Komdu fagnandi Sundabraut (Jón Gunnarsson, það er ekki eftir neinu að bíða!)

Magnús Már Guðmundsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, skrifar um Sundabraut.

Auglýsing

Lagning Sundabrautar komst í hámæli á dögunum þegar Jón Gunnarsson samgönguráðherra talaði digurbarkalega um mögulega legu brautarinnar og kostnað vegna útfærslunnar. Ráðherrann vill að Reykvíkingar greiði að stórum hluta fyrir framkvæmdina vegna vilja borgaryfirvalda að farin verði svokölluð ytri leið í stað innri leiðar. Þetta segir Jón þrátt fyrir að starfshópur ríkisins hafi lagt til fyrir tveimur árum að við lagningu Sundabrautar verði áðurnefnd ytri leið farin líkt og borgarstjórn og íbúar í Grafarvogi og Vogabyggð hafa kallað eftir.

Talið er að um 27-35 þúsund bílar muni fara um Sundabraut á hverjum sólarhring og því er bygging hennar mikið þjóðþrifamál sem myndi hafa umtalsverð áhrif á umferð á höfuðborgarsvæðinu ekki síst um Miklubraut, Vesturlandsveg og í Grafarvog. Það er afar brýnt að áform ríkisins skýrist og hvort um raunverulegan áhuga á verkefninu sé að ræða. Nóg er komið af upphrópunum.

Lengi talað um Sundabraut

Sundabraut hefur verið hluti af aðalskipulagi Reykjavíkur í þrjá áratugi eða allt frá árinu 1984. Þá var Davíð Oddsson borgarstjóri og ég sjálfur tveggja ára gamall. Í tengslum við vegaáætlun ríkisins 1994-1995 hófst vinna við greiningu á mögulegum valkostum og legu Sundabrautar. Síðan þá hafa verið gefnar út margar skýrslur m.a. um mismunandi útfærslur, umhverfishrif og mögulegan kostnað. Halldór Blöndal var samgönguráðherra árið 1994 og allt til 1999. Síðan þá hafa sex aðrir gengt embætti ráðherra samgöngumála.

Haustið 2005 tilkynnti ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar að 43 milljörðum af 66,7 milljarða söluandvirði Símans yrði varið til framkvæmda af ýmsu tagi fram til ársins 2012, þar af 8 milljarðar sem áttu að renna til lagningar Sundabrautar. Ekkert varð af því og Símapeningurinn hvarf.

Síðan þá hefur Sundabraut dúkkað reglulega upp í umræðunni sem skilur lítið eftir sig og einkennist á köflum af skotgrafahernaði. Ráðherrar samgöngumála hafa komið hver á eftir öðrum og talað um nauðsyn þess að ráðast í þessa framkvæmd – nú síðast Jón Gunnarsson – en lítið hefur gerst á þessum 30 árum frá því að Sundabraut kom fyrst fyrir í aðalskipulagi Reykjavíkur. Niðurstöður starfshóps sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi innanríkisráðherra, skipaði eru þó um margt áhugaverðar.

Afstaða Reykjavíkurborgar

Afstaða Reykjavíkurborgar til legu 1. áfanga Sundabrautar hefur legið fyrir í um áratug. Í byrjun árs 2008 samþykkti borgarráð einróma að ytri leiðin yrði farin og að Sundabraut yrði lögð í göngum frá Gufunesi í Laugarnes með eðlilegum fyrirvara um niðurstöðu umhverfismats. Borgarfulltrúarnir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Björn Ingi Hrafnsson, Svandís Svavarsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Ólafur F. Magnússon og Gísli Marteinn Baldursson samþykktu öll tillögu þess efnis.

Þverpólitísk sátt var um að fara þessa leið sem byggði meðal annars á kröfu íbúa í Reykjavík þar á meðal í Grafarvogi og Vogahverfi líkt og Gauti Kristmannsson, stjórnarmaður í Íbúasamtökum Laugardals, rakti í góðri grein hér á Kjarnanum í síðasta mánuði.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur sem gildir til ársins 2030 og var samþykkt í borgarstjórn í nóvember 2013 er þessi afstaða borgarinnar staðfest og innri leiðinni hafnað. Aðalskipulagið var unnið í um sex ár í góðri sátt fulltrúa þeirra flokka sem sæti áttu í borgarstjórn á þessum árum. Vilji borgarinnar er að 1. áfangi Sundabrautar verði lagður með því að þvera Kleppsvík milli Gufuness og Holtagarða á Laugarnesi norðan Sæbrautar. Því er haldið opnu hvort um göng eða brú verði að ræða.

Auglýsing

Sundabraut í einkaframkvæmd

Það er öllum ljóst að mikil þörf er fyrir fjárfestingu í samgönguinnviðum samfélagsins. Sterkir innviðir eru ein undirstaða hagvaxtar og velferðar. Fjárfesting ríkisins í vegaframkvæmdum hefur dregist saman á undanförnum árum og fyrir vikið eru vegir víða að grotna niður. Á sama tíma hefur umferðin aukist verulega ekki síst vegna mikillar fjölgunar á komu ferðamanna til Íslands. Á undanförnum árum hafa einkaaðilar líst yfir áhuga að halda utan um tilteknar framkæmdir, þar á meðal lagningu Sundabrautar. Framkvæmdastjóri Innviða fjárfestinga slhf. sagði nýlega í viðtali við Fréttablaðið að ríkið hafi ekki bolmagn til að sinna allri fjárfestingaþörf í innviðum. Áður var upplýst að einkaaðilar hafi sýnt lagningu Sundabrautar áhuga. Stjórnarformaður fjárfestingarsjóðsins Innviða sagði nýlega í Viðskiptablaðinu uppsafnaða fjárfestingarþörf á innviðum landsins nema 700 milljörðum króna.

Í mars 2014 skipaði Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi innanríkisráðherra og ráðherra samgöngumála, starfshóp sem fékk það hlutverk að kanna hvaða samgöngumannvirki kæmu til álita fyrir aðkomu einkaaðila annað hvort í formi einkaframkvæmdar eða í samvinnu einkaaðila og hins opinbera, svokölluð Public-Private-Partnership-verkefni (PPP).

Í minnisblaði Vegagerðarinnar sem starfshópurinn studdist við kemur fram að ef gengið er út frá þeim forsendum að verkefnin skuli vera arðsöm og vegfarendur eigi kost á annarri gjaldfrjálsri leið séu ekki mörg verkefni sem koma til greina hér á landi í einkaframkvæmd.

Í skýrslu starfshópsins er að auki vísað í samantekt Ríkisendurskoðunar frá 2006 um mat á kostum og göllum einkaframkvæmdar við stækkun Hvalfjarðarganga og við lagningu Sundabrautar. Þar segir að einkaframkvæmd geti verið hagkvæmari kostur fyrir ríkið við tilteknar aðstæður.

Ríkið samþykkir ytri leiðina

Niðurstaðan er að fá verkefni önnur en bygging Sundabrautar komi til greina þegar horft er til einkaframkvæmdar. Það sem stendur upp úr við lestur skýrslunnar er að þar felst ríkið á að farin verði ytri leiðin við byggingu Sundabrautar og þá leið sem mörkuð er í aðalskipulagi Reykjavíkur. Ekki eru settir neinir fyrirvarar við það upplegg.

„Að mati starfshópsins er leið I sú leið sem kemur til greina við þverun Kleppsvíkur en hún er mörkuð í aðalskipulagi Reykjavíkur. Starfshópurinn telur rétt að útboðsrammi miði við byggingu brautarinnar sem 2+2 vegar og hún verði byggð alla leið í einum áfanga. Þá telur starfshópurinn æskilegt að skoða brýr á öllum tengingum nema í Kleppsvík, þar sem ýmsar þveranir koma til greina.“

Þessi afstaða skiptir miklu máli og ætti ef allt er eðilegt að flýta fyrir uppbyggingu Sundabrautar.

Þá er lagt til að ef af framkvæmdum verði á forsendum PPP fjármögnunar verði það látið í verkahring þess sem býður í verkefnið að velja þverunaraðferð ytri leiðarinnar fremur en að skilgreina aðgerðina fyrirfram. Þannig sé líklegast að hagkvæmasta leiðin verði fyrir valinu með tilliti til byggingarkostnaðar sem og viðhalds- og rekstrarkostnaðar.

Ráðherra leggi fram útboðsramma

Niðurstöður greiningar sem starfshópurinn lét vinna á fýsileika þess fyrir einkaaðila að byggja og reka Sundabraut benda til að ef Sundabraut sé skoðuð heildstætt sé væntanlega hægt að fjármagna brautina að fullu með veggjöldum. Sé hins vegar eingöngu ráðist í byggingu fyrsta áfanga (þverun Elliðaárvogs) megi ætla að líklegt sé að hið opinbera þurfi að koma til móts við einkaaðila með fjárframlagi.

Lagt er til að samgönguráðherra láti útbúa útboðsramma þar sem verkefninu, byggingu og rekstri Sundabrautar, er lýst og settar eru fram leikreglur um fjármögnun sem byggja á reynslu annarra þjóða. Þar þurfi að koma fram lýsing á skipulagsþáttum og tengingu annarra vega og um það atriði þurfa að hafa samráð við Reykjavíkurborg.

Ekki eftir neinu að bíða

Borgarstjórn samþykkti samhjóða í mars síðastliðnum að hefja viðræður við innanríkisráðuneytið um Sundabraut. Markmið viðræðnanna felst í því að vinna að arðsemismati og kostnaðargreiningu, ákvarða endanlega útfærslu og legu brautarinnar og tímasetja framkvæmdina. Borgin er með öðrum orðum að kalla eftir samtali við ríkið um þessa mikilvægu framkvæmd.

Jón Gunnarsson, samgönguráðherra, kaus hins vegar að efna til ófriðar við borgaryfirvöld og færa samtalið í skotgrafirnar með því að heimta að innri leiðin verði farin því annars þurfi borgin að greiða 10 þúsund milljónir fyrir byggingu Sundabrautar. Þetta gerði Jón þrátt fyrir að ríkið hafi í raun samþykkt fyrir tveimur árum að fara ytri leiðina.

Það liggur fyrir að ekki er gert ráð fyrir Sundabraut í samgönguáætlun, fjárlögum eða 5 ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Upphlaup Jóns skýrist eflaust af því að hann vildi beina athyglinni frá þessum staðreyndum. En hafi hann raunverulegan og einlægan áhuga á Sundabraut þá er óþarfi að dvelja lengi við fyrri yfirlýsingar hans og horfa þess í stað til framtíðar. Jóni er nefnilega í lófa lagt að hefja undirbúning nú þegar á grunni þeirra tillagna sem legið hafa fyrir frá 2015. Það er ekki eftir neinu að bíða.

Höfundur er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Ari
„Vægi loftslagsmálanna minnkar ekki þessa dagana“
Þingmaður VG segir að ef Íslendingar standi við það sem þeir hafa samþykkt af áætlunum um loftslagsmál og geri aðeins betur hafi þeir að minnsta kosti staðið við sinn skerf í málaflokknum.
Kjarninn 8. maí 2021
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Býður sig fram í 2. sæti – stefnir á að verða í framvarðasveit flokksins í Reykjavík
Brynjar Níelsson ætlar að bjóða fram krafta sína fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu kosningar en hann hefur verið á þingi síðan 2013.
Kjarninn 8. maí 2021
Nichole Leigh Mosty
Ég vil tala um innflytjendur.
Leslistinn 8. maí 2021
Jón Sigurðsson
Ein uppsprettulind mennskunnar
Kjarninn 8. maí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er einn þeirra sex sem eru með stöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á viðskiptaháttum fyrirtækisins.
Fjallað um rannsókn á Samherja í skráningarlýsingu Síldarvinnslunnar
Hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar hefst á mánudag. Á meðal þeirra sem ætla að selja hlut í útgerðinni í því er Samherji, sem verður þó áfram stærsti eigandi Síldarvinnslunnar. Fjallað er um rannsókn yfirvalda á Samherja í skráningarlýsingu.
Kjarninn 8. maí 2021
Nornahár og nornatár
Eigendur Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal skrifa reglulega hraunmola á Kjarnann. Þetta er sá fimmti. Markmiðið er að útskýra hin ýmsu fyrirbæri íslenskrar eldvirkni á einfaldan og áhugaverðan hátt.
Kjarninn 8. maí 2021
Þögnin rofin á ný
Hundruð íslenskra kvenna hafa í vikunni stigið fram opinberlega með sínar erfiðustu minningar, í kjölfar þess að stuðningsbylgja reis upp með þjóðþekktum manni sem tvær konur segja að brotið hafi á sér. Lærði samfélagið lítið af fyrri #metoo-bylgjunni?
Kjarninn 8. maí 2021
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.
Arion banki að ná markmiðum sínum og ætlar að dæla fé til hluthafa á næstu árum
Umfram eigið fé Arion banka var 41 milljarður króna í lok mars síðastliðins. Bankinn ætlar að greiða hluthöfum sínum út um 50 milljarða króna á næstu árum. Hann hefur nú náð markmiði sínu um arðsemi tvo ársfjórðunga í röð.
Kjarninn 8. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar