Mynd: Bára Huld Beck Rann­veig Sig­urð­ar­dótt­ir og Ásgeir Jónsson
Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Mynd: Bára Huld Beck

Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði

Í nóvember sagði Seðlabanki Íslands fjárlaganefnd að greiðslubyrði allt að fjórðungs íbúðalána hefði lækkað frá byrjun árs 2020. Stærsta ástæða þess reyndist vera notkun fólks á eigin sparnaði í að greiða niður lán sín og milljarða framlag hins opinbera til þeirrar niðurgreiðslu.

Í minn­is­blaði sem Seðla­banki Íslands skil­aði inn til fjár­laga­nefndar 9. nóv­em­ber 2022 var því haldið fram að greiðslu­byrði 20-25 pró­sent lands­manna vegna íbúða­lána hefði lækkað frá byrjun árs 2020. Þar var sér­stak­lega til­tekið að það væri vegna þess að hóp­ur­inn, að uppi­stöðu þeir sem til­heyra þeim helm­ingi lands­manna sem hefur hæstu tekj­urn­ar, greiddi jafnar afborg­anir af lánum sín­um. Frá þessu var greint víða í fjöl­miðl­um.

Í öðru minn­is­blaði, sem Seðla­bank­inn skil­aði inn til fjár­laga­nefndar 12. des­em­ber síð­ast­lið­inn, og Kjarn­inn hefur undir hönd­um, kom fram að þetta var ekki að öllu leyti rétt. Seðla­bank­anum láð­ist að minn­ast á hlut­verk sér­eign­ar­sparn­aðar sem lán­taki getur valið að ráð­stafa inn á höf­uð­stól lána sinna í þess­ari þró­un. „Velji lán­taki að nýta sér­eign­ar­sparnað sinn til að greiða inn á höf­uð­stól lána sinna hefur það vita­skuld áhrif á greiðslu­byrði láns­ins og er að lík­indum önnur helsta ástæða þess að greiðslu­byrði lán­taka hefur minnk­að. Seðla­bank­inn býr þó ekki yfir gögnum til að leggja mat á hversu mikil áhrif þessi ráð­stöfun sér­eign­ar­sparn­aðar hefur á greiðslu­byrði stakra lán­taka.“

Rúm­lega fimmt­ungur þjóð­ar­innar – tæp­lega 40 pró­sent vinnu­mark­að­ar­ins – hefur nýtt sér það úrræði stjórn­valda að ráð­stafa sér­eign­ar­sparn­aði sínum skatt­frjálst inn á íbúða­lán. Í lok sept­em­ber síð­ast­lið­ins hafði sá hópur alls ráð­stafað 126 millj­örðum króna af sér­eign­ar­sparn­aði sínum inn á höf­uð­stól íbúða­lána sinna, sam­kvæmt hag­vísum Seðla­bank­ans. Frá því í byrjun árs 2020 hefur sú upp­hæð hækkað um 52,3 millj­arða króna. Þar af voru 19,1 millj­arður króna greiddur inn á höf­uð­stól lána með sér­eign­ar­sparn­aði í fyrra og 15,8 millj­arðar króna á fyrstu níu mán­uðum þessa árs. 

Þetta er sú upp­hæð sem Seðla­bank­anum láð­ist að taka til­lit til þegar hann reikn­aði út hækkun á greiðslu­byrði íbúða­lána. Þ.e. þau áhrif sem ráð­stöfun eigin sparn­aðar fólks inn á lánin hafði á hana.

Til að setja þessa tölu í sam­hengi þá voru heild­ar­út­lán lána­stofn­ana á Íslandi til heim­ila um 1.766 millj­arðar króna í lok októ­ber síð­ast­lið­ins. 

Skatt­afsláttur aðal­lega fyrir tekju­hærri hópa

​​Um er að ræða tvö úrræði. Ann­­ars vegar það sem felur í sér að hver sem er geti ráð­stafað sér­­­eign­­ar­­sparn­aði sínum skatt­frjálst inn hús­næð­is­lánið sitt og hins vegar það sem kall­­ast „Fyrsta fast­­eign“.

Fyrra úrræðið var hluti af „Leið­rétt­ing­unni“ svoköll­uðu, en hluti hennar fólst í því að að rík­­is­­sjóður greiddi 72,2 millj­­arða króna inn á verð­­tryggð hús­næð­is­lán hóps lands­­manna sem hafði verið með slík lán á árunum 2008 og 2009. Sam­tals voru greiddir 72,2 millj­­arðar króna inn á lánin og greiðsl­­urnar fóru að mestu til tekju­hærri og eign­­­­ar­­­­meiri hópa sam­­­­fé­lags­ins.

Leiðréttingin var eitt stærsta mál ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem sat frá 2013 og fram á árið 2016.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Hin hliðin á „Leið­rétt­ing­unni“ fól síðan í sér að lands­­mönnum áttu að vera gert kleift að nota sér­­­­­eigna­­­sparnað sinn skatt­frjálst til að borga niður hús­næð­is­lán sín í þrjú ár, frá miðju ári 2014 og fram til 30. júní 2017. Búið er að fram­­lengja þessa nýt­ingu þrí­­­vegis síð­­an: fyrst fram á sum­­­arið 2019, svo, í tengslum við gerð lífs­kjara­­samn­ing­anna, fram á mitt ár 2021 og loks var hún fram­­lengd í tvö ár í við­­bót í fyrra. Úrræðið er því í boði út júní 2023 sem stend­­ur.

Fyrir liggur að tekju­hærri hópar eru mun lík­legri en tekju­lægri að leggja fyrir í sér­eign­ar­sparn­að. Það lá fyrir áður en úrræðið var lög­fest. Í skýrslu sér­­fræð­inga­hóps um höf­uð­stólslækk­­­anir hús­næð­is­lána, sem skil­aði skýrslu til for­­sæt­is­ráðu­­neytis Sig­­mundar Dav­­íðs Gunn­laugs­­sonar síðla árs 2013, sagði ein­fald­lega: „Al­­­mennt eru tekjur þeirra sem spara í sér­­­­­eigna­líf­eyr­is­­­sparn­aði mun hærri en hinna sem ekki gera það.“

Þeir fá því skatt­afslátt sem aðrir geta ekki nýtt. Heild­ar­um­fang þessa skatt­afsláttar frá því að úrræðin voru sett á lagg­irnar 2014 og til loka sept­em­ber síð­ast­lið­ins var tæp­lega 31 millj­arður króna. Því hafa íbúða­lán þess hóps sem nýtir sér­eign­ar­sparn­að­ar­leið­ina verið nið­ur­greidd af hinu opin­bera, ríki og sveit­ar­fé­lög­um, um þá upp­hæð. 

Til við­­bótar virkar sér­­­eign­­ar­­sparn­aður þannig að vinn­u­veit­andi greiðir mót­fram­lag. Þar er um að ræða launa­hækkun sem er lög­­­fest og stendur ein­ungis þeim til boða sem velja að safna í sér­­­eign með þessum hætti.

Verð­hækk­un, verð­bólga og vaxta­hækk­anir

Greiðslu­byrði heim­ila lands­ins hefur verið mikið í umræð­unni und­an­farna mán­uði í kjöl­far þess að verð­bólga tók að hækka skarpt og stýri­vextir Seðla­banka Íslands sömu­leið­is. Verð­bólgan stendur nú í 9,6 pró­sentum og stýri­vext­irnir hafa verið hækk­aðir tíu sinnum í röð, úr 0,75 í sex pró­sent frá því í maí í fyrra. 

Skulda­­­staða heim­ila í hús­næði er afar mis­­­mun­andi. Því lægri sem lánin eru því minni áhrif hafa vaxta­hækk­­­­­anir á afborg­an­­­ir. Nýt­ing á skatt­frjálsum sér­eign­ar­sparn­aði hjálpar því til við að lág­marka áhrif á greiðslu­byrði. Auk þess eru 56 pró­sent allra íbúða­lána verð­tryggð. Í mik­illi verð­bólgu hækkar höf­uð­stóll þess hóps þegar verð­bætur leggj­ast á hann, en greiðslu­byrði á mán­uði verður fyrir minni áhrif­um.

Frá upp­­­hafi árs 2020 hefur íbúða­verð á höf­uð­­­borg­­­ar­­­svæð­inu, þar sem flestir lands­­­menn búa, hækkað um 50 pró­­­sent. Þeir eru að koma inn á íbúða­­­mark­að­inn á þessum tíma hafa því þurft að taka mun hærri lán en áður og verða því fyrir meiri áhrifum af verð­­­bólgu. Flestir þeirra hafa tekið óverð­tryggö lán.

Í nýj­ustu mán­að­ar­skýrslu Hús­næð­is- og mann­virkja­stofn­unar (HMS) kemur fram að frá miðju ári 2020 hafi greiðslu­­byrði fast­eigna­verðs á höf­uð­­borg­­ar­­svæð­inu hækkað um 34,7 pró­­sent ef miðað er við verð­­tryggð lán og heil 105,1 pró­­sent ef miðað er við óverð­­tryggð lán.

Um fjórð­ungur allra íbúða­lána eru óverð­­tryggð og á breyt­i­­legum vöxt­­um. Sá hópur tekur því á sig þessar vaxta­hækk­­­­­anir af fullum þunga. 

Greiðslu­byrði auk­ist um 130 þús­und á einu ári

Í skýrslu HMS kemur fram að greiðslu­­­byrði óverð­­­tryggðra lána sé nú 63.600 krónur fyrir hverjar tíu millj­­­ónir króna sem teknar eru að láni. Það þýðir að fyrir þann sem er með 50 milljón króna lán er greiðslu­­­byrðin á mán­uði 318.000 krón­­­ur. Í maí í fyrra, þegar stýri­vextir voru í sög­u­­­legu lág­­­marki, var greiðslu­­­byrði af láni upp á sömu upp­­­hæð 188.500 krón­­­ur. Hún hefur því hækkað um 129.500 krónur á einu og hálfu ári, eða um 69 pró­­­sent. Það er aukin greiðslu­­­byrði upp á rúm­­­lega 1,5 millj­­­ónir króna á ári.

Ef horft er styttra aftur í tím­ann, til maí 2022, hefur greiðslu­­­byrðin af ofan­­­greindu láni hækkað um 89.500 krónur á mán­uði, eða um 39 pró­­­sent. 

Ofan á þetta eru 4.451 heim­ila með óverð­­­tryggð lán á föstum vöxtum sem komi til end­­­ur­­­skoð­unar næsta árið. Fjöldi heim­ila lýkur líka fast­­­vaxta­­­tíma­bili sínu á árinu 2024 en alls koma 340 millj­­­arðar króna í óverð­­­tryggðum íbúða­lánum til vaxta­end­­­ur­­­skoð­unar á þessum tveimur árum. Á árinu 2025 koma svo lán upp á 250 millj­­­arða króna í við­­­bót til end­­­ur­­­skoð­un­­­ar, en þorri þeirra lána eru óverð­­­tryggð. 

Því er ljóst að stór hluti heim­ila í land­inu annað hvort býr við veru­­­­lega auk­inn hús­næð­is­­­­kostnað eða sér fram á veru­­­­lega aukn­ing­u.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar