Grafík: Birgir Þór Grein 1 eftir Ásgeir Friðgeirsson globalization_saman1Artboard 1@3x.png
Grafík: Birgir Þór

Heimskreppa, öngstræti hnattvæðingar og ný tækni valda usla

Stórfelldar breytingar á ólíkum samfélagsþáttum á síðasta áratug varpa ljósi á umrót stjórnmála á Vesturlöndum.

Ólga ein­kennir sam­fé­lög í Evr­ópu og á Vest­ur­löndum um þessar mundir sem birt­ist hvað skýr­ast í umróti á vett­vangi stjórn­mála. Heims­mynd okkar íbú­anna á þessu svæði hefur snar­breyst á minna en ára­tug. Vonin um frið og sam­starf þjóða og kyn­stofna sem var áber­andi um alda­mótin er orðin að ótta við átök og öfga sem sést best í miklum póli­tískum umhleyp­ingum í Bret­landi, Banda­ríkj­un­um, Frakk­landi og víð­ar.

Telja má víst að í hönd fari miklar sam­fé­lags­legar umbreyt­ingar sem við­brögð við umrót­inu og ólg­unni. Ýmsar skýr­ingar kunna að vera á þess­ari þjóð­fé­lags­þróun en þessi umfjöllun um ástandið skorð­ast við þróun efna­hags- og fjár­mála í aðra rönd­ina og breytta fjöl­miðlun í hina en þar með eru aðrar skýr­ingar ekki úti­lok­að­ar.

Stærstu umbrot í efna­hags- og fjár­málum á tímum núlif­andi kyn­slóða urðu í heimskrepp­unni 2008–2010. Þau bundu enda á mesta hrað­skeið hnatt­væð­ingar í mann­kyns­sög­unni sem hófst með hruni komm­ún­ism­ans í Aust­ur-­Evr­ópu seint á níunda ára­tug síð­ustu aldar og breyttu mjög þeirri sýn Vest­ur­landa­búa á fram­tíð­ina sem hafði þró­ast frá lokum síð­ari heims­styrj­ald­ar.

Fjöl­miðl­ar, á hinn bóg­inn, eiga þann þátt í umrót­inu að ný sam­skipta­tækni hefur á örfáum árum gjör­breytt hinu sam­fé­lags­lega sam­tali og segja má að hún hafi hrifsað fund­ar­stjórn sam­fé­lags­ins úr höndum hinna hefð­bundnu fjöl­miðla og gert umræð­una um mál­efni líð­andi stundar fjöl­breytt­ari en á sama tíma stjórn­laus­ari og óreiðu­kennd­ari.

Þar sem þessar öru breyt­ingar á sviði félags­legra sam­skipta og á efna­hags­legum veru­leika Vest­ur­landa hafa verið að eiga sér stað á næstum sama sögu­lega augna­blik­inu er erfitt að sjá hvaðan vindar blása og hvert straumar liggja á hverjum tíma. Í þessu grein­ar­korni og þeim sem á eftir fylgja verður reynt að sýna hvernig umrót sam­tím­ans er sam­ofið breyt­ingum á þessum tveimur mik­il­vægu en ólíku félags­þáttum – skoðað verður hvernig þessir þræðir liggja allir saman og sundur og saman aft­ur.

Skip­brot hnatt­væð­ingar

Í um tvo ára­tugi fram að krepp­unni 2008 eða allt frá falli Berlín­ar­múrs­ins, gekk yfir heim­inn mesta hrað­skeið hnatt­væð­ingar sem sagan greinir frá. Umskipti efna­hags á þeim tíma voru gíf­ur­leg. Við­skipti Austur og Vestur Evr­ópu juk­ust hratt eftir að klaka­bönd kalda stríðs­ins guf­uðu upp og Evr­ópa varð einn mark­aður undir reglu­verki Evr­ópu­sam­bands­ins.

Nýtt hag­kerfi hátækni og sam­skipta knúði banda­rískt hag­kerfi sem var vél­ar­rúmið í hag­kerfi heims og hin nýja tækni jafn­framt hrað­aði til muna öllum fram­leiðslu­ferlum og ekki síst mark­aðs- og sölu­þátt­um. Nýja hag­kerfið ýtti undir aukna verka­skipt­ingu í heim­inum sem á tíma­bil­inu tók stakka­skiptum þar sem almenn vöru­fram­leiðsla flutt­ist til Suð­austur Asíu. Í Kína hafa orðið til 70 milljón störf í fram­leiðslu­greinum á þess­ari öld en þau eru sam­tals 40 milljón í Evr­ópu og Norð­ur­-Am­er­íku í dag. Þessi upp­skipti hafa síðan átti sinn þátt í að koma millj­örðum manna til bjarg­álna í Aust­ur­löndum fjær og hund­ruðum millj­óna til vellyst­inga vest­rænna milli­stétta.

Utan­rík­is­verslun heims­ins ell­efu­fald­að­ist á þremur ára­tugum fyrir krepp­una 2008 sem þýðir tvö­földun á 7–8 ára fresti sem er langt umfram nokkuð sem kalla má eðli­legan vöxt til lengri tíma en til sam­an­burðar má nefna að fjölgun flug­ferða á sama tíma í heim­inum var þrefalt minni og þykir mörgum nóg um.

Mest urðu þó umskiptin í fjár­mála­heim­inum sem hnatt­vædd­ist og breytti um eðli með stór­felldum veð­setn­ingum og fram- og aft­ur­virkum fjár­mála­gjörn­ingum þannig að á þessum 30 árum jókst pen­inga­magn í umferð úr 60 millj­örðum doll­ara á dag í 4000 millj­arða doll­ara, eða 66 fald­að­ist sem þýðir að pen­inga­flæðið jókst sex sinnum hraðar en utan­rík­is­verslun og langt umfram verð­mæta­sköpun heims­ins.

Það voru því gríð­ar­legir kraftar að móta sam­fé­lög heims­ins á þessum ára­tugum í átt að efna­hags­legri sam­lögun og sam­þætt­ingu. Allt lék í lyndi á meðan pen­ingar streymdu um og yfir sam­fé­lög og aðrir þættir sam­fé­lags­ins eins og t.d. menn­ing og stjórn­mál urðu sam­ofnir þessu kraft­mikla breyt­inga­ferli.

Kreppa – Vest­ur­lönd hnigna

Pen­ing­arnir hættu að streyma. Kreppan 2008 stöðv­aði harka­lega þá hröðu hnatt­væð­ingu sem hófst við enda­lok kalda stríðs­ins. Síðan þá hefur efna­hagur Vest­ur­landa í heild lítið sem ekk­ert vax­ið. Pizza efna­hags­lífs­ins í þessum heims­hluta hætti að stækka og sneið hvers og eins hefur minnkað - vænt­an­lega í öfugu hlut­falli við vænt­ingar því í sam­tím­anum hefur fram­þróun sög­unnar verið sam­gróin hug­mynd­inni um enda­lausan efna­hags­legan vöxt og að hver kyn­slóð geti haft það betra en sú á und­an.

Utanríkisverslun heimsins ellefufaldaðist á þremur áratugum fyrir kreppuna árið 2008.

Vandi Vest­ur­landa er í raun mjög djúpur því sá litli vöxtur sem verið hefur byggir að stórum hluta á lán­tökum og auk­inni neyslu á meðan hag­vöxtur í Suð­austur Asíu, Afr­íku og Suður Amer­íku byggir á raun­veru­legri verð­mæta­aukn­ingu og gæti sá vöxtur verið enn meiri ef ekki væri eins mik­ill sparn­aður í Suð­austur Asíu og raun ber vitni. Áhrifa krepp­unnar gætir því enn á Vest­ur­löndum og einkum í Evr­ópu.

Í stuttu máli má segja að efna­hags­lega þá hnignar Vest­ur­löndum vegna mik­illar neyslu, lít­ils sparn­aðar og minnk­andi verð­mæta­sköp­unar á sama tíma og áður­nefnd hrað­vaxt­ar­svæði heims­ins hafa risið með auk­inni verð­mæta­sköp­un, sparn­aði og hóf­legri neyslu­aukn­ingu. Evr­ópa og Norð­ur­-Am­er­íka eru ekki lengur vélin í hag­kerfi heims líkt og áður. Þar sem efna­hags­legum yfir­burðum fylgir póli­tískt, menn­ing­ar­legt og hern­að­ar­legt vald er við því að búast að umrædd hnign­un, verði íbúum Vest­ur­landa þung­bær – vænt­ingar og vonir kyn­slóða bresta, og rót kemst á þjóð­arsál­ir.

Hnatt­væð­ingin afmáði gamlar póli­tískar átaka­línur

Umrót komst á stjórn­málin í okkar heims­hluta í kjöl­far krepp­unn­ar, fyrst á Íslandi með ansi dramat­ískum hætti en síðan breidd­ust umbrotin hægt og örugg­lega út. Sættir ein­kenndu stjórn­mál upp­gangs­ár­anna og ágrein­ingur sner­ist helst um vinnu­brögð og aðferða­fræði því umgjörð þeirra og tíma­bundnar aðstæður voru að skapa mikil verð­mæti sem stjórn­mála­menn gátu látið líta út fyrir að þeir ættu þátt í skapa.

Það var tími frið­ar. Þá sam­ein­aði hnatt­væð­ingin á seið­andi hátt stríð­andi öfl á vett­vangi stjórn­mála tutt­ug­ustu ald­ar. Ann­ars vegar alþjóða­hyggju sem vinstri­menn voru sögu­lega hallir undir og köll­uðu þriðju leið­ina og hins vegar aukna skil­virkni kap­ít­al­ism­ans sem var hægri öflum að skapi. Á þessum tíma höfðu nær öll hefð­bundin stjórn­mála­öfl á Vest­ur­löndum stokkið á vagn hnatt­væð­ingar sem virt­ist geta losað um tog­streitu stétta­stjórn­mála með því að gera allan almenn­ing heima fyrir að milli­stétt í verk­skiptu alþjóða­sam­fé­lagi og í leið­inni losað um mót­sagnir sem leitt gætu til hern­að­ar­á­taka. Þess vegna var kreppan 2008 póli­tískt reið­ar­slag því nær öll stjórn­mála­öfl með ein­hvern styrk höfðu lagt sín lóð á vog­ar­skálar þeirrar þró­un­ar.

Góð­ærið og hnatt­væð­ingin hafði fært fjöl­margt úr stað og breytt for­sendum þegar kom að því í hverju landi fyrir sig að glíma við afleið­ingar krepp­unn­ar. Stjórn­málin höfðu fram­selt vald í aðra rönd­ina til mark­aða en í hina til alþjóða­stofn­ana vegna lang­tíma­skuld­bind­inga í alþjóða­samn­ingum um við­skipti og þar með talið ferðir fólks, örygg­is­mál, mann­rétt­indi o.fl.

Ábyrgðin var hins vegar hjá hinum kjörnu full­trúum þjóð­ríkj­anna. Þeir þurftu að standa skulda­skil vegna brost­inna vona kjós­enda og klafa vænt­inga sem ekki urðu að veru­leika. Vanda­málin voru af öðrum rótum en áður og lausnir ekki þekkt­ar. Efna­hags­legir hags­munir svæða, þjóða og ríkja voru svo sam­ansúrraðir að erfitt reynd­ist að finna lausnir sem komu hjólum aftur af stað og róa almenn­ing. Alþjóð­legar lausnir voru tíma­frekar og flóknar mála­miðl­anir eilíf þrauta­ganga eins og sam­skipti Grikk­lands við Evr­ópu­sam­bandið sýndi best en ein­hliða lausnir dugðu skammt því þær bíta gjarnan í skottið á sjálfum eins og við Íslend­ingar þekkjum af sam­býli okkar við geng­is- og efna­hags­sveifl­ur. Þegar harðn­aði á dalnum birt­ust stjórn­mála­menn oft sem mátt­lítil peð. Margir stærstu þættir hins efna­hags­lega veru­leika voru komnir út fyrir lög­sögu ein­stakra valda­mik­illa leið­toga lýð­ræð­is­ríkja á Vest­ur­lönd­um. Hnatt­væð­ingin hafði reyrt hendur stjórn­mála­manna sama hvað þeir sögðu eða höfðu hátt.

Farið of hratt

Stjórn­mála­þró­unin eftir krepp­una 2008 hefur sýnt að almenn­ingi á Vest­ur­löndum fannst of langt gengið og of hratt farið á upp­gangs­tím­anum og breyt­ingar í kjöl­far fjár­mála- og hnatt­væð­ingar sam­fé­laga of mikl­ar. Tími mik­ils upp­gjörs og end­ur­mats gekk í garð og þegar að er gáð virð­ist hnatt­væð­ingin vera sá þáttur sem helst hefur verið tek­inn til end­ur­skoð­un­ar. Í aðra rönd­ina hafa hægri menn tekið upp bar­áttu gegn alþjóða­væð­ing­unni og slegið á strengi þjóð­ern­is­hyggju en í hina rönd­ina hafa vinstri menn gripið til and-kap­ít­al­ískra sjón­ar­miða og í sumum til­fellum dustað rykið af hug­mynda­fræði sem margir héldu að væri gleymd á ösku­haugum tutt­ug­ustu ald­ar. Úr sitt­hvorri átt­inni er því verið að klippa á tvo meg­in­þræði hnatt­væð­ing­ar­inn­ar.

Engu að síður stendur eftir veru­leiki – efna­hags­leg­ur, fjár­mála­legur og menn­ing­ar­legur – sem und­inn er úr ólíkum þráðum hags­muna félags­hópa, landa, þjóð­ríkja og heims­álfa sem stjórn­mál Vest­ur­landa þurfa að takast á við. Orð­ræður um þjóð­legt sjálf­ræði, bölvun auð­valds og pen­inga og ofur­vald kerf­is­ins sem alltaf fer sínu fram geta verið hluti af lang­tíma­lausnum en koma ekki hjólum verð­mæta­sköp­unar aftur af stað í bráð. Yngri kyn­slóðir stjórn­mála­manna vilja póli­tík á öðrum for­sendum og þeir sem eldri eru og enn virkir forð­ast of náin tengsl við tíma hnatt­væð­ing­ar.

Það eru fáir leið­togar sem tengja sig beint við for­tíð­ina frá því fyrir kreppu og standa í rústum hnatt­væð­ing­ar­innar og reyna að benda á leið fram á við. Það er helst Ang­ela Merkel, kansl­ari Þýska­lands, sem hefur reynt að axla ábyrgð við litlar vin­sældir heima­við og enn minni ann­ars stað­ar. Meira hefur borið á umboðs­lausum kommissörum í Brus­sel á borð við Junker, for­seta fram­kvæmda­stjórnar ESB, og gömlum leið­togum á borð við Tony Bla­ir, Bill Clinton og Karl Bildt í þeirri umræðu. Fæstir þess­ara ein­stak­linga ná að höfða til hins leit­andi almenn­ings.

Angela Merkel er kanslari Þýskalands. Hún hefur ríghaldið í gildi hnattvæðingarinnar í baráttunni gegn þjóðernishyggju og popúlisma í Evrópu.

Þjóð­fundur án fund­ar­stjórnar

Ólgan í stjórn­málum sam­tím­ans er að hluta til vegna tóma­rúms sem kreppan skilur eftir og það öng­stræti sem hnatt­væð­ingin hefur ratað í. Bilið á milli drauma og vona fólks um hvernig umgjörð hins dag­lega lífs á að líta út og síðan þess veru­leika sem upp­gang­ur­inn og kreppan í kjöl­farið skildi eftir er stórt og yfir því er þoka óvissu.

Ef ein­hvern tíma er þörf fyrir kraft­mikla og upp­byggi­lega sam­fé­lags­lega umræðu þá er það á tímum eins og nú þar sem létta þarf þoku og byggja brýr á milli ólíkra sjón­ar­miða. En þannig vill til að núna ganga yfir ein­hverja mestu breyt­ingar á hinu sam­fé­lags­legu sam­tali sem sagan greinir frá vegna nýrrar tækni.

Grunn­þættir lýð­ræð­is­hefðar Vest­ur­landa sem byggja á sam­fé­lags­legu sam­tali hafa tekið stökk­breyt­ing­um. Aðferðir sem áður voru við­ur­kenndar og stofn­anir sem nutu trausts gagn­ast ekki lengur í umræðu sam­tím­ans – traust er horfið og við­ur­kenn­ingar létt­vægar gagn­vart afstæðum sýnd­ar­veru­leika. Sam­fé­lags­miðl­arnir hafa sett af fund­ar­stjór­ana á þjóð­fund­inum sem voru hinir hefð­bundnu rit­stýrðu fjöl­miðlar og engir hafa verið skip­aðir í stað­inn. Það ríkja því ekki beint góðar aðstæður á þjóð­fundi til að ræða fram­tíð­ar­skipan sam­fé­lags­ins af yfir­vegun því athyglin bein­ist helst að þeim sem hæst hafa og kunna að nýta sér hin frjálsu og óbeisl­uðu sam­fé­lags­legu sam­skipta­form sem í boði eru.

Og á meðan Vest­ur­landa­búar reyna að skil­greina fram­tíð­ar­sam­fé­lagið og jafn­framt að ráða fram úr því hvaða aðferðum þeir eigi að beita við þá skil­grein­ingu eru aðrir heims­hlutar á mark­vissri braut til meiri auð­legðar og áhrifa þar sem vest­ræn grunn­gildi eins og frelsi, lýð­ræði og opin­ská skoð­ana­skipti eru með áber­andi hætti fyrir borð bor­in. Sam­talið í sam­fé­lag­inu truflar þar ekki upp­gang­inn.

Í næstu tveimur greinum verður reynt að útskýra hvernig ný sam­skipta­tækni hefur áhrif á þróun sam­fé­lags­ins og ferli sam­skipta sem leiða til sam­eig­in­legra ákvarð­ana og heita í dag­legu tali stjórn­mál. Grein­arnar birt­ast á vef Kjarn­ans á næstu dög­um.

Ásgeir Frið­geirs­son er fyrrum kenn­ari, blaða­mað­ur, rit­stjóri og vara­þing­maður sem hefur starfað und­an­farin 16 ár sem ráð­gjafi alþjóð­legra fjár­mála­fyr­ir­tækja og fjár­festa í sam­skiptum og við­skipt­um. Hann hefur fylgst með þróun fjöl­miðla og umræðu um við­skipti, efna­hags­mál og stjórn­mál í yfir 30 ár og er með jafn­gam­alt meist­ara­próf í sam­skipta­fræðum frá Manchester háskól­anum í Englandi.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar