Hinn ljúfi risi

Jóhann Svarfdælingur

Hæsti maður sem vitað er um hér á landi var Jóhann Pétursson. Hann var kallaður Jóhann Svarfdælingur eða Jóhann risi hér heima en erlendis var hann þekktur undir nöfnum á borð við The Viking Giant og Olaf. Hann var með erfiðan sjúkdóm sem hrjáði hann alla ævi og takmarkaði það sem hann gat unnið við. Saga Jóhanns er þó alls ekki samfelldur táradalur, heldur saga af manni sem með auðmýkt náði að gera fötlun sína að styrkleika.

Óx hratt á unglingsárum

Jóhann risi mundar nikkunaJóhann Kristinn Pétursson var fæddur þann 9. febrúar árið 1913 á Akureyri. Hann var þriðja barn af níu hjónanna Péturs Gunnlaugssonar og Sigurjónu Steinunnar Jóhannsdóttur. Hann bjó á Dalvík fyrstu æviárin en fjögurra ára fluttist hann með fjölskyldu sinni að bænum Brekkukoti í Svarfaðadal í vestanverðum Eyjafirði og var hann ætíð kenndur við dalinn síðan hérlendis. En fjölskyldan var mjög fátæk, þrengsli mikil og margir munnar að fæða og því var hann barnungur sendur í fóstur á bæinn Syðra-Hvarf í Skíðadal, innan af Svarfaðadal. Þar bjó hann til þrettán ára aldurs uns hann fluttist með fjölskyldu sinni að bænum Jarðbrú í Svarfaðadal árið 1926. Það var einmitt um þetta leyti sem Jóhann byrjaði að vaxa ört, en ekkert af hinum systkinunum var óvenjulega hávaxið. Hann missti föður sinn fjórtán ára gamall og þurfti því að taka til hendinni á bænum. Það reyndist honum létt verk þar sem hann var rammur að afli. Hann var einstaklega vel liðinn á unglingsárum sínum, var hlý og skemmtileg persóna og stærðin var ekki farin að valda honum miklum vandræðum utan þess að vaxa sífellt upp úr fötum sínum. En hann hélt áfram að vaxa þegar jafnaldrar hans höfðu náð fullri hæð sinni og um tvítugt var hann farinn að finna fyrir eymslum í baki og liðum. Fyrstu alvarlegu einkennin komu fram eftir að hann byrjaði að sækja sjóinn. Honum þótti sjósókn skemmtileg og ætlaði að leggja hana fyrir sig en eftir nokkur ár í þröngum stígvélum fékk hann mikil sár á fæturnar og var sendur til Akureyrar á sjúkrahús. Læknirinn Steingrímur Matthíasson annaðist Jóhann og græddi húð af handleggjum hans á fæturnar en aðgerðin var stór og Jóhann lá inni í tæp tvö ár á sjúkrahúsinu. Steingrímur hugðist fara með hann til rannsókna og á læknaþing í Kaupmannahöfn en fjármagn skorti. Læknirinn kunni þó ráð við því, því að Jóhann var nú orðinn verulega hávaxinn.

Leið eins og sýningardýri

Jóhann kom fyrst fram á opinberri sýningu í Nýja Bíói í Reykjavík þann 18. júní árið 1935. Fjöldi fólks var samankominn til að líta Jóhann augum auk fyrirlestra frá læknum hans. Fyrir peningana sem söfnuðust héldu félagarnir út til Danmerkur á þingið. Þar voru íslensku læknarnir gagnrýndir fyrir að hafa ekki reynt að stöðva vöxtinn fyrr og í kjölfarið var Jóhann sendur í röntgenaðgerð til að stöðva vöxtinn. Hann var rannsakaður af lækninum Knud H. Krabbe og reyndist þá 220 sentimetrar. Aðgerðin virðist ekki hafa virkað sem skildi því að fjórum árum síðar var hann aftur mældur í Leipzig í Þýskalandi, þá hafði hann vaxið um þrjá sentimetra. Risar á borð við Jóhann verða til við offramleiðslu vaxtarhormóna og amerískir læknar veltu því fyrir sér hvort að sköddun á heiladingli, t.d. vegna höfuðhöggs, gæti hafa valdið þessu. Jóhann sjálfur mundi eftir mikilli byltu sem hann fékk fimm ára gamall þar sem hann lá rúmfastur í nokkura daga og húð rifnaði af höfði hans. Ekki hefur þó verið staðfest hvort að það hafi valdið þessum mikla vexti mörgum árum síðar. Í Danmörku voru settar á svið nokkrar sýningar t.d. í skemmtigarðinum Dyrehavsbakken. Í fyrstu leið honum illa með þetta. Hann einangraðist vegna þess að hann var samningsbundinn að vera ekki á ferli utandyra og honum þótti sýningarnar niðurlægjandi.

Mér þótti atvinnan mjög leiðinleg. Ég skammaðist mín hálfpartinn fyrir að vinna svona vinnu – Þetta var eins og verið væri að sýna apakött í búri.

Hann var kynntur sem hæsti maður veraldar, staðreynd sem erfitt er að sanna. Fólk hópaðist að að sjá hann og hann áttaði sig á því að hann gæti lifað á því að sýna sig.

Stríðsárin erfið

Jóhann túraði fyrst um Norðurlöndin en árið 1937 hélt hann suður á bóginn til Parísar. Þar fékk hann vinnu hjá Cirkus Midrano og klæddist í fyrsta skipti víkingabúning á sýningum. Ári seinna hélt hann til Þýskalands, sem þá var undir yfirráðum nasistanna, og fékk vinnu hjá sirkus manns að nafni Siebold. Algengt var að Jóhann kæmi fram með dvergum. Einn slíkur var kallaður “þumallinn” og var einungis 58 sentimetrar á hæð. Jóhann stóð í miðjunni og spilaði á harmonikku á meðan dvergarnir sungu og dönsuðu í kringum hann. Þegar stríðið braust út flúði Jóhann til Kaupmannahafnar þar sem hann dvaldi allt til stríðsloka. Stríðsárin voru honum erfið að miklu leyti. Hann hrjáðist af miklum veikindum og gat ekki unnið við sýningar. Þess í stað vann hann á skipasmíðastöð og lék jólasvein um hátíðarnar. Um leið og stríðinu lauk flutti hann heim til Íslands og setti þá á fót athyglisverða sýningu. Hann ferðaðist um landið með kvikmyndavél og sýndi erlendar kvikmyndir sem hann kom með sér frá Danmörku. Einnig steig hann á svið, sagði sögu sína og sýndi ýmsar brellur. Þessar sýningar voru vel sóttar en ferðalögin og gistingarnar reyndust honum erfiðar. Þá brá hann á það ráð að sækjast eftir því að opna tóbaksverslun en íslensk yfirvöld gáfu ekki leyfi fyrir því. Hann sá því að lítil framtíð væri fyrir hann hér á landi og fluttist loks út, til Bandaríkjanna árið 1948. Hann átti ekki eftir að heimsækja landið í 24 ár eftir það.

Ný tækifæri í Ameríku

John Ringling, eigandi fjölleikahússins Ringling Bros í Flórída, var mikill örlagavaldur í lífi Jóhanns. Ringling fékk Jóhann til að koma vestur um Atlantsála og sýna hjá sér. Frumsýningin var í Madison Square Garden í New York borg. Hann kom fram í smóking fötum með pípuhatt á þessum tíma og þénaði um 200 dollara á viku (sem gerir um 250 þúsund krónur á núvirði). Hann sýndi í öðrum fjölleikahúsum, þar á meðal hjá Barnum & Bailey og Glen Porter´s Side Show. Það var hjá þeim síðarnefnda sem Jóhann fór að klæðast víkingafötum á ný og markaðssetja sig sem „víkinga risann“ sem jók mjög vinsældir hans. Fjölleikahúsin störfuðu aðallega á sumrin og ferðuðust víða um Bandaríkin. Á veturna bjó Jóhann í lítilli íbúð í Flórída en safnaði þó nokkru fé. Árið 1963 sagði hann skilið við fjölleikahúsin, fjárfesti í eigin vagni og hélt sýningar eins síns liðs. 

Ævilok á heimaslóðum

Árið 1972 kom Jóhann loks í heimsókn til Íslands, þá tæplega sextugur. Hann var þá orðinn heilsuveill og gekk yfirleitt við staf, stundum tvo, vegna hryggskekkju. Hann gaf blaðamönnum nokkur viðtöl og talaði með nokkrum hreim en merkilega góða íslensku þó miðað við svo langa fjarveru án mikilla samskipta við Íslendinga. Þá kom á daginn að hann fylgdist vel með þjóðlífinu og samfélagsumræðunni hér heima og fékk send dagblöð út til Flórída. Hann gantaðist töluvert og kallaði sig stóran dverg en sagði jafnframt að stór ástæða fyrir heimkomunni væri sú að það væri gott að fá sérsniðin föt og skó hér á landi. Hann gæti hvergi keypt klæðnað í venjulegum verslunum. Hann heimsótti æskuslóðirnar fyrir norðan en hélt svo út til Flórída skömmu seinna. Eftir Íslandsförina seldi hann vagninn og settist í helgan stein. Árið 1975 kom hann aftur til að sækja læknisþjónustu. Hann þurfti á aðgerðum að halda og lá á sjúkrahúsi í um eitt ár og í endurhæfingu á Reykjalundi í nokkra mánuði eftir það. Þrátt fyrir heilsuleysi og hvatningu ættingja sinna um að setjast hér að fór hann aftur til Flórída uns hann lenti í slysi í bílskúr sínum í Tampa árið 1982. Eftir það kom hann til Íslands og dvaldi hér sín seinustu ár. Hann bjó á dvalarheimilinu Dalbæ í Dalvík uns hann lést þann 26. nóvember árið 1984 á fæðingarstað sínum Akureyri.

Einn af merkustu risum sögunnar

Það hefur verið deilt um hversu hávaxinn Jóhann var í raun og veru og sennilega ómögulegt að fullyrða neitt um það. Í fjölleikahúsunum var það auglýst að hann væri yfir 250 sentimetra hár en það er að öllum líkindum tóm vitleysa og auglýsingamennska. Hann var auglýstur sem hæsti maður veraldar sem á sér sennilega ekki neina stoð í veruleikanum, á neinum punkti ævi hans. Finninn Vainö Myllyrinne, sem var uppi á svipuðum tíma og Jóhann var um 250 sentimetra hár. Víða er fullyrt að Jóhann hafi verið 234 sentimetrar. Það myndi gera hann að einum af 50 hæstu mönnum sögunnar eða þ.e.a.s. frá tímum mælinga. Sjálfur sagðist hann hafa verið hæstur um 225 sentrimetrar sem þýðir að hann hafi hætt að vaxa einhvern tímann á stríðsárunum. Til samanburðar má nefna að hæsti maður allra tíma, Robert Wadlow var 272 sentimetrar, hæsti maður NBA deildarinnar Manute Bol var 231 sentimetrar og hæstu núlifandi Íslendingarnir, Pétur Guðmundson og Ragnar Ágúst Nathanaelsson (báðir körfuknattleiksmenn) eru 218 sentimetrar. Meðalhæð íslenskra karlmanna er tæplega 181 sentimetrar sem gerir þá eina af þeim hæstu í heiminum. 

Jóhann risi bregður á leik með ungum dreng.Það sem er hvað merkilegast við Jóhann er þó hversu langlífur hann varð. Menn sem verða hávaxnir sökum offramleiðslu vaxtarhormóna ná sjaldnast háum aldri. Einungis örfáir hafa náð sextugu en flestir deyja á þrítugs eða fertugsaldri. Jóhann varð 71 árs gamall þó að hann hafi þurft að glíma við töluverðan heilsubrest mest alla ævina. Hann var þó í ágætu ásigkomulagi miðað við marga af hæstu mönnum sögunnar. Flestir gengu við staf og sumir gátu varla staðið uppréttir.

Æðruleysið uppmálað

Íslendingum er tamt á að líta á Jóhann sem nokkurs konar fyrirbæri og það gleymist oft hveru sterk og litrík persóna hann var. Í upphafi gramdist honum hlutskipti sitt en svo virðist sem hann hafi samþykkt örlög sín og gert þau að styrkleika sínum. Sýningar hans voru langt því frá að vera eins og heimsókn í dýragarð. Hann setti á svið heilmiklar sýningar og varð vinsæll á eigin verðleikum. Hann þótti snjall og skemmtilegur, gat sagt vel frá og skemmt gestum með tónlist. Hann lék einnig í kvikmyndum, Prehistoric Women (1950) með Jayne Mansfield, Carny (1980) með Jodie Foster og heimildarmyndinni Being Different (1981). Þeir sem þekktu hann minntust hans sem einstaklega hlýs og viðkunnanlegs manns. Hann var auðmjúkur, fyndinn og ákaflega barngóður þrátt fyrir líf sem augljóslega hefur verið þyrnum stráð. Hann var líka Íslendingur í húð og hár þrátt fyrir að hafa búið lengi erlendis. Hann hélt samskiptalínum ávallt opnum við heimalandið og þráði fátt meira en íslenskan skyrhræring. Jóhann er grafinn í heimabæ sínum Dalvík og á byggðasafninu þar í bæ eru margir af munum úr fórum hans til sýnis. Þar á meðal eru föt, skór, reiðhjól, víkingabúningur og auðvitað harmónikkan.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiFólk