Getum við ekki lengur talað saman?
Ný samskiptatækni framkallar ný samfélög sem rekast á þau sem fyrir eru, býr til nýjar átakalínur í umræðu samfélagsins og áður óþekkt samtal. Hér er grein tvö í greinaflokki Ásgeirs Friðgeirssonar.
Í meira en fjórar aldir hafa Vesturlönd þróast á grundvelli upplýstrar og á köflum frjálsrar umræðu og þannig hafa þau gildi sem Vesturlandabúar vilja kenna sig við öðlast mátt og tilvist. Nú er mikil ólga í samfélögum á Vesturlöndum og margir eru hugsi yfir hinni upplýstu opinberu umræðu, hvernig hún birtist einkum á vettvangi stjórnmála og hvaða áhrif hún getur haft á þróun lýðræðis.
Í fyrstu greininni í þessum greinaflokki var fjallað um þátt hnattvæðingarinnar og kreppunnar 2008 til 2010 í því umróti sem nú gengur yfir hinn vestræna heim. Í þessari grein verður reynt að skoða annan veigamikinn orsakaþátt en það er tilkoma nýrrar tækni sem hefur gjörbreytt því hvernig einstaklingar og félagshópar eiga í samskiptum. Samtalið í samfélaginu sem frá örófi alda hefur tekið þátt í móta vestræna menningu hefur gjörbreyst á rétt rúmum áratug.
Samskiptatækni hefur breytt gangi veraldarsögunnar
Af mannkynssögunni má læra að ný tækni í samskiptum markar djúp og varanleg spor í samfélag manna. Tilkoma stafrófsins er móðir allra tæknibyltinga á sviði samskipta en útbreiðsla þess fyrir botni Miðjarðarhafsins fyrir um fimm þúsundum árum var forsenda varðveislu þekkingar og reynslu sem átti eftir að skila sér í margvíslegum framförum á sviði vísinda og menningar og skilar sér enn. Þá má nefna að tilkoma prenttækninnar á miðöldum átti stóran þátt í útbreiðslu nýrra hugmynda og þekkingar með tilheyrandi áhrifum á trúarbrögð, vísindi og stjórnmál.
Nær okkur í tíma er ljósvakinn sem var samskiptabylting tuttugustu aldar en hann er talinn vera lykillinn að vaxandi áhrifum engilsaxneskrar menningar um allan heim og einnig forsenda hraðrar útbreyðslu hugmyndarinnar um lýðræði. Gagnvirka og stafræna tæknin sem almenningur hefur nær allsstaðar tileinkað sér með undraskjótum hraða á innan við 20 árum er farin að setja mark sitt á m.a. þróun efnahags- og atvinnulífs, stjórnmála, fjölmiðla og lýðræðis. Hvað þær breytingar áhrærir erum við í auga stormsins og í ljósi sögunnur ætti ekki að vanmeta áhrif þessarar nýju samskiptatækni. Samskiptatæknin hefur breytt gangi veraldarsögunnar og getur gert það áfram.
Langsum og þversum – lóðrétt og lárétt – þjóðlegt og alþjóðlegt
Kraftinn sem nýja samskiptatæknin skapar má skilgreina sem láréttan þar sem hann gengur þvert á búsetu, þjóðerni, ríkisvald, menningu og sögu sem við leyfum okkur hér að kalla lóðrétta og eru nokkuð staðbundnir þættir. Við höfum séð hvernig nýju samskiptahættirnir hafa skapað forsendur hnattvæðingar viðskiptalífsins en alþjóðavæðingin er með sama hætti lárétt afl.
Fyrir tíma hnattvæðingar var „sá stóri“ fyrirferðamikill á ýmsum sviðum í einu byggðarlagi eða þjóðfélagi en nú er stóri aðilinn fyrirferðamikill á einu sviði í mörgum byggðarlögum og í mörgum löndum. Nú er það ekki Mogginn og Kolkrabbinn heldur Facebook og Costco.
Svipuð virkni þessarar nýju tækni kemur einnig í ljós þegar við skoðum áhrifin á stjórnmál og lýðræði. Arabíska vorið upp úr 2010 var dæmi um hraða lárétta bylgju þar sem hugmyndir sem hvöttu til aðgerða gengu hratt á milli ungs fólks í Norður-Afríku – menntað samfélag og með aðgang að síma og interneti. Þær fóru land úr landi á augabragði og sköpuðu fyrst vonir, svo ólgu og átök en síðan náðu lóðréttu öflin – stjórnmálaflokkar, herir og hagsmunaklíkur – aftur vopnum sínum og sköpuðu nýtt jafnvægi sem er mismunandi í hverju landi fyrir sig, og í raun ekkert í til dæmis Sýrlandi. Annað dæmi um lárétta virkni þessarar tækni, sem er ekki síður alvarlegt, eru tilraunir rússnesku leyniþjónustunnar til hafa áhrif á kosningar í öðrum ríkjum með falsfréttum, innbrotum í gagnahirslur og lekum.
Samfélög án lögfesti og partí þar sem allir eru með hugann annars staðar
Kjarninn í þeim breytingum sem samfélagsmiðlar munu hafa á stjórnmál og lýðræði er nærri þeirri staðreynd að nýja tæknin býr til ný samfélög sem eru lárétt. Áhugafólk um tiltekna hluti nær saman, deilir hugmyndum, skiptist á skoðunum og vinnur saman án tillits til búsetu, menningar, aldurs eða annars sem skiptir miklu máli í lóðrétta heiminum og skilgreinir hann á margan hátt.
Einstaklingurinn verður meðlimur í samfélagi sem er hvorki samfélag foreldranna eða systkina eða skólafélaga né það samfélag sem skilgreinir hann lögformlega sem þegn.
Sviðin eru óteljandi; stjórnmálaskoðanir, lífstíll, mataræði, tónlist, kynlíf, bókmenntir, kvikmyndir, viðskipti og áfram má telja. Tæknin kemur á sambandi við sálufélaga – sækjast sér um líkir. Einstaklingurinn verður meðlimur í samfélagi sem er hvorki samfélag foreldranna eða systkina eða skólafélaga né það samfélag sem skilgreinir hann lögformlega sem þegn. Eftir því sem láréttu samfélögin verða stærri og mikilvægari hluti af heimsmynd og félagslegri tilveru einstaklinga verða bönd hins lóðrétta veruleika æ meira á skjön, þ.e. lýðræðisríkið, skattríkið, ríkisvaldið og þjóðmenningin sem hann á lögfesti í. Hann deilir æ minna kjörum með öðrum þegnum þess samfélags sem hann tilheyrir vegna fæðingarstaðar eða búsetu eða annars sem skapar lagaleg réttindi og skyldur. Samfélagið verður eins og partí þar sem enginn talar við næsta mann en allir eru í virkum samskiptum við einhverja aðra í gegnum snjallsímann.
Böndin trosna – með heyrnartækin í eyrunum
Árekstrar heimanna eru óumflýjanlegir. Ýktasta mynd árekstranna er til dæmis ISIS þar sem einstaklingar segja sig úr lögum við hinn lóðrétta heim. Í einfaldari og mildari afbrigðum birtast árekstrar þannig að ýmsum gildum er hafnað og önnur tekin upp. Í því sambandi má benda á umræðuna hér á landi og víðar, um hugverkarétt á tímum stafrænnar tækni.
Og ferlið er lífrænt og í báðar áttir því um leið og einstaklingur snýr baki við samfélagi aukast líkur á að það hafni honum. Áhrifin verða síðan víðtækari því lýðræðisleg þátttaka takmarkast við áhrif á samfélag sem viðkomandi lifir í en hrærist ekki mikið í – og hin hliðin er að einstaklingurinn hefur rétt til áhrifa á samfélag sem honum er sama um. Einstaklingnum fer að líða eins og innflytjanda í eigin landi og samfélagið lítur hann sömu augum. Hugarheimur er á skjön við þann heim sem blasir við út á götu. Allir eru með heyrnartækin í eyrunum og vitundin er fjarri. Það losnar um böndin, firringin er á næsta leiti. Lóðrétta samfélagið trosnar og verður summa en ekki heild. Þrátt fyrir það og eftir sem áður verða hin formlegu völd - ríkisstjórnir, ríkissjóðir, herflotar og mennta- og heilbrigðiskerfi – hluti af þeim heimi sem einstaklingurinn sér sig ekki sem hluta af.
Áhugavert í þessu samhengi er einmitt að skoða fjárstreymi í viðskiptum í þessum nýju samfélögum því það streymir frá lóðréttum nærsamfélögum. Þegar vörur eru keyptar úti í búð fer stór hluti álagningar smásala og heildsala í kostnað á borð við laun, húsnæði, flutninga og svo framvegis, sem styrkir stoðir nærsamfélagsins. En þegar verslað er á netinu hverfa þær fjárhæðir út í heim og styrkja ekki með sama hætti það samfélag sem viðskiptavinurinn býr í heldur einhver önnur.
Hefðbundnir fjölmiðlar ekki lengur samnefnarar
Þegar fjölmiðlar og hlutverk þeirra eru skoðaðir í ofangreindu ljósi sést vel að hin nýja tækni hefur margeflt fjölmiðla sem lúta lögmálum hinnar láréttu virkni. Einstaklingurinn velur sér það sem hann vill heyra og sjá og um leið frá hverjum efnið kemur.
Breytinguna er betur hægt að greina með því að skoða hlutverk hinna hefðbundnu fjölmiðla í samfélagi síðustu aldar. Þá blasir við að þeir voru einn máttarstólpa hins lóðrétta, staðbundna, þjóðlega og þjóðmenningarlega samfélags. Þeir töluðu á einu tungumáli við staðbundna hópa um hagsmuni og áhugamál þeirra. Þeir voru samnefnarar og þeim var ritstýrt en það fól í sér að frekar lítill hópur einstaklinga gaf málefnum og viðfangsefnum vægi og þjónuðu á þann hátt hlutverki fundarstjóra á þjóðfundi.
Hefðbundnir fjölmiðlar voru hluti af þeirri staðbundnu samfélagsgerð sem þeir tilheyrðu. Þeir höfðu eignatengsl við fyrirtæki og áhrifaríka einstaklinga, félagstengsl við stjórnmálaflokka, verkalýðshreyfingar, íþróttahreyfingar og aðrar slíkar stofnanir sem létu sig samfélagsþróun varða. Síðan var formlegt og óformlegt tengslanet leiðandi starfsmanna fjölmiðlanna við áhrifafólk í hinu staðbundna samfélagi. Fjölmiðlarnir voru vettvangur umræðunnar um hið staðbundna lóðrétta samfélag og ritstjórnir voru fundarstjórar. Fjölbreytni fjölmiðla og sjónarmiða sem þeir héldu á lofti endurspeglaði oft þann fjölbreytileika sem ríkti í hverju samfélagi, m.ö.o. þá áttu þær raddir sem mest bar á í fjölmiðlum einnig sína fulltrúa á vettvangi stjórnmála. Þetta jafnvægi á milli sjónarmiða í umræðunni og fulltrúa á vettvangi stjórnmála og við kjötkatla valds er ekki lengur til staðar.
Fjármagn í fjölmiðlum rennur nú síður til hinna lóðréttu staðbundnu miðla en í ríkari mæli til hinna alþjóðlegu láréttu miðla eins og Facebook, Google eða Netflix.
Líkt og í versluninni þá sjáum við einnig að fjármagn í fjölmiðlum – eins og til dæmis tekjur af auglýsingum og áskrift – rennur nú síður til hinna lóðréttu staðbundnu miðla en í ríkari mæli til hinna alþjóðlegu láréttu miðla eins og Facebook, Google eða Netflix þar sem tengingin við íslenskt hagkerfi, og samfélag ef því er að skipta, er aðeins á einn veg.
Hinir hefðbundnu fjölmiðlar gegna þess vegna ekki lengur hlutverki fundarstjóra eða þeir deila því með net- og samfélagsmiðlum. Dagskrárvald miðlanna er í dag dreift. Við höfum á allra síðustu misserum séð ótal dæmi þar sem hagsmunaaðilar, sem þykir pendúll umræðunnar sveiflast í óhagstæða átt, hafa beitt samfélagsmiðlum markvisst til að koma sínum sjónarmiðum eða staðreyndum á dagskrá. Hjá lengra komnum í notkun á nýjum miðlum er tilgangurinn ekki síður að stappa stálinu í innvígða stuðningsmenn – félagana í samfélaginu á lárétta ásnum – og þétta raðir stuðningsfólks hvar sem það er að finna.
Bergmálsherbergi og vopnabúr
Þá má einnig greina að hin nýja umræðuhefð sem þroskast í láréttum samfélögum þar sem hver og einn sækir að sér líkum gerir það að verkum að sjónarmið takast síður á – andstæð sjónarmið skolast burtu. Þannig þroskast sjónarmið í svokölluðum bergmálsherbergjum þar sem skoðanir eins er bergmál af viðhorfum annars. Sjónarmiðin þróast síður í gegnum rökræðu þar sem ólík sjónarmið eru vegin og metin. Skoðanamótun af þessu tagi gerir einstaklinginn að merkisbera og talsmanni þegar út í hið margræða og margsamsetta lóðrétta nærsamfélag er komið.
Bergmálsherbergin eru dálítið eins og sellurnar sem voru starfandi í kommúnistahreyfingum á síðustu öld – eins konar vopnabúr – en þangað sóttu félagar sér rök, skoðanir og sjónarmið til að lemja á andstæðingum í stjórnmálum – vopn og verjur til átaka við stéttaróvinina og svikarana.
Þannig verður samfélagið sem við búum í - réttarríkið og skattríkið – að vettvangi átaka sem láréttu samfélögin næra. Með einföldun og námundun má leiða að því líkur að hin nýja samskiptatækni kyndi frekar undir átakastjórnmál en samræðustjórnmál og eigi þannig þátt í þeim óróa sem einkennir samtímann.
Aðhald, fjölbreytni og valdefling
Enn er allt of snemmt að segja til um hver áhrif hinnar nýju samskiptatækni verða á þróun samfélaga og umræðunnar um þau. Að ofangreindu má þó sjá nokkrar vísbendingar um að hin nýja tækni hafi losað um þá þræði sem vestræn samfélög hafa verið ofin úr einkum vegna þess að gömlum aðferðum og leiðum hefur verið raskað án þess að ljóst sé hvað komi í staðinn. Þá fylgir nýrri tækni oft brambolt og umbrot vegna þess ákafa sem er gjarnan fylgifiskur nýjunga og byltinga og framþróunin tekur á sig mynd átaka.
Á hinn bóginn þá er margt gott hægt að segja um þær breytingar sem eru að verða á samtalinu í samfélaginu. Nýjar hugmyndir komast auðveldar fram á sjónarsviðið og margan hátt valdeflir hin nýja tækni einstaklinga og hópa sem ekki hafa tilheyrt þeim sem leitt hafa umræðu og samfélög. Þá veitir nýr samskiptamáti valdhöfum meira aðhald en áður og knýr á um endurskoðun og endurmat jafnharðan og breytingar verða. Á þann hátt er samskiptatæknin í takt við hinar hröðu breytingar samfélagsins í heild.
Óvissa um aðferðir viðheldur umræðukreppu
Stóra myndir er hins vegar skýr. Samskiptakerfi vestræna samfélagsins tók miklum breytingum á sama tíma og fjármálakerfi heimsins gekk í gegnum kreppu með tilheyrandi efnahagslegum skakkaföllum. Vesturlönd hafa átt erfitt með að vinna úr áföllum kreppunnar, ekki aðeins þeim efnahagslegu heldur miklu frekar þeim félagslega og stjórnmálalega sem sést á að þar sem efnahagur hefur dafnað vel er ekki síður ólga í stjórnmálum.
Sú skýring sem hér hefur verið borin á borð er að ný samskiptatækni raskaði aðferðum í umræðu um stjórnmál og pólitísku valdajafnvægi um leið. Samskiptatæknin á því mikinn þátt í að viðhalda hinu pólitíska umróti sem nú einkennir Vesturlönd og íslensk stjórnmál, ekki síður en efnahagskreppan sem á íslensku heitir Hrunið, sem þó að sönnu kom ólgunni af stað.
Í þriðju og síðustu grein þessa greinaflokks verða helstu einkenni stjórnmála samtímans á Vesturlöndum skoðuð í ljósi breyttu samskipta og vendinga í efnahagskerfi heimsins sem voru til umfjöllunar í fyrstu tveimur greinum þessa greinaflokks. Í fyrstu greininni var fjallað um þátt hnattvæðingarinnar og kreppunnar 2008 til 2010 í því umróti sem nú gengur yfir hinn vestræna heim.
Höfundur er fyrrum kennari, blaðamaður, ritstjóri og varaþingmaður sem hefur starfað undanfarin 16 ár sem ráðgjafi alþjóðlegra fjármálafyrirtækja og fjárfesta í samskiptum og viðskiptum. Hann hefur fylgst með þróun fjölmiðla og umræðu um viðskipti, efnahagsmál og stjórnmál í yfir 30 ár og er með jafngamalt meistarapróf í samskiptafræðum frá Manchester háskólanum í Englandi.