Mynd: Jóhann Páll Valdimarsson

Persónuvernd er að mínu viti bófavernd

Jónas Kristjánsson ritstjóri lést þann 29. júní og var jarðsunginn í vikunni. Jónas var yfirburðamaður í íslensku samfélagi – bæði innan sinnar stéttar en ekki síður almennt – með hárbeittum skrifum sínum og vinnubrögðum sem breyttu blaðamennsku til framtíðar. Hann starfaði á ýmsum fjölmiðlum, lengst af sem ritstjóri, sinnti félagsstörfum og skrifaði bækur. Eitt síðasta viðtalið sem tekið var við Jónas birtist í bókinni „Þjáningarfrelsið - Óreiða hugsjóna og hagsmuna í heimi fjölmiðla“ sem kom út í byrjun sumars. Þar var hann hnífbeittur sem fyrr og skóf ekki af skoðunum sínum og meiningum. Kjarninn birtir hér viðtalið í minningu þessa mikilsvirta kollega.

Jónas Krist­jáns­son býr nú í þjón­ustu­í­búð fyrir aldr­aða, á fjórðu hæð með útsýni yfir borg­ina, og finnst sjálfum að þarna ríki yfir­þyrm­andi þögn. Hann horfir yfir heim­inn í hljóði, skel­eggur og skýr og alveg sama hvað fólki kann að finn­ast um hann. Þögnin minnir á að það er af sem áður var, og þó!

Þarna heldur hann úti blogg­inu sínu og sparar ekk­ert til þegar hann gagn­rýnir menn og mál­efni, nei, hann skrifar af lífs­þrótti ung­lings­ins og kannski er það lífsel­exír­inn hans, manns sem hefur lifað og hrærst í átökum og breyt­ingum sam­fé­lags­ins ára­tugum saman og haft þar áhrif sem blaða­maður og rit­stjóri á einu spræk­asta dag­blað­inu á Íslandi um langa hríð.

Hann býður upp á kaffi, súkkulaði og jarð­ar­ber og sólin skín á veit­ing­arnar meðan við spjöllum um fjöl­miðla og hug­sjón­ir, eilíf lög­mál hags­muna, flokka­blöð og við­skipta­blokkir, já, um ver­öld sem var … og ver­öld­ina okk­ar.

Þegar ég var að byrja í blaða­mennsku á Tím­anum höfðu blöðin ein­hvern sem tók lög­reglu- og slökkvi­liðs­rúnt­inn, labb­aði á milli­stað­anna eða fór í strætó eða á bíl, eða hvernig sem það var, til að fá frétt­ir. Núna er þetta þannig að lög­reglan sendir út dag­bók eða til­kynn­ingar og þetta er birt meira og minna orð­rétt frá lög­regl­unni. Allt klippt og skor­ið. Þannig er mikið af fréttum núna. Þær eru klipptir og skornir textar frá stofn­un­um; frá upp­lýs­inga­full­trúum og með ein­hvers konar ákvörð­unum um hvernig mál eigi að nota og búa til orð sem ekki þekkt­ust til að milda, eða eitt­hvað. Menn eru ekki þjófar og glæpa­menn lengur heldur sviga menn í kringum skatt­inn eða eitt­hvað svo­leið­is.

Þá var alltaf ein­hver með partí á föstu­dög­um, svona drykkjupartí, og þangað fór öll blaða­manna­hjörðin að drekka sig fulla. Og mað­ur­inn sem hélt þetta partí var með nýj­ung eða eitt­hvað merki­legt og út af fyrir sig var ekk­ert við það að athuga. Svo kom þetta í blöð­unum að við­kom­andi væri að gera ein­hverja rosa­lega fína hluti. Þetta var sú spill­ing sem við hrærð­umst í.

---

Gagn­rýnin blaða­mennska varð til löngu seinna. Ástandið sem maður kynnt­ist á Tím­anum var út af fyrir sig frítt spil innan þeirra marka að öll blöðin voru partur af kerf­inu og partur af stjórn­mál­un­um, þannig að álit blaða­manna var á svip­uðum nótum og álit kerf­is­ins. Þá var ekk­ert talað um spill­ingu eða svo­leið­is. Þá var einn kommissar á Tím­anum sem skrif­aði um póli­tík og hann tók yfir for­síð­una mán­uði fyrir kosn­ingar og skrif­aði for­síð­una meðan við höfðum bak­síð­una. Það var ekk­ert verið að rugla þessu sam­an. For­síðan fór í þetta og kannski eitt­hvert fram­hald á blað­síðu tvö – en alvöru frétt­irnar voru á bak­síð­unni.

Ég man eftir einu sinni að ég fór upp á Bif­röst í til­efni af því að þeir voru að hefja þar hót­el­rekst­ur. Ég sagði frá þessu hót­eli og skrif­aði meðal ann­ars að ein afgreiðslu­stúlkan hefði sagt að sér hefði liðið þá verst þegar hún missti sós­una yfir gest­inn. Þetta hafði verið teiti fyrir Sam­band íslenskra sam­vinnu­fé­laga, sem nátt­úr­lega fjár­magn­aði Tím­ann, og ég var beð­inn um að koma og tala við deild­ar­stjóra eða fram­kvæmda­stjóra útflutn­ings, en Bif­röst féll þá undir hann, og hann var óskap­lega reiður og sagði: „Á Bif­röst hellir eng­inn sósu yfir neinn!“ En þetta kom í blað­inu og það urðu engin eft­ir­mál af því á rit­stjórn­inni. Þetta fór alveg fram hjá þeim.

Fyrsta gagnrýna rannsóknarblaðamennskan byrjaði með Víetnam. Ég skrifaði leiðara á móti stríðinu og það olli óróa.

Af Tím­anum fór ég á Vísi þar sem ég varð svo rit­stjóri. Þá var aðal­málið að koma okkur upp nýrri tækni því að tæknin á þessum blöðum öllum var gam­al­dags. Og í kringum 1972 fór prent­smiðja í gang sem blöðin áttu sam­eig­in­lega – nema Mogg­inn. Tveir menn sem höfðu verið bak­hjarlar blaðs­ins – Krist­ján í Kassa­gerð­inni og Sig­fús í Heklu – unnu mikið með mér á þessum tíma. Þeir höfðu aldrei nein afskipti af neinu en þeir vildu bara að blaðið hætti að tapa!

Fyrsta gagn­rýna rann­sókn­ar­blaða­mennskan byrj­aði með Víetnam. Ég skrif­aði leið­ara á móti stríð­inu og það olli óróa. Þá ger­ist það að þessir gömlu menn deyja og við taka afkom­endur þeirra. Þeir voru allt öðru­vísi. Þeir sáu að blaðið var ekki lengur rekið með tapi og fara að skipta sér af. Þetta Víetna­m-­mál var eitt af því sem þeir skiptu sér af. Þarna verður mikið havarí sem endar með því að ég er rek­inn 1975. Þá stofn­uðum við Dag­blað­ið. Við gátum fengið að prenta í þess­ari sam­eig­in­legu prent­smiðju. En mán­uði seinna, minnir mig, sendu þeir okkur bréf og sögðu okkur upp með mán­aðar fyr­ir­vara og það end­aði með því að Árvakur féllst á að prenta okk­ur, þannig að við fórum úr þess­ari sam­eig­in­legu prent­smiðju fátæku blað­anna og yfir í prentun hjá Mogg­an­um. Morg­un­blaðið breytt­ist í kjöl­far­ið. Allir taka við sér þegar kemur sam­keppni.

---

Það hafði orðið til mikil stemn­ing með Dag­blað­inu og hún sýndi sig þegar útvarpið fór í verk­fall og við vorum með útvarp á ljós­vak­an­um. Sýslu­maður kom og ætl­aði að loka útvarp­inu og þá komu hund­ruð manna og stóðu fyrir utan húsið til þess að hindra að sýslu­mað­ur­inn kæm­ist inn. Þetta var ólög­legt vegna þess að Rík­is­út­varpið hafði einka­rétt á útvarps­send­ing­um. Hannes Hólm­steinn setti líka upp­út­varps­stöð í Val­höll en þetta var sú sem var tekin og henni lok­að.

Við vorum blað almenn­ings. Síð­ar, þegar við sam­ein­uð­umst Vísi, breytt­ist þetta. Fólk hélt áfram að lesa blaðið en það leit ekki lengur á það sem upp­runnið hjá fólk­inu heldur værum við eitt af kerf­is­blöð­unum og orðið stofn­un. Við náðum aldrei slíkri stemn­ingu eftir að þetta var sam­einað en við fengum pen­inga. Þannig var fjár­hags­legur blóma­tími þessa blaðs sem var kallað DV á síð­asta ára­tug 20. ald­ar.

Í sex ár ríkti mikil sam­keppni milli Dag­blaðs­ins og Vís­is. Það var raun­veru­lega blóma­skeið okkar því að við höfðum feikn­ar­lega útbreiðslu og feikn­ar­legan lestur á árunum 1975 til 1981. Við vorum alltaf í plús en blaðið samt fátækt og við gátum ekki gert neitt sem kost­aði pen­inga. Um 1981 fórum við að tala um að sam­eina þessi blöð og þau voru sam­einuð á einni nóttu, enda á sömu hæð í sam­liggj­andi hús­um. Bara borað á milli og opn­að, ekk­ert flókn­ara.

Þá var Ell­ert Schram rit­stjóri Vísis og ég rit­stjóri Dag­blaðs­ins og þetta gekk glimr­andi fyrir sig fjár­hags­lega. Við gátum fjölgað starfs­fólki; tveir í erlendum fréttum í stað­inn fyrir einn; tveir í íþróttum í stað­inn fyrir einn og svo fram­veg­is. Og við gátum fljót­lega farið að hafa mann í að gera eitt­hvað sem við vissum ekki hvað kæmi út úr. Eitt af því fyrsta var að við sendum Eirík Jóns­son, sem síðar varð fræg­ur, til Amster­dam í tvær eða þrjár vikur til að kanna fíkni­efna­mark­að­inn. Við gáfum okkur þetta, að ein­hver gæti farið í tvær til þrjár vikur og verið bara í því einu.

Þetta blað seld­ist mjög vel svo við vorum komnir á par við Mogg­ann. Það var gott að vinna með Ell­ert, við höfðum engar áhyggjur af því hvernig leið­arar voru skrif­að­ir. Það fannst mönnum ein­kenni­legt. Leið­arar eru bara um eitt­hvað sem mönnum dettur í hug en svo er fólk sem telur að leið­arar séu ein­hver stjórn á þjóð­inni – sem var alls ekki okkar mein­ing. Við Ell­ert skrif­uðum á víxl. Ég kann ekki að meta áhrif leiðar­anna, það er eng­inn mæli­kvarði til á það.

---

Í milli­tíð­inni hafði það gerst í útlöndum að farið var að kenna rekstr­ar­hag­fræði og finna ein­hverjar for­múlur til þess að bæta rekst­ur, og það var mjög mikið fólgið í því að taka yfir fyr­ir­tæki, reka helm­ing starfs­fólks­ins og arð­semin hækk­aði um 20 pró­sent eða eitt­hvað sem þessir menn töldu að væri hæfi­legt, en það er ekk­ert hægt að reka blað með 20 pró­sent hagn­aði. Það er bara vit­leysa.

Þetta kom til okkar í kringum alda­mótin þegar sonur Sveins, Eyjólf­ur, kom sem rekstr­ar­verk­fræð­ingur frá Banda­ríkj­unum og hann var með þessar dill­ur; að stofna nefndir til að kanna eitt­hvert vanda­mál, hvernig væri hægt að fjölga aug­lýs­ingum í blað­inu og það var settur blaða­maður í nefnd­ina og aug­lýs­inga­maður og þeir fengu hug­myndir og svo end­aði það með því að þeir reyndu að stjórna hver öðr­um. Þetta varð vanda­mál um alda­mót­in, þá fór lest­ur­inn að bila. Af því að fólk fatt­aði þetta.

Í útlöndum hefur tek­ist á nokkrum stöðum að verj­ast þessu af því að ein­hverjar fjöl­skyldur eiga blöð, blöð sem hafa verið fjöl­skyldu­eign í þrjár eða fjórar kyn­slóð­ir, blöð sem eru mjög góð. Og The Guar­dian er til dæmis í eigu stofn­unar sem er ein­hvers konar sjálfs­eign­ar­stofn­un. Þeim hefur tek­ist að halda sér sem mjög góðu blaði þótt það hafi lent í mörgum póli­tískum svipt­ing­um. Svo var Was­hington Post búið að vera í fjöl­skyldu­eign þegar Watergate var í gangi, fjöl­skyldan stóð á bak við þann hvell all­an.

Allan þennan tíma hefur Ríkisútvarpið verið stærsti og mest notaði fjölmiðillinn. Útvarp í þá daga og núna bæði sjónvarp og útvarp og meira. Þar eru að mörgu leyti bestu fréttamennirnir en Ríkisútvarpið er ríkið og voðalega viðkvæmt fyrir pólitískum áflogum. Og það lamar.

Við höfum ekk­ert svona hér. Eign­ar­haldið á Morg­un­blað­inu hefur færst meira yfir á sjáv­ar­út­veg­inn. Ég veit ekki hverjir eiga DV eða Frétta­blaðið en Frétta­blaðið er svona ný týpa af blaði sem bygg­ist á dreif­ingu, ekki neinu öðru. Það fær aug­lýs­ingar af því að það hefur ákveðna dreif­ingu og svo­leiðis blöð eru til alls staðar en þau eru aldrei mik­ils met­in. Frétta­blaðið er hvað skást af slíkum blöð­um, enda var það Gunnar Smári sem hélt utan um það. Það væri kannski hægt hér að hafa áskrift­ar­leið­ir, eins og Stundin og Kjarn­inn gera. Þau eru nátt­úr­lega blöðin sem maður les, og Kvenna­blað­ið. En þetta er mátt­lítið miðað við aðra fjöl­miðl­un, að Rík­is­út­varp­inu ógleymdu. Allan þennan tíma hefur Rík­is­út­varpið verið stærsti og mest not­aði fjöl­mið­ill­inn. Útvarp í þá daga og núna bæði sjón­varp og útvarp og meira. Þar eru að mörgu leyti bestu frétta­menn­irnir en Rík­is­út­varpið er ríkið og voðalega við­kvæmt fyrir póli­tískum áflog­um. Og það lam­ar. En Rík­is­út­varpið er stabíl­asti fjöl­mið­ill­inn. Það yrði skelfi­legt ef RÚV færi. Þá væru bara einka­stöðvar og senni­lega yrði Stöð 2 og það batt­erí allt ofan á.

Blóma­skeið alvöru blaða­mennsku hér á landi hófst að vissu leyti með sjón­varp­inu. Því fylgdu hug­myndir frá Dan­mörku um hvernig sjón­varp var rekið þar og þar voru blaða­menn Dan­marks Radio með þætti viku­lega um neyt­enda­mál. Þetta var flutt hingað eins og allur brans­inn er; meira og minna í ein­hverju sam­bandi við útlönd. Ég byrja í þessu 1961 og við fengum stafla af skand­in­av­ísku og bresku blöð­un­um. Þau höfðu áhrif þá og hafa alltaf haft. Menn hlust­uðu á BBC og fólk var ekk­ert ein­angrað hér, þannig séð. Blaða­menn vissu allan tím­ann að hægt væri að gera betur og öðru­vísi.

Rann­sókn­ar­blaða­mennska er enn til staðar á góðum fjöl­miðl­um. Ég held að útvarpið sé mjög lítið í henni samt og Kast­ljósið til dæmis ekki held­ur. Silfur Egils er ekki svipur hjá sjón. Rosa­legur hæfi­leika­maður eins og Egill er sem sjón­varps­mað­ur, alveg sér­stak­ur. Maður sér svo sem á honum að hann er orð­inn grýttur og bólg­inn og það er ósköp skilj­an­legt. En hann gerði mjög góða hluti þegar hrunið varð.

---

Enn hefur ekki verið fundið út hvernig við eigum að hafa fjöl­miðla næstu árin. En þeir sem reyna það eru til dæmis að þróa ýmis­legt með því að líta á aðila erlendis sem hafa áhyggjur af þessu, eins og The Guar­di­an. Þeir eru með mjög virkan vef­miðil og hann er frír. En maður opnar ein­hverja grein þar og þá kemur áminn­ing um að það sé dýrt að gefa út gott efni og mælt með að menn borgi tvö pund ámán­uði eða eitt­hvað svo­leið­is. Þetta er ein til­raun­in, að fá fólk til að fast­setja vilj­andi pen­inga mán­að­ar­lega. Svo eru önnur blöð sem hafa bein­línis áskrift og aug­lýsa það alltaf ef maður opnar grein. Þá get­urðu séð grein­ina en með fylgir áminn­ing um að fleiri greinar fáist fyrir um tvo doll­ara á mán­uði. Þetta gerir New York Times.

Þegar menn eru búnir að hafa inter­netið svona lengi og venj­ast því að allar fréttir séu ókeypis er þetta erfitt. Það eru ekki svo margir sem hafa mikla hug­sjón. Þessi blöð reyna í gegnum frétta­skýr­ingar að hala inn fólk sem hefur þá hug­sjón að vilja borga fyrir þetta efni.

Vanda­málið er að rekstr­ar­módel eins og þau sem Eyjólfur Sveins­son var með sýna að rann­sókn­ar­blaða­mennska er tíu sinnum dýr­ari en venju­leg blaða­mennska og að greinar sem tekur langan tíma að gera eru fimm sinnum dýr­ari í vinnslu en þær styttri. Þá er ég að vísa í vinnu­tím­ann. Þetta hefur allt saman verið reiknað út.

---

Svo er það stjórn­sýsl­an. Hér er ekki póli­tísk stemn­ing fyrir því að setja lög um að skylda til að fund­ar­gerðir séu opnar og að þeim sé ekki breytt í vinnu­gögn með nýjum titli svo að hægt sé að halda þeim leynd­um. Það þarf lög um almenna opnun skjala. Það er hægt að klaga svona birt­ing­ar­mál til ein­hverrar stofn­unar en stofn­an­irnar eru rosa­lega konservatí­v­ar. Svo eru dóms­mál og þá dæmt að mik­ill hluti þess­ara skjala eigi erindi til almenn­ings en í þeim séu kannski atriði flokkuð sem prí­vat­mál.

Píratar vilja opna þetta allt sam­an. Ég er sam­mála því. Ég held að einka­mál séu algjör­lega ofmet­in. Per­sónu­vernd er að mínu viti bófa­vernd. Allir segja að þetta séu prí­vat­mál, við­skipta­leynd­ar­málin og ann­að. En öll stjórn­sýslan á að vera opin og fjár­mál banka eiga líka að vera opin. Það eiga að vera sam­tök milli þjóða um að hafa þetta eins alls stað­ar. Evr­ópu­sam­bandið hefur nú gert dálítið í að hafa hemil á aflandseyjum og gert samn­inga við sumar þeirra.

---

Ég held að ungt fólk ætti ekki að fara í blaða­mennsku. Alls ekki ef það ætlar að stofna heim­ili og fara í sam­búð og eign­ast börn. Það er, held ég, von­laust fyr­ir­bæri. En líður lýð­ræðið ekki fyrir það ef fólk sækir ekki í þessi störf? Jú jú. En við hvern eruð þið þá að tala? Haldið þið að ein­hver stjórn­mála­maður muni taka að sér að bæta þetta ástand? Við þurfum nátt­úru­lega bara blóð­uga bylt­ingu, það er ekk­ert öðru­vísi. En það mundu ekki vera nema hund­rað manns sem vildu taka þátt í henni.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFólk