Bílarnir æða á milli hringtorganna á Vesturlandsvegi. Á aðra hönd er Hamrahlíðin í Úlfarsfelli með sín snarbröttu klettabelti og á hina útsýni yfir sundin blá og til Snæfellsjökuls þegar skyggni er gott. Það er hvasst undir hlíðinni og grasnálin sem loks hefur náð að skjóta sér upp úr fölri sinunni hneigir sig í vindinum. Neðan við veginn vermir síðdegissólin þegar iðjagræn tún og speglar sig í úfnum haffletinum. Á þessum tíma dags sýnir kerlingin í Hamrahlíðinni sig og snýr stórskornu andlitinu að helsta kennileiti svæðisins: Esjunni.
Bæjarhúsin að Blikastöðum með sínum einkennandi burstum standa á áberandi stað milli fjalls og fjöru. Þau kunna að virðast á berangri þegar augum er gjóað á þau á hraðferð um Vesturlandsveginn en eru það einmitt ekki – kannski fullkomlega staðsett í skjóli Esjunnar fyrir norðanáttinni. Böðuð sól frá morgni til kvölds – þegar sú elska lætur sjá sig.
Og það er meðal annars af þessum sökum sem þetta stærsta óbyggða land innan vaxtamarka höfuðborgarsvæðisins gæti orðið einstakt byggingarland líkt og nú er stefnt að með samkomulagi eiganda þess, Arion banka, og sveitarfélagsins sem það tilheyrir, Mosfellsbæjar. Til stendur að byggja 3.500-3.700 íbúðir sem og atvinnuhúsnæði.
Blikastaðabærinn, byggður að mestu á millistríðsárunum, fær að standa, mun öðlast nýtt hlutverk og verður „hjarta“ þessa nýja hverfis sem mun eitt og sér tvöfalda núverandi íbúafjölda Mosfellsbæjar. „Þetta er áreiðanlega fallegasta byggingarland við innanverðan Faxaflóa,“ sagði Sigsteinn Pálsson, bóndi á Blikastöðum til áratuga, í viðtali við sveitunga sinn, Bjarka Bjarnason, árið 2005, þá orðinn hundrað ára. „Það er veðursæld þarna. Falleg fjallasýn og ekki snjóþungt.“
Sumir hafa lýst Blikastöðum sem „óbyggðri eyju“ í byggingarlandinu – skarði milli nyrstu hverfa Reykjavíkur og þeirra syðstu í Mosfellsbæ. En það er auðvelt að líta öðruvísi á það. Sjá söguna drjúpa af hverju strái, velta fyrir sér lífinu á einu mesta stórbýli 20. aldarinnar og kotbýlum þess sem og fólksins er stundaði sjósókn og viðskipti við ströndina fyrr á öldum. Hermönnunum sem byggðu skotbyrgi við sjóinn í síðari heimsstyrjöld. Hlusta á fuglakvakið. Öldugjálfrið. Sömu sefandi hljóðin og hljómað hafa í eyrum allra sem þar hafa farið um til þessa dags.
Blikastaðir hafa trúlega verið teknir í ábúð snemma á miðöldum en þeirra er fyrst getið í rituðum heimildum á þrettándu öld. Þá hafði verið stofnað klaustur í Viðey sem hóf fljótlega að leggja undir sig bújarðir í grennd eyjarinnar. Alls eignaðist Viðeyjarklaustur 28 jarðir í Mosfellssveit, um 80 prósent allra jarða sveitarinnar, áður en yfir lauk og voru Blikastaðir þeirra á meðal.
Í bókum kirkju og klausturs árið 1234 er reyndar talað um eignarhald á „Blackastodum“ og í árið 1313 er skrifað um góðan heyfeng af „bleikastodum“. Í Fógetareikningum áranna 1547-1552 sem ritaðir eru af Dönum er jörðin svo kölluð „Bleckestedom“ en í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1704 er hún nefnd „Blikastader“.
Ýmsar kenningar hafa verið settar fram um nafnið og hvort hið upprunalega hafi ef til vill verið „Blakkastaðir“ en algengt var að kenna bæjarnöfn í Noregi við „Blakk“ eða „Blakka“ fyrr á öldum.
Sigsteinn bóndi hafði hins vegar engar efasemdir um upprunann og fleiri hafa tekið undir það: Nafnið Blikastaðir er dregið af æðarblikum enda æðarvarp þekkt á jörðinni í aldir.
Engar þakkir fyrir lán á hrossum
Við siðaskiptin á 16. öld sölsaði Danakonungur klaustursjarðirnar undir sig og settar voru kvaðir, oft miklar, á ábúendur. Ein þeirra var sú að lána „Bessastaðamönnum“ hesta dytti þeim í hug að leggja land undir fót. Í Mosfellsbær: Saga byggðar í 1100 ár, sem Bjarki Bjarnason og Magnús Guðmundsson skrifuðu, er rifjað upp að í byrjun átjándu aldar hafi bóndinn á Blikastöðum þurft að lána hesta sína í nítján skipti á fimmtán ára tímabili, þar af fimmtán sinnum vegna ferða konungsmanna til Alþingis. Hvorki hafi komið þökk né greiðsla frá Bessastöðum fyrir slíkt. „Þess voru dæmi að lánshestar skiluðu sér ekki aftur eða komu holgrafnir og drápust af illri meðferð skömmu eftir heimkomu,“ segir í bókinni.
Fjórir gamlir sauðir
Blikastaðir voru enn konungseign er jarðatal var tekið árið 1704. Þá var ábúandinn einn en heimilismenn tólf. Í bústofninum voru „níu kýr, tvö geldnaut, ein kvíga tvævetur, eitt naut veturgamalt, 29 ær með lömbum, fjórir gamlir sauðir, sex þrevetrir, átta tvævetrir, 23 veturgamlir, þrír hestar, tvö hross og ein unghryssa, en fóðrast gátu sex kýr, 20 lömb og einn hestur,“ líkt og það er orðað í Jarðabók Árna og Páls.
En það var ekki alltaf sældin ein að búa að Blikastöðum þótt þar væru ýmis hlunnindi, svo sem laxveiði í Úlfarsá og dúntekja. Þrátt fyrir töluverða fjarlægð frá Skaftáreldum sem hófust árið 1783 fóru bændur í Mosfellssveit ekki varhluta af móðuharðindunum. Hey voru rýr, nytin féll niður í kúnum og búsmali drapst ýmist úr hungri eða veikindum. Ári eftir að Skaftáreldar hefjast hafði Sveinn bóndi á Blikastöðum misst allt sitt búfé nema eina kú, segir í byggðasögu þeirra Bjarka og Magnúsar.
Árið 1855 lýsir séra Stefán Þorvaldsson, prestur að Mosfelli, jörðinni Blikastöðum með þessum hætti: „…sá bær stendur á láglendu mýrlendi, skammt fyrir norðan Lágafellshamra, austanvert við Korpúlfsstaðaá, sunnan til við Leiruvoga, gagnvart Víðinesi. Þessi jörð hefir góðan útheyjaheyskap…“ og er 15 hundraða, eins og þar stendur.
Blikastaðir voru meðal helstu sjávarjarða í Mosfellssveit og fremst á Blikastaðanesi má finna merkar minjar um sjósókn á fyrri öldum; nú friðlýstar rústir og grjóthlaðnar leifar af smáhýsum og görðum. Nesið tilheyrði Blikastöðum lengi en eigendur létu það af hendi til Mosfellsbæjar í upphafi þessarar aldar og þangað teygir golfvöllur sig í dag.
Rústirnar á nesinu benda til þess að þar hafi verið útræði. Í Jarðabók Árna og Páls stendur til að mynda að þar hafi verið uppsátur fyrir skip við sjó og „heimræði á haust þá fiskur gekk inn á sund“.
Í upphafi níunda áratugar síðustu aldar gerði Kristján Eldjárn fornleifafræðingur athugun á Blikastaðanesi og leiddi að því líkur að þar hefði verið sjóbúð og fiskbyrgi. Einnig var það ályktun hans að gerðin hefðu verið hlaðin á síðmiðöldum í tengslum við fisverkun. Hann útlokaði ekki að á Blikastaðanesi hefði verið kaupstefnustaður og að rústirnar væru frá tíð kaupmanna á þessum slóðum. Þá gætu skip hafa legið við mynni Úlfarsár, árinnar sem aðskildi lönd Blikastaða og Korpúlfsstaða, og vörur ferjaðar að og frá landi.
Árið 1909, líkast til að sumri, kom fjárhópur, væntanlega nokkuð lúinn, í túnin að Blikastöðum eftir langferð þvert yfir landið frá Húnavatnssýslu. Þetta var búsmalinn hans Magnúsar Þorlákssonar, bróður Jóns Þorlákssonar forsætisráðherra, sem ákveðið hafði að flytja ásamt fjölskyldu sinni frá bernskuslóðunum á Vesturhópshólum og að Blikastöðum. „Þá var býlið kot eitt, nytjalítið á hverja lund,“ líkt og Guðmundur Jósafatsson skrifaði árið 1963. „Sjálfsagt hefur hann verið um margt mun fremri en sveitungar hans yfirleitt,“ skrifar hann um Magnús. „En um tvennt mun hann hafa mjög borið höfuð og herðar yfir þá og enda þótt víðar væri leitað. Hann kunni að plægja og hann hafði dug til að nýta þá kunnáttu til slíkra afreka, að enn sér þar mjög til merkja“.
Magnús ræktaði smám saman upp mela og mýrar í Blikastaðalandinu og beitti þar m.a. þúfnabana svokölluðum, þeim fyrsta sem til landsins kom. Enn í dag er flötin sem með honum var unnin kennd við þessi merku tímamót: Þúfnabanaflöt. Magnús var á marga vísu framsýnn. Einkasími var til að mynda kominn á Blikastaði á öðrum áratug 20. aldarinnar, mun fyrr en á flestum bæjum.
Í byggðarsögu Mosfellsbæjar segir m.a. um dugnað Magnúsar að eftir því hafi verið tekið hvernig hann bar sig að við að dreifa áburði á tún. Gekk hann um með poka framan á sér og jós á báðar hendur.
Brjánn á Blikastöðum
Og stundum tók Magnús ákvarðanir sem höfðu ekki aðeins áhrif á Blikastaði heldur Ísland allt og framtíðina, líkt og dæmi sem greint er frá í bók Bjarka og Magnúsar, sannar. Sumarið 1933 voru flutt inn til landsins fjögur naut og ein kálfafull kvíga frá Skotlandi. Gripirnir voru af Galloway-kyni og var komið fyrir í Þerney á Kjalarnesi. Grunsemdir kviknuðu fljótlega um að dýrin væru með smitsjúkdóm og var þeim lógað. Þá hafði kýrin borið kálfi sem fékk að halda lífi og var gefið nafnið Brjánn.
„Örlög bolakálfsins vöfðust mjög fyrir mönnum en Magnús Þorláksson bóndi á Blikastöðum tók af skarið, flutti kálfinn heim að Blikastöðum, hélt honum í einangrun um veturinn og reyndist hann fullkomnlega heilbrigður,“ segir í byggðarsögu Mosfellsbæjar. „Magnús sem var þá í forystusveit bænda sætti mikilli gagnrýni fyrir þetta tiltæki sitt en kálfurinn Brjánn var fluttur austur í Gunnarsholt á Rangárvöllum og síðan að Hvanneyri og er hann ættfaðir íslenska holdanautastofnsins.“
Fann glufur í lögum
Blikastaðabúið stækkaði jafnt og þétt í búskapartíð Magnúsar. Hann var klókur í viðskiptum og fann smugu í mjólkursamsölulögum sem sett voru á fjórða áratugnum og komu í veg fyrir að bændur utan Reykjavíkur gætu selt mjólk beint til neytenda. Magnús kom sér upp „útibúi“ frá Blikastöðum á Melavöllum í Reykjavík, lítilli bújörð sem stóð þar sem gatan Rauðagerði er í dag. Þangað flutti Magnús sínar bestu tuttugu mjólkurkýr hverju sinni og gat þar með selt afurðir sínar beint til neytenda. Þeir sköffuðu sjálfir ílátin og mjólkurpóstur fór svo um alla borg og skilaði af sér mjólkinni. Sumir keyptu einn lítra í einu en stærsti kaupandinn var farsóttarheimilið.
Magnús bjó á Blikastöðum þar til hann lést árið 1942 en þá tóku Helga dóttir hans og Sigsteinn eiginmaður hennar við búinu. Sigsteinn hafði áður verið bústjóri Magnúsar að Melavöllum. Tún voru um 42 hektarar er þau tóku við og á næstu árum bættu þau um betur og voru hektararnir orðnir 70 talsins er þau létu af búskap árið 1973. Þá voru á jörðinni 60 mjólkurkýr og samtals 90 gripir í fjósi.
Helga var um tveggja ára er foreldrar hennar fluttu með fjölskylduna að Blikastöðum. Hún minntist bernsku sinnar þar síðar og sagði þá m.a. frá því að huldufólk byggi í Sauðhóli sem var skammt frá bænum. Fannst börnunum á Blikastöðum stundum vera ljós í honum á kvöldin. Sigsteinn sagðist hins vegar í viðtali ekkert kannast við þessa meintu nágranna, huldufólkið, eða minntist sérstaklega sagna um slíkt.
Er Magnús Sveinsson, oddviti Mosfellshrepps, féll skyndilega frá árið 1958 tók Helga á Blikastöðum við starfinu og gegndi því í fjögur ár. Hún var því fyrsta konan sem varð oddviti hreppsins.
Sigsteinn varð hreppstjóri árið 1964 og gegndi því embætti í tvo áratugi. Nafn hans er skrifað í sögubækurnar líkt og Helgu en þó með öðrum hætti. Hann var einn af stofnfélögum Lionsklúbbs Kjalarnesþings, seinna Lionsklúbbs Mosfellsbæjar, og er hann varð tíræður árið 2005 var hann heiðraður af alheimssamtökum Lionsmanna sem elsti starfandi Lionsfélaginn í heimi.
Úlfarsá fellur úr Hafravatni og liðast um láglendið til sjávar í litla vík sem nefnist Blikastaðakró. Að hluta er hún nefnd Korpúlfsstaðaá eða Korpa. Blikastaðir eiga veiðiréttindi í ánni og hefur hún oft gefið ágætlega. Við hana er auðugt lífríki og gróðurfar og fjölbreytt fuglalíf.
„Þessi jörð hefir … notalega laxveiði í svonefndri Blikastaðakró, sem er fjörubás einn lítill með standklettum á 3 vegu og með garði fyrir framan með hliði á, sem sjór fellur út og inn um með útfalli og aðfalli, en með flóðinu er net dregið fyrir hliðið á garðinum, svo það byrgist inni, sem inn er komið,“ stendur í sóknarlýsingu séra Stefáns Þorvaldssonar sem rituð var fyrir miðja síðustu öld.
700 laxar eitt sumarið
Sigsteinn bóndi lýsti því eitt sinn í viðtali að eitt árið hefðu 700 laxar komið á land. Þegar áburðarverksmiðjan tók hins vegar til starfa í Gufunesi var kælivatn fyrir hana tekið úr Úlfarsá. Við það rýrnaði veiðin mikið, sagði Sigsteinn. Meðalveiði undanfarin ár er 200 laxar.
Í þessu sama viðtali var Sigsteinn spurður um æðarvarpið, það hið sama og Blikastaðir voru kenndir við. „Það gaf í eina sæng á ári,“ svaraði Sigsteinn um þessi hlunnindi en hreiðrin voru í seinni tíð um áttatíu. Barnabörnin fengu þessar æðadúnsængur í fermingargjöf.
„Það verður gott að byggja á Blikastaðatúnum,“ sagði Sigsteinn í viðtali er hann stóð á tíræðu árið 2005. Hann hafði þá nýverið selt jörðina og til stóð að þar myndi brátt rísa íbúðabyggð. „Þar fauk aldrei hey og fólki kemur til með að líða vel þarna.“
Blikastaðajörðin stóð hins vegar að mestu óhreyfð næstu árin og Sigsteinn lifði það ekki að sjá byggð rísa í túnunum sem hann og tengdafaðir hans höfðu sinnt af mikilli natni á síðustu öld. Útlit er fyrir að senn verði þar loks stungið niður skóflu og að á næstu árum muni mannfólk flytja inn í hvert húsið á fætur öðru. Búa undir vökulu auga kerlingar í fuglabjarginu í Hamrahlíð, skammt frá tærri Úlfarsánni og í vari fyrir verstu norðanáttinni. Við sundin fagurblá. Og ef til vill sjá ljós í Sauðhóli ef vel verður að gáð.
Heimildir:
Við skrif þessarar greinar var víða leitað fanga. Bestu heimildirnar eru orð Sigsteins Pálssonar sjálfs, sem varðveitt eru í viðtölum og á upptökum. Saga sveitarinnar hans, Mosfellsbær: Saga byggðar í 1100 ár eftir þá Bjarka Bjarnason og Magnús Guðmundsson, er skilmerkilega framsett og skemmtilega skrifuð, með ótal tilvísunum í allra handa skjöl og heimildir fyrri tíma auk þess að geyma frásagnir frá liðinni tíð og fjölda ljósmynda og korta.
Höfundur þessarar greinar tók viðtal við Sigsteinn árið 2005. Hann bjó þá á öldrunarheimilinu Hlaðhömrum, bauð upp á vínarbrauð og sagði frá lífinu á Blikastöðum enda stálminnugur þrátt fyrir að vera orðinn hundrað ára. Er hann varð 104 ára náði hann þeim merku tímamótum að vera elsti íslenski karlmaðurinn.
Hann lést nokkrum dögum fyrir 105 ára afmælisdaginn sinn.