Tekjuhæstu tíu prósentin fengu 30 prósent af Leiðréttingunni

Alls fór 86 prósent af Leiðréttingunni til tekjuhærri helmings þjóðarinnar en 14 prósent til þess sem var tekjulægri. Tíu prósent Íslendinga sem var með hæstu launin fékk 22 milljarða króna úr aðgerðinni, eða tæp 30 prósent alls þess fjár sem var ráðstafað úr henni.

Þau tíu prósent landsmanna sem þénuðu mest á árinu 2014 fengu tæplega 30 prósent af þeim 72,2 milljörðum króna sem ráðstafað var inn á fasteignaveðlán hluta landsmanna í gegnum Leiðréttinguna, niðurfærslu á verðtryggðum lánum sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hrinti í framkvæmd. Meðalheildartekjur þessa hóps árið 2014 voru 21,6 milljónir króna. Það þýðir að um 22 milljarðar króna hafi runnið til þess tíu prósent landsmanna sem hafði hæstar tekjur árið 2014 í gegnum Leiðréttinguna. Sú tíund Íslendinga sem átti mestar eignir, en meðaltalseign hópsins er 82,6 milljónir króna, fékk tæplega tíu milljarða króna úr ríkissjóði í gegnum Leiðréttinguna.

Til samanburðar fékk tekjulægri helmingur þjóðarinnar 14 prósent upphæðarinnar í sinn hlut, eða rúmlega tíu milljarða króna. Það þýðir að 86 prósent hennar fór til þess helmings þjóðarinnar sem hafði hærri tekjur. Þetta kemur fram í skýrslu um niðurfærslu verðtryggðra lána sem beðið var um í júní 2015, fyrir rúmum 19 mánuðum síðan. Skýrslan var birt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins í dag.

Alls er skýrslan átta blaðsíður og í henni er ekki að finna tæmandi upplýsingar um hvernig leiðréttingin skiptist á milli hópa Íslendinga. Flest svörin eru sett fram í gröfum sem erfitt er að sjá nákvæma skiptingu út úr.

Skýrslan er svar við fimm spurningum sem þingmenn stjórnarandstöðunnar settu fram í kjölfar þess að fyrri skýrsla um skiptingu Leiðréttingarinnar þótti ekki gefa fullnægjandi upplýsingar um hvernig hún skiptist á milli hópa samfélagsins, meðal annars eftir tekjum og eignum. Fyrri skýrsla hafði einungis sýnt hvernig Leiðréttingin hafði skipst milli þeirra hópa sem hana fengu, ekki hvernig sú skipting leit út þegar hinir sem áttu ekki rétt á henni voru taldir með.

Fyrsta spurningin snerist um hvernig heild­­ar­­upp­­hæð þeirrar fjár­­hæðar sem varið hefur verið til lækk­­unar verð­­tryggðra fast­­eigna­veð­lána ein­stak­l­inga skiptist milli beinnar höf­uð­stólslækk­­unar á fast­­eigna­veð­lánum ein­stak­l­inga og frá­­­drátt­­ar­liða, svo sem fast­­eigna­veð­krafna án veð­­trygg­inga, van­skila og greiðslu­­jöfn­un­­ar­­reikn­inga. Næstu tvær voru spurningar um hverjir frá­­­drátt­­ar­lið­irnir væru og hver er skipt­ingin milli þeirra í krónum talið, og hvert heild­­ar­hlut­­fall beinnar höf­uð­stólslækk­­un­­ar, þ.e. lækk­­unar höf­uð­stóls að und­an­­skildum frá­­­drátt­­ar­lið­um, af verð­­tryggðum fast­­eigna­veð­lán­um, væri?

Þessum spurningum er svarað öllum saman í skýrslunni.

Í svari ráðuneytisins kemur fram að heildarfjárhæðin sem ráðstafað var inn á fasteignaveðlán hafi verið 72,2 milljarðar króna, og þar af hafi 62,4 milljörðum verið ráðstafað sem beinni höfuðstólslækkun. 8,7 milljörðum hafi verið ráðstafað inn á greiðslujöfnunarreikninga, 1,3 milljarða króna inn á vanskil, áfallnar verðbætur eða vexti og 970 milljónir króna inn á fasteignaveðkröfur sem glatað hafa verðtryggingu. Hlutfall beinnar höfuðstólslækkunar af leiðréttingarfjárhæð sem ráðstafað var til lækkunar á höfuðstól fasteignaveðlána er 98 prósent, þar af eru greiðslur inn á greiðslujöfnunarreikninga 12 prósent en þeir eru hluti höfuðstóls.

Þeir sem áttu tugi milljóna fengu um tíu milljarða

Í fjórðu spurningu var spurt um hvernig heildarupphæðin sem varið var í Leiðréttinguna skiptist á milli tekna allra framteljenda árið 2014. Í svarinu kemur fram að lang stærsti hluti fjárins fór til þess hóps sem er í efri hluta tekjudreifingar landsmanna. Tölurnar eru þó ekki sundurliðaðar í krónum eða hlutföllum eftir tekjubilum heldur er birt graf með tekjutíundum og valdar upplýsingar úr því settar fram í texta. Þar kemur fram að tekjulægri helmingur landsmanna fékk tæplega 14 prósent af leiðréttingarfénu en tekjuhæstu tíu prósent þeirra fékk tæplega 30 prósent upphæðarinnar.

Fimmta og síðasta spurningin snerist um hvernig Leiðréttingin skiptist á milli eignarhópa. Í svari ráðuneytisins segir að þeir sem eru í efstu eignartíundinni, og áttu hreina eign yfir 82,6 milljónum króna, hafi fengið 13,3 prósent upphæðarinnar. Það þýðir að 9,6 milljarðar króna hafi farið til fólks sem átti 82,6 milljónir króna eða meira í hreinni eign. Samkvæmt grafi sem birt er með svarinu þá virðist tæplega 70 prósent upphæðarinnar hafa farið til þess helmings Íslendinga sem á mestar tekjur. Hinn helmingurinn, sá sem á litlar eða engar eignir, fékk því um 30 prósent upphæðarinnar.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar