Er Tene nýju flatskjáirnir eða eru kerfin og þeir sem stjórna þeim kannski vandamálið?

Auglýsing

Fyrsta ráðu­neyti Katrínar Jak­obs­dóttur tók við völdum 30. nóv­em­ber 2017. Annað ráðu­neyti henn­ar, skipað sömu flokkum en með breyttri verka­skipt­ingu og fleiri ráð­herrum, sett­ist að völdum 28. nóv­em­ber 2021.

Líkt og Katrín benti sjálf á í við­tali við Frétta­blaðið vegna fimm ára setu sinnar sem for­sæt­is­ráð­herra þá lit­að­ist síð­ari hluti síð­asta kjör­tíma­bils nán­ast að öllu leyti af heims­far­aldri kór­ónu­veirunn­ar. Hefð­bundin stjórn­mál voru tekin úr sam­bandi. „Það víkja öll önnur mál, það rífst eng­inn um hvað eigi að vera í mat­inn þegar húsið brenn­ur,“ sagði for­sæt­is­ráð­herra. 

Þótt mörgum finn­ist eins og far­ald­ur­inn hafi staðið yfir í tíu ár fyrir tíu árum síðan þá var tak­mörk­unum vegna sótt­varna ekki aflétt að fullu og end­an­lega fyrr en 25. febr­úar síð­ast­lið­inn, tveimur árum eftir að veiran lét fyrsta á sér kræla hér­lend­is. 

Þess vegna voru síð­ustu þing­kosn­ingar haldnar í póli­tísku tóma­rúmi. Far­aldr­inum var ekki lokið og afleið­ingar efna­hags­legra aðgerða stjórn­valda vegna hans voru ekki nálægt því að fullu komnar fram. Stýri­vextir voru 1,25 pró­sent og verð­bólgan 4,4 pró­sent. Rík­is­stjórnin gat rétti­lega upp­skorið fyrir að hafa fylgt í meg­in­at­riðum ráð­gjöf sér­fræð­inga þegar kom að aðgerðum til að verja líf og heilsu lands­manna, og naut þess líka að líf fólks á Íslandi var háð miklu minni tak­mörk­unum en í flestum öðrum ríkjum heims. 

Póli­tíska svika­lognið liðið hjá

Við þessar aðstæður gat Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn til að mynda farið í kosn­inga­bar­áttu þar sem for­maður hans lof­aði því að vextir yrðu lágir til fram­­búðar ef fólk myndi bara kjósa Sjálf­­stæð­is­­flokk­inn. Hann einn gæti víst varið stöð­ug­leik­ann og ef öðrum yrði hleypt að myndi verð­bólgan fara af stað. „Reikn­ing­­ur­inn fyrir lof­orða­listana birt­ist okkur öllum í hærra vöru­verð­i,“ skrif­aði Bjarni Bene­dikts­son fyrir rúmu ári síð­an. 

Auglýsing
Vinstri græn gátu keyrt sína kosn­inga­bar­áttu á Katrínu Jak­obs­dóttur og miklum per­sónu­legum vin­sældum hennar sem ná langt út fyrir raðir flokks­ins. Kann­anir í aðdrag­anda kosn­inga sýndu að næstum sex af hverjum tíu vildu hana áfram sem for­sæt­is­ráð­herra þrátt fyrir að flokkur Katrínar stefndi í refs­ingu í kosn­ing­unum og umtals­vert fylgis­tap. „Það skiptir máli hver stjórn­ar“ var slag­orðið í aug­lýs­ingum flokks­ins, sem allar hverfð­ust um Katrínu. Með þessu tókst að lág­marka afhroðið og Vinstri græn töp­uðu bara þriðj­ungi fylgis síns milli kosn­inga á því að gera mála­miðl­anir um allt sem áður ein­kenndi flokk­inn til að kom­ast að völd­um. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn græddi allra mest á póli­tíska svika­logn­inu, enda það stjórn­mála­afl sem hefur mestu aðlög­un­ar­hæfn­ina að því ástandi sem ríkir hverju sinni. Þegar póli­tísk hug­mynda­fræði hefur verið tekin úr sam­bandi tíma­bundið er flokk­ur­inn í ess­inu sínu og allt í einu taldi ólík­leg­asta fólk það vera góða hug­mynd að kjósa bara Fram­sókn, án þess að átta sig almenni­lega af hverju.

Tjöldin falla

Nú er staðan hins vegar afar breytt. Stýri­vextir hafa verið hækk­aðir upp í sex pró­sent. Verð­bólgan er 9,3 pró­sent og hefur mælst yfir níu pró­sent frá því í júlí, þrátt fyrir að hér sé engin orku­kreppa. Krónan hefur veikst um tæp níu pró­sent gagn­vart evru og um 14 pró­sent gagn­vart Banda­ríkja­dal frá því í byrjun árs 2020 sem gerir allan inn­flutn­ing miklu dýr­ari og rýrir virði þeirra íslensku króna sem launa­fólk þénar í alþjóð­legum sam­an­burði.

Þessi staða bítur fyrst og síð­ast á þeim sem lifa enn í veru­leika íslensku krón­unn­ar, sem leik­stýrt er af Ásgeiri Jóns­syni seðla­banka­stjóra. Það eru launa­fólk í land­inu og minni fyr­ir­tæki. Flest stærstu fyr­ir­tæki lands­ins sem stunda útflutn­ing eru fyrir löngu búin að yfir­gefa krón­una, gera upp í öðrum gjald­miðlum og fjár­magna sig að stórum hluta í öðrum löndum þar sem vaxta­stigið er ekki galið. 

Kaup­mátt­ar­aukn­ing almenn­ings sem féll til á síð­ustu árum, aðal­lega  vegna upp­gangs í ferða­þjón­ustu og þrátt fyrir stjórn­völd ekki vegna þeirra, er byrjuð að étast upp (kaup­máttur reglu­legs tíma­kaups er nú svip­aður og í byrjun árs 2021) og hratt gengur hjá mörgum á sparn­að­ur­inn sem safn­að­ist upp í aðgerð­ar­leysi kór­ónu­veirunn­ar. Eftir standa fjöl­mörg heim­ili með stór­aukna greiðslu­byrði hús­næð­is­lána, miklu hærri dag­leg útgjöld vegna þess að verð­lag á nauð­synja­vöru hefur rokið upp og veik­ingu krón­unnar sem hefur rýrt virði þeirra pen­inga sem launa­fólk þénar í alþjóð­legum sam­an­burð­i. 

Þetta er staða sem bitnar skarpt á við­kvæm­ustu hópum sam­fé­lags­ins, þeim sem hafa lægstu tekj­urn­ar, en er líka farin að bíta milli­stétt­ina fast. Við­brögð seðla­banka­stjóra við áhyggjum þessa hóps hafa verið þau að ungt fólk verði bara að búa lengur heima hjá for­eldrum sínum en þau ætl­uðu, að venju­legt launa­fólk verði að hætta að eyða pen­ingum og að sökin á ástand­inu liggi hjá þeim sem fara til Tenerife í frí. Hrok­inn og skort­ur­inn á jarð­teng­ingu minnir mjög á orð­ræð­una fyrir hrun þegar almenn­ingi var kennt um ástand­ið, sem banka­menn­irnir og lukku­ridd­ar­arnir á spor­baugnum í kringum þá sköp­uðu, vegna þess að hann hafði fjár­fest í flat­skjám. 

Ríkið sem gerði ríka miklu rík­ari

Það ástand sem ríkir er afleið­ing af póli­tískum aðgerð­um. Þeirri leið sem farin var til að mæta efna­hags­legum afleið­ingum kór­ónu­veiru­far­ald­urs­ins með því að dæla fjár­munum inn á eigna­mark­aði með þeim afleið­ingum að íbúða­verð hækk­aði um 50 pró­sent frá byrjun árs 2020, með til­heyr­andi stór­kalla­legum áhrifum á verð­bólgu. Þótt launa­fólk hafi ekk­ert grætt á þessu nema eignir á pappír og miklu hærri afborg­anir fyrir þak yfir höf­uðið hafa fjár­magns­eig­end­ur, sem eiga fjölda fast­eigna og hluta­bréf, makað krók­inn.

Fjár­magnstekjur juk­ust um 65 millj­arða króna milli 2020 og 2021 og voru 181 millj­arður króna. Alls fór 81 pró­sent þeirra tekna til rík­ustu tíu pró­sent lands­manna. Miðað við hvernig málum hefur verið háttað á síð­ustu árum má ætla að rík­asta eitt pró­sentið hafi tekið til sín helm­ing fjár­magnstekna, um 90 millj­arða króna. Úr því fæst þó ekki skorið fyrr en fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra svarar útistand­andi fyr­ir­spurn um málið sem hann hefur dregið í rúma tvo mán­uði að svara. 

Ráð­stöf­un­ar­tekjur þeirrar tíundar lands­­­manna sem höfðu hæstu tekj­­­urn­­­ar, og hafa helst tekjur af fjár­­­­­magni, juk­ust um tólf pró­­­sent á föstu verð­lagi á einu ári. Restin af lands­­­mönn­um, 90 pró­­­sent, juku sínar ráð­­­stöf­un­­­ar­­­tekjur á raun­virði um fjögur pró­­­sent. Því juk­ust ráð­­­stöf­un­­­ar­­­tekj­­­ur, laun að frá­­­­­dregnum sköttum og öðrum lög­­­bundnum gjöld­um, efstu tíu pró­­­sent­anna þrefalt á við aðra þegar þær eru reikn­aðar á föstu verð­lagi. Þessi kjaragliðnun milli launa­­fólks og fjár­­­magns­eig­enda hefur raunar verið að eiga sér stað frá 2011, þótt hún hafi verið ýkt­ust á síð­­asta ári. 

Með því að hækka fjár­magnstekju­skatt um þrjú pró­sentu­stig væri hægt að auka tekjur vegna hans um rúma fimm millj­arða króna. Rík­ustu tíu pró­sent lands­manna myndu greiða 87 pró­sent þeirrar hækk­un­ar.

Það er bull­andi góð­æri … hjá fjár­magns­eig­endum

Það er hægt að tína fleira til. Met­hagn­aður var í sjá­v­­­­ar­út­­­­­vegi í fyrra, þegar geir­inn hagn­að­ist um 65 millj­­­örðum króna eftir skatta og gjöld. Alls jókst hagn­að­­­ur­inn um 124 pró­­­sent milli ára. Á sama tíma greiddu sjá­v­­­­ar­út­­­­­vegs­­­fyr­ir­tækin 22,3 millj­­­arða króna í öll opin­ber gjöld. Veið­i­­­­gjöld, tekju­skatt og trygg­inga­gjöld. Það þýðir að rúm­­­lega fjórð­ungur af hagn­aði fyrir greiðslu opin­berra gjalda fór til hins opin­bera en tæp­­lega 75 pró­­sent varð eftir hjá útgerð­­ar­­fyr­ir­tækj­u­m. 

Auglýsing
Þrír stærstu bankar lands­ins græddu 81,2 millj­arð króna í fyrra og hafa grætt 60 millj­arða króna á fyrstu níu mán­uðum yfir­stand­andi árs. Hagn­að­ur­inn í ár er meðal ann­ars vegna þess að bank­arnir hafa dælt út íbúða­lánum sem bjó til bólu og stór­aukið vaxta­mun sinn, sem var þegar miklu hærri en í öllum við­mið­un­ar­lönd­um, og fyrir vikið uxu vaxta­tekjur þeirra um 22 pros­ent milli ára, eða 16,9 millj­arða króna. 

Banka­skattur var lækk­aður í far­aldr­inum til að auka svig­rúm banka til útlána og lækka vaxta­mun. Á næsta ári er áætlað að skatt­ur­inn skili 5,9 millj­örðum króna í rík­is­kass­ann en ef hann hefði hald­ist óbreyttur myndi hann skila 15,3 millj­örðum króna. Á árinu 2023 mun þessi aðgerð því færa bönk­unum 9,4 millj­arða króna sem hefðu ann­ars farið í rík­is­sjóð, og sam­neysl­una. Þetta svig­rúm, og annan hagn­að, hafa stóru einka­bank­arnir tveir, Arion banki og Íslands­banki, notað til að greiða út til hlut­hafa. Arion banki hefur greitt út 60 millj­­­­arða króna til hlut­hafa sinna á tveimur árum. Bank­inn hefur þegar boðað áform um að greiða enn meira út til þeirra í fyr­ir­­­­sjá­an­­­­legri fram­­­­tíð þannig að útgreiðsl­­­­urnar nálgist 90 millj­­­­arða króna. Íslands­­­­­banki greiddi hlut­höfum sínum 11,9 millj­­­­­arða króna í arð vegna síð­­­asta árs. Auk þess kom fram fyrr á þessu ári að stjórn bank­ans stefni að því að greiða út 40 millj­­­­­arða króna í umfram eigið fé fyrir lok næsta árs. Þegar hefur verið sam­­­þykkt end­­­ur­­­kaupa áætlun fyrir 15 millj­­­arða króna í ár. 

Í umfjöllun Inn­herja um nýlegt verð­mat á Eim­skip sagði að árið 2021, þegar fyr­ir­tækið skil­aði met­hagn­aði, hefði verið „al­gjer sprengja“ í rekstri fyr­ir­tæk­is­ins og að árið í ár yrði enn betra. 

Útgreiðslur skráðra félaga í Kaup­höll í formi arð­greiðslna og end­ur­kaupa á bréfum í fyrra voru yfir 80 millj­arðar króna. Í ár liggur nokkuð ljóst fyrir að þær verði yfir 200 millj­arðar króna, án þess að þeir tæp­lega 55 millj­arðar króna sem Sím­inn og Origo ákváðu að greiða hlut­höfum sínum út eftir að hafa selt ann­ars vegar Mílu og hins vegar stóran hlut í Tempo til erlendra fjár­festa sé teknir með. 

Sam­an­dregið er því góð­æri hjá fjár­mála­öfl­un­um. Og við skulum muna að nær öll stærri fyr­ir­tæki á Íslandi sem eru ekki fyrst og síð­ast í útflutn­ingi starfa annað hvort á ein­ok­un­ar- eða fákeppn­is­mark­aði, varin fyrir erlendri sam­keppni með íslenskri krónu og sam­vinnu­þýðum íslenskum stjórn­mála­öfl­u­m. 

Inn­lán fyr­ir­tækja vaxið um 83 pró­sent frá 2020

Í nýrri skýrslu Kjara­töl­fræði­nefndar segir að við­spyrnan hér­lendis hafi verið mun kröft­ugri en í helstu við­skipta­lönd­un­um. Gangi spár áranna 2022 og 2023 eftir verður sam­an­lagður hag­vöxtur hér rúm­lega 8,6 pró­sent sam­an­borið við 3,7 pró­sent að með­al­tali innan OECD land­anna og 2-4 pró­sent á öðrum Norð­ur­lönd­um. Þetta er langt umfram fyrri spár og bendir til þess að kakan sé að stækka. Það sé nóg til. Bara ekki til að borga í sam­neyslu né til að hækka laun til að mæta afleið­ingum verð­bólg­unnar og vaxta­hækk­ana. 

Eitt sýni­legt dæmi um þetta eru inn­lán atvinnu­fyr­ir­tækja. Pen­ing­arnir sem þau eiga á banka­bók. Í lok febr­úar 2020, þegar kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn skall á, áttu atvinnu­fyr­ir­tæki lands­ins 408 millj­arða króna inni á bók. Um síð­ustu ára­mót, eftir tveggja ára heims­far­aldur þar sem íslenska ríkið var rekið í 275 millj­arða króna halla, höfðu inn­lánin vaxið upp í 596 millj­arða króna, eða um 188 millj­arða króna. Það sem af er árinu 2022 hafa þau vaxtið um 151 millj­arð króna upp í 747 millj­arða króna. 

Það þýðir að frá því í febr­úar 2020 hafa inn­lán íslenskra atvinnu­fyr­ir­tækja vaxið um 339 millj­arða króna, eða 83 pró­sent. Á sama tíma hafa inn­lán heim­ila, sem gátu litlu eytt í heims­far­aldr­inum og sæta núna skömmum seðla­banka­stjóra fyrir að fara offari í eyðslu, auk­ist um 17 pró­sent. Til heim­ila telj­ast líka margir fjár­magns­eig­end­ur, sem tók til sín stærstan hluta fjár­magnstekna í far­aldr­in­um. 

Meltið þessar tölur aðeins.  

Verja kerfi sem gagn­ast bara sumum

Eftir að kór­ónu­veiru­á­standið rann af þjóð­inni hafa orðið mark­tækar breyt­ingar á stjórn­mála­legri afstöðu henn­ar. Búið er að stinga stjórn­mál­unum aftur í sam­band. Og ósann­girni þess efna­hags­lega ástands sem lýst er hér að ofan hefur orðið skýr­ari í hugum sífellt fleiri. Sama fólk finnur líka til­finn­an­lega hvernig vel­ferð­ar­þjón­ustan hefur verið kerf­is­bundið veikt sem leiðir til að mynda til meiri kostn­að­ar­þátt­töku á ýmsum sviðum heil­brigð­is­þjón­ustu, lengri biðlista og þess að það tekur margar vikur að fá tíma hjá heim­il­is­lækni. Nú á að leysa þessi vanda­mál með því að auka einka­rekst­ur, og þar með ná póli­tísku mark­miði þeirra sem stóðu fyrir þreng­ing­un­um. Tvö­falt heil­brigð­is­kerfi er að festa sig í sessi. Slíkt var ekki á lof­orða­lista að minnsta kosti hluta þeirra flokka sem mynd­uðu rík­is­stjórn eftir síð­ustu kosn­ing­ar. Það hefur aldrei verið kosið um þetta. Raunar skrif­uðu 85 þús­und manns undir und­ir­skrifta­söfn­un, þá stærstu í Íslands­sög­unni, fyrir nokkrum árum sem sner­ist um að hækka fram­lög til heil­brigð­is­kerf­is­ins í ell­efu pró­sent af lands­fram­leiðslu. Afstaða þjóð­ar­innar er því nokkuð skýr.

Auglýsing
Fleira og fleira fólk er að sjá það skýrt að sitj­andi rík­is­stjórn byggir til­veru sína á að verja og ýkja kerfi sem gagn­ast ekki lengur þorra íbúa. Kerfi pils­fald­ar­kap­ít­al­isma, stroku­spill­ing­ar, vel­ferð­ar­kerfasvelt­is, skattaí­viln­ana fyrir betur setta og stöð­ug­leika þeirra sem þurfa ekki að not­ast við íslensku krón­una. 

Þeir sem styðja ofan­greint ástand eru fyrst og síð­ast kjós­endur Sjálf­stæð­is­flokks­ins. Hann hefur enda staðið í stað í fylgi það sem af er ári þrátt fyrir að yfir 60 pró­sent lands­manna van­treysti for­manni hans. Hinir stjórn­ar­flokk­arnir tveir segj­ast standa fyrir meiri jöfn­uð, rétt­lát­ara þjóð­fé­lag sem byggir á sam­vinnu og sam­fé­lags­vit­und, og tala þannig á tylli­dög­um. Þær áherslur birt­ast hins vegar ekki í verkum rík­is­stjórn­ar­innar sem þeir sitja í undir Sjálf­stæð­is­flokkn­um. Þar ríkir fyrst og síð­ast ein­stak­lings­hyggju Thatcher­ismi með íslensku bland­i. 

Þriðj­ungur þjóð­ar­innar styður Sam­fylk­ingu og Pírata

Sam­kvæmt Gallup hafa stjórn­ar­flokk­arnir sam­tals tapað 10,5 pró­sentu­stigum af fylgi á fyrsta ári kjör­tíma­bils­ins. Vinstri græn og Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn hafa tapað 97 pró­sent þess fylg­is. Það sér vart högg á vatni á fylgi Sjálf­stæð­is­flokks, sem er við kjör­fylgi. Rík­is­stjórnin væri kol­fallin ef kosið yrði í dag, ein­ungis einu ári eftir að hún var kosin til valda að nýju. Hún næði bara 29 þing­mönnum inn.

Á sama tíma hefur fylgi Sam­fylk­ing­ar­innar rúm­lega tvö­fald­ast og hefur ekki mælst meira í ára­tug. Hinn flokk­ur­inn sem bætt hefur miklu við sig eru Pírat­ar, en fylgi þeirra hefur auk­ist um 42 pró­sent. Sam­an­lagt hafa þessir tveir flokk­ar, sem leggja áherslu á jafn­að­ar­mennsku og rétt­lát­ara sam­fé­lag, aukið fylgi sitt um 14,8 pró­sentu­stig á einu ári. Þeir njóta nú stuðn­ings þriðj­ungs þjóð­ar­inn­ar. 

Ekki verður fram­hjá því litið að kjör Kristrúnar Frosta­dóttur sem for­manns Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, og þær áherslu­breyt­ingar sem hún hefur inn­leitt hratt, hafa skipt þar lyk­il­máli. Hún hefur trú­verð­ug­leika þegar hún talar um efna­hags- og vel­ferð­ar­mál sem hefur ekki verið til staðar hjá for­ystu íslenskra jafn­að­ar­manna um langt skeið og getur sett stefnu sína fram á máli sem venju­legt fólk skil­ur. Hún hefur líka verið skýr um að fara aftur í kjarn­ann í jafn­að­ar­mennsk­unni í stað þess að láta stjórn­mál Sam­fylk­ing­ar­innar snú­ast um rifr­ildi á sam­fé­lags­miðlum á for­sendum upp­hrópunar hvers dags. Í við­tali við Kjarn­ann í sept­em­ber sagði Kristrún að skila­­boð Sam­­fylk­ing­­ar­innar inn í næstu rík­­is­­stjórn væru að umbóta­­mál verði fjár­­­mögn­uð. „Mér finnst allt í lagi að það sé verka­­skipt­ing á milli flokka. Raun­veru­­leik­inn er sá að ef við förum í rík­­is­­stjórn þá erum við fara í fjöl­­flokka rík­­is­­stjórn­­­ar­­sam­­starf. Ég vil að okkar hluti í verka­­skipt­ing­unni snú­ist um trú­verð­ug­­leika þegar kemur að efna­hags­­málapóli­­tík þegar kemur að því að hrinda vel­­ferð­­ar­á­herslum í fram­­kvæmd. Og mér finnst allt í lagi að dreifa áherslum með öðrum flokk­­um.“ 

Þessi skila­boð eru aug­ljós­lega að höfða til sífellt fleiri kjós­enda.

Hvernig sam­fé­lag viljum við?

Íslenskt sam­fé­lag hefur breyst gríð­ar­lega mikið á skömmum tíma. Fjöldi erlendra rík­is­borg­ara sem hingað hafa flutt er kom­inn í næstum 64 þús­und. Þeir voru um 20 þús­und árið 2011. Kyn­slóðir Íslend­inga hafa alist upp sem eru með allt aðra sýn á lífið og vænt­ingar til þess. Allar kann­anir sýna mik­inn meiri­hluta fyrir rétt­lát­ara þjóð­fé­lagi. Minni ein­stak­lings­hyggju og meiri sam­fé­lags­vit­und. Minna fúsk og leynd­ar­hyggju, meiri fag­mennsku og gagn­sæi. Að efna­hags­legu kök­unni sem er bökuð hér verði skipt með sann­gjarn­ari hætti. Að fjár­fest­ing í innviðum og vel­ferð verði settir framar í röð­ina en áhersla á að fjölga krón­unum á banka­reikn­ingum efsta lags sam­fé­lags­ins.

Auglýsing
Um þetta snú­ast stjórn­mál núna. Hvernig sam­fé­lag viljum við reka? Hvað teljum við mik­il­væg­ast að styðja við og hvernig á að skipta kostn­að­inum af því? Hvaða kerfi eru úr sér gengin og þjóna ekki lengur heild­inni, heldur afmörk­uðum hópum til að við­halda völdum og mat­ar­hol­um?

Það eru flestir sem eru ekki beinir þiggj­endur fyrir löngu búnir að sjá í gegnum blekk­ing­una um jöfn tæki­færi á grund­velli verð­leika, enda koma tæki­færin á Íslandi að stóru leyti til vegna aðgengis tengdu fjöl­skyldu eða stjórn­mála­skoð­un­um. Vil­hjálmur Árna­son, pró­fessor í heim­speki við Háskóla Íslands, gerði þess­ari mýtu ágæt­lega skil í nýlegri grein.

Birt­ing­ar­myndir þessa eru marg­ar. Ein er hrun á trausti í garð for­ystu­manna rík­is­stjórn­ar­innar. Önnur er að 63 pró­sent þjóð­ar­inn­ar, þar á meðal meiri­hluti kjós­enda tveggja stjórn­ar­flokka, treysta rík­is­stjórn­inni ekki lengur til að selja hluti í rík­is­bönkum og svipað hlut­fall vill skipa rann­sókn­ar­nefnd til að fara yfir síð­asta sölu­ferli. Þriðja er að eftir rúman ára­tug af and­stöðu við aðild að Evr­ópu­sam­band­inu, sem er í takti við stefnu rík­is­stjórn­ar­flokk­anna þriggja, hefur nú mælst afger­andi meiri stuðn­ingur við hana en and­staða í þremur könn­unum í röð. Þá er ónefnd könnun sem sýndi að flestir treysta leið­toga stærsta stjórn­ar­and­stöðu­flokks­ins afger­andi betur en öðrum stjórn­mála­leið­tog­um, þar með talið sitj­andi for­sæt­is­ráð­herra. 

Það eru breyt­ingar í loft­inu. Það hafa þær oft verið áður en hræðslupóli­tík í aðdrag­anda kosn­inga, og hækju­blæti ýmissa gagn­vart íhald­inu, hafa gert það að verkum að lognið hefur ríkt áfram að kosn­ingum lokn­um. 

Von­andi fer sá tími að renna sitt skeið.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiLeiðari