Jónas Kristjánsson býr nú í þjónustuíbúð fyrir aldraða, á fjórðu hæð með útsýni yfir borgina, og finnst sjálfum að þarna ríki yfirþyrmandi þögn. Hann horfir yfir heiminn í hljóði, skeleggur og skýr og alveg sama hvað fólki kann að finnast um hann. Þögnin minnir á að það er af sem áður var, og þó!
Þarna heldur hann úti blogginu sínu og sparar ekkert til þegar hann gagnrýnir menn og málefni, nei, hann skrifar af lífsþrótti unglingsins og kannski er það lífselexírinn hans, manns sem hefur lifað og hrærst í átökum og breytingum samfélagsins áratugum saman og haft þar áhrif sem blaðamaður og ritstjóri á einu sprækasta dagblaðinu á Íslandi um langa hríð.
Hann býður upp á kaffi, súkkulaði og jarðarber og sólin skín á veitingarnar meðan við spjöllum um fjölmiðla og hugsjónir, eilíf lögmál hagsmuna, flokkablöð og viðskiptablokkir, já, um veröld sem var … og veröldina okkar.
Þegar ég var að byrja í blaðamennsku á Tímanum höfðu blöðin einhvern sem tók lögreglu- og slökkviliðsrúntinn, labbaði á millistaðanna eða fór í strætó eða á bíl, eða hvernig sem það var, til að fá fréttir. Núna er þetta þannig að lögreglan sendir út dagbók eða tilkynningar og þetta er birt meira og minna orðrétt frá lögreglunni. Allt klippt og skorið. Þannig er mikið af fréttum núna. Þær eru klipptir og skornir textar frá stofnunum; frá upplýsingafulltrúum og með einhvers konar ákvörðunum um hvernig mál eigi að nota og búa til orð sem ekki þekktust til að milda, eða eitthvað. Menn eru ekki þjófar og glæpamenn lengur heldur sviga menn í kringum skattinn eða eitthvað svoleiðis.
Þá var alltaf einhver með partí á föstudögum, svona drykkjupartí, og þangað fór öll blaðamannahjörðin að drekka sig fulla. Og maðurinn sem hélt þetta partí var með nýjung eða eitthvað merkilegt og út af fyrir sig var ekkert við það að athuga. Svo kom þetta í blöðunum að viðkomandi væri að gera einhverja rosalega fína hluti. Þetta var sú spilling sem við hrærðumst í.
---
Gagnrýnin blaðamennska varð til löngu seinna. Ástandið sem maður kynntist á Tímanum var út af fyrir sig frítt spil innan þeirra marka að öll blöðin voru partur af kerfinu og partur af stjórnmálunum, þannig að álit blaðamanna var á svipuðum nótum og álit kerfisins. Þá var ekkert talað um spillingu eða svoleiðis. Þá var einn kommissar á Tímanum sem skrifaði um pólitík og hann tók yfir forsíðuna mánuði fyrir kosningar og skrifaði forsíðuna meðan við höfðum baksíðuna. Það var ekkert verið að rugla þessu saman. Forsíðan fór í þetta og kannski eitthvert framhald á blaðsíðu tvö – en alvöru fréttirnar voru á baksíðunni.
Ég man eftir einu sinni að ég fór upp á Bifröst í tilefni af því að þeir voru að hefja þar hótelrekstur. Ég sagði frá þessu hóteli og skrifaði meðal annars að ein afgreiðslustúlkan hefði sagt að sér hefði liðið þá verst þegar hún missti sósuna yfir gestinn. Þetta hafði verið teiti fyrir Samband íslenskra samvinnufélaga, sem náttúrlega fjármagnaði Tímann, og ég var beðinn um að koma og tala við deildarstjóra eða framkvæmdastjóra útflutnings, en Bifröst féll þá undir hann, og hann var óskaplega reiður og sagði: „Á Bifröst hellir enginn sósu yfir neinn!“ En þetta kom í blaðinu og það urðu engin eftirmál af því á ritstjórninni. Þetta fór alveg fram hjá þeim.
Fyrsta gagnrýna rannsóknarblaðamennskan byrjaði með Víetnam. Ég skrifaði leiðara á móti stríðinu og það olli óróa.
Af Tímanum fór ég á Vísi þar sem ég varð svo ritstjóri. Þá var aðalmálið að koma okkur upp nýrri tækni því að tæknin á þessum blöðum öllum var gamaldags. Og í kringum 1972 fór prentsmiðja í gang sem blöðin áttu sameiginlega – nema Mogginn. Tveir menn sem höfðu verið bakhjarlar blaðsins – Kristján í Kassagerðinni og Sigfús í Heklu – unnu mikið með mér á þessum tíma. Þeir höfðu aldrei nein afskipti af neinu en þeir vildu bara að blaðið hætti að tapa!
Fyrsta gagnrýna rannsóknarblaðamennskan byrjaði með Víetnam. Ég skrifaði leiðara á móti stríðinu og það olli óróa. Þá gerist það að þessir gömlu menn deyja og við taka afkomendur þeirra. Þeir voru allt öðruvísi. Þeir sáu að blaðið var ekki lengur rekið með tapi og fara að skipta sér af. Þetta Víetnam-mál var eitt af því sem þeir skiptu sér af. Þarna verður mikið havarí sem endar með því að ég er rekinn 1975. Þá stofnuðum við Dagblaðið. Við gátum fengið að prenta í þessari sameiginlegu prentsmiðju. En mánuði seinna, minnir mig, sendu þeir okkur bréf og sögðu okkur upp með mánaðar fyrirvara og það endaði með því að Árvakur féllst á að prenta okkur, þannig að við fórum úr þessari sameiginlegu prentsmiðju fátæku blaðanna og yfir í prentun hjá Mogganum. Morgunblaðið breyttist í kjölfarið. Allir taka við sér þegar kemur samkeppni.
---
Það hafði orðið til mikil stemning með Dagblaðinu og hún sýndi sig þegar útvarpið fór í verkfall og við vorum með útvarp á ljósvakanum. Sýslumaður kom og ætlaði að loka útvarpinu og þá komu hundruð manna og stóðu fyrir utan húsið til þess að hindra að sýslumaðurinn kæmist inn. Þetta var ólöglegt vegna þess að Ríkisútvarpið hafði einkarétt á útvarpssendingum. Hannes Hólmsteinn setti líka uppútvarpsstöð í Valhöll en þetta var sú sem var tekin og henni lokað.
Við vorum blað almennings. Síðar, þegar við sameinuðumst Vísi, breyttist þetta. Fólk hélt áfram að lesa blaðið en það leit ekki lengur á það sem upprunnið hjá fólkinu heldur værum við eitt af kerfisblöðunum og orðið stofnun. Við náðum aldrei slíkri stemningu eftir að þetta var sameinað en við fengum peninga. Þannig var fjárhagslegur blómatími þessa blaðs sem var kallað DV á síðasta áratug 20. aldar.
Í sex ár ríkti mikil samkeppni milli Dagblaðsins og Vísis. Það var raunverulega blómaskeið okkar því að við höfðum feiknarlega útbreiðslu og feiknarlegan lestur á árunum 1975 til 1981. Við vorum alltaf í plús en blaðið samt fátækt og við gátum ekki gert neitt sem kostaði peninga. Um 1981 fórum við að tala um að sameina þessi blöð og þau voru sameinuð á einni nóttu, enda á sömu hæð í samliggjandi húsum. Bara borað á milli og opnað, ekkert flóknara.
Þá var Ellert Schram ritstjóri Vísis og ég ritstjóri Dagblaðsins og þetta gekk glimrandi fyrir sig fjárhagslega. Við gátum fjölgað starfsfólki; tveir í erlendum fréttum í staðinn fyrir einn; tveir í íþróttum í staðinn fyrir einn og svo framvegis. Og við gátum fljótlega farið að hafa mann í að gera eitthvað sem við vissum ekki hvað kæmi út úr. Eitt af því fyrsta var að við sendum Eirík Jónsson, sem síðar varð frægur, til Amsterdam í tvær eða þrjár vikur til að kanna fíkniefnamarkaðinn. Við gáfum okkur þetta, að einhver gæti farið í tvær til þrjár vikur og verið bara í því einu.
Þetta blað seldist mjög vel svo við vorum komnir á par við Moggann. Það var gott að vinna með Ellert, við höfðum engar áhyggjur af því hvernig leiðarar voru skrifaðir. Það fannst mönnum einkennilegt. Leiðarar eru bara um eitthvað sem mönnum dettur í hug en svo er fólk sem telur að leiðarar séu einhver stjórn á þjóðinni – sem var alls ekki okkar meining. Við Ellert skrifuðum á víxl. Ég kann ekki að meta áhrif leiðaranna, það er enginn mælikvarði til á það.
---
Í millitíðinni hafði það gerst í útlöndum að farið var að kenna rekstrarhagfræði og finna einhverjar formúlur til þess að bæta rekstur, og það var mjög mikið fólgið í því að taka yfir fyrirtæki, reka helming starfsfólksins og arðsemin hækkaði um 20 prósent eða eitthvað sem þessir menn töldu að væri hæfilegt, en það er ekkert hægt að reka blað með 20 prósent hagnaði. Það er bara vitleysa.
Þetta kom til okkar í kringum aldamótin þegar sonur Sveins, Eyjólfur, kom sem rekstrarverkfræðingur frá Bandaríkjunum og hann var með þessar dillur; að stofna nefndir til að kanna eitthvert vandamál, hvernig væri hægt að fjölga auglýsingum í blaðinu og það var settur blaðamaður í nefndina og auglýsingamaður og þeir fengu hugmyndir og svo endaði það með því að þeir reyndu að stjórna hver öðrum. Þetta varð vandamál um aldamótin, þá fór lesturinn að bila. Af því að fólk fattaði þetta.
Í útlöndum hefur tekist á nokkrum stöðum að verjast þessu af því að einhverjar fjölskyldur eiga blöð, blöð sem hafa verið fjölskyldueign í þrjár eða fjórar kynslóðir, blöð sem eru mjög góð. Og The Guardian er til dæmis í eigu stofnunar sem er einhvers konar sjálfseignarstofnun. Þeim hefur tekist að halda sér sem mjög góðu blaði þótt það hafi lent í mörgum pólitískum sviptingum. Svo var Washington Post búið að vera í fjölskyldueign þegar Watergate var í gangi, fjölskyldan stóð á bak við þann hvell allan.
Allan þennan tíma hefur Ríkisútvarpið verið stærsti og mest notaði fjölmiðillinn. Útvarp í þá daga og núna bæði sjónvarp og útvarp og meira. Þar eru að mörgu leyti bestu fréttamennirnir en Ríkisútvarpið er ríkið og voðalega viðkvæmt fyrir pólitískum áflogum. Og það lamar.
Við höfum ekkert svona hér. Eignarhaldið á Morgunblaðinu hefur færst meira yfir á sjávarútveginn. Ég veit ekki hverjir eiga DV eða Fréttablaðið en Fréttablaðið er svona ný týpa af blaði sem byggist á dreifingu, ekki neinu öðru. Það fær auglýsingar af því að það hefur ákveðna dreifingu og svoleiðis blöð eru til alls staðar en þau eru aldrei mikils metin. Fréttablaðið er hvað skást af slíkum blöðum, enda var það Gunnar Smári sem hélt utan um það. Það væri kannski hægt hér að hafa áskriftarleiðir, eins og Stundin og Kjarninn gera. Þau eru náttúrlega blöðin sem maður les, og Kvennablaðið. En þetta er máttlítið miðað við aðra fjölmiðlun, að Ríkisútvarpinu ógleymdu. Allan þennan tíma hefur Ríkisútvarpið verið stærsti og mest notaði fjölmiðillinn. Útvarp í þá daga og núna bæði sjónvarp og útvarp og meira. Þar eru að mörgu leyti bestu fréttamennirnir en Ríkisútvarpið er ríkið og voðalega viðkvæmt fyrir pólitískum áflogum. Og það lamar. En Ríkisútvarpið er stabílasti fjölmiðillinn. Það yrði skelfilegt ef RÚV færi. Þá væru bara einkastöðvar og sennilega yrði Stöð 2 og það batterí allt ofan á.
Blómaskeið alvöru blaðamennsku hér á landi hófst að vissu leyti með sjónvarpinu. Því fylgdu hugmyndir frá Danmörku um hvernig sjónvarp var rekið þar og þar voru blaðamenn Danmarks Radio með þætti vikulega um neytendamál. Þetta var flutt hingað eins og allur bransinn er; meira og minna í einhverju sambandi við útlönd. Ég byrja í þessu 1961 og við fengum stafla af skandinavísku og bresku blöðunum. Þau höfðu áhrif þá og hafa alltaf haft. Menn hlustuðu á BBC og fólk var ekkert einangrað hér, þannig séð. Blaðamenn vissu allan tímann að hægt væri að gera betur og öðruvísi.
Rannsóknarblaðamennska er enn til staðar á góðum fjölmiðlum. Ég held að útvarpið sé mjög lítið í henni samt og Kastljósið til dæmis ekki heldur. Silfur Egils er ekki svipur hjá sjón. Rosalegur hæfileikamaður eins og Egill er sem sjónvarpsmaður, alveg sérstakur. Maður sér svo sem á honum að hann er orðinn grýttur og bólginn og það er ósköp skiljanlegt. En hann gerði mjög góða hluti þegar hrunið varð.
---
Enn hefur ekki verið fundið út hvernig við eigum að hafa fjölmiðla næstu árin. En þeir sem reyna það eru til dæmis að þróa ýmislegt með því að líta á aðila erlendis sem hafa áhyggjur af þessu, eins og The Guardian. Þeir eru með mjög virkan vefmiðil og hann er frír. En maður opnar einhverja grein þar og þá kemur áminning um að það sé dýrt að gefa út gott efni og mælt með að menn borgi tvö pund ámánuði eða eitthvað svoleiðis. Þetta er ein tilraunin, að fá fólk til að fastsetja viljandi peninga mánaðarlega. Svo eru önnur blöð sem hafa beinlínis áskrift og auglýsa það alltaf ef maður opnar grein. Þá geturðu séð greinina en með fylgir áminning um að fleiri greinar fáist fyrir um tvo dollara á mánuði. Þetta gerir New York Times.
Þegar menn eru búnir að hafa internetið svona lengi og venjast því að allar fréttir séu ókeypis er þetta erfitt. Það eru ekki svo margir sem hafa mikla hugsjón. Þessi blöð reyna í gegnum fréttaskýringar að hala inn fólk sem hefur þá hugsjón að vilja borga fyrir þetta efni.
Vandamálið er að rekstrarmódel eins og þau sem Eyjólfur Sveinsson var með sýna að rannsóknarblaðamennska er tíu sinnum dýrari en venjuleg blaðamennska og að greinar sem tekur langan tíma að gera eru fimm sinnum dýrari í vinnslu en þær styttri. Þá er ég að vísa í vinnutímann. Þetta hefur allt saman verið reiknað út.
---
Svo er það stjórnsýslan. Hér er ekki pólitísk stemning fyrir því að setja lög um að skylda til að fundargerðir séu opnar og að þeim sé ekki breytt í vinnugögn með nýjum titli svo að hægt sé að halda þeim leyndum. Það þarf lög um almenna opnun skjala. Það er hægt að klaga svona birtingarmál til einhverrar stofnunar en stofnanirnar eru rosalega konservatívar. Svo eru dómsmál og þá dæmt að mikill hluti þessara skjala eigi erindi til almennings en í þeim séu kannski atriði flokkuð sem prívatmál.
Píratar vilja opna þetta allt saman. Ég er sammála því. Ég held að einkamál séu algjörlega ofmetin. Persónuvernd er að mínu viti bófavernd. Allir segja að þetta séu prívatmál, viðskiptaleyndarmálin og annað. En öll stjórnsýslan á að vera opin og fjármál banka eiga líka að vera opin. Það eiga að vera samtök milli þjóða um að hafa þetta eins alls staðar. Evrópusambandið hefur nú gert dálítið í að hafa hemil á aflandseyjum og gert samninga við sumar þeirra.
---
Ég held að ungt fólk ætti ekki að fara í blaðamennsku. Alls ekki ef það ætlar að stofna heimili og fara í sambúð og eignast börn. Það er, held ég, vonlaust fyrirbæri. En líður lýðræðið ekki fyrir það ef fólk sækir ekki í þessi störf? Jú jú. En við hvern eruð þið þá að tala? Haldið þið að einhver stjórnmálamaður muni taka að sér að bæta þetta ástand? Við þurfum náttúrulega bara blóðuga byltingu, það er ekkert öðruvísi. En það mundu ekki vera nema hundrað manns sem vildu taka þátt í henni.