Hvernig breytir Borgarlínan götunum?

Frumdrög að fyrstu lotu Borgarlínu hafa verið birt. Þar fæst skýrari mynd af því en áður hefur komið fram um hvernig Borgarlínan gæti breytt samgönguskipulaginu á þeim götum sem hún fer um. Gert er ráð fyrir einstefnu fyrir almenna umferð á Hverfisgötu og að fjölfarin hringtorg hverfi á braut á Suðurlandsbraut og Hringbraut. Kjarninn þræddi sig um fyrstu tillögurnar að Borgarlínu, legg fyrir legg.

Fyrstu heildstæðu tillögurnar að útfærslu Borgarlínunnar líta dagsins ljós í nýrri skýrslu sem opinberuð var í dag. Þessi rúmlega 300 blaðsíðna skýrsla inniheldur frumdrögin að fyrstu lotu Borgarlínunnar.

Í henni má meðal annars kynna sér hvernig áætlað er að sérrými Borgarlínu muni liggja frá Ártúnshöfða að miðborg Reykjavíkur, þaðan um svæði bæði Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík í Vatnsmýrinni, yfir Fossvogsbrú, upp Kársnes og að Hamraborg í Kópavogi. 

Reiknað er með að fyrstu tvær Borgarlínuleiðirnar, frá Hamraborg að miðborg og Ártúnshöfði að Miðborg, gætu verið teknar í notkun árið 2025, samfara heildstæðri innleiðingu á nýju leiðaneti Strætó.Kostnaðaráætlun 1. lotu Borgarlínu eins og hún er sett fram í skýrslunni.

Heildarkostnaður við þessa fyrstu lotu Borgarlínu er áætlaður um 24,9 milljarðar króna, samkvæmt skýrslunni. Þar af eru um 18,65 milljarðar sem falla undir framkvæmdaáætlun Borgarlínu og hjólaleiðanets, sem eru innan samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. 

Um 5,5 milljarðar króna eru áætlaðir í framkvæmdir sem Reykjavíkurborg stendur straum af. Gert er ráð fyrir 40 prósent óvissu í kostnaðaráætlun á þessu stigi hönnunar, en slíkt er venjan þegar verkefni eru á frumdragastigi. 

Næsta skref er að ráðast í forhönnun verkefnisins og er gert er ráð fyrir að sú vinna gæti verið langt komin um mitt ár 2022. Í kjölfar þess kemur að lokastigi hönnunar, sem kallast verkhönnun, en stefnt er að því að vinna hana í áföngum þannig að hægt verði að bjóða út framkvæmdirnar jafnt og þétt.

vefsíða Borgarlínu var sett í loftið í dag, en þar er búið að taka margt af því sem fram kemur í frumdragaskýrslunni og setja fram með skýringarmyndum og útskýringum.

Götumyndir og gatnamót

Það eru ýmsar breytingar á borgarumhverfinu sem fylgja þessari fyrstu lotu, sem verður allt í allt 14,5 kílómetra löng. Tillögur að útfærslu hverra einustu gatnamóta á leiðinni eru teiknaðar upp í skýrslunni og sömuleiðis tillögur að því hvernig breyta skuli nýtingu og ásýnd göturýmisins á leiðinni. Hafa ber í huga að um frumdrög er að ræða og þessar fyrstu tillögur geta tekið breytingum síðar í hönnunarferlinu.

Auglýsing

Gert er ráð fyrir því að þar sem pláss er nægt verði sérrými Borgarlínunnar á tveimur akreinum fyrir miðju og akreinar fyrir almenna umferð og hjóla- og göngustígar verði á jöðrunum. Þannig er svokallað „kjörsnið“ Borgarlínu uppbyggt, en plássið er þó ekki alls staðar nægt til þess að það sé hægt að útfæra götumyndina með þessum hætti. Lagt er til að malbikið í sérrými Borgarlínu verði rautt á litinn.

Borgarlínan

Í skýrslunni er fyrstu lotunni skipt upp í sex leggi og fjallað er um mismunandi aðstæður í hverjum og einum þeirra. Kjarninn skoðaði frumdragaskýrsluna og tók saman nokkra mola um hvern og einn legg, áætlaða legu Borgarlínunnar um mismunandi svæði og breytingar á samgönguskipulagi sem lagðar eru til.

Óútfært hvar Elliðaárvogur verður þveraður

Í fyrsta leggnum, frá Ártúnshöfða og að suðurenda Suðurlandsbrautar, er að stórum hluta verið að fara um svæði sem er ekki búið að byggja upp, ennþá. Á slíkum svæðum er lítið mál að koma borgarlínubrautunum haganlega fyrir. Gert er ráð fyrir því að Stórhöfði verði að hluta til bíllaus gata ofan Breiðhöfða, þar sem einungis almenningssamgöngur og hjólandi og gangandi fólk fari um.

Fram kemur í skýrslunni að ýmis útfærsluatriði séu eftir á þessum legg, til dæmis varðandi hvernig bílaumferð inn í nýja Vogahverfið verði með tilkomu Sæbrautarstokks. Því er ekki enn búið að útfæra endanlega legu Borgarlínu yfir Elliðaárvoginn, en þar stendur til að byggja brú sem verður einungis fyrir almenningssamgöngur, gangandi og hjólandi.

Suðurlandsbraut tekur stakkaskiptum

Annar leggurinn er frá suðurenda Suðurlandsbrautar að Hlemmi. Á þessum kafla er í dag að mestu leyti fjögurra akreina umferðarþung breiðgata, en í frumdragaskýrslunni er gert ráð fyrir miklum breytingum á þessum kafla.

Til dæmis er tillaga um að hringtorgið á gatnamótum Suðurlandsbrautar og Skeiðarvogs verði fjarlægt og ljósagatnamót sett þar í staðinn. Síðan er áætlað að Suðurlandsbrautin frá Skeiðarvogi, meðfram Laugardalnum og að Laugavegi verði með tvöfaldri borgarlínubraut í miðjunni og einni akrein fyrir bíla sitthvoru megin.

Í skýrslunni er umfjöllun um það hvernig mismunandi götumyndir voru metnar með tilliti til margra þátta. Suðurlandsbraut er þar tekin sem dæmi.
Borgarlínan

Einnig er gert ráð fyrir því að hjóla- og göngustígar verði beggja vegna Suðurlandsbrautar og svæðið undir bílastæði fyrir framan byggingar sunnan Suðurlandsbrautar verði minnkað verulega, en stór hluti þeirra er á landi Reykjavíkurborgar.

Búist er við að þessar breytingar á götunni dragi úr umferðarþunga á henni og að bílaumferð leiti annað, þá helst um Sæbraut og Miklubraut.

Einstefna fyrir bíla á Hverfisgötu

Í umræðum um Borgarlínu undanfarin misseri hafa sumir spurt sig að því hvernig eigi eiginlega að koma sérrými fyrir borgarlínuleiðir í gegnum elsta hluta Reykjavíkur, miðborgina. Samkvæmt frumdragaskýrslunni verður Borgarlína aðeins að hluta til í sérrými í miðborginni.Tillaga um umferðarskipulag á gatnamótum Hverfisgötu og Snorrabrautar.

Töluverðar breytingar verða þó gerðar á samgönguskipulagi. Gert er ráð fyrir að einstefna verði fyrir almenna bílaumferð til austurs á Hverfisgötu og einungis almenningssamgöngum verði heimilt að aka til vesturs. Einnig er lagt til að Laugavegur ofan Hlemms og kafli Hverfisgötu á milli Snorrabrautar og Barónsstígs verði einungis fyrir almenningssamgöngur, hjólandi og gangandi.

Á Hverfisgötunni er gert ráð fyrir að sameiginlegir göngu- og hjólastígar verði til hliðar við akbrautirnar, en þó er einnig búist við að margir kjósi að hjóla á götunni. Meðal annars vegna þessa er lagt til að hámarkshraði á Hverfisgötunni verði 20 km/klst. 

Í Lækjargötu er gert ráð fyrir því að Borgarlínan verði með tvöfalda braut fyrir miðju og bílaumferð verði á einni akrein hvoru megin. Síðan er gert ráð fyrir að Borgarlína fari um Vonarstræti í blandaðri umferð til vesturs og þar næst inn Suðurgötu áleiðis að Háskóla Íslands, sömuleiðis í blandaðri umferð, en einstefna er nú þegar í Suðurgötu.

Borgarlínan

Þegar Borgarlínan kemur úr hinni áttinni, frá Háskóla Íslands og að miðborginni, er hins vegar tekinn öfugur hringur um Tjörnina og farið um Skothúsveg og síðan Fríkirkjuveg, í blandaðri umferð. Tekið er fram í skýrslunni að skoða þurfi hvort brúin yfir Tjörnina á Skothúsvegi sé nógu sterk til að þola sífellda umferð allt að 24 metra langra borgarlínuvagna.

Við Fríkirkjuveg er lagt til að ekið verði í blandaðri umferð „til að tryggja að ekki þurfi að breikka göturýmið með mögulegum áhrifum á lífríki Tjarnarinnar.“ Í skýrslunni segir þó einnig að líkur séu á að umferð bíla um Fríkirkjuveg aukist töluvert á næstu árum og því séu líkur á að Borgarlínan lendi þar í töfum. Það þurfi að skoða betur, en á þessum tímapunkti er einungis lögð til sú breyting á götunni að bílastæði verði fjarlægð og göngu- og hjólastígar bættir.

Farinn hringur um svæði Háskóla Íslands

Næsti leggur er um svæði Háskóla Íslands, en lagt er til að ekinn verði hringur um svæðið og stoppistöðvar verði við Þjóðminjasafn, Veröld - hús Vigdisar og Vísindagarða á Sturlugötu.Lagt er til að stóra hringtorgið á gatnamótum Hringbrautar og Suðurgötu verði fjarlægt.

Lagt er til að hringtorgið mikla á gatnamótum Suðurgötu og Hringbrautar verði fjarlægt og þar komi ljósagatnamót í staðinn. Borgarlína verði síðan í sérrými á Suðurgötunni að Sturlugötu og þræði sig svo í blandaðri umferð gegnum háskólasvæðið, framhjá Vísindagörðum og svo aftur yfir Hringbrautina að BSÍ. Gert er ráð fyrir ljósagatnamótum á gatnamótum Sæmundargötu og Sturlugötu.

Ákveðið var að stefna að því að fara með Borgarlínu inn á háskólasvæðið, í stað þess að fara einfaldlega um Hringbraut. Þessi hringur lengir leiðina um 700 metra fyrir þá sem ekki eiga erindi á háskólasvæðið, en var samt talið besta leiðin til þess að stækka farþegagrunn Borgarlínu.

„Háskólanemar eru mikilvægur markhópur almenningssamgangna en kalla má Háskóla Íslands fjölmennasta vinnustað landsins. Auk þess munu margir koma til með að starfa í Vísindagörðum í framtíðinni. Lega um Suðurgötu og Sturlugötu nær að sinna þessum markhópi betur en lega línunnar um Hringbraut,“ segir í skýrslunni.

Einnig var til skoðunar að fara enn lengri hring um háskólasvæðið og hafa stoppistöð á Eggertsgötu. Það var þó álitið óhagkvæmara, bæði myndi ferðatíminn lengjast enn meira fyrir þá sem ættu ekki erindi á svæðið og kostnaðarsamara væri að breyta götumynd Eggertsgötu en Sturlugötu. Umræða um þessa valkosti er á bls. 218 í skýrslunni.


Auglýsing

Miklabrautarstokkur breytir aðkomu að Vatnsmýri

Í næsta legg er gert ráð fyrir að Borgarlínan þræði sig í sérrými framhjá BSÍ og síðan í gegnum Landspítalasvæðið um nýju götuna Burknagötu á leið sinni niður í Vatnsmýri og yfir á Kársnes. 

Á Burknagötu, rétt eins og raunar alls staðar annarsstaðar í sérrými Borgarlínu, er gert ráð fyrir að neyðarbílar á borð við sjúkrabíla megi fara um. Lagt er til að hópferðabílar og leigubílar fái hins vegar ekki að nýta sér sér sérrýmið.

Borgarlínan

Á þessum legg er gert ráð fyrir tilkomu Miklubrautarstokks, sem þýðir að Snorrabrautiná að geta farið beint yfir hann inn að Arnarhlíð á Hlíðarenda. Með Miklubrautarstokknum færist sú mikla bílaumferð sem einkennir svæðið neðanjarðar.

„Við það gefst tækifæri til nýrrar notkunar á svæðinu og um leið möguleiki á að hnýta saman nærliggjandi íbúahverfi og þróunarreiti, s.s. Hlíðarenda, Hlíðar, Norðurmýri og Skógarhlíð, sem í dag eru aftengd með fjölförnum gatnamótum Hringbrautar og Snorrabrautar/Bústaðavegar,“ segir um þetta í skýrslunni. 

Miklubrautarstokkur er sagður mikilvæg forsenda fyrir þeirri leið sem dregin hefur verið upp og samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni er stefnt að því að fyrsti hluti þeirrar framkvæmdar verði stokkamunninn frá enda Hringbrautar upp að Rauðarárstíg.

Frá Hlíðarenda á borgarlínuleiðin svo að liggja að Háskólanum í Reykjavík, en þar á enn eftir að útfæra nákvæmlega hvernig aðkoma bæði Borgarlínu og bíla verður. Frá HR liggur leiðin svo yfir Fossvogsbrú, sem ráðgert er að verði einungis fyrir almenningssamgöngur, hjólandi- og gangandi.

Farið um Borgarholtsbraut á Kársnesi

Þegar yfir brúna verður komið fer Borgarlínan smá spöl í blandaðri umferð á Bakkabraut sunnan Vesturvarar og að Kópavogshöfn. Síðan fer línan um nýtt tvöfalt sérrými sem til stendur að byggja upp á vesturenda Borgarholtsbrautar, bæði til þess að mýkja beygjuhornið og minnka langhalla í götunni, sem talinn er of mikill fyrir Borgarlínu. 

Einungis verður sérrými í aðra áttina á Borgarholtsbraut. Lagt er upp með að Borgarholtsbrautin verði einstefna til vesturs fyrir almenna umferð austan Þingholtsbrautar og upp að Sundlaug Kópavogs. Í umfjöllun í skýrslunni segir að breidd götusniðsins milli lóðamarka á Borgarholtsbraut setji „þröngar skorður á mögulegar útfærslur svo sem með breidd stíga og aðskilnað milli ólíkra ferðamáta.“

Borgarlínan mun, þegar hún verður komin í rekstur, fara þessar tvær leiðir og vagnarnir því aka umfram sérrýmið. Sérrýmið mun þó einnig nýtast mörgum öðrum leiðum í strætókerfinu.
Borgarlínan

„Við áframhaldandi skipulagsvinnu fyrir Borgarholtsbraut ætti að stefna að því til lengri tíma að breidd götunnar verði aukin að einhverju marki þannig að koma mætti fyrir góðum aðskildum göngu- og hjólastígum. Einnig ætti að stefna að því að innkeyrslum yrði fækkað eða sameinaðar milli lóða. Væri kjörið að slík stefnumörkun, sem og möguleg breytt landnotkun á hluta Borgarholtsbrautarinnar, yrði skilgreind nánar í fyrirhugaðri Hverfisáætlun fyrir Kársnesið í samráði við íbúa hverfisins,“ segir um þetta í skýrslunni.

Frá gatnamótum við Urðarbraut verður Borgarlínan í blönduðum akstri til austurs og með sérrými til vesturs en frá Listabraut að Hamraborg verður sérrýmið í báðar áttir og akreinar fyrir aðra umferð beggja vegna að Hamraborg. 

Í umfjöllun um valkostina á Kársnesinu (bls. 296 í skýrslunni) kemur fram að skoðaðar hafi verið fleiri leiðir, en engin þeirra hafi haft kosti umfram það að fara Borgarholtsbraut frá Bakkabraut.

Mikil bílaumferð á Kársnesbraut var til dæmis talin draga um of úr greiðfærni Borgarlínunnar og sú leið hefði einnig verið með fleiri 90 gráðu beygjur sem lengja ferðatímann. Þá hefði plássleysi orðið til þess að ekki hefði verið hægt að hafa jafn mikinn hluta leiðarinnar í sérrými.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar