7,5 prósent þjóðarinnar verður í Laugardalnum í kvöld
Stærstu tónleikar sögunnar hér á landi verða haldnir í kvöld þegar rokkhljómsveitin Guns N’Roses stígur á stokk á þjóðarleikvanginum á Laugardalsvelli. Búist er við hátt í 27 þúsund manns á völlinn á tónleika þar sem öllu verður tjaldað til.
Stærstu tónleikar sögunnar hér á landi verða haldnir í kvöld þegar rokkhljómsveitin Guns N’Roses stígur á stokk á þjóðarleikvanginum á Laugardalsvelli. Búist er við hátt í 27 þúsund manns á völlinn á tónleika þar sem öllu verður tjaldað til.
Tónleikarnir í kvöld
Gólf hefur verið lagt yfir völlinn sjálfan, en um 160 manns koma að undirbúningi tónleikanna sem tók meira en heila viku. Til landsins bárust 56 gámar af alls kyns varningi auk 100 vörubíla fullhlaðna af græjum. Fullbyggt er sviðið 65 metra breitt og 22 metrar þar sem það rís hæst. Þrír risaskjáir koma til með að sýna áhorfendum öll smáatriði á sviðinu, sá stærsti sem er fyrir miðju sviðsins er 18 metrar að breidd og 9 metrar að hæð. Hlóðkerfið ku vera hið öflugasta sem sett hefur verið upp á Íslandi og auk þess mega tónleikagestir eiga von á gríðarlegum fjölda eldvarpa og reyksprengja, ásamt ljósasýningu.
Hliðin á tónleikasvæðinu munu opna klukkan 16.30, en til upphitunar koma fram Tyler Bryant & the Shakedowns og íslenska sveitin Brain Police sem hefja spilun um klukkan 18.00.
Áætlað er að hljómsveitin sjálf hefji sína veislu um klukkan 20.00 og búist er við að hún spili í um þrjár klukkustundir.
Í gær fengust þær upplýsingar að meira en 23 þúsund miðar væru seldir, en um 2.000 miðum var bætt við á lokasprettinum eftir að seldist upp á tónleikana um miðjan júní. Sýslumaður hefur veitt leyfi fyrir mest 26.900 manns á svæðinu í kvöld.
Veðurspáin er ágæt fyrir kvöldið í Reykjavík. Búast má við um 11-12 stiga hita, 1-3 metrum á sekúndu og þótt ótrúlegt megi virðast er ekki útilokað að sólin láti eitthvað sjá sig.
Aðstandendur hátíðarinnar hafa skipulagt samgöngur og aðgengi sérstaklega í ljósi fjölda gesta sem munu leggja leið sína í Laugadalinn í kvöld. Tónleikagestir eru eindregið hvattir til að fara tímalega niður á völl til að forðast of langar raðir. Þá eru gestir hvattir til að nýta sér virka ferðamáta, ganga eða hjóla. Þá er mælt með því að hleypa fólki út úr leigu eða fólksbílum við Glæsibæ eða á Sundlaugarvegi.
Reykjavegur verður lokaður fyrir og á meðan tónleikum stendur og þá verður Engjavegur lokaður frá klukkan 16 nema fyrir tónleikagesti. Suðurlandsbraut verður lokuð að hluta eftir að tónleikum lýkur. Boðið verður upp á sérstakar hraðferðir Strætó frá þremur stöðum í borginni og beint niður í Laugardal. Þessar hraðferðir munu fara frá Háskólanum í Reykjavik, Mjóddinni og Strætóstoppistöðinni norðanmegin við Kringluna (hjá Orkunni). Þar er mælst til þess að leggja bílum á bílastæðinu við Sjóvá og fyrir aftan Verslunarskólann. Sömu leiðir munu fara frá Laugardalshöll við Suðurlandsbraut og til baka eftir tónleika. Tónleikagestir fá frítt í þessar ferðir gegn framvísun miða.
Slagaraframleiðsla
Guns N´Roses var stofnuð árið 1985 og sló í gegn með frumburðinum „Appetite for Destruction“ sem kom út tveimur árum síðar. Hún hefur selst í yfir 30 milljónum eintaka síðan að hún kom út og er enn þann dag í dag sú fyrsta plata hljómsveitar eða tónlistarmanns sem selst hefur best. Á meðal laga plötunnar sem náðu feikilegum vinsældum eru „Welcome to the Jungle“, „Paradise City“ og „Sweet Child o´Mine“.
Í september 1991 gaf hljómsveitin svo út tvíburaplötunar „Use Your Illusion I&II“. Í aðdraganda þeirrar útgáfu, og eftir hana, fór Guns N´Roses á 28 mánaða langt tónleikarferðalag um allan heiminn sem átti eftir að taka sinn toll. Alls hélt hljómsveitin 192 tónleika í 27 löndum á þeim tíma. Um er að ræða eitt lengsta, ef ekki lengsta, samfellda tónleikaferðalag sögunnar.
Báðar plöturnar slógu í gegn og hafa selst í yfir 35 milljónum eintaka samtals um heim allan. Á meðal laga þeirra sem fólk ætti að muna eftir eru epísku ballöðusmellirnir „Don´t Cry“, „November Rain“ og „Estranged“. Þar var einnig að finna lög á borð við „Civil War“, „14 years“, „Yesterdays“ og tökulögin „Knockin´on Heavens Door“ og „Live and Let Die“.
Ósætti...
Ósætti milli hljómsveitameðlima gerði það hins vegar að verkum að hljómsveitin leystist upp á árunum 1994 til 1999. Mest munaði um það þegar gítarleikarinn goðsagnakenndi Slash, annar leiðtoga Guns N´Roses, hætti í sveitinni í október 1996. Hinn leiðtoginn, söngvarinn sérlundaði Axl Rose hélt hljómsveitinni hins vegar starfandi, að minnsta kosti annað veifið, með nýjum liðsmönnum.
Árið 2008 gaf Guns N´Roses, sem var þá í raun bara Axl Rose, út plötuna „Chinese Democracy“ sem hafði verið meira en áratug í vinnslu og kostað um 1,4 milljarð króna í framleiðslu. Það gerir hana að langdýrustu rokkplötu allra tíma. Almennt álit aðdáenda og gagnrýnenda er að þeim fjármunum hafi ekki verið vel varið.
...og endurkoma
Árið 2016, 20 árum eftir að Slash hætti í Guns N´Roses, var tilkynnt um að sættir hefðu náðst. Slash, bassaleikarinn Duff McKagan og Dizzy Reed gengu aftur í hljómsveitina og boðuðu „Not in This Lifetime…“ tónleikaferðalagið. Auk þeirra þriggja var Axl Rose vitanlega með auk gítarleikarans Richard Fortus, trommarans Frank Ferrer og hljómborðsleikarans Mellisu Reese.
Sú tónleikaferð stendur enn yfir og nú á Íslandi. Hún hafði við lok síðasta árs halað inn tæplega 50 milljörðum króna sem gerir hana að fjórða arðbærasta tónleikarferðalagi allra tíma. Alls höfðu þá um 4,4 milljónir manna séð hljómsveitina á umræddu tónleikaferðarlagi, þar sem Guns N´Roses hafa haldið 125 tónleika. Þá eru ekki meðtaldir tónleikar sveitarinnar í sumar en þeir íslensku í kvöld eru þeir síðustu á ferðalagi sveitarinnar um Evrópu sem hófst í júní og mun hún svo taka upp þráðinn í Mexíkó í nóvember.