Birgir Þór Harðarson

Eignameiri helmingurinn fékk 52 milljarða út úr Leiðréttingunni

Rúmlega þriðji hver framteljandi átti rétt á Leiðréttingu. Sá helmingur þjóðarinnar sem átti mestar eignir fékk 72 prósent alls þess fjár sem greitt var út vegna aðgerðarinnar. Hinn helmingurinn fékk 28 prósent.

Um 35 prósent framteljenda áttu rétt á því að fá niðurgreiðslu á höfuðstól húsnæðislána sinna í Leiðréttingunni, aðgerð sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar réðst í á síðasta kjörtímabili. Í henni fólst að 72,2 milljarðar króna voru greiddir úr ríkissjóði inn á höfuðstól lána hluta þeirra sem voru með verðtryggð húsnæðislán á árunum 2008 og 2009 eða í formi reiðufjár til þeirra sem áttu rétt á leiðréttingu en voru ekki lengur með húsnæðislán til að láta greiða inn á.

Í skýrslu sem fjármála- og efnahagsráðuneytið birti í síðustu viku, og sýnir í fyrsta sinn dreifingu Leiðréttingarinnar milli tekju- og eignahópa íslensks þjóðfélags, voru birt línurit og valdar upplýsingar um hvernig niðurgreiðslurnar skiptust. Kjarninn óskaði eftir því að fá upplýsingar um allar tölur á bak við línuritin og hefur nú fengið þær upplýsingar.

Í þeim kemur til að mynda fram að 20 prósent Íslendinga sem áttu mestar hreinar eignir fengu samtals 22,7 milljarða króna í leiðréttingu, eða tæplega þriðjung hennar. Sá helmingur þjóðarinnar sem á minnstu hreinu eignirnar fékk 28,01 prósent leiðréttingarinnar, eða 20,2 milljarða króna. Sá helmingur sem á mestar eignir fékk 71,99 prósent hennar, eða 52 milljarða króna.

Kjarninn fjallaði um þær upplýsingar sem hægt var að lesa úr skýrslunni í fréttaskýringu í síðustu viku. Hana má lesa hér. Í þessari umfjöllun verður fjallað um þær upplýsingar sem erfitt eða ómögulegt var að lesa úr skýrslunni en Kjarninn hefur nú fengið aðgengi að.

Miðað við skuldir, ekki eignir eða tekjur

Leiðréttingin miðaði ekki við tekju- eða eignastöðu fólks heldur skuldastöðu. Þ.e. það skipti engu máli hvað fólk átti í eignum né hvað það þénaði á mánuði þegar kom að því að ákveða hvað það ætti að fá í niðurfelldum skuldum, heldur bara hvað það skuldaði.

Þeir sem skulduðu mest fá mest greitt út úr leiðinni. Þeir eru líka sá hópur samfélagsins sem hefur hæstar tekjur og á mestar hreinar eignir. Raunar sýna tölurnar sem Kjarninn hefur fengið að því hærri tekjur sem viðkomandi hefur, því meiri líkur eru á því að hann skuldi. Þannig skulda um 83 prósent þess fimmtungs landsmanna sem þénar minnst ekki íbúðalán. Hjá þeim fimmtungi landsmanna sem þénar mest skuldar tæplega 56 prósent prósent þeirra sem tilheyra honum íbúðalán. Í ljósi þess að um línulegt ferli er að ræða – þeir sem þéna minnst eru ólíklegastir til þess að skulda íbúðalán og þeir sem þéna mest líklegastir – er auðvelt að draga þá ályktun að hærri tekjur auki verulega líkurnar á því að einstaklingur sé í færum til að eignast húsnæði og fá lán til þess.

35 prósent komu til greina

Alls eru húsnæðislánaskuldarar allra tekjubila samtals 71.542 samkvæmt þeim tölum sem fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur látið Kjarnanum í té. Um er að ræða bæði einstaklinga og samskattaða. Framteljendur á árinu 2014 voru um 272 þúsund samkvæmt tölum frá embætti ríkisskattstjóra. Þeir mynduðu 204.743 framtalseiningar, þegar tekið var tillit til þeirra sem voru samskattaðir. Því kom einungis um 35 prósent þeirra framteljenda sem greiddu skatta á Íslandi árið 2014 til greina sem beinir þiggjendur Leiðréttingarinnar. 65 prósent þjóðarinnar sem greiddi skatta féllu ekki undir skilyrði hennar þar sem þeir áttu ekki húsnæði eða skulduðu ekkert í því. Til þessa hóps má m.a. telja ungt fólk sem bjó í foreldrahúsum, á stúdentagörðum eða í öðru leiguhúsnæði. Þau hlaupa á tugum þúsunda. Þá er um 30 þúsund manna hópur sem skuldar ekkert í íbúðarhúsnæði sínu og fékk því ekkert út úr Leiðréttingunni.

Tekjuhæstir fengu langmest

Af þeim sem fengu lækkun á höfuðstól íbúðalána sinna úr ríkissjóði fékk tekjuhæsti hópurinn mest. Þau tíu prósent landsmanna sem þénuðu mest fengu 29,1 prósent upphæðarinnar. Það var einnig fjölmennasti skuldarahópurinn, en hann telur 15.686 manns. Samtals fór því um 21 milljarður króna til þessa hóps. Samtals fór 67,5 prósent heildarupphæðarinnar – 72,2 milljarða króna – til þeirra 30 prósent Íslendinga sem voru með hæstar tekjur. Sá hópur fékk 48,7 milljarða króna af heildarupphæðinni en hin 70 prósentin sem fengu niðurfærslu á lánum sínum 23,5 milljarða króna til að skipta á milli sín.

Hlutfall lækkunar á skuldum hvers og eins er afar svipað samkvæmt tölunum. Þegar þær eru settar fram með þeim hætti sést að hlutfall íbúðaskulda lækkar í kringum sex prósent af meðaltali hjá öllum tekjuhópum.

Eignamesti fimmtungur fékk 22,7 milljarða króna

Í skýrslunni sem birt var skömmu fyrir helgi kom fram að sú tíund landsmanna sem á mestar eignir, alls rúmlega 20 þúsund framteljendur, hafi fengið 13,3 prósent leiðréttingarupphæðarinnar í sinn hlut. Um er að ræða hóp sem átti að meðaltali 82,6 milljónir króna í hreina eign. Þ.e. eign þegar allar skuldir höfðu verið dregnar frá. Sú upphæð sem þessi hópur fékk úr ríkissjóði var 9,6 milljarðar króna.

Í skýrslunni var hins vegar ekki greint frá því með tölum hvernig heildarupphæðin skiptist nákvæmlega milli annarra eignahópa, heldur var birt línurit sem erfitt var að lesa staðfestar tölur út úr. Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans er skipting Leiðréttingarinnar niður á eignahópa opinberuð.

Þar kemur fram að sá fimmtungur landsmanna sem átti mestar eignir hafi fengið 31,5 prósent af leiðréttingunni, eða 22,7 milljarða króna. Rúmlega tveir þriðju hlutar hennar (67,31 prósent) runnu til þeirra 40 prósent landsmanna sem áttu mestar eignir, eða samtals 48,6 milljarðar króna. Sá tíu prósent hópur þjóðarinnar sem átti minnst af hreinum eignum fékk 12,33 prósent hennar, eða um 8,9 milljarða króna. Þau sextíu prósent þjóðarinnar sem tilheyra tekjubilunum á milli þess neðsta og þeirra þriggja efstu, fengu hins vegar einungis um 20,4 prósent af Leiðréttingunni í sinn hlut, eða um 15,7 milljarða króna.

Ef litið er á skiptinguna milli þess helmings sem átti mestar eignir og hins helmingsins sem átti litlar eða engar þá sýna tölurnar frá ráðuneytinu að 71,99 prósent af heildarupphæð Leiðréttingarinnar fór til eignameiri hluta framteljenda en 28,01 prósent til eignarminni hluta þeirra. Það þýðir að eignameiri hlutinn fékk 52 milljarða króna en eignaminni helmingurinn 20,2 milljarða króna. Þau 20 prósent þjóðarinnar sem átti mestar eignir fékk því hærri upphæð út úr Leiðréttingunni en sá helmingur hennar sem átti minnstu eignirnar. 

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar