­spillta íslenska kerfi. Til dæmis til­raun rík­is­stjórn­ar­innar til að klæða tveggja millj­arða króna hækkun á barna­bótum á tveggja ára tíma­bili í fimm millj­arða króna bún­ing með því að telja með fjár­muni sem þegar var heim­ild fyrir á fjár­lög­um, en voru búnir að skerð­ast í burtu vegna nýgerðra kjara­samn­inga. Um er að ræða fram­setn­ingu sem hefur þann eina til­gang að blekkja almenn­ing til að halda að ráða­menn séu að gera annað og meira en þeir eru raun­veru­lega að gera.

Auglýsing
Eða enda­lausan lappa­drátt við að bregð­ast við því að hér er á landi er stór hópur fólks sem lætur pen­inga vinna fyrir sig en borgar ekki þá skatta sem hann á að gera. Það er gert með því að telja atvinnu­tekjur rang­lega fram sem fjár­magnstekjur í gegnum einka­hluta­fé­lög. Þessi tekju­til­flutn­ingur kostar, að mati Alþýðu­sam­bands Íslands, um átta millj­arða króna á ári sem fara þá í vasa efsta lags sam­fé­lags­ins í stað sam­neysl­unn­ar. Hin Norð­ur­löndin eru fyrir löngu búin að girða fyrir þessi skattaund­an­skot með því að áætla fjár­magnstekjur út frá eignum og við­bú­inni ávöxtun og skatt­leggja svo það sem eftir stendur sem laun. 

Óorði komið á góða fram­kvæmd

Meira að segja góðu verk­efnin eru útfærð illa. Eins og auknir styrkir til rann­sóknar og þró­un­ar. Þeir eru frá­bær veg­ferð enda afar nauð­syn­legt að styðja við fram­gang hug­vits og upp­bygg­ingu hug­vits­fyr­ir­tækja til að skapa nýja stoð undir efna­hags­líf­ið, fjöl­breytt­ara atvinnu­líf og stuðla að meiri fram­leiðni.

Áætl­­aðir styrkir til nýsköp­un­­ar­­fyr­ir­tækja hafa farið úr 1,3 millj­­arði króna í 13,8 millj­­arða króna á átta árum. Skatt­­ur­inn hefur hins vegar lýst því yfir að fyr­ir­tæki séu senni­lega að svindla á styrkja­­kerf­inu til að fá styrki. Það er gert með því að fyr­ir­tæki telji fram almennan rekstr­ar­kostnað sem rann­sókn­ar- eða þró­un­ar­kostnað og fái hann svo end­ur­greiddan á grund­velli þess að sér­fræði­geta Skatts­ins til að meta styrkja­beiðnir er eng­in. 

Þetta er litla skítuga leynd­ar­málið varð­andi þessa styrki og mikið er pískrað um ýmis fyr­ir­tæki sem hvorki rann­saka né þróa nokk­uð, en fá styrki sem slagi upp í hagn­að­inn sem þau greiða út i vasa eig­end­anna á ári. 

Afleið­ing þessa er tví­þætt nei­kvæð. Ann­ars vegar er auð­vitað verið að seil­ast í skattfé á fölskum for­sendum og hins vegar er verið að koma óorði á frá­bært fram­tak sem getur í réttri fram­kvæmd skilað gríð­ar­legum sam­fé­lags­legum ávinn­ing­i. 

Ekk­ert hefur verið gert til að mæta áhyggjum Skatts­ins.

Rétt­sýni er ekki öfund

Það að gagn­rýna þá kerf­is­bundnu mis­skipt­ingu, fyr­ir­greiðslupóli­tík, frænd­hygli, stroku­spill­ingu og gegnd­ar­lausan pils­fald­ar­kap­ít­al­isma sem við­ur­gengst á Íslandi á baki vand­ræða­legs sam­kurls stjórn­mála og atvinnu­lífs er ekki ein­hvers­konar nið­ur­rif. Það byggir ekki á öfund né er merki um ein­hvern sund­ur­lynd­is­fjanda sem með fýlu er að eyði­leggja góða veislu. 

Það byggir á því að þótt Ísland sé frá­bært land, með mikil tæki­færi, þá er hér margt gert sem er svo fjarri því að vera í lagi. Þeir sem hafa völd­in, og njóta þess­ara kerfa og hefða, reyna eðli­lega að verja til­vist þeirra með öllum mögu­legum ráð­um. 

Við hin, sem gjöldum þeirra, reynum áfram sem áður að benda á nekt kon­ungs­ins og koma honum í föt. 

Það er fyrst og síð­ast frekar fámennur hópur fólks sem virð­ist hel­tek­inn af pen­ingum sem beitir fyrir sér þessum rök­semd­ar­færsl­um. Sem telur magn fjár­muna sem hægt sé að sanka að sér vera einu mælistik­una á eft­ir­sókn­ar­verð lífs­gæði og árang­ur. Og eyðir ótrú­legum kröftum í að verja þessa sjóði sína fyrir ágangi ódug­lega, tak­mark­aða og öfund­sjúka fólks­ins. Oft með ein­hvers­konar frels­is­rök­um.

Allt byggir þetta á kenn­ing­unni um verð­leika sem séu áunnir á grund­velli jafnra tæki­færa. Um er að ræða mikla mön­tru þeirra sem aðhyll­ast ein­stak­lings­hyggju og hafa ríka þörf fyrir að skil­greina sig sem betri en aðr­ir, oft án þess að nokkur inni­stæða sé fyrir því. Fyrir vikið þurfa þeir að treysta á fyr­ir­greiðslu úr bjög­uðum kerfum til að við­halda stöðu sinn­i. 

Þótt flestir átti sig á að pen­ingar séu stór hluti lífs­ins þá eru ekki allir hel­teknir af þeim né láta þá ekki skil­greina sig. Þess vegna er það ekki öfund sem veldur því að heið­ar­legu fólki brennur það þegar svindl, spill­ing, vald­níðsla eða óskamm­feilin fyr­ir­greiðsla tæki­færa, upp­lýs­inga eða fjár­muna úr opin­berum sjóðum veldur því að staða sumra ýkist á kostnað ann­arra. 

Það er rétt­sýni.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiLeiðari