Mynd: Pexels gjallarhorn
Mynd: Pexels

Upplýsingafulltrúar ráðuneyta og undirstofnana kosta hátt í 400 milljónir króna á ári

Launakostnaður upplýsingafulltrúa ráðuneyta hefur aukist um 40 prósent á þessu kjörtímabili. Fyrir utan þá eru margar undirstofnarnir ráðuneyta með starfsmenn sem sinna upplýsinga- og kynningarmálum.

Árlegur launa­kostn­aður vegna upp­lýs­inga­full­trúa sem störf­uðu í ráðu­neytum lands­ins var um 140 millj­ónir króna í fyrra og kostn­aður vegna slíkra sem störf­uðu hjá und­ir­stofn­unum ráðu­neyta var 246 millj­ónir króna. Það þýðir að heild­ar­kostn­aður vegna upp­lýs­inga­full­trúa sem starfa hjá ráðu­neytum og und­ir­stofn­unum þess var um 386 millj­ónir króna í fyrra. 

Þetta má lesa úr svörum sem ráð­herrar allra mála­flokka hafa tekið saman vegna fyr­ir­spurna Þor­steins Sæmunds­son­ar, þing­manns Mið­flokks­ins, um mál­ið. Kostn­að­ur­inn hefur auk­ist umtals­vert það sem af er kjör­tíma­bili, en hann var um 100 millj­ónir króna árið 2017. Það þýðir að kostn­að­ur­inn á síð­asta ári var um 40 pró­sent meiri en hann var á því ári, þegar kosið svar síð­ast á Íslandi.

Mis­mun­andi var hvort að ráðu­neytin gáfu upp kostnað vegna árs­ins 2020 að öllu leyti eða hvort þau gáfu hann ein­ungis upp að hluta. Í ein­hverjum til­vikum voru birtar tölur fyrir árið 2019. Í þeim til­fellum þar sem það vant­aði kostnað vegna síð­asta árs þá var reiknuð hóf­leg aukn­ing á kostn­að, í sam­ræmi við það sem tíðk­að­ist hjá öðrum ráðu­neyt­u­m. 

Auglýsing

Kostn­að­ur­inn í fyrra var mestur hjá for­sæt­is­ráðu­neyt­inu, 19,9 millj­ónir króna, og félags- og barna­mála­ráðu­neyt­inu, eða 15,2 millj­ónir króna. Ástæða þess að talan var svona há hjá for­sæt­is­ráðu­neyt­inu er sú að hún nær yfir launa­greiðslur vegna starfa upp­lýs­inga­full­trúa rík­is­stjórn­ar­innar og vegna greiddra bið­launa sem féllu til vegna starfs­loka upp­lýs­inga­full­trúa hennar á tíma­bil­inu. Hjá félags- og barna­mála­ráðu­neyt­inu voru bæði upp­lýs­inga­full­trúi og starfs­maður sem sinnti kynn­ing­ar­málum og vef­stjórn starf­andi hjá ráðu­neyt­inu á síð­asta ári. 

Mikið kostn­aður hjá und­ir­stofn­unum

Til við­bótar við þetta spurði Þor­steinn um upp­lýs­inga­full­trúa sem störf­uðu hjá stofn­unum sem heyrðu undir við­kom­andi ráðu­neyti. Sam­an­lagður kostn­aður við þá er áætl­aður um 246 millj­ónir króna á ári.

Vert er að taka fram að mis­jafn var hvernig ráðu­neyti svör­uðu. Sum skil­uðu ein­ungis inn nýj­ustu tölum fyrir árið 2019 og önnur gáfu ekki tæm­andi upp­lýs­ingar um nákvæman launa­kostn­að. Í svari mennta- og menn­ing­ar­mála­ráðu­neyt­is­ins sagði til að mynda að kostn­aður vegna kynn­ing­ar­mála væri „að með­al­tali 7 til 10 millj. kr. á ári hjá Land­bún­að­ar­há­skóla Íslands og Mennta­mála­stofn­un.“

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, spurði um kostnað vegna upplýsingafulltrúa.
Mynd: Bára Huld Beck

Í þeim til­vikum þar sem kostnað vant­aði vegna árs­ins 2020 var reiknuð hóf­leg hækk­un, í takti við aðra hækkun launa hjá stofn­unum hins opin­bera, á laun árs­ins 2019 til að finna út þá tölu. Í þeim tveimur til­vikum þar sem gefið var upp bil í kostn­aði var með­al­tal þess bils haft til hlið­sjónar við útreikn­ing á kostn­aði hins opin­ber­a. Út­reikn­ingar Kjarn­ans sýna að kostn­aður vegna upp­lýs­inga­full­trúa og þeirra sem starfa að kynn­ing­ar­málum hjá und­ir­stofn­unum ráðu­neyta hefur auk­ist um 22 pró­sent frá árinu 2017.

Auglýsing

Mestur var kostn­að­ur­inn vegna upp­lýs­inga­full­trúa hjá Seðla­banka Íslands, þar sem hann var tæp­lega 31 milljón króna í fyrra. Þar starfa tveir upp­lýs­inga­full­trúar eftir sam­ein­ingu Seðla­banka Íslands og Fjár­mála­eft­ir­lits­ins í byrjun síð­asta árs. Næst mestur var kostn­að­ur­inn hjá Land­spít­al­anum og Trygg­inga­stofn­un, rétt yfir 19 millj­ónir króna á ári. 

Aðstoð­ar­menn kosta á þriðja hund­rað millj­ónir króna á ári

Til við­bótar við þennan kostnað þá má rík­is­stjórn ráða sér allt að 25 aðstoð­ar­menn. Hver ráð­herra má ráða sér tvo og rík­is­stjórnin sjálf svo þrjá ofan á það. Ein­ungis er gert ráð fyrir kostn­aði vegna eins þeirra aðstoð­ar­manna, upp­lýs­inga­full­trúa rík­is­stjórn­ar­inn­ar, í ofan­greindum töl­u­m. 

Ef horft er á kostnað vegna aðstoð­ar­manna ráð­herra og rík­is­stjórn­ar­inn­ar, að frá­dregnum kostn­aði við upp­lýs­inga­full­trúa rík­is­stjórn­ar­inn­ar, var hann um 250 millj­ónir króna á árinu 2019. 

Því má ætla að árlegur kostn­aður við upp­lýs­inga­full­trúa ráðu­neyta og stofn­ana og aðstoð­ar­menn ráð­herra og rík­is­stjórnar sé allt í allt um 636 millj­ónir króna á ári. 

Margir hjá Reykja­vík­ur­borg líka

Næst stærsta stjórn­vald lands­ins, Reykja­vík­ur­borg, heldur einnig úti miklum fjölda upp­lýs­inga­full­trúa. Kjarn­inn greindi frá því í des­em­ber í fyrra að alls væru upp­­­­lýs­inga­­­­full­­­­trúar í níu stöð­u­­­­gildum hjá Reykja­vík­­­­­­­ur­­­­borg, þar af einn í 80 pró­­­­sent starfs­hlut­­­­fall­i. Þá stóð yfir ferli til að ráða til við­bótar teym­is­stjóra sam­skiptateymis borg­ar­inn­ar, sem til­kynnt var um hver yrði í byrjun þessa mán­aðar

Auglýsing

Í svar­i borg­­­ar­innar við fyr­ir­­­spurn Kjarn­ans um málið sagði að sex hafi verið í upp­­­­lýs­inga­­­­deild/­­­­sam­­­­skiptateymi sem starfi þvert á fagsviðin og tveir hjá umhverf­is- og skipu­lags­svæði, þar af annar í 80 pró­­­­sent starfi. Þá hafi einn nýlega ráð­inn í 100 pró­­­­sent starf hjá vel­­­­ferð­­­­ar­sviði.

Árlegur launa­­­­kostn­aður við þessi níu stöð­u­­­­gildi var um 102 millj­­­­ón­­ir. Til við­bótar við það bæt­ist launa­kostn­aður vegna nýráð­ins teym­is­stjóra. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar