Brugghúsafrumvarp Áslaugar Örnu vekur litla kátínu hjá Landlæknisembættinu og ÁTVR
Embætti landlæknis telur „góða sátt“ um núverandi fyrirkomulag áfengissölu, en lítil merki eru um það í þeim fjölmörgu umsögnum sem borist hafa Alþingi undanfarna daga vegna frumvarps dómsmálaráðherra um að heimila sölu bjórs beint frá brugghúsum. ÁTVR telur að frumvarpið myndi brjóta gegn ákvæðum EES-samningsins. Samtök ferðaþjónustunnar velta því upp hvort kynna þurfi internetið fyrir stjórnvöldum.
Skiptar skoðanir eru uppi vegna fyrirhugaðra breytinga á áfengislögum, sem ætlað er að styðja við smærri brugghús á Íslandi, en með frumvarpi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra er lagt til að smærri brugghúsum verði gert kleift að selja áfengt öl í smásölu á framleiðslustað. Umsagnir hafa hrannast inn til Alþingis síðustu daga.
Ekki þarf að koma á óvart að fjöldi lítilla brugghúsa hefur lýst yfir stuðningi við málið, en samkvæmt frumvarpinu yrði brugghúsum sem framleiða innan við 500 þúsund lítra af öli á ári leyft að selja framleiðslu sína, þó ekki sterkara öl en 12 prósent, beint frá sínum framleiðslustað.
„Sala beint frá framleiðslustað mun styðja við litlu brugghúsin í landinu til að vaxa og dafna,“ segir í umsögn stjórnar Samtaka íslenskra handverksbrugghúsa, sem fullyrða að frumvarpið muni ekki auka aðgengi að áfengi að neinu ráði.
Landlæknisembættið telur góða sátt ríkja um núverandi fyrirkomulag
Um það er þó ekki einhugur. Embætti landlæknis skilaði inn umsögn í vikunni þar sem segir að allar breytingar sem eigi að gera á áfengissölu hérlendis kalli á heildræna nálgun. Embættið leggur til að breytingar á borð við þær sem boðaðar eru í frumvarpinu verði ekki innleiddar nema sem hluti af opinberri heildrænni stefnu um málaflokkinn og bent er á að opinber stefna í áfengis- og vímuvörnum rann út í fyrra.
Landlæknisembættið telur einnig að fyrirhugaðar breytingar, sem auki aðgengi að áfengi, geti leitt til aukinnar kröfu um breytingar eða tilslakanir „á því annars góða fyrirkomulagi sem um ríkir góð sátt“ og að það geti leitt til að „aðgengi að áfengi verði aukið enn frekar með tilslökunum á áfengisstefnunni.“
Umdeilanlegt er hversu góð sátt er um núverandi fyrirkomulag áfengissölu á Íslandi, en á undanförnum árum hefur umræða um hvort leyfa eigi sölu víns í matvöruverslunum reglulega skotið upp kollinum. Í könnun Maskínu frá árinu 2019 voru fleiri á því að heimila ætti sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum en voru því andvígir, en mikil andstaða er í samfélaginu við að sterkt áfengi verði til sölu í matvörubúðum.
Embættið leggur fram nokkrar spurningar og vangaveltur sem hjá því vöknuðu við lestur frumvarpsins, m.a. hvaða rök liggi fyrir því að hámarksáfengismagn í ölinu sem brugghús megi selja beint sé 12 prósent og hvort lækka mætti þetta hámark. Einnig spyr embættið að því hvernig tryggt verði að haldið verði utan um sölutölur og hvernig áhrif verði metin, til dæmis með tilliti skaðlegra áhrifa og aukinnar sölu.
Landlæknisembættið telur einnig að æskilegt væri að setja takmarkanir á hæfilegt magn sem neytandi mætti kaupa í hvert skipti. Það má því segja að embættið vilji fara Framsóknarleiðina, en þrír þingmenn Framsóknar lögðu fram frumvarp sem er að ýmsu leyti keimlíkt frumvarpi Áslaugar Örnu, nema hvað neytanda yrði einungis heimilt að kaupa eina kippu, sex bjóra, í einu.
ÁTVR telur að 500 þúsund lítra þakið sé allt of hátt
Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, sem fer einkaleyfi á smásölu áfengis á Íslandi, leggst gegn ýmsum þáttum frumvarpsins í 23 blaðsíðna langri umsögn um málið, en þó er undirstrikað í niðurlagi að umsögnin feli ekki í sér „tæmandi greiningu á afleiðingum þess“ að frumvarpið nái fram að ganga.
ÁTVR telur tillöguna allt of víðtæka og fer yfir það í umsögn sinni að frumvarpið standist að líkindum ekki kröfur Evrópuréttar. „Allar líkur væru á að fyrirkomulagið teldist magntakmörkun á innflutningi í skilningi 11. gr. EES-samningsins sem varla væri réttlætt á grundvelli 13. gr. hans. Eins gæti verið um brot á 16. gr. samningsins að ræða,“ segir í niðurlagi umsagnar ÁTVR.
Ríkisstofnunin telur að 500.000 lítra framleiðsluhámarkið, sem útilokar samkvæmt Samtökum íslenskra handverksbrugghúsa ekkert brugghús nema Kalda á Árskógsströnd frá því að selja vín sitt beint frá brugghúsi, nái frumvarpið fram að ganga, sé allt of hátt.
ÁTVR bendir á að þessi tala, sem notuð er til að skilgreina lítil brugghús, sé tekin beint upp úr finnsku áfengisslöggjöfinni. Finnland sé hins vegar mun stærri markaður.
„Ef stærð brugghúsa er sett í samhengi við fjölda landsmanna jafngildir 500.000 lítra viðmið Finna, sem eru ca. 5.550.000 talsins, rétt ríflega 31.000 lítra ársframleiðslu hér á landi, miðað við að fjöldi Íslendinga sé ca. 345.000. Til þess að setja framleiðslumagnið í samhengi við stærð bjórmarkaðarins hér á landi skal jafnframt bent á að á árinu 2020 nam heildarsala á öli að framangreindum styrkleika 20.581.691 lítrum í öllum vínbúðum ÁTVR. Eftir því sem fram kemur í greinargerð með fyrirliggjandi frumvarpi eru á þriðja tug brugghúsa aðilar að Samtökum íslenskra handverksbruggshúsa. Ef tuttugu þeirra myndu á einu ári selja allt að 500.000 lítra eigin framleiðslu í smásölu á grundvelli undanþáguheimildarinnar næmi heildarsala þeirra allt að 10.000.000 áfengislítrum, sem samsvarar hátt í helmingi allrar bjórsölu ÁTVR síðastliðið ár. Því getur varla talist um þrönga undanþágu frá ríkiseinkasölunni að ræða,“ segir í umsögn ÁTVR.
Krabbameinsfélög leggjast ákveðið gegn
Fjölmargar umsagnir til viðbótar hafa borist, ýmist með eða á móti frumvarpinu. Krabbameinsfélag Íslands og Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins leggjast gegn samþykkt þess og benda á að áfengi sé engin venjuleg vara.
„Ákvarðanir stjórnvalda hljóta alltaf að byggja á bestu þekkingu. Augljóst er að ekki fer saman að Alþingi leyfi frjálsari verslun með áfengi, sem getur meðal annars fjölgað dauðsföllum, sjúkdómum og hækkað kostnað í heilbrigðiskerfinu, á sama tíma og vinna á eftir nýrri íslenskri krabbameinsáætlun og lýðheilsuáætlunum með forvarnir að leiðarljósi,“ segir Krabbameinsfélag Íslands í sinni umsögn.
Spyrja hvort kynna þurfi internetið fyrir stjórnvöldum
Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) telja frumvarpið til bóta, en þó einungis „hænuskref“ í átt að betri framkvæmd áfengissölu á Íslandi. Samtökin eru ósátt með þær breytingar sem gerðar hafa verið frá því að frumvarpsdrög voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda síðasta haust. Þá stóð til að gera heimila verslun með áfengi í innlendum vefverslunum, en frá því var fallið í endanlegu frumvarpi.
Í umsögn SAF er bent á að í dag er heimilt að kaupa áfengi í gegnum erlendar vefverslanir og í gegnum vefsíðu Vínbúðarinnar. Það þarf hins vegar að sækja áfengið sem er verslað í gegnum vefverslun Vínbúðarinnar. Hins vegar er áfengið sem er pantað í gegnum erlendar vefverslanir afhent heim að dyrum íslenskra heimila.
Smábrugghúsið Steðji í Flókadal í Borgarfirði opnaði síðasta haust sína eigin netverslun og hýsti hana erlendis. Það endaði með lögreglumáli, sem ekki hefur verið til lykta leitt, samkvæmt því sem Kjarninn kemst næst. „Við teljum reglurnar okkar megin,“ sagði Dagbjartur Árelíusson hjá Steðja í samtali við Morgunblaðið í október í fyrra.
„Það að vera andvíg frumvarpinu sem var sett inná samráðsgátt lýsir hvað stjórnvöld geta verið svifasein að átta sig á nútímanum og stöðunni eins og hún er. Stundum veltir maður fyrir sér hvort það þurfi að kynna stjórnvöldum þá þróun sem veraldarvefurinn hefur borið með sér hvað varðar framboð og sölu á vöru og þjónustu,“ segja fulltrúar Samtaka ferðaþjónustunnar í umsögn sinni.