Mynd: Aldís Pálsdóttir

Sjálfstæðisflokkinn skortir umburðarlyndi

Áslaug Friðriksdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins fékk ekki sæti á lista flokksins fyrir kosningar í vor, eftir að hafa lotið í lægra haldi fyrir Eyþóri Arnalds í oddvitakjöri. Hún segist eiga nóg inni í stjórnmálunum og stefnir ótrauð áfram.

„Núna er maður bara að klára þetta kjörtímabil, það er ekki alveg búið, það eru tveir, þrír mánuðir eftir,“ segir Áslaug Friðriksdóttir fráfarandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Áslaug verður ekki á lista flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í maí eftir að hafa lotið í lægra haldi fyrir, Eyþóri Arnalds, í oddvitakjöri í janúar. Í kjölfarið vann kjörnefnd að uppstillingu í önnur sæti þar sem tillaga um hana í 2. sætið var felld í kosningu í nefndinni. „Ég sóttist eftir því að taka 2. sætið á listanum en það var fellt.“ Henni var ekki boðið sæti neðar á listanum. Það liggur því fyrir að hún mun fara í önnur störf eftir kosningarnar.

„Ég held að ég taki mér smá frí og svo fer ég bara að huga að nýjum verkefnum. Það er rosalega mikið að breytast hjá mér í einu. Ég er að skilja, ætla að fara að flytja og við þetta bætist að skipta um vinnu. Þannig að það er mikið að gerast hjá mér næstu mánuði,“ segir Áslaug. Hún segir samt að það sé ekki stórmál að hætta í borgarstjórn stjórnmálamenn viti aldrei hvað verður á næsta kjörtímabili og séu meðvitaðir um það að allt geti breyst. „Maður getur ekki gengið að neinu vísu í pólitík og þarf auðvitað alltaf að sækja umboð kjósenda sinna.“

Áslaug er bjartsýn á framtíðina. Hún segist vön að fást við alls kyns verkefni, hefur verið verkefnastjóri, unnið að stefnumótun og þarfagreiningum í mörgum verkefnum. Hún á hlut í ráðgjafarfyrirtæki sem sérhæfir sig í því að aðstoða fyrirtæki við að gera vefsíður og kerfi betri með til dæmis því að nýta notendaprófanir. „Ég hef ekki getað starfað þar með fullu starfi borgarfulltrúa og nú ætla ég bara að sjá hvað verður.“

Byrjaði í ólgusjó

Áslaugu var fyrst boðið 14. sæti á lista flokksins fyrir kosningar 2006. „Ég sagði bara já. Síðan náði Sjálfstæðisflokkurinn sjö borgarfulltrúum í kosningunum sem þýddi að ég varð varaborgarfulltrúi. Ég hafði ekki minnstu hugmynd um hvað fólst í því,“ segir hún glettin og bætir við að um miklu meiri vinnu hafi verið að ræða en hún bjóst við.

Hún byrjaði sem nefndarmaður í leikskólaráði. „Það hafði verið stofnað sérstaklega af því að þá voru langir biðlistar eftir leikskólavist og mikil mannekla, mjög keimlíkt því sem nú blasir við.“ Þar sat Áslaug meðal annarra með Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur fyrrverandi borgarfulltrúa flokksins, sem leiddi starf leikskólaráðsins, en Áslaug segist sjá mikið eftir Þorbjörgu úr starfinu.

„Þetta var auðvitað ævintýralegt kjörtímabil pólitískt séð og í rauninni rosalega skemmtilegt þó það hafi oft verið erfitt. Það verða þarna fjórir borgarstjórar á mjög skömmum tíma, það var mikill órói, bæði í borgarstjórninni sjálfri og innan flokkanna. Björn Ingi [Hrafnsson fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknar] var að fara út, stunginn í bakið, Vilhjálmur [Þ. Vilhjálmsson fyrrverandi oddviti Sjálfstæðisflokksins] hætti á tímabilinu og Hanna Birna [Kristjánsdóttir] tók við. Ólafur F. var borgarstjóri um tíma en Hanna Birna  myndaði síðan meirihluta með Óskari Bergssyni og framsóknarmönnum og þá loks fór að róast.“

Um þetta leyti varð hrunið og kreppan dundi á. „Undir stjórn Hönnu Birnu var ákveðið að vinna á þessum viðkvæmu tímum í mikilli pólistískri sátt. Stefnan var tekin á að segja starfsfólki ekki upp heldur fá alla með í að takast á við þess breyttu rekstrarforsendur. Ég var formaður menningar- og ferðamálaráðs á þessum tíma. Alls staðar var stefnan tekin á að skera niður eins og hægt væri, án þess að það kæmi niður á störfunum. Ég var efins um þessa stefnu í fyrstu en þetta gekk alveg ótrúlega vel. Þarna tókst Hönnu Birnu að loka fjárhagsáætlun með þessum nýjum leiðum á ótrúlegan hátt sem var afrek út af fyrir sig og seinna fékk borgin reyndar nýsköpunarverðlaun fyrir þessa vinnu. Þetta var mjög lærdómsríkt. Og þannig var siglt inn í kjörtímabil 2010, með pólitísku sáttina í forgrunni.“

Ný sýn á borgarskipulagið

Þó að það hafi oft verið mikill hasar og dramatík í pólitíkinni á þessu tímabili segir Áslaug að mikið hafi að gerast í borgarhugmyndafræðinni. „Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru  að móta hugmyndir um hina „nýju Reykjavík“. Þarna var Gísli Marteinn [Baldursson fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins] til dæmis að þróa grænu skrefin og við vorum að móta stefnu í átt að þéttingu byggðar og að nýrri sýn í samgöngum. Þá var á stefnuskrá flokksins að byggja í Vatnsmýrinni, þótt síðar vildu menn ekki kannast við það. Við höfðum unnið að þessari nýju sýn og þó að alltaf hafi verið ágreiningur um flugvallarmálið innan hópsins þá hafði flokkurinn þá stefnu að kanna hvort að finna mætti flugvellinum annað stæði.“

Mynd: Aldís Pálsdóttir

Áslaug segir að í þeim hugmyndum sem þróaðar voru á þessum tíma þegar Sjálfstæðisflokkurinn var í meirihluta hafi verið lögð áhersla á að gera stærri hluta Reykjavíkur áhugaverðan með þéttari byggð og ýta undir fjölbreyttari og vistvænni samgöngumáta. Þessari vinnu var áframhaldið í pólitískri sátt þó að Sjálfstæðisflokkurinn næði ekki inn í meirihluta 2010 eftir stórsigur Besta flokksins. Alla vega fyrst um sinn. En svo fór að gæta óþolinmæði og borgarstjórnarflokkurinn gagnrýndur fyrir að vera of mikið að vinna með meirihlutanum í stað þess að berja á honum og sýna þannig hversu ómögulegur meirihlutinn væri.  

Í aðdraganda prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í nóvember 2013 kom gríðarlegur ágreiningur í ljós um þessar hugmyndir sem varð til þess að Gísli Marteinn Baldursson, sem farið hafði mjög fyrir þeim, dró sig í hlé og ákvað að halda til annarra starfa. „Niðurstöður þessa prófkjörs urðu samt þær að við sem höfðum tekið þátt í að móta þessar nýju hugmyndir náðum ágætis árangri í prófkjörinu þrátt fyrir að við röðuðumst ekki í efstu sætin. Þorbjörg Helga, var þó ekki sátt við sinn hlut og ákvað í kjölfarið því miður að hætta afskiptum af borgarmálunum og var mikill sjónarsviptir af henni. Við Hildur Sverrisdóttir vorum áfram á listanum, stóðum í ströngu við að útskýra okkar sjónarmið og fengum á okkur heilmikla gagnrýni fyrir að ganga ekki takt.“

Áslaug segir þá gagnrýni ekki hafa verið sanngjarna í ljósi sögunnar. „Mér fannst mjög leiðinlegt að þetta mikla starf sem við höfðum unnið var í raun gjaldfellt í prófkjörinu vegna þess að innan flokksins voru ákveðin öfl sem fóru gegn þessum hugmyndum. Manni leið svolítið á þessu tímabili eins og flokkurinn vildi ekki ekki kannast við barnið sitt. Auðvitað voru alls konar skoðanir innan hópsins, til dæmis í afstöðunni til flugvallarins. Sumir vildu hann burt sama hvað og aðrir að við honum yrði ekki snert. Mitt sjónarmið hefur alltaf verið að það væri í góðu lagi að skoða hvort að til væri annað heppilegt flugvallarstæði en að hann yrði ekki færður án þess að það lægi fyrir.  Þegar Hanna Birna var í borgarstjóri hafði viðkvæðið verið að flugvallarmálið yrði unnið í sátt. Mér fannst það hið eðlilegasta mál. Hins vegar varð svo mikil harka í þessum málum og raddir um að allir þeir sem voru ekki til í að taka undir skilyrðislausan stuðning við að flugvöllur yrði í Vatnsmýri um eilífa framtíð fengu á sig þann stimpil að vera að svíkja sjónarmið flokksins. Samfélagmiðlarnir loguðu og flokksfundir hafa varla verið hatrammari. Þetta var hálf dapurlegt tímabil.“

Áslaug segir að á þessum tíma hafi henni verið farið að finnast vanta upp á bjartsýni í kringum borgarmálin hjá flokknum, gleði og áhugann á því að þróa áfram nýjar leiðir. „Margir kusu að hlusta frekar á óánægjuraddir sem alltaf koma upp í stað þess að leiða hlutina áfram. Samhliða þessari dvínandi gleði kvarnaðist úr hópnum töluvert af virkilega góðu fólki, bæði úr starfinu og ekki síst úr borgarstjórnarhópnum. Að sjá á eftir fólki sem var duglegt, hæfileikaríkt og reynslumikið í þessum málum, mér finnst það einfaldlega vera algjör synd.“

Hún segir þetta kjörtímabil sem senn tekur enda hafa einkennst af því að öll áhersla var lögð á að borgarstjórnarhópurinn kæmi sameinaður fram og talaði einu máli. „Auðvitað hefur það þýtt miklar málamiðlanir innan hópsins í stærstu ágreiningsmálunum. Ég tel að því reyndu að farsælla sé að gera ráð fyrir því að ólíkar hugmyndir séu innan allra hópa og gefa fólki frelsi til að hafa sínar skoðanir í stað þess að reyna að steypa öllum í sama mót. Fólk verður að hafa frelsi til að fara eftir sannfæringu sinni.“

Ýtt út

Áslaug sóttist eftir því að halda áfram í borgarmálunum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hún lenti í öðru sæti í oddvitakjörinu en var ekki boðið að taka sæti á lista. Margir voru hissa á því að aðeins einn núverandi borgarfulltrúa, Marta Guðjónsdóttir, fengi sæti á listanum en bæði Áslaug og Kjartan Magnússon væru þar hvergi sjáanleg.

„Ég varð  fyrir vonbrigðum með þau vinnubrögð sem áttu sér stað við uppstillingu listans. Um leið og það var tekin ákvörðun um að fara ekki í almennt prófkjör heldur oddvitakjör þá vissi ég að útkoman yrði tvísýn fyrir mig. Þar sem þessi leið hafði ekki áður verið farin voru leikreglur ekki skýrar og því mikil áhætta að gefa kost á sér í leiðtogakjörinu. Hins vegar held ég að við Kjartan höfum bæði metið það svo að þátttaka í leiðtogaprófkjörinu myndi ekki bitna á möguleika okkar á því að skipa sæti á listanum enda var ítrekað lögð áhersla á að þarna væri aðeins verið að velja þann sem myndi skipa fyrsta sætið. Einnig var ljóst að nægt rými var til að til að bæta við hópinn. Við vorum bara þrjú eftir borgarfulltrúar flokksins og líklegt að hópurinn myndi stækka með fjölgun borgarfulltrúa. Ég get því ekki tekið undir þær skýringar formanns kjörnefndar að niðurstaða leiðtogaprófkjörsins þýddi að við Kjartan hefðum ekki haft stuðning flokksmanna til að vera á listanum því kallað væri eftir meiri endurnýjun.“

Áslaug segir að hættan hafi alltaf verið sú að leiðin sem var farin gæti falið í sér að fámennur hópur handveldi þá sem þeim líkar en útiloki aðra. Hún telur að það hafi gerst og sé alls ekki ásættanlegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn með sínar lýðræðishefðir.

„Ég hef tekið þátt í átökum innan flokksins eins og alvanalegt er auðvitað í stjórnmálastarfi. Átökin í Reykjavík virðast  oft á tíðum ganga fyrst og fremst út á að ná og viðhalda völdum í stofnunum flokksins. Vissulega skiptir það máli því að það hefur síðan áhrif á hverjir skipa fulltrúaráðið, hverjir sitja í kjörnefnd og hverjir hafa aðgang að Landsfundi sem síðan mótar stefnuna. Þarna er hart barist en því miður á kostnað málefnanna sem falla í skuggann. Þetta gerir að verkum að fólk sem hefur áhuga á málefnunum ílengist síður í flokksstarfinu í Reykjavík. Það hafa ótrúlega margir sömu sögu að segja af því, fólki finnst þetta ekki spennandi vettvangur vegna þessarar hörku. Grasrótarstarfið í Reykjavík á að vera öflugur vettvangur skoðanaskipta og umræðu en er það því miður ekki að af þessum sökum.“

Þarna er hart barist en því miður á kostnað málefnanna sem falla í skuggann. Þetta gerir að verkum að fólk sem hefur áhuga á málefnunum ílengist síður í flokksstarfinu í Reykjavík. Það hafa ótrúlega margir sömu sögu að segja af því, fólki finnst þetta ekki spennandi vettvangur vegna þessarar hörku.

Hún segist upplifa það utan flokksins að fólk skilji þetta ekki. Þrátt fyrir að fólk nálgist starfið án þess að vilja neitt með þessi átök hafa, er það flokkað í ákveðna hóp eða arma eftir því með hverjum það kemur eða jafnvel hjá hverjum það situr á fundum. Þegar ég byrja í starfinu, upplifði ég það þannig að ég var án þess að hafa nokkuð haft með það að segja komin í ákveðin hóp. Það bara valdist þannig að ég kom inn, settist við hliðina á fólki sem mér fannst skemmtilegt og allt í einu var ég bara komin í einhverja klíku. Þetta þarf flokkurinn í Reykjavík að  yfirstíga vegna þess að stemmningin í grasrótinni má ekki bitna á fylgi flokksins.“

Áslaug segir það sjálfsagt að skoða nýjar leiðir við að velja framboðslista, en slíkt verði að gera vel ígrundað og í góðri sátt. „Mér finnst það ekki hafa heppnast núna. Ég veit það fyrir víst að það eru margir sem hafa unnið ötullega fyrir borgina og í borgarmálunum innan flokksins og höfðu mikinn áhuga á að fara í prófkjör fannst það súrt að heyra að nöfnin þeirra hlutu engan hljómgrunn hjá kjörnefndinni. Svona vinnubrögð skilja eftir sig djúp særindi og um leið er hætt við að það verði ekki eins mikil stemming í kosningaslagnum í vor. Mjög margir hefðu gefið kost á sér hefði verið farið í hefðbundið prófkjör að þessu sinni  enda kjöraðstæður fyrir Sjálfstæðisflokkinn að ná góðum árangri í kosningunum í vor og leikur einn ætti að vera að mynda meirihluta. Skoðanakannanir í ágúst á síðasta ári sýndu að fylgið var að mælast í kringum 34 prósent sem var mikilvæg vísbending.“

Spurning um viðhorf

„Mér finnst að Sjálfstæðismenn eigi að taka umræðu um ný þróunarverkefni opnum örmum. Við eigum að hætta að vera leiðinlegi karlinn í partýinu. Við eigum að vilja taka þátt, hefja samræður og  samstarf og taka þannig stjórn á verkefnum í stað þess að byrja á því að tala þau niður. Þetta er spurning um viðhorf. Stjórnmálamenn sem nálgast málefnalega umræðu í trúarbragðaformi og skotgröfum lenda í vandræðum til lengri tíma því þeir þurfa þá á endanum að gefa eftir eða sjá að sér. Eins og mörg dæmi hafa sýnt. Hlutirnir eru nefnilega ekki svona svarthvítir. Og stefnan getur alls ekki verið sú að fylgja einfaldlega því sem hver vill heyra hverju sinni.“

Áslaug segir þörf á að sjálfstæðismenn komi auga á tækifærin sem fólgin eru í því að höfða til breiðari hóps borgarbúa og vera umburðarlyndari gagnvart nýjum skipulagssjónarmiðum í borgarþróun. „Það að horfa á skipulagsmál með mismunandi hætti skilgreinir mann ekki sem vinstri eða hægri mann. Það sem skilur á milli hugmyndafræði hægri og vinstri manna er frekar hvernig hlutir eru framkvæmdir. Við Sjálfstæðismenn höfum barist fyrir fjölbreyttari þjónustu, bæði í skólakerfinu og í velferðarþjónustunni, viljum útvista verkefnum og nota útboð í meira mæli. Ef farið er að flokka fólk til hægri og vinstri eftir skoðunum þess á skipulagsmálum þá þrengist um og erfiðara verður að ná til þess breiða hóps sem flokkurinn rúmar annars. Nú þegar telja of margir sig ekki eiga samleið með flokknum í Reykjavík vegna þessa viðhorfs.“

Hún telur að til dæmis Borgarlínuverkefnið eigi vel við þá áherslu sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur á frelsi til að velja bæði á landsvísu og í borgarmálum. „Frelsi til að velja er ein aðaláhersla flokksins. Í sveitarstjórnum á höfuðborgarsvæðinu er í forystu frambærilegt sjálfstæðisfólk sem er að vinna á mjög svipuðum nótum og við vorum að gera í borginni hjá flokknum fyrir nokkrum árum. Þessar sveitarstjórnir sem hafa Sjálfstæðismenn í broddi fylkingar eru að vinna með meirihlutanum í Reykjavík þegar kemur að Borgarlínu”, segir Áslaug. Henni kemur hins vegar á óvart að í ljósi þessa sé ekki eitt orð að finna um Borgarlínu í glænýrri Landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins.

Þjónustu illa sinnt

Áslaug segir að vöxturinn í borgarkerfinu hafi verið mikill á síðustu kjörtímabilum. Mörg stöðugildi hafi bæst við og reksturinn sé ógagnsær. „Þetta ógagnsæi gerir að verkum að erfitt er að sjá þörfina fyrir þennan mikla vöxt og hvað skýrir hann.  Það er erfitt að taka ákvarðanir ef maður veit ekki í hvað tími fólks er að fara, hvernig á að meta verkefnin sem unnin eru innan kerfisins og hvernig þau skila sér. Þessu verður að breyta.“

Áherslan hafi líka verið alltof lítil á þá þjónustu sem borgin veitir undanfarin ár. „Þá er ég helst að tala um skólana.  Það hefur lítið sem ekkert verið gert í því. Það eina sem meirihlutanum dettur í hug að gera til að mæta þessum vanda er að setja af stað hina og þessa stefnumótunina. Mér finnst þetta alltaf lykta af því að þau séu að kaupa sér tíma. Á meðan magnast vandinn upp. Velferðarþjónustan þarf að fá innspýtingu. Nauðsynlegt er að hleypa nýsköpun að og gera þeim sem á henni þurfa að halda kleift að velja þjónustu á eigin forsendum og með því móti þróast hún best. Miklar breytingar eru framundan á samfélaginu sem knýja á um breytingar á því hvernig þjónustan er veitt.”

Hún segir að þrátt fyrir að hún tilheyri þeim hópi sem vildi skoða kosti þess að flugvöllurinn fengi nýtt stæði, vildi þétta byggð og taldi rétt að samþykkja aðalskipulagið, þýðir ekki að hún sé sátt við vinnubrögð meirihlutans og það sem hún kallar ósveigjanleika gagnvart breyttum forsendum í borginni. „Of einstrengingslega hefur verið unnið og þess ekki gætt að hafa íbúana samferða. Of bratt er hlaupið í framtíðarhugmyndir á meðan grunnþjónustu er ekki sinnt. Þarna verður að vera meira jafnvægi. Mér finnst að meirihlutinn í Reykjavík hlusti ekki nógu vel á borgarbúa og skil því vel þá óánægju sem í borginni kraumar. Það þarf að hlusta á fólk sem er farið að eyða auknum tíma í bílunum sínum í umferðartöfum og þegar þjónustunni við daglegt líf íbúa er stórlega ábótavant. Þegar ferðamannastraumurinn skall á borginni  og húsnæðisskorturinn varð óbærilegur lögðum við sjálfstæðismenn alla áherslu á að uppbyggingaráætlanir yrðu endurskoðaðar. Það var ekki gert og unnið of einstrengingslega eftir útrunnum áætlunum. Það var augljóst að það þurfti að bregðast við þessum breyttu forsendum með einhverjum hætti. Það var ekki gert.”

Mun flokkurinn minnka?

Aðspurð um afleiðingar þess að þau sjónarmið sem Áslaug stendur fyrir virðast ekki hafa átt upp á pallborðið við uppstillingu framboðslistans, segir hún: „Með þessu tekur flokkurinn þá áhættu að höfða til þrengri hóps en hann hefði annars gert nema að einhverjir á framboðslistanum tali til þess hóps. Ég er ekki sú eina sem er á þessari málefnalínu og veit að meðal nýrra frambjóðenda er fólk sem er sammála mér um margt. Ég vona að þeir frambjóðendur fylgi sannfæringu sinni og láti ekki þagga niður í sér.“

Hún segist hafa orðið meira og meira vör við þá kröfu að allir þurfi að hafa sömu skoðanir til að vera gjaldgengir innan flokksins í Reykjavík. „Ég tel að í gegnum tíðina hafi það verið einn helsti styrkleiki flokksins að hafa umburðarlyndi fyrir blæbrigðum skoðana innan hans. Þetta umburðarlyndi hefur verið ein forsenda þess að flokkurinn hefur verið jafn stór og raun ber vitni. Skortur á þessu umburðarlyndi mun ekki stækka heldur þvert á móti minnka flokkinn í Reykjavík.”  

Ljóst er, miðað við skoðanakannanir, að til að komast í meirihluta þarf Sjálfstæðisflokkurinn að mynda stjórn með öðrum flokkum. „Því er það ennþá mikilvægara að sýna samstarfsvilja og vera tilbúinn til að ræða nýjar hugmyndir. Með slíku viðhorfi er hægt að bryggja brýr. Neikvæðni og þröngsýni skila litlu. Það er ekki veikleiki að sýna samstarfsvilja og vilja leita nýrra leiða heldur þvert á móti styrkleiki. Mér hefur ekki fundist nægur skilningur vera fyrir þessu meðal Sjálfstæðismanna í Reykjavík.“

Því er það ennþá mikilvægara að sýna samstarfsvilja og vera tilbúinn til að ræða nýjar hugmyndir. Með slíku viðhorfi er hægt að bryggja brýr. Neikvæðni og þröngsýni skila litlu. Það er ekki veikleiki að sýna samstarfsvilja og vilja leita nýrra leiða heldur þvert á móti styrkleiki. Mér hefur ekki fundist nægur skilningur vera fyrir þessu meðal Sjálfstæðismanna í Reykjavík.

Ætlar hún í Viðreisn?

Fjöldi fólks hefur snúið baki við Sjálfstæðisflokknum af þessum og öðrum sökum á undanförnum misserum. Skemmst er að minnast stofnunar Viðreisnar þar sem finna má ógrynni af fyrrverandi sjálfstæðismönnum, oft með einhverjar skoðanir sem þóttu ekki heppilegar innan Sjálfstæðisflokksins. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi varaformaður flokksins leiðir nú Viðreisn og þar er einnig Pawel Bartoszek sem verður í öðru sæti á lista Viðreisnar í borginni.

Áslaug segir Pawel vera mjög sterkan hægri mann sem bjóði sig fram nú í kosningunum og að hann eigi svo sannarlega erindi í borgarstjórn. „Hann er því miður farinn úr okkar flokki. Hann er með mjög líka sýn og þá sem var að þróast hjá Sjálfstæðisflokknum á sínum tíma og skrif hans sýna að hann hefur góðar hugmyndir í mörgum öðrum málum. Að missa mann eins og hann er auðvitað mjög leiðinlegt. Ég á vini í Viðreisn og til tals kom að ég tæki sæti á lista flokksins. Eftir að hafa íhugað málið ákvað ég að gera það ekki.“

Aðspurð um hvort hún muni kjósa listann í kosningunum í vor segist hún ekki viss. Hún hafi alltaf kosið Sjálfstæðisflokkinn og myndi gera það í þingkosningum. Hún sjái hins vegar ekki skýrt hvert flokkurinn stefni í borginni. „Ég ætla bara að sjá hvernig þeim tekst að sannfæra kjósendur og þannig mig, um hvort ég eigi að kjósa þau. Ég hef þó þá tilfinningu að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík þurfi að skapa jákvæðari stemmingu og skoða nýja möguleika með opnum huga.“

En ætlar Áslaug að hætta alveg í pólitík? „Breytingar eru sjálfsagðar og maður á ekkert fyrirframgefið í stjórnmálastarfi. Ég hef átt sæti í borgarstjórn þetta kjörtímabil. Mér finnst það ekkert langur tími þannig að mér finnst ég eiga nóg inni,“ segir Áslaug og bætir við: „Það hafa verið algjör forréttindi að hafa fengið að starfa sem borgarfulltrúi. Starfið er frábært. Mínar áherslur hafa lotið að því að gefa borgarbúum meira val á öllum vígstöðvum hvort sem er í velferðarþjónustu eða samgöngum. Nóg er af verkefnum og það þarf ekkert að vera að ég sé hætt í pólitík.“

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFólk