Mynd: Videvo.net

Tekjuhæsta eitt prósent landsmanna tók til sín næstum helming allra fjármagnstekna

Rúmlega þrjú þúsund Íslendingar voru með 142 milljarða króna í tekjur á árinu 2019. Af þeim tekjum voru 58 milljarðar króna fjármagnstekjur. Alls aflaði þessi hópur, tekjuhæsta eitt prósent landsmanna, 44,5 prósent allra tekna sem stöfuðu af nýtingu á fjármagni. Skattar á þær tekjur eru mun lægri en skattar á laun.

Það eitt pró­sent fram­telj­enda á Íslandi sem var með hæstu tekj­urnar á árinu 2019 voru sam­an­lagt með 142 millj­arða króna í tekj­ur. Um er að ræða 3.133 ein­stak­linga. Þessi hópur afl­aði 7,2 pró­sent allra tekna sem Íslend­ingar öfl­uðu í hitteð­fyrra.

Þetta eina pró­sent lands­manna var með 58 millj­arða króna í fjár­magnstekjur á árinu 2019, sem þýðir að hóp­ur­inn afl­aði 44,5 pró­sent allra tekna sem urðu til vegna ávöxt­unar á fjár­magni á því ári. 

Þetta kemur fram í umfjöllun um álagn­ingu ein­stak­linga á árinu 2020 í Tíund, frétta­blaði Skatts­ins, sem Páll Kol­beins rekstr­ar­hag­fræð­ingur skrif­ar. 

Auglýsing

Þar segir að tekju­hæsta eitt pró­sent lands­manna greiddi 37 millj­arða króna í skatta á umræddu ári og var með­al­skatt­byrði hóps­ins 26 pró­sent. Skatt­byrði þessa rúm­lega þrjú þús­und ein­stak­linga var aðeins meiri en með­al­skatt­byrði allra Íslend­inga á árinu 2019 – sem var 23 pró­sent – en hún var minni en t.d. næsta pró­sents fyrir neðan það í tekju­öfl­un­ar­stig­an­um, sem greiddi 27,2 pró­sent tekna sinna í skatta og langt undir með­al­skatt­byrði tíu pró­sent rík­ustu Íslend­ing­anna, sem greiddi 35,2 pró­sent í skatta. Alls greiddu tekju­hæstu fimm pró­sentin síðan 27,9 pró­sent í skatt af tekjum sín­um, eða hlut­falls­lega umtals­vert meira en rík­asta pró­sent­ið. 

Í umfjöllun Páls í Tíund segir orð­rétt: „Ástæða þess að skatt­byrði tekju­hæsta eina pró­sents lands­manna er lægri en skatt­byrði tekju­hæstu fimm pró­sent­anna er sú að fjár­magnstekjur vega þyngra í tekjum þeirra sem eru tekju­hærri á hverjum tíma en skattur af fjár­magnstekjum var 22 pró­sent en stað­greiðsla tekju­skatts og útsvars af laun­um, líf­eyri og trygg­inga­bótum yfir 11.125 þús. kr. var 46,24 pró­sent.“

Mik­ill munur á efstu tveimur pró­sent­unum

Þeir sem voru með á bil­inu 20,2 til 25,8 millj­ónir króna í árs­tekj­ur, sem þýðir 1,7 til 2,15 millj­ónir króna á mán­uði að með­al­tali, töld­ust til næst tekju­hæsta hund­raðs­hlut­ans. Þessi hópur var með níu millj­arða króna í fjár­magnstekjur á árinu 2019, eða 49 millj­örðum króna minna en rúm­lega þrjú þús­und manna hóp­ur­inn sem afl­aði meira tekna en þeir á umræddu ári hafði í fjár­magnstekj­ur. 

Auglýsing

Í umfjöllun Tíundar segir að fjár­magnstekj­ur  „voru þannig um 40,1 pró­sent tekna tekju­hæsta eina pró­sents­ins og 12,4 pró­sent tekna þess hund­raðs­hluta sem stóð þar fyrir neðan en ekki nema 6,6 pró­sent tekna lands­manna.“

Það þýðir að tvö pró­sent fram­telj­enda, rúm­lega sex þús­und ein­stak­ling­ar, voru með  ríf­lega helm­ing fjár­magnstekna, eða 51,3 pró­sent, og tekju­hæstu fimm pró­sentin voru með 61,3 pró­sent fjár­magnstekn­anna.

Eignir hinna ríku sem skapa fjár­magnstekj­urnar hafa auk­ist mikið

Grunnur þeirra fjár­magnstekna sem rík­ustu Íslend­ing­arnir afla á ári hverju eru eignir þeirra. Í des­em­ber í fyrra svar­aði Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, fyr­ir­spurn frá Loga Ein­ars­syni, for­manni Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, um skuldir og eignir lands­manna í árs­lok 2019.

Í því svari kom fram að rík­asta 0,1 pró­sent fram­telj­enda á Íslandi áttu 282,2 millj­arða króna í eigin fé á þeim tíma. Hóp­ur­inn sam­anstendur af alls 242 fjöl­skyld­um. Því átti hver fjöl­skylda innan hóps­ins tæp­lega 1,2 millj­arða króna að með­al­tali í hreina eign. 

Auglýsing

Á árinu 2019 óx eigið fé 0,1 pró­sent rík­asta hluta þjóð­ar­innar um 22 millj­arða króna. Alls hefur það vaxið um 120 millj­arða króna frá árinu 2010, eða um 74 pró­sent. Hlut­falls­lega stendur hlut­deild þessa hóps af heild­ar­eignum þjóð­ar­innar í stað milli ára en fimm pró­sent af nýjum auði sem varð til á Íslandi í fyrra rann til hans. 

Í þessum tölum kom líka fram að eitt pró­sent rík­ustu Íslend­ing­arn­ir, alls 2.420 fjöl­skyld­ur, áttu 865 millj­arða króna í lok árs 2019 og juku eign sína um tæp­lega 63 millj­arða króna milli ára. Auður þessa hóps hefur auk­ist um 416 millj­arða króna frá árs­lokum 2010, eða 93 pró­sent.

Eign­irnar van­metnar

Eigið fé þessa hóps er reyndar stór­lega van­met­ið, og er mun meira en ofan­greindar tölur segja til um. Hluti verð­bréfa­eign­ar, hluta­bréf í inn­lendum og erlendum hluta­fé­lög­um, er metin á nafn­virði, en ekki mark­aðsvirði. Þá eru fast­eignir metnar á sam­kvæmt fast­eigna­mati, ekki mark­aðsvirði, sem er í flestum til­fellum hærra.

Það þýðir að ef verð­bréf í t.d. hluta­fé­lögum hafi hækkað í verði frá því að þau voru keypt þá kemur slíkt ekki fram í þessum töl­um. Úrvals­vísi­tala Kaup­hallar Íslands hefur til að mynda hækkað um næstum 80 pró­sent á rúmu ári. 

Þessi hópur er líka lík­leg­astur allra til að eiga eignir utan Íslands sem koma ekki fram í ofan­greindum tölum um eign­ir, en áætlað hefur verið að íslenskir aðilar eigi hund­ruð millj­arða króna í aflands­fé­lögum sem ekki hafi verið gerð grein fyr­ir. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar