Þráhyggja – stjórnmál án trausts
Traust til stjórnmálamanna rýrnaði eðlilega í kreppunni 2008 en skýringar á viðvarandi vantrausti liggja ekki á lausu. Til mikils að vinna fyrir þá sem fyrstir ná tökum á nýrri samskiptatækni.
Undirrót óróans sem einkennir nú þjóðmál á Vesturlöndum er kreppan 2008–2010, sem var fjármálakreppa er varð að efnahagskreppu sem hafði veruleg áhrif á hvert einasta ríki á Vesturlöndum. Kreppan hafði mjög neikvæð og sýnileg áhrif á hag fólks strax á árinu 2009 og hún breytti viðhorfum fólks til framtíðar og væntingum um þróun samfélagsins. Í fyrsta sinn frá lokum seinni heimsstyrjaldar stóðu þjóðir og kynslóðir frammi fyrir verulegri efnahagslegri hnignun og afturför.
Ótti og upplausn eðlileg viðbrögð
Við þær aðstæður var ótti og óvissa eðlileg viðbrögð. Þegar glaðbeittu forystufólki uppgangstímans sem alltaf hafði haft skýr svör á reiðum höndum vafðist skyndilega tunga um tönn er kom að útskýringum á orsökum og afleiðingum hruns og kreppu var skiljanlegt að fólk fylltist vantrú og vantrausti og endurskoðaði viðhrof sýn til stjórnmálamanna og flokka. Og síðan, þegar lausnir voru fáar og máttlitlar vegna ofurvalds markaða og alþjóðaskuldbindinga, var auðvelt að setja sig í spor þeirra sem þótti forystufólk í stjórnmálum, atvinnulífi og viðskiptum vanhæft. Að síðustu þegar þeir sem tóku við virtust engu betri en þeir sem fyrir voru hvarf vonin að mestu og eftir stóð tilfinning vanmáttar.
Fram eftir öðrum áratugi nýrrar aldar og allt til dagsins í dag má auðveldlega greina þessi skýru einkenni kreppu víða um hinn vestræna heim sem birtast einnig meðal annars í aukinni andstöðu við auðmagn og auðvald á vinstri væng hefðbundinna stjórnmála og vaxandi þjóðernishyggju og aukinni andstöðu við hnattvæðingu á hægri vængnum. Þá má sjá í Bandaríkjunum ýmis einkenni hnignandi heimsveldis en þar finnst fólki morgundagurinn fölna í samanburði við glæsta fortíð.
Efnahagur nær sér hratt en umræðan situr eftir
Skýringa á því af hverju ólgan í samfélögum á Vesturlöndum hefur aukist frekar en hitt þegar frá líður kreppunni og þegar efnahagur er aftur að rísa þarf hins vegar að leita víðar en í efnahagslegum þáttum. Bretland er gott dæmi um vaxandi pólitíska upplausn þrátt fyrir efnahagslega viðspyrnu eftir skell kreppunnar.
Ísland er ekki síðra dæmi um hvar ólga þjóðmálaumræðu heldur áfram að krauma með tilheyrandi óvissu í stjórnmálum. Það er þrátt fyrir meira góðæri en áður þekkist, mikla kaupmáttaraukningu og alþjóðlegar viðurkenningar fyrir að vera ýmist í fremstu röð hvað varðar heilbrigðisþjónustu, jafnrétti, lífsgæði, friðsæld og háan lífaldur. Auk þess kraumar óvissa þó Ísland ungi út hæfileikafólki á sviði menningar, lista og íþrótta eins og að á eyjunni búi milljónir manna.
Í efnahagslegu tilliti kom kreppan og fór. Það sést best á láninu sem ríkissjóður tók í mesta svartnættinu 2009, og talið var að greiða þyrfti af því 5 milljarða króna árlega fram til ársins 2043. Það var að fullu greitt snemma árs 2017. Batinn er fjórum til fimm sinnum hraðari en reiknað var með. Þann hraða er ekki að sjá í aukinni sátt og vaxandi einhug í umræðu um þjóð- og efnahagsmál.
Þess vegna vaknar sú spurning hvort samræðan í samfélaginu einkennist af þráhyggju þar sem kreppan er farin en við höldum áfram samtali eins og hún sé viðvarandi og að enn sé fullt tilefni til vantrausts? Hvers vegna eru engin merki um endurheimt traust þegar efnahagsleg gæði hafi skilað sér? Getur verið að breytt samtal í samfélaginu vegna tilkomu nýrrar samskiptatækni viðhaldi togstreitu og tortryggni og þar með umróti í stjórnmálum og þjóðmálaumræðu umfram það tilefni sem kreppan mikla gaf eins og nefnt var í grein hér í Kjarnanum í gær? Sama spurning er hvort okkur hafi ekki tekist að ná tökum á nýju samtali þannig að það nýtist til að byggja samfélagslegt traust og samstöðu?
Traust – orðstír
Forsenda þess að ró komist á í samfélagi er að þar ríki traust en sem kunnugt er þá hefur traust almennings á þeim stofnunum samfélagsins sem fara með stefnumótun og framkvæmd hennar ekki náð að rísa eftir áfallið 2008–2010. Ríkisstjórnir hafa í þrígang hrunið í vinsældum jafnharðan og þær hafa verið myndaðar, Alþingi nýtur lítils traust og sömuleiðis stjórnmálamenn eða flokkar, hreyfingar eða aðrar skipulagseiningar sem vinna að stjórnmálum.
Almenningur ber lítið traust til atvinnu-, viðskipta- og fjármálalífsins einkum og sér í lagi til arðsamasta hluta þess hverju sinni. Fjárhagsleg velgengi er gjarnan tortryggð. Sjaldan hefur það átt betur við sem einu sinni var sagt að ef einhverjum gekk illa í viðskiptum var hann aumingi en ef vel gekk þá var hann þjófur.
Sjaldan hefur það átt betur við sem einu sinni var sagt að ef einhverjum gekk illa í viðskiptum var hann aumingi en ef vel gekk þá var hann þjófur.
Þá fer traust til dómstóla þverrandi og einnig fjölmiðla en þeir hafa því mikilvæga hlutverki að gegna í samtímanum að þroska og þróa umræðu um þjóðmál og leggja grunninn að ákvarðanatöku með þátttöku almennings og stjórnvalda.
Hvar er hægt að byggja upp traust? Hvar er vettvangurinn?
Á síðustu öld náðu samfélög í Evrópu sem voru rúin trausti og trúnaði að byggja upp samfélagsstofnanir sem nutu trausts og gátu því gegnt hlutverki sínu. Vettvangur þeirrar uppbyggingar voru fjölmiðlar sem þá voru allir ritstýrðir og tengdir valdastofnunum í samfélögunum.
Ný tækni á sviði samskipta gjörbreytti stöðu og hlutverki hinna hefðbundnu fjölmiðla (ljósvakamiðla og blaða) upp úr síðustu aldamótum. Vald þeirra til að leiða og stýra umræðunni var tekið frá þeim. Það var fært í hendur einstaklinga, hópa eða almennings og ekki bara almennings í lögsögu tiltekins þjóðríkis eða sveitarfélags heldur til alls almennings, nær og fjær. Sú umbreyting hefur á margan hátt örvað umræðu, aukið fjölbreytni og valdeflt einstaklinga og hópa en enn hefur ekki verið sýnt fram á hvernig hún hefur nýst með skilvirkum hætti til að leiða fram niðurstöðu og kalla fram ábyrgar og staðfastar ákvarðanir.
Þá eru heldur ekki dæmi um að hinn nýi vettvangur umræðunnar – margslungið samspil hefðbundinna fjölmiðla, netmiðla, bloggara og hópa og einstaklinga á samfélagsmiðlum – hafi skapað umgjörð þar sem traust og tiltrú hefur vaxið en væntanlega er það spurning um tíma og aðlögun frekar en að hin nýja skipan feli óhjákvæmilega í sér stjórnleysi.
Nýr vettvangur þar sem leiddar eru saman gamlar hefðir stjórnsýslu, umræðuhefð dagblaða og ljósvakamiðla og kraftur nýmiðla og samfélagsmiðla er enn í gerjun og mótun. Hann er enn um sinn að minnsta kosti ekki fær um að leiða fram mikilvægar ákvarðanir sem njóta víðtæks stuðnings og þá um leið að byggja upp traust og trúnað í kringum það í samfélaginu sem vel er gert. Það er ekki aðeins ósætti um markmið heldur ríkir ekki einhugur um aðferðir og leikreglur. Þetta er Catch 22 – hænan og eggið. Það vantar traust til að skapa vettvang sem getur byggt upp traust.
Þetta er Catch 22 – hænan og eggið. Það vantar traust til að skapa vettvang sem getur byggt upp traust.
Þar sem allt getur gerst og það hratt
Við þessar aðstæður má greina endurtekin einkenni stjórnmálaþróunar eins og að gamlir valdaflokkar í fjölflokkakerfum veikjast.
Ólíklegustu hlutir gerast og það undurskjótt. Grínarar með gott vald á fjölmiðlum stíga fram á sjónarsvið stjórnmála og ná völdum (eins og gerðist í Reykjavík 2010 undir forystu Jón Gnarr og á Ítalíu þar sem ein áhrifamesta stjórnmálahreyfing landsins með um fjórðungsfylgi er leidd af kunnum grínara, Grillo að nafni). Sterkefnaðir einstaklingar sem þekktir eru úr fjölmiðlum og með fremur þrönga skírskotun ná kjöri sem forseti Bandaríkjanna eða setjast í stól forsætisráðherra á Íslandi. Í Frakklandi stofnar lítt kunnur en viðkunnanlegur stjórnmálamaður stofnar flokk og 16 mánuðum síðar er hann orðinn forseti lýðveldisins og flokkur hans með hreinan meirihluta á þingi. Grasrótarhreyfingar veikar fyrir anarkí ná traustri fótfestu á Spáni, Grikklandi og Íslandi. Þjóðernisflokkum verður ágengt takist þeim að tefla fram trúverðugum leiðtogum og Bretar grípa til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem Englendingar ákveða að yfirgefa Evrópusambandið en Skotar og Walesverjar ekki og enginn veit um framhaldið.
Erfitt er að greina skýr einkenni þróunar önnur en að tryggð við flokka fer dvínandi. Stuðningur almennings við ný stjórnmálaöfl og gömul er hverfull og fólk leitar ákaft að einhverju nýju eða öðruvísi. Það má vera gamalt og retró eins Bernie Sanders í Bandaríkjunum eða James Corbyn í Bretlandi. Sá síðarnefndi náði hraðari viðsnúningi í kosningabaráttu þar í landi nú í júní en dæmi eru um í seinni tíð.
Hávaðinn í algleymi
Við þær aðstæður sem uppi eru núna má einnig greina ýmis endurtekin einkenni umræðunnar sem fram fer á Vesturlöndum. Athyglin og endurópin á samfélagsmiðlum er mikilvægasti mælikvarðinn á allt efni sem sett er fram. Það er mælikvarði sem ýtir til hliðar öðrum viðmiðum og gerir staðhæfingar og staðreyndir jafngildar í umræðunni, þekkingu, hálfþekkingu og vanþekkingu sömuleiðis, skoðanir verða ályktanir og öfugt, og orsakir koma á undan afleiðingum. Svo er allt trompað með því að gera sannleikann afstæðan og valkvæðan. Falsfréttir fljúga eins hátt og aðrar fréttir en enginn tekur eftir leiðréttingum.
Einstaklingurinn fer í verslun sjónarmiða og velur úr hillu á milli skoðana, ályktana, orsaka, falsfrétta, staðhæfinga og staðreynda og tekur heim með sér sem sannleikann. Allt er jafngilt og hliðstætt, gildisaukinn verður til með endurtekningunni, lækunum, tíst-eltinu og öðru sem nærir athyglina.
Leiðtogar sækja styrk í bergmálsherbergin
Þá er áhugavert að skoða einkenni þeirra leiðtoga og einstaklinga sem rísa og verða fremur áberandi við þessar aðstæður en þegar meiri ró hvílir yfir umræðunni. Þeir sækja oftast skýrt umboð til hóps með frekar þrönga skírskotun og skiptir vinstri eða hægri þar litlu máli. Lögmæti sjónarmiða er sótt til láréttra samfélaga. Rökræðan er þróuðu í bergmálsherbergjum þeirra og hún síðan borin út í hið lóðrétta staðbundna samfélag.
Þessir leiðtogar fara gegn sumum ríkjandi eða viðteknum gildum sem gjarnan birtast í „fjölmiðlum sem eru á móti þeim“ og eru faglegir, borgaralegir eða nútímalegir. Þessir leiðtogar – hvort sem þeir heita Corbyn eða Trump, Sigmundur Davíð eða Gunnar Smári – skilgreina þau sem „kerfið“ sem þeir telja sig í andstöðu við. Og þá er meint andúð „kerfisins“ við þá og þeirra sjónarmið mikil næring fyrir þessa leiðtoga.
Sjónarmiðin byggja oft á tvíhyggju þar sem hagsmunir liggja til grundvallar en ekki hugsjónir þannig að umræðan kjarnast um „okkur“ og „hina“ frekar en „réttlæti“ eða „sanngirni“. Og þá beita þeir og stuðningsmenn þeirra gjarnan aðferðum beinna samskipta við hópa og almenning; Ítrekanir og endurtekningar bergmála á samfélagsmiðlum og gildisaukinn er sóttur í aukna útbreiðslu og athygli. Þannig víkja gildi á borð við rétt, satt, sanngjarnt og gott fyrir því sem er flott, hátt, snjallt, endurtekið, svalt og æðislegt.
Í auga stormsins
Ómögulegt er að sjá fyrir hver þróun stjórnmála og þjóðfélagsumræðu á Vesturlöndum verður. Stóru viðfangsefnin eru mörg, allt frá hlýnun jarðar, hnattvæðingu, fólksflutningum, skiptingu auðs, yfir í hvata til verðmætasköpunar til að halda úti velferðarþjónustu. Engin efast um mikilvægi þess að stjórnmálamönnum farnist vel við úrlausn þessara mála.
Ein forsenda þess að svo fari er að skilningur sé á því hvaða áhrif breytingar á samfélagslegum samskiptum eru að hafa. Í þremur greinum um ólguna í stjórnmálum á Vesturlöndum hefur hér verið fjallað um og sýnt fram á hvernig breytt samtal á þátt í að viðhalda þeim óróleika sem nú ríkir. Þannig er nú komið að vantraust í samfélaginu er langtum meira en að minnsta kosti efnahagsleg tilefni er til og er Ísland eitt gleggsta dæmi þess.
Þrátt fyrir endurtekin dæmi um aðlögunarhæfni í vályndu umhverfi efnahagsmála og fádæma umburðarlyndi sem birtist í hröðum félagslegum umbótum sem aðrar þjóðir telja til fyrirmyndir, þá ólgar vantraust og vandlæting vegna þess hvernig við tölum um okkur og hvert annað. Og Ísland er ekki einsdæmi.
Hverjir ná fyrstir tökum á nýrri tækni?
Niðurstaða þessara greinaflokks er þess vegna að bæði hér á Íslandi og á Vesturlöndum verður það eitt af stóru viðfangsefnum stjórnmálanna að laga sig að breyttu samtali og nýta það til valdeflingar þeirra sem eru máttvana, skapa traust með auknu gagnsæi og leiða uppbyggilega umræðu til að ná breiðri samstöðu og styrk til að fylgja eftir erfiðum ákvörðunum.
Eins og dregið hefur verið fram þá erum við í auga stormsins og sjáum illa hvert nýtt samtal ber okkur. Við höfum hins vegar séð hluti sem ástæða er til að vera á varðbergi gagnvart eins og markvissri útbreiðslu á falsi og lygum, vanmætti hefðbundinnar rökræðu gagnvart endurteknum hálfsannleik og ónákvæmni í meðferð staðreynda og ályktana og öðrum aðferðum sem nýtast helst tækifærissinnum og öfgahópum sem hyggjast ná pólitískum ávinningi í skjóli hávaða og ólgu sem fylgir umbrotum á sviði miðlunar og samskipta í samfélaginu.
Það hefur lengi verið viðkvæðið að til þess að ná völdum þarf fyrst að ná tökum á fjölmiðlum. Ástæðan fyrir ólgu samtímans er að hluta til sú að enginn er að ná tökum á fjölmiðlum tuttugustu og fyrstu aldar. Þar er að líkindum til mikils að vinna.
Fyrri tvær greinarnar í greinaröð Ásgeirs Friðgeirssonar má finna á vefnum og í hlekkjunum hér að neðan.
Höfundur er fyrrum kennari, blaðamaður, ritstjóri og varaþingmaður sem hefur starfað undanfarin 16 ár sem ráðgjafi alþjóðlegra fjármálafyrirtækja og fjárfesta í samskiptum og viðskiptum. Hann hefur fylgst með þróun fjölmiðla og umræðu um viðskipti, efnahagsmál og stjórnmál í yfir 30 ár og er með jafngamalt meistarapróf í samskiptafræðum frá Manchester háskólanum í Englandi.