Fréttaskýring#Bandaríkin#Stjórnmál
Í sporum atkvæðaveiðara í New Hampshire
Bryndís Ísfold, útsendari Kjarnans í Bandaríkjunum, lýsir reynslunni af þátttöku í kosningabaráttu Hillary Clinton í New Hampshire. Bernie Sanders er líklegri til að sigra í forvali demókrata þar. Bryndís ræddi við kjósendur og fékk að kynnast muninum á frambjóðendunum.
Þegar vekjaraklukkan hringdi klukkan 5:30 á laugardagsmorguninn stóð ég frammi fyrir því að þurfa að ákveða hvort ég ætlaði raunverulega að leggja á mig tíu tíma rútuferð og standa vaktina fyrir Hillary Clinton í New Hampshire í einn dag. Ég sat á rúmstokkinum og starði á klukkuna og var farin að telja mér trú um að Bernie Sanders væri bara bærilegur kostur ef ég fengi að sofa lengur. Auk þess „þurfti“ ég ekkert að sjá kosningabaráttu í sveifluríki (e. swing state) með eigin augum. Hafði ég ekki fengið nóg af þessum prófkjörum þegar ég þræddi gangana á stóru blokkinni í Fellunum um árið? Þegar ég náði loks fullri meðvitund og búin að sötraði morgunkaffið úr Hot for Hillary-bollanum fór ég að gera mig tilbúna fyrir nýfallinn snjóinn og kuldann í New Hampshire. Rann þá upp fyrir mér að ég hlyti að vera kolgeggjuð.
New Hampshire er lítið ríkið norðarlega á norð-austurströnd Bandaríkjanna þar sem búa ríflega milljón manns. Samkvæmt lögum verður ríkið að vera fyrst í forvali flokkanna en þar sem Iowa er tæknilega ekki með forval heldur opinn kjörfund (e. caucus) eru kosningarnar í nótt þær fyrstu í ár. Kosið hefur verið í forvali flokkanna í New Hampshire í 100 ár og í ár verða 319 kjörstaðir um allt ríkið opnir. Til að bæta á flækjustigið eru þrír litlir bæir sem hafa heimild til að opna kjörstaði á miðnætti aðfaranótt kjördags og loka um leið og allir hafa kosið. Þessir bæir hafa nær alltaf kosið þann frambjóðanda sem hefur að lokum staðið uppi sem sigurvegari og því varla hægt að þverfóta fyrir atkvæðaveiðurum dagana fyrir kjördag.
Staðan fyrir forvalið
Þó kannanir mæli Donald Trump með 34 prósent fylgi og mótframbjóðendurna Ted Cruz og Marco Rubio með 13 prósent fylgi hvor, voru skilaboð Trump til stuðningsmanna kvöldið fyrir kjördag að allir yrðu að mæta á kjörstað. „Þó svo konan þín segi við þig á morgun að hún sé orðin ástfangin af öðrum manni, þó þú sért svo veikur að þú sért við dauðans dyr, þá verður þú að mæta og kjósa,“ sagði Trump við kjósendur sína.
Trump óttast að niðurstaðan verði önnur en sú sem kannanir sýna eins og í Iowa í síðustu viku. Þar lenti Trump í öðru sæti þó kannanir gerðu ráð fyrir að hann mundi vinna. Trump trónir enn á toppnum í könnunum á landsvísu, en forskot hans minnkaði milli vikna eftir tapið í Iowa. Ljóst er að niðurstöður fyrstu forkosninganna geta haft áhrif á skoðanir allra landsmanna.
Hjá demókrötum er ekki minni stemmning þó Bernie Sanders sé með töluvert forskot í könnunum. Ný könnun frá American Research Group sýnir 9 prósentustiga mun á milli Sanders og Hillary Clinton. Sanders er með 53 prósenta fylgi meðal líklegra kjósenda og Clinton 44 prósent hjá sama hópi. Clinton nýtur frekar stuðnings meðal kvenna en Sanders nýtur stuðnings 63 prósent kjósenda sem eru yngri en 49 ára. Hópur óákveðinna skráðra kjósenda er enn töluverður. Stuðningur við Sanders eykst enn frekar meðal yngstu kjósenda en þrátt fyrir að allt bendi til þess að Sanders vinni New Hampshire er Clinton enn með töluvert forskot í flestum könnunum á landsvísu.
Útspekúleruð kosningafræði
Þegar rútan okkar kom loks á áfangastað í smábænum Rochester í New Hampshire var augljóst að samkeppnin um atkvæði íbúa var farin að harðna, ef marka mátti risavöxnu Trump-skiltin sem tóku á móti okkur þegar við keyrðum yfir bæjarmörkin. Það er stutt á milli kosningaskrifstofa Clinton og Sanders; einungis um það bil fimmtán skref. Það sama má segja um afstöðu kjósenda demókrata til frambjóðendanna tveggja; hún er ekki afgerandi og lítið skilur þá af.
Á kosningaskrifstofunni hjá Hillary Clinton var komin móttökunefnd sem var skipuð af bæjarstjóranum í smábænum og öldungarþingmanni úr nærliggjandi ríki auk annarra. Móttökunefndin hafði splæst í pizzur og kaffi fyrir sjálfboðaliðana sem stigu úr rútunni frá New York.
Farið var með okkur yfir hvernig best væri að tala við kjósendur og var áhugavert að heyra sömu kosningatrixin lifa góðu lífi hér í Bandaríkjunum eins og heima á Íslandi. Það er engin leið að ná í fólk í síma lengur í New Hampshire. Áreitið frá kosningaveiðurum er komið á það stig að fólk er hætt að svara í símann og þess vegna átti að senda okkur út af örkinni.
Þrátt fyrir að kosningastjórnendur í búðum Clinton hafi ekki sagt það berum orðum var augljóst að markmiðið með handritunum sem sjálfboðaliðar eiga að fylgja er ekki bara að fá fólk til að jánka því að kjósa Hillary Clinton heldur segja það sjálft: Ég styð Hillary Clinton. Svo er mikilvægt að minna fólk á hvaða kjörstaður tilheyri þeirra götu, ræða opnunartíma þeirra og spyrja svo hvenær dags það haldi að það muni kjósa. Þetta er gert til að fólk fari yfir daginn sinn og það eykur líkur á því að það skili sér á kjörstað. Sé fólk í vafa um hvorn það ætlar að kjósa á að spurja hvort það sé eitthvað mál eða málefni sem sé um að kenna. Því næst þarf að gera tilraun til að sannfæra óákveðna með því að tala út frá eigin sannfæringu. Ef ekki tekst að sannfæra viðkomandi er spurt: „Má ég þá skrá að þú sért óákveðin en að þú hallist að mínum frambjóðanda?“. Trixið snýst um að þegar fólk hefur sagt upphátt að það ætli að styðji einhvern, jafnvel þó það sé bara líklega, þá þykir óþægilegt að svíkja það. Þrátt fyrir að það jánki einhverju við einhvern bláókunnugan sem aldrei mun vita hvernig viðkomandi kaus að lokum. Svona er nú kosningafræðin útspekúleruð og óskammfeilin.
Kjósendur í New Hampshire
Þegar búið var að fara yfir reglur og ráð, var fólk parað saman og ákveðnum götum útdeilt þar sem pörin áttu að banka á þau hús þar sem skráðir demókratar búa. Ég lenti með áströlskum sjálfboðaliða og bæjarstjórinn sjálfur keyrði okkur í einbýlishúsahverfi þar sem við klofuðum snjóskafla, börðum á 50 hús og fengum tækifæri til að tala um ágæti Hillary Clinton. Það að segjast hafa komið frá sitthvorum enda jarðkringlunnar til New Hampshire þótti sannfærandi.
Það kom okkur hins vegar á óvart hversu margir kjósendur voru enn óákveðnir um hvort þau myndu styðja Sanders eða Clinton á kjördag. Ástæðurnar voru margvíslegar en þó virtust flestir sammála um að okkar frambjóðandi væri sá kandídat sem yrði líklegri til að sigra þann repúblikana valinn yrði forsetaframbjóðandi hins flokksins. Hins vegar sögðu margir að Sanders kveikti í þeim von um að róttækar breytingar gætu í raun orðið á bandaríska stjórnkerfinu. Heilbrigðismálin vega mjög þungt en þar skilur töluvert á milli frambjóðenda demókrata. Clinton hefur sagt að hún vilji byggja ofan á Obamacare en Sanders vill að farið verið í svokallað „Single Payer Program“, þar sem allir eru tryggðir óháð efnahag og kerfinu stýrt af ríkisvaldinu þó það verði áfram einkarekið.
Stuðningur Clinton við stríðið í Írak truflar enn marga. Fyrrverandi hermaður benti hins vegar á að Sanders hefði ungur komið sér undan herskyldu. Hér í Bandaríkjunum er þátttaka í hernum töluvert rædd, ekki síst í forsetakosningum enda er forseti yfirmaður hersins og eigin reynsla af hernum því mikils metin.
Fjárstuðningur stórra hagsmunahópa, ekki síst úr fjármálagreiranum, við framboð Clinton kom oft upp þennan snjóþunga laugardag í New Hampshire. Það var augljóst að þeim sem höfðu enn ekki gert upp hug sinn þótti það aðdáunarvert að Sanders þægi ekki stórar upphæðir frá sterkum hagsmunahópum.
Einn viðmælandi okkar benti okkur á að með því að kjósa Hillary Clinton fengi þjóðin „tvo forseta fyrir einn“ og þó hún væri ekki viss hvor fengi atkvæðið hennar þótti henni ánægjulegt að geta kosið milli tveggja málsmetandi frambjóðenda. Það væri annað en repúblikanar byðu upp á þessa daganna. Áður en við kvöddum hana benti hún okkur á bækling sem lá frosinn við útitröppurnar hjá henni og hristi höfuðið. Þar var áróður frá repúblikananum John Kasich um Jeb Bush mótframbjóðanda sinn.
Munurinn á Hillary og Bernie
Þegar við höfðum bankað á öll húsin sem okkur var úthlutað og við sóttar í úthverfið náðum við að taka stutta kaffipásu, áður en við héldum aftur í rútuna. Andspænis kosningaskrifstofunni fundum við kaffihúsið The Cast & Grind. Þar er eigandann stuðningsmaður Sanders. Sá heitir Eric Jan Adema, 43 ára. Að hætti heimamanna settumst við niður yfir kaffi og „maple square“, sem er eins konar ferköntuð rjómabolla með sýrópsrjóma, og ræddum um pólitík við veitingamanninn.
Adema sagðist bera þá von í brjósti að enn væri hægt væri að breyta stjórnmálunum. Það væri ástæða þess að hann styddi Sanders. „Af því hann er tilbúinn að taka á stóru bönkunum. Allur fjárstuðningurinn sem hann fær eru litlar upphæðir frá einstaklingum, sem þýðir að þegar hann verður kosinn verður hann ekki í skuld við einhverja af stóru fjármálastofnunum þessa lands og getur tæklað þær óáreittur,“ sagði Adema. Þannig mun Sanders í raun og veru getað unnið fyrir og hjálpað þeim sem eru í lægri- og millistétt. Þannig geta þessar stéttir lifað mannsæmandi lífi án þess að þurfa að reiða sig á félagslegan stuðning stjórnvalda.
Eins og hjá mörgum öðrum kjósendum bar heilbrigðiskerfið á góma hjá Adema sem sagði Bernie Sanders vera manninn sem gæti raunverulega breytt því. „Ég hef líka fulla trú á því að hann muni geta sett á heilbrigðiskerfi sem tryggir ókeypis heilbrigðistryggingu fyrir alla landsmenn.“
Ég átti erfitt með annað en að taka undir að þetta séu mikilvæg málefni og benti á að með því að kjósa Clinton fái þjóðin fyrsta kvenkyns forsetann. Nú þegar eru sjötíu lönd í heiminum búin að kjósa sér kvenkyns þjóðarleiðtoga auk þess að Hillary Clinton sé líklega reynslumesti forsetaframbjóðandi allra tíma. Adema gat tekið undir það, en sagði fólkið í landinu þurfa á byltingu að halda.
Í þann mund heyrist flaut rútunnar sem átti að aka okkur aftur til New York. Það er kominn tíma á að kveðja kjósendurna í New Hampshire. Eric Jan Adema brást ekki þeim háa kurteisisstaðli sem heimamenn virðast hafa sett sér og skellir nokkrum ferköntuðum rjómabollum í poka og sendir okkur atkvæðaveiðarana á brott með nesti.
Leiðin heim
Þegar ferðin heim var um það bil hálfnuð byrjuðum við sjálfboðaliðarnir að fylgjast með kappræðum repúblikana. Hlátrasköllin hófust strax. Þegar verið var að kynna inn frambjóðendur í útsendingunni rugluðust kandídatarnir og vissu ekki í hvaða röð þeir áttu að ganga inn á sviðið með tilheyrandi vandræðagangi. Kappræðurnar snérust svo upp í árásir á milli frambjóðenda. Þær beindust að mestu til Marco Rubio, öldungadeildarþingmannsins frá Flórída, sem fékk ítrekað að heyra það frá Chris Christie, ríkisstjóra New Jersey. Hann sagði Rubio vera eins og vélmenni í svörum, hann hefði enga haldbæra reynslu sem forseti þyrfti að hafa og í beinu framhaldi benti Christie svo á að hann sjálfur hefði reynsluna sem þyrfti til, hafandi verið ríkisstjóri. Rubio fékk svo viðurnefnið „Robot“ í kjölfarið.
Ted Cruz öldungadeildaþingmaður frá Texas, sem Trump sakaði um að hafa komið þeim þeim sögusögnum af stað að Ben Carson væri að hætta í framboðinu daginn sem kosið var í Iowa, bað Carson afsökunar á framferði stuðningsmanna sinna. Og svona koll af kolli, rak hvert furðumálið annað.
Umræðan um pyntingar stóð einna helst upp úr málefnalegri umræðu kappræðanna, ef svo má segja. Þar kom í ljós að flestir frambjóðendurnir voru sammála um að leyfa svokallaða „Waterboarding“-aðferð við yfirheyrslu á ný. Allir frambjóðendurnir sóru svo að setja meiri fjármuni í hernaðarlegar varnir landsins, taka þyrfti með enn afgerandi hætti á Norður-Kóreu sem hafði fyrr um daginn prófað langdrægra flaug. Efnahagsmálin voru einnig ofarlega á baugi. Trump virðist vera nokkuð nálægt Sanders í skoðunum þegar kemur að viðskiptasamningum við önnur lönd. Báðir hafa talað um hvernig slíkir samningar hafa á undanförnum áratugum ýtt undir flutning starfa úr landi og að endurhugsa þurfi gerð slíkra samninga.
Óheppileg ummæli feminista
Þegar um klukkutími var eftir af þessari fimmtán tíma löngu dagskrá byrjuðu að berast fréttir af fundinum sem Hillary Clinton hafði haldið í New Hampshire fyrr um kvöldið. Þar var henni til stuðnings fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna Madeline Albright. Sú hélt þar innblásna ræðu um hvers vegna konur ættu að styðja framboð Clinton, þá sérstaklega ungar konur, en kannanir hafa sýnt að ungar konur styðja Bernie Sanders í miklu meiri mæli en Clinton. Albright benti á að Hillary Clinton hefði rutt brautina fyrir allar konur, hún hefði ekki bara mikla og dýrmæta reynslu heldur kjark og dug til að breyta fyrir allar konur. Hún lauk svo máli sínu með frasa sem hún hefur gert frægan í gengum skrif sín um konur í stjórnmálum: „Það er sérstakur staður í helvíti fyrir konur sem styðja ekki aðrar konur“. Örskömmu síðar var þessa setningu að finna á forsíðum allra miðla og viðbrögðin vægast sagt ekki jákvæð.
Til að bæta gráu ofaná svart lét Gloria Steinem, einn þekktasti og virtasti feministinn í Bandaríkjunum, hafa eftir sér í viðtali hjá Bill Mahers að líklega væru ungar konur svona hrifnar af Sanders af því strákarnir væru hrifnir af Sanders. Þetta var ekki til þess fallið auka vinsældir Hillary Clinton meðal yngri kjósenda og allra síst kvenna sem nú kepptust við að svara Steinem á Twitter og í athugasemdakerfum. Þar var meginstefið að það væru þær sjálfar sem ákveða hvern þær kjósa en ekki karlkyns vinir þeirra. Daginn eftir baðst Steinem svo afsökunar og sagðist hafa mismælt sig og ekki ætlað að gera lítið úr pólitískum áhuga eða skoðunum yngri kvenna.
Þó bæði Albright og Steinem hafi án efa ætlað að nota styrkleika sína til að auka fylgi Clinton þá kom á óvart að þær skildu báðar látið hafa eftir sér svo umdeilanleg ummæli. Þessi ummæli, auk þeirrar staðreyndar að Clinton muni líklega tapa fyrir Sanders í New Hampshire, virðast hafa hrist upp í herbúðum Hillary Clinton því snemma á sunnudaginn kvisaðist út að endurskoða ætti leikfræðina áður en lengra yrði haldið.
Þegar heim var komið varð það ágætis léttir að sjá þá Bernie Sanders og Larry David mætta saman í sjónvarpið; í Spaugstofu þeirra Bandaríkjamanna, Saturday Night Life, vegna þess að frá því að framboð Sanders hófst hefur ítrekað verið gert grín af því hversu líkur hann þykir grínistanum og höfundi hinna sívinsælu Seinfeld þátta. Það var ágætt að ljúka þessum langa degi á að sjá að Sanders átti ekki í vandræðum með að gera dálítið grín af sjálfum sér og hlæja með.
Með frostbitna fingur og reynslunni ríkari get ég nú horft spennt á niðurstöður kosninganna til að sjá hvað kjósendur New Hampshire velja sér. Kosið er í kvöld að íslenskum tíma og munu kjörstaðir loka klukkan eitt í nótt.
Þegar á öllu er á botninn hvolft, jafnvel þó þetta fari ekki eins og maður hefði sjálfur kosið, getur maður huggað sig við það að það eru bara ellefu dagar í að demókratar kjósi næst. Það verður í Nevada og repúblikanar á sama tíma í Suður-Karólínu. Þegar því er lokið eiga 47 ríki enn eftir að velja sinn frambjóðanda.