Mynd: Borgarlína skyrslaborgo6.jpg
Mynd: Borgarlína

Sjö fróðleiksmolar um Borgarlínu

Af hverju er aftur verið að ráðast í þetta borgarlínuverkefni? Hvernig líta næstu áfangar þess út? Og hvað vitum við um væntan kostnað? Kjarninn tók saman nokkra mola um sögu og framtíð Borgarlínu.

Í upp­hafi mán­að­ar­ins kom úr frum­draga­skýrsla um fyrstu lotu Borg­ar­línu, sem beðið hafði verið eftir í nokkurn tíma. Skýrslan er rúmar 300 blað­síður og inni­heldur fyllri sýn en áður hefur feng­ist á verk­efn­ið.

Búið er að teikna upp drög að leið­inni sem á að fara og útfærslu hverra ein­ustu gatna­móta á leið­inni. Kjarn­inn tók saman nokkra mola um það sem framundan er og dregið er upp í skýrsl­unni, en einnig um það af hverju ákveðið var að koma á fót hágæða almenn­ings­sam­göngu­kerfi á höf­uð­borg­ar­svæð­inu.

1. Ekki bara sam­göngu­mál heldur líka lyk­ill að þróun byggðar

Borg­ar­lína er sam­vinnu­verk­efni sex sveit­ar­fé­laga á höf­uð­borg­ar­svæð­inu og rík­is­ins. Frá sjón­ar­hóli sveit­ar­fé­lag­anna sex er verk­efnið ekki ein­ungis sam­göngu­verk­efni, heldur líka byggða­þró­un­ar­verk­efni, en sam­eig­in­leg sýn sveit­ar­fé­lag­anna á höf­uð­borg­ar­svæð­inu er að borg­ar­svæðið hætti að þenj­ast út og bygg­ist frekar upp inn á við næstu ára­tug­ina.

Borg­ar­línan á að styðja við þessa þróun og sveit­ar­fé­lögin eru þegar farin að teikna upp hverfi og skipu­leggja fram­tíð­ar­upp­bygg­ingu með þeim hætti að Borg­ar­línan (og það að fleira fólk kjósi að nota almenn­ings­sam­göng­ur) er í reynd orðin nauð­syn­leg for­senda upp­bygg­ing­ar­inn­ar.

Sú er raunin til dæmis á Kárs­nes­inu og Hamra­borg í Kópa­vogi og einnig í nýju íbúða­hverfi sem verið er að skipu­leggja á Ártúns­höfða og Elliða­ár­vogi í Reykja­vík. Þar er ráð­gert að um það bil jafn margar íbúðir verði byggðar á næsta ára­tug og eru í öllum Graf­ar­vogi í dag.

2. Talin hag­kvæm­asta leiðin til að koma í veg fyrir að umferðin yrði að stöppu

Borg­ar­línan er þó líka mik­il­væg fyrir umferð­ina í borg­inni til fram­tíð­ar. Sveit­ar­fé­lögin á höf­uð­borg­ar­svæð­inu sam­mælt­ust um það á síð­asta ára­tug að það væri ekki fýsi­legt að halda áfram á þeirri braut að brjóta nýtt land í stórum stíl undir byggð og byggja alla þá fjár­freku inn­viði fyrir einka­bíla sem slík þróun kall­aði á, heldur þyrfti að breyta um stefnu og reyna að gera borg­ar­svæðið hag­kvæmara og sam­göng­urnar umhverf­is­vænni.

Sam­göngu­sviðs­myndir fyrir höf­uð­borg­ar­svæðið voru teikn­aðar upp í skýrslu frá verk­fræði­stof­unni Mann­viti sem kom út í upp­hafi árs 2014.

Í ljós kom að óbreytt stefna um upp­bygg­ingu íbúða hjá sveit­ar­fé­lög­unum gæti skilað því að fjöldi bíl­ferða á höf­uð­borg­ar­svæð­inu myndi aukast um 377 þús­und á sól­ar­hring á milli áranna 2010 og 2040. Einnig var áætlað að íbúar höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins myndu sam­an­lagt verja 62 þús­und fleiri klukku­stundum á bíl­unum sínum árið 2040 en þeir gerðu árið 2010. Búist var við að þeim myndi fjölga um 70 þús­und á tíma­bil­inu.

Auglýsing

Það var líka gerður sam­an­burður á því hvað það gæti kostað að feta mis­mun­andi leiðir í þessum efn­um. Að byggja áfram upp borg­ar­svæðið með því að brjóta mikið nýtt land undir byggð og verja fé til stofn­vega­fram­kvæmda án þess að stór­bæta almenn­ings­sam­göngur var met­inn lang­sam­lega dýr­asti kost­ur­inn. 

Þjóð­hags­legur ábati af því að skipta um kúrs í skipu­lags­málum á höf­uð­borg­ar­svæð­inu var þannig met­inn á tugi millj­arða króna. 

Það var því ákveðið að stefna að upp­bygg­ingu hágæða almenn­ings­sam­göngu­kerfis á höf­uð­borg­ar­svæð­in­u. 

Þegar talað er um „há­gæða almenn­ings­sam­göngu­kerfi“ er átt við kerfi sem ferð­ast um með hraða og áreið­an­leika, að mestu eða öllu leyti óháð annarri umferð. Ákveðið hefur verið að ráð­ast í bygg­ingu hrað­vagna­kerfis í sér­rými í stað þess að byggja upp létt­lest á tein­um, sem er dýr­ari kost­ur.

3. Stærstu vagn­arnir eiga að geta borið 160 manns í einu

Ekki er enn búið að kaupa vagna Borg­ar­lín­unnar eða kynna hverrar gerðar þeir verða. Í frum­draga­skýrsl­unni sem gefin var út í upp­hafi mán­aðar kemur þó fram að þeir verði lið­vagn­ar, ýmist 18 eða 24 metra lang­ir. Lengri vagn­arnir verða með tveimur liðum og eiga að geta borið allt að 160 manns.

Venju­legir stræt­is­vagnar á borð við þá sem nýj­astir eru í flota Strætó í dag eru um það bil 12 metra langir, til sam­an­burð­ar. Slíkir vagnar kosta nýir um og yfir 60 millj­ón­ir. Vagna­kaup eru ekki hluti af þeirri kostn­að­ar­á­ætlun sem sett hefur verið fram í tengslum við borg­ar­línu­verk­efn­ið.

Vagnar Borgarlínunnar verða allt að 24 metra langir.
Borgarlínan

Fyrir liggur sam­an­burður á mögu­legum orku­gjöfum fyrir vagn­ana, en end­an­lega ákvörðun um orku­gjafa á að taka á seinni stigum verk­efn­is­ins. Ákveðið hefur verið að þeir keyri um á inn­lendri, vist­vænni orku.

4. Margar strætó­leiðir byrja að nota sér­rýmið þegar það verður klárt

Borg­ar­línu­leið­irnar verða tvær í upp­hafi, en þó mun sér­rýmið í fyrstu lot­unni, sem á að ná frá Hamra­borg að mið­borg Reykja­víkur og þaðan upp á Ártúns­höfða, nýt­ast mun fleiri stræt­is­vagna­leið­um. Kort er dregið upp af þessu í frum­draga­skýrsl­unni sem kynnt var í upp­hafi mán­að­ar.

Þær strætóleiðir sem hér eru teiknaðar upp munu samkvæmt áætlunum nýta sér sérrými Borgarlínu að einhverjum hluta og geta ferðast eftir því óháð annarri umferð.
Borgarlínan

5. Ekki bara verið að hanna leiðir fyrir vagna

Auk sér­rýmis sem byggja á upp fyrir vagna Borg­ar­línu verða einnig byggðir upp hjóla­stígar og göngu­stíg­ar. 

Sam­hliða upp­bygg­ingu á fyrstu lotu Borg­ar­lín­unnar er gert ráð fyrir alls 18 kíló­metrum af nýjum hjóla­stígum og 9 kíló­metrum af göngu­stígum í þeim götu­myndum sem teikn­aðar hafa verið upp í drög­um.

6. Enn 40 pró­sent óvissa um kostnað

Kostn­aður við fyrstu lotu Borg­ar­línu er áætl­aður 24,9 millj­arðar króna, sam­kvæmt frum­draga­skýrsl­unni. Inni í þeirri tölu er kostn­aður við gerð sér­rým­is­ins, hjóla- og göngu­stíga, brú­ar­mann­virkja yfir Foss­vog og Elliða­ár­vog og borg­ar­línu­stöðv­anna á leið­inni.

Inni í þess­ari tölu er hins vegar ekki kostn­aður við aðrar fram­kvæmdir eins og veg­stokka á Sæbraut og Miklu­braut sem þó tengj­ast borg­ar­línu­verk­efn­inu náið.

Kostnaðaráætlun Borgarlínu eins og hún er framsett í skýrslunni. Tvær brýr eiga að kosta samanlagt um 5 milljarða króna.
Borgarlínan

Stokk­arnir tveir eru rétt eins og aðrar stofn­vega­fram­kvæmdir og borg­ar­línu­verk­efnið hluti af alls 120 millj­arða sam­göngu­fjár­fest­ingum sem ráð­ast á í á höf­uð­borg­ar­svæð­inu á næsta rúma ára­tug, sam­kvæmt sam­göngusátt­mála rík­is­ins og sveit­ar­fé­lag­anna.

Á þessu stigi hönn­unar fyrstu lotu Borg­ar­línu er enn gefin upp 40 pró­sent óvissa um heild­ar­kostn­að­inn. Hann á að skýr­ast frekar á næstu hönn­un­ar­stig­um, en þeir sem að verk­efn­inu standa segja eðli­legt að á frum­draga­stigi sé óvissa um kostnað 40 pró­sent.

Óvissan um kostnað er sögð einna mest á þeim kafla sem liggur frá Ártúns­höfða og í gegnum nýtt Voga­hverfi, en þar liggur útfærslan og sam­spilið við Sæbraut­ar­stokk ekki fylli­lega fyr­ir.

7. Fimm lotur í við­bót á áætlun en þessi fyrsta er lengst

Fyrsta fram­kvæmda­lota Borg­ar­línu hefur nú verið teiknuð upp og kynnt, en það eru fyrstu rúmu 14 kíló­metr­arnir af sér­rým­is­kerf­inu. Þegar er búið að draga upp fimm fram­kvæmda­lotur til við­bótar innan sam­göngusátt­mála höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins sem nær fram til árs­ins 2034 og eru þær lotur í heild­ina um 29,5 kíló­metrar að lengd.

Fimm lotur til viðbótar eru á framkvæmdaáætlun.
Borgarlínan

Næstu fram­kvæmda­lotur eru: 

  • Lota 2 Hamra­borg-Lind­ir, í gegnum Smár­ann um 4 km
  • Lota 3 Mjódd-BSÍ, um Voga og Miklu­braut um 4 km
  • Lota 4 Fjörð­ur­-­Mikla­braut, um Hamra­borg og Kringlu­mýr­ar­braut um 8 km
  • Lota 5 Ártúns­höfð­i-­Spöng um 5 km
  • Lota 6 Ártúns­höfð­i-Há­holt, um Keldur og Blika­staða­land, um 8,5 km

Ekki er þá öllu lok­ið, sam­kvæmt því sem fram kemur í frum­draga­skýrsl­unni, því þrátt fyrir að sam­göngusátt­máli ríkis og sveit­ar­fé­lag­anna á höf­uð­borg­ar­svæð­inu renni út árið 2034 hafa sveit­ar­fé­lögin markað sér stefnu um enn meiri Borg­ar­línu.

Áfangarnir sem áætlað er að standi eftir árið 2034 eru hér merktir með rauðu.
Borgarlínan
Þeir áfangar sem áætlað er að standi eftir árið 2034 eru:   • Eiðis­torg – HÍ um 2,5 km
  • Hlemmur – Laug­ar­nes um 2,5 km
  • Mjódd – Fell um 2,5 km
  • Lindir – Kórar um 4,0 km
  • Fjörður – Vellir um 3,0 km

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiInnlent